Sólin Sólin Rís 09:19 • sest 17:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:08 • Síðdegis: 19:20 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:57 • Síðdegis: 13:22 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:19 • sest 17:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:08 • Síðdegis: 19:20 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:57 • Síðdegis: 13:22 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig er hugtakið „háskóli“ skilgreint? Gerir vísindasamfélagið siðfræðilegar lágmarkskröfur til starfsemi háskóla?

Henry Alexander Henrysson og Páll Skúlason

Skilgreining á háskóla er síður en svo hoggin í stein. Orðið „háskóli“ á íslensku er gjarnan notað sem þýðing á hinu alþjóðlega heiti „universitas“ sem mörg önnur tungumál nota í einni eða annarri mynd. Þetta hugtak vísar einfaldlega í samfélag nemenda og kennara og er dregið af latínu: universitas magistrorum et scholarium. Önnur hugtök sem notuð eru yfir háskóla, svo sem „højskole“ á dönsku og hinn bandaríski „college“, vísa yfirleitt til stofnana þar sem meiri áhersla er lögð á grunnmenntun. Þetta er þó ekki einhlítt og má ekki líta svo á að „universitas“ sé í öllum tilvikum stofnun sem leggur áherslu á framhaldsmenntun og rannsóknir umfram það sem er gert í öðrum gerðum háskóla. Til dæmis býður Handelshøjskole í Kaupmannahöfn upp á framhaldsnám og rannsóknir á því sviði sem hann leggur áherslu á.

Háskólinn í Bologna á Ítalíu er talinn vera elsti háskóli heims.

Háskólar komu fyrst fram á miðöldum í Evrópu og veittu bæði almenna undirstöðumenntun og fræðilega starfsmenntun (einkum í guðfræði, lögfræði og læknisfræði). Háskólinn í Bologna á Ítalíu var settur á fót árið 1088 og er hann talinn vera elstur allra háskóla í Evrópu. Margir háskólar eiga sér þó rætur í klaustur- og dómkirkjuskólum sem stofnaðir voru nokkrum öldum fyrr. Háskólar voru stofnaðir víða á tímum endurreisnarinnar en má segja að þeir hafi borið svipmót þeirrar hefðar sem kom fram á miðöldum. Á sautjándu og átjándu öld mátti greina milli háskóla eftir því hvaða áherslu þeir lögðu á nýjar uppgötvanir í líf- og raunvísindum. Guðfræðideildirnar höfðu einnig mismunandi mikil áhrif eftir löndum.

Mismunandi hefðir tóku svo að þróast í evrópskum háskólum á nítjándu öld eftir því hvaða menningarsvæði þeir tilheyrðu. Þessar hefðir spegluðust í köllun, markmiðum og stjórnkerfi hvers háskóla. Í frönskum háskólum má til að mynda greina áherslu á þjónustuhlutverk háskólans við samfélagið, á meðan þýskir háskólar áttu fyrst og fremst að þjóna vísindunum. Breskir háskólar lögðu hins vegar megináherslu á að þjóna nemendunum. Markmiðin voru einnig mismunandi eftir því hvort skólar töldu sig eiga að bjóða upp á starfsmenntun, fræðilega menntun eða almenna menntun. Stjórnkerfi skólanna byggði svo að lokum á hugmyndum um sjálfstæði kennara. Samkvæmt franskri hefð hefur ríkið mikil ítök í háskólum á meðan þýskir háskólar hafa falið prófessorunum sjálfum töluverð völd. Í breskum háskólum hefur faglegri stjórn verið falið að reka skólana í samráði við kennara.

Þessar mismunandi hefðir hafa þó reynt að halda í sameiginlegan þráð allra háskóla sem byggir fyrst og fremst á siðferðilegu hlutverki þeirra. Í tilefni af 900 ára afmæli Bologna-háskóla árið 1988 var gefin út yfirlýsing um siðferðilegar skyldur evrópskra háskóla, svokölluð Magna Charta Universitatum. Um átta hundruð háskólar hafa nú skuldbundið sig til að starfa samkvæmt henni og er Háskóli Íslands þar á meðal. Yfirlýsingin er í þremur hlutum sem fjalla um meginhlutverk, grunnreglur og starfshætti háskóla.

Háskóli Íslands hefur skrifað undir yfirlýsingu um siðferðilegar skyldur háskóla.

Samkvæmt yfirlýsingunni er það hlutverk háskóla að þjóna mannkyninu öllu þar sem framtíð þess er háð þróun alls þess sem á sér stað innan veggja skólanna. Hlutverk þeirra er ekki síst að miðla þekkingu til nærsamfélagsins og gæta þess að sú þekking sem verður til innan þessara stofnana virði grunngæði eins og náttúruna og lífið sjálft. Í Stefnu Háskóla Íslands 2011–2016 kemur þetta hlutverk skólans skýrt fram:
Háskóli Íslands er æðsta menntastofnun þjóðarinnar og hefur ríkum skyldum að gegna við íslenskt samfélag, náttúru, menningu og tungu. Háskólinn sinnir skyldum sínum gagnvart samfélaginu og umheiminum fyrst og fremst með öflugum rannsóknum og kennslu. Mikilvægt er að skólinn kynni vísindastarf sitt, nýjar lausnir sem gerjast í alþjóðlegri fræðilegri umræðu og taki þátt í þróunar- og nýsköpunarverkefnum. Brýnt er að vísindamenn skólans ástundi uppbyggilega gagnrýni á þeim vettvangi sem hver og einn þekkir best og að þeir taki virkan þátt í opinberri umræðu á vandaðan hátt.
Háskólar eiga að vera vettvangur fjölmargra og ólíkra fræðimanna sem ber að vinna saman og læra hver af öðrum. Kennarar í háskólum eiga að hafa bæði rannsókna- og kennsluskyldu. Skipulag og starfshættir verða því einnig að tryggja samskipti milli háskóla og hafa alþjóðleg samskipti ávallt leikið stórt hlutverk í háskólastarfi. Nú á tímum þekkjum við slíkt samstarf í gegnum áætlanir eins og Erasmus skipti- og starfsnám evrópskra háskóla.

Grunnregla háskólans er sú að hann skuli vera sjálfstæður og óháður pólitískum og efnahagslegum öflum í öllu sínu innra starfi. Akademískt frelsi felur í sér að fræðimenn séu ekki háðir öðru en eigin sannleiksþorsta. Þeim ber að leitast við að gera sér grein fyrir þeim efnahagslegu, pólitísku og menningarlegu öflum sem eru að verki í samfélaginu. Þessi skilningur næst með þjálfun gagnrýninnar hugsunar og með því að beina athyglinni að siðferðilegum forsendum einkalífs, starfs og opinbers hlutverks nemenda og kennara. Háskólar eiga að berjast gegn fordómum og þröngsýni með það að leiðarljósi að skapa gott og heiðarlegt samfélag. Það eru því ekki einungis gerðar siðferðilegar lágmarkskröfur til háskóla heldur byggja þeir á djúpstæðum siðferðilegum grunni.

Myndir:

Höfundar

Henry Alexander Henrysson

doktor í heimspeki

prófessor í heimspeki og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands

Útgáfudagur

8.11.2012

Spyrjandi

Arndís Ólafsdóttir

Tilvísun

Henry Alexander Henrysson og Páll Skúlason. „Hvernig er hugtakið „háskóli“ skilgreint? Gerir vísindasamfélagið siðfræðilegar lágmarkskröfur til starfsemi háskóla?“ Vísindavefurinn, 8. nóvember 2012, sótt 3. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=8625.

Henry Alexander Henrysson og Páll Skúlason. (2012, 8. nóvember). Hvernig er hugtakið „háskóli“ skilgreint? Gerir vísindasamfélagið siðfræðilegar lágmarkskröfur til starfsemi háskóla? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=8625

Henry Alexander Henrysson og Páll Skúlason. „Hvernig er hugtakið „háskóli“ skilgreint? Gerir vísindasamfélagið siðfræðilegar lágmarkskröfur til starfsemi háskóla?“ Vísindavefurinn. 8. nóv. 2012. Vefsíða. 3. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=8625>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig er hugtakið „háskóli“ skilgreint? Gerir vísindasamfélagið siðfræðilegar lágmarkskröfur til starfsemi háskóla?
Skilgreining á háskóla er síður en svo hoggin í stein. Orðið „háskóli“ á íslensku er gjarnan notað sem þýðing á hinu alþjóðlega heiti „universitas“ sem mörg önnur tungumál nota í einni eða annarri mynd. Þetta hugtak vísar einfaldlega í samfélag nemenda og kennara og er dregið af latínu: universitas magistrorum et scholarium. Önnur hugtök sem notuð eru yfir háskóla, svo sem „højskole“ á dönsku og hinn bandaríski „college“, vísa yfirleitt til stofnana þar sem meiri áhersla er lögð á grunnmenntun. Þetta er þó ekki einhlítt og má ekki líta svo á að „universitas“ sé í öllum tilvikum stofnun sem leggur áherslu á framhaldsmenntun og rannsóknir umfram það sem er gert í öðrum gerðum háskóla. Til dæmis býður Handelshøjskole í Kaupmannahöfn upp á framhaldsnám og rannsóknir á því sviði sem hann leggur áherslu á.

Háskólinn í Bologna á Ítalíu er talinn vera elsti háskóli heims.

Háskólar komu fyrst fram á miðöldum í Evrópu og veittu bæði almenna undirstöðumenntun og fræðilega starfsmenntun (einkum í guðfræði, lögfræði og læknisfræði). Háskólinn í Bologna á Ítalíu var settur á fót árið 1088 og er hann talinn vera elstur allra háskóla í Evrópu. Margir háskólar eiga sér þó rætur í klaustur- og dómkirkjuskólum sem stofnaðir voru nokkrum öldum fyrr. Háskólar voru stofnaðir víða á tímum endurreisnarinnar en má segja að þeir hafi borið svipmót þeirrar hefðar sem kom fram á miðöldum. Á sautjándu og átjándu öld mátti greina milli háskóla eftir því hvaða áherslu þeir lögðu á nýjar uppgötvanir í líf- og raunvísindum. Guðfræðideildirnar höfðu einnig mismunandi mikil áhrif eftir löndum.

Mismunandi hefðir tóku svo að þróast í evrópskum háskólum á nítjándu öld eftir því hvaða menningarsvæði þeir tilheyrðu. Þessar hefðir spegluðust í köllun, markmiðum og stjórnkerfi hvers háskóla. Í frönskum háskólum má til að mynda greina áherslu á þjónustuhlutverk háskólans við samfélagið, á meðan þýskir háskólar áttu fyrst og fremst að þjóna vísindunum. Breskir háskólar lögðu hins vegar megináherslu á að þjóna nemendunum. Markmiðin voru einnig mismunandi eftir því hvort skólar töldu sig eiga að bjóða upp á starfsmenntun, fræðilega menntun eða almenna menntun. Stjórnkerfi skólanna byggði svo að lokum á hugmyndum um sjálfstæði kennara. Samkvæmt franskri hefð hefur ríkið mikil ítök í háskólum á meðan þýskir háskólar hafa falið prófessorunum sjálfum töluverð völd. Í breskum háskólum hefur faglegri stjórn verið falið að reka skólana í samráði við kennara.

Þessar mismunandi hefðir hafa þó reynt að halda í sameiginlegan þráð allra háskóla sem byggir fyrst og fremst á siðferðilegu hlutverki þeirra. Í tilefni af 900 ára afmæli Bologna-háskóla árið 1988 var gefin út yfirlýsing um siðferðilegar skyldur evrópskra háskóla, svokölluð Magna Charta Universitatum. Um átta hundruð háskólar hafa nú skuldbundið sig til að starfa samkvæmt henni og er Háskóli Íslands þar á meðal. Yfirlýsingin er í þremur hlutum sem fjalla um meginhlutverk, grunnreglur og starfshætti háskóla.

Háskóli Íslands hefur skrifað undir yfirlýsingu um siðferðilegar skyldur háskóla.

Samkvæmt yfirlýsingunni er það hlutverk háskóla að þjóna mannkyninu öllu þar sem framtíð þess er háð þróun alls þess sem á sér stað innan veggja skólanna. Hlutverk þeirra er ekki síst að miðla þekkingu til nærsamfélagsins og gæta þess að sú þekking sem verður til innan þessara stofnana virði grunngæði eins og náttúruna og lífið sjálft. Í Stefnu Háskóla Íslands 2011–2016 kemur þetta hlutverk skólans skýrt fram:
Háskóli Íslands er æðsta menntastofnun þjóðarinnar og hefur ríkum skyldum að gegna við íslenskt samfélag, náttúru, menningu og tungu. Háskólinn sinnir skyldum sínum gagnvart samfélaginu og umheiminum fyrst og fremst með öflugum rannsóknum og kennslu. Mikilvægt er að skólinn kynni vísindastarf sitt, nýjar lausnir sem gerjast í alþjóðlegri fræðilegri umræðu og taki þátt í þróunar- og nýsköpunarverkefnum. Brýnt er að vísindamenn skólans ástundi uppbyggilega gagnrýni á þeim vettvangi sem hver og einn þekkir best og að þeir taki virkan þátt í opinberri umræðu á vandaðan hátt.
Háskólar eiga að vera vettvangur fjölmargra og ólíkra fræðimanna sem ber að vinna saman og læra hver af öðrum. Kennarar í háskólum eiga að hafa bæði rannsókna- og kennsluskyldu. Skipulag og starfshættir verða því einnig að tryggja samskipti milli háskóla og hafa alþjóðleg samskipti ávallt leikið stórt hlutverk í háskólastarfi. Nú á tímum þekkjum við slíkt samstarf í gegnum áætlanir eins og Erasmus skipti- og starfsnám evrópskra háskóla.

Grunnregla háskólans er sú að hann skuli vera sjálfstæður og óháður pólitískum og efnahagslegum öflum í öllu sínu innra starfi. Akademískt frelsi felur í sér að fræðimenn séu ekki háðir öðru en eigin sannleiksþorsta. Þeim ber að leitast við að gera sér grein fyrir þeim efnahagslegu, pólitísku og menningarlegu öflum sem eru að verki í samfélaginu. Þessi skilningur næst með þjálfun gagnrýninnar hugsunar og með því að beina athyglinni að siðferðilegum forsendum einkalífs, starfs og opinbers hlutverks nemenda og kennara. Háskólar eiga að berjast gegn fordómum og þröngsýni með það að leiðarljósi að skapa gott og heiðarlegt samfélag. Það eru því ekki einungis gerðar siðferðilegar lágmarkskröfur til háskóla heldur byggja þeir á djúpstæðum siðferðilegum grunni.

Myndir:

...