Háskóli Íslands er æðsta menntastofnun þjóðarinnar og hefur ríkum skyldum að gegna við íslenskt samfélag, náttúru, menningu og tungu. Háskólinn sinnir skyldum sínum gagnvart samfélaginu og umheiminum fyrst og fremst með öflugum rannsóknum og kennslu. Mikilvægt er að skólinn kynni vísindastarf sitt, nýjar lausnir sem gerjast í alþjóðlegri fræðilegri umræðu og taki þátt í þróunar- og nýsköpunarverkefnum. Brýnt er að vísindamenn skólans ástundi uppbyggilega gagnrýni á þeim vettvangi sem hver og einn þekkir best og að þeir taki virkan þátt í opinberri umræðu á vandaðan hátt.Háskólar eiga að vera vettvangur fjölmargra og ólíkra fræðimanna sem ber að vinna saman og læra hver af öðrum. Kennarar í háskólum eiga að hafa bæði rannsókna- og kennsluskyldu. Skipulag og starfshættir verða því einnig að tryggja samskipti milli háskóla og hafa alþjóðleg samskipti ávallt leikið stórt hlutverk í háskólastarfi. Nú á tímum þekkjum við slíkt samstarf í gegnum áætlanir eins og Erasmus skipti- og starfsnám evrópskra háskóla. Grunnregla háskólans er sú að hann skuli vera sjálfstæður og óháður pólitískum og efnahagslegum öflum í öllu sínu innra starfi. Akademískt frelsi felur í sér að fræðimenn séu ekki háðir öðru en eigin sannleiksþorsta. Þeim ber að leitast við að gera sér grein fyrir þeim efnahagslegu, pólitísku og menningarlegu öflum sem eru að verki í samfélaginu. Þessi skilningur næst með þjálfun gagnrýninnar hugsunar og með því að beina athyglinni að siðferðilegum forsendum einkalífs, starfs og opinbers hlutverks nemenda og kennara. Háskólar eiga að berjast gegn fordómum og þröngsýni með það að leiðarljósi að skapa gott og heiðarlegt samfélag. Það eru því ekki einungis gerðar siðferðilegar lágmarkskröfur til háskóla heldur byggja þeir á djúpstæðum siðferðilegum grunni. Myndir:
- Collegio di Spagna a Bologna – Wikipedia, the free encyclopedia (Sótt 17.10.2012).
- Háskóli Íslands – Wikipedia, the free encyclopedia (Sótt 17.10.2012).