Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hver eru bestu fiskimið í Faxaflóa?

Jakob Jakobsson (1931-2020)

Í hinu mikla ritverki Íslenskir sjávarhættir fjallar höfundurinn, Lúðvík Kristjánsson, um fiskimið í III bindi verksins. Þar segir m.a. "Landnemarnir munu brátt hafa kynnst því er þeir byrjuðu að róa til fiskjar, að ekki var sama hvar þeir stungu niður færi. Þeir reyndu þó að setja á sig þau svæði sem fiskisælust voru". Þetta gerðu menn einkum með því að athuga afstöðu fjalla og annarra kennileita þar sem vel fiskaðist. Menn tóku mið af kennileitunum og gátu því róið aftur á sama stað. Oft fór orð af þeim fornmönnum sem voru miðaglöggir, enda oft öðrum fisknari. Lúðvík Kristjánsson kannaði nöfn á fiskimiðum í öllum landshlutum og safnaði alls lýsingu á 2197 fiskimiðum en þar af voru 440 frá Faxaflóa og Suðurnesjum. Flest eru þessi mið á grunnslóð frá þeim tíma sem sjór var einkum sóttur á opnum árabátum. Eftir því sem leið á 20. öldina og fiskiskipin breyttust og stækkuðu var farið að sækja lengra frá landi og því erfiðara að nota önnur kennileiti en há fjöll. Hin allra seinustu ár hefur staðsetningartækjum fiskiskipa fleygt svo fram að gervihnettir og tölvuskjáir hafa tekið við af kennileitum og sjókortum.

Í Faxaflóa eru nokkur grunn, þar á meðal "hraunin" tvö, Syðrahraun og Vestrahraun. Þegar þaulvanir skipstjórar eins og þeir bræður Guðbjartur og Stefán Einarssynir, kenndir við Aðalbjörgu RE, voru spurðir hvar bestu fiskimiðin í Faxaflóa væru svöruðu þeir einum rómi að bestu þorsk- og skarkolamiðin væru við norðurkant Vestrahrauns 20-24 sjm NV af Reykjavík. Þar ber sérstaklega að nefna Hvalfellskrók og þaðan í vesturátt er ein Súla, tvær Súlur og áfram vestur uns fjórða Súla kemur undan norðurbrún Akrafjalls og er þá komið að vesturenda Vestrahrauns. Sömuleiðis er kanturinn vestan Vestrahrauns oft fiskisæll að ógleymdum Garðsjó og Sviði á grunnslóð við norðurjaðar Syðrahrauns en þar eru þekkt mið eins og Melakriki, Kambsleira, Rennur og svo mætti lengi telja.

Á Hafrannsóknastofnun hefur verið unnið úr afladagbókum fiskiskipa í allmörg ár. Meðfylgjandi eru yfirlitsmyndir sem byggðar eru á niðurstöðum afladagbókanna og hægt er að skoða með því að smella á heiti viðkomandi fisktegunda. Þær sýna afla á fermílu þeirra fjögurra botnfisktegunda sem helst veiðast í Faxaflóa, þorsks, ýsu, skarkola og sandkola. Er þá einkum miðað við afla úr netum, línu, dragnót og handfærum en togveiðar eru ekki stundaðar í Faxaflóa. Þessar myndir staðfesta í öllum aðalatriðum álit skipstjóranna sem að framan er nefnt. Á það einkum við afladreifingu þorsks og skarkola. Sandkolinn veiðist einnig mikið á grunnslóð eins og myndin sýnir. Þá er rétt að nefna að afladagbækurnar gefa til kynna talsverða ýsuveiði í Hvalfirði. Þar veiddist einnig gríðarlega mikil síld fyrir rétt rúmri hálfri öld. Góð síldarmið voru einnig í Jökuldjúpi í utanverðum Flóanum. Um þau mið var þetta kveðið 1905:

Hvert á að róa, karlinn spurði

hvar eru miðin?

Brenninípa Súlu serði

Sandvarða um Ráðagerði

Esjan frí við Akrafjall

og eiðið í kafi að vestan

sagði gamall síldarkall

síldarafla bestan

Arnarstapi í háan hrygg

og Hólar í miðju kafi,

ekki er síldin afar stygg,

oft þótt brugðist hafi.

Höfundur

prófessor í fiskifræði við HÍ

Útgáfudagur

27.8.2000

Spyrjandi

Þórhallur Þórhallsson

Efnisorð

Tilvísun

Jakob Jakobsson (1931-2020). „Hver eru bestu fiskimið í Faxaflóa?“ Vísindavefurinn, 27. ágúst 2000. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=854.

Jakob Jakobsson (1931-2020). (2000, 27. ágúst). Hver eru bestu fiskimið í Faxaflóa? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=854

Jakob Jakobsson (1931-2020). „Hver eru bestu fiskimið í Faxaflóa?“ Vísindavefurinn. 27. ágú. 2000. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=854>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver eru bestu fiskimið í Faxaflóa?
Í hinu mikla ritverki Íslenskir sjávarhættir fjallar höfundurinn, Lúðvík Kristjánsson, um fiskimið í III bindi verksins. Þar segir m.a. "Landnemarnir munu brátt hafa kynnst því er þeir byrjuðu að róa til fiskjar, að ekki var sama hvar þeir stungu niður færi. Þeir reyndu þó að setja á sig þau svæði sem fiskisælust voru". Þetta gerðu menn einkum með því að athuga afstöðu fjalla og annarra kennileita þar sem vel fiskaðist. Menn tóku mið af kennileitunum og gátu því róið aftur á sama stað. Oft fór orð af þeim fornmönnum sem voru miðaglöggir, enda oft öðrum fisknari. Lúðvík Kristjánsson kannaði nöfn á fiskimiðum í öllum landshlutum og safnaði alls lýsingu á 2197 fiskimiðum en þar af voru 440 frá Faxaflóa og Suðurnesjum. Flest eru þessi mið á grunnslóð frá þeim tíma sem sjór var einkum sóttur á opnum árabátum. Eftir því sem leið á 20. öldina og fiskiskipin breyttust og stækkuðu var farið að sækja lengra frá landi og því erfiðara að nota önnur kennileiti en há fjöll. Hin allra seinustu ár hefur staðsetningartækjum fiskiskipa fleygt svo fram að gervihnettir og tölvuskjáir hafa tekið við af kennileitum og sjókortum.

Í Faxaflóa eru nokkur grunn, þar á meðal "hraunin" tvö, Syðrahraun og Vestrahraun. Þegar þaulvanir skipstjórar eins og þeir bræður Guðbjartur og Stefán Einarssynir, kenndir við Aðalbjörgu RE, voru spurðir hvar bestu fiskimiðin í Faxaflóa væru svöruðu þeir einum rómi að bestu þorsk- og skarkolamiðin væru við norðurkant Vestrahrauns 20-24 sjm NV af Reykjavík. Þar ber sérstaklega að nefna Hvalfellskrók og þaðan í vesturátt er ein Súla, tvær Súlur og áfram vestur uns fjórða Súla kemur undan norðurbrún Akrafjalls og er þá komið að vesturenda Vestrahrauns. Sömuleiðis er kanturinn vestan Vestrahrauns oft fiskisæll að ógleymdum Garðsjó og Sviði á grunnslóð við norðurjaðar Syðrahrauns en þar eru þekkt mið eins og Melakriki, Kambsleira, Rennur og svo mætti lengi telja.

Á Hafrannsóknastofnun hefur verið unnið úr afladagbókum fiskiskipa í allmörg ár. Meðfylgjandi eru yfirlitsmyndir sem byggðar eru á niðurstöðum afladagbókanna og hægt er að skoða með því að smella á heiti viðkomandi fisktegunda. Þær sýna afla á fermílu þeirra fjögurra botnfisktegunda sem helst veiðast í Faxaflóa, þorsks, ýsu, skarkola og sandkola. Er þá einkum miðað við afla úr netum, línu, dragnót og handfærum en togveiðar eru ekki stundaðar í Faxaflóa. Þessar myndir staðfesta í öllum aðalatriðum álit skipstjóranna sem að framan er nefnt. Á það einkum við afladreifingu þorsks og skarkola. Sandkolinn veiðist einnig mikið á grunnslóð eins og myndin sýnir. Þá er rétt að nefna að afladagbækurnar gefa til kynna talsverða ýsuveiði í Hvalfirði. Þar veiddist einnig gríðarlega mikil síld fyrir rétt rúmri hálfri öld. Góð síldarmið voru einnig í Jökuldjúpi í utanverðum Flóanum. Um þau mið var þetta kveðið 1905:

Hvert á að róa, karlinn spurði

hvar eru miðin?

Brenninípa Súlu serði

Sandvarða um Ráðagerði

Esjan frí við Akrafjall

og eiðið í kafi að vestan

sagði gamall síldarkall

síldarafla bestan

Arnarstapi í háan hrygg

og Hólar í miðju kafi,

ekki er síldin afar stygg,

oft þótt brugðist hafi.

...