Góðan daginn. Hvað borðar járnsmiður?Hinn eini sanni járnsmiður (Nebria rufescens) heyrir undir járnsmiðsætt (Carabidae) sem líka er kölluð smiðsbjöllur. Smiðsbjöllur finnast um allan heim og er afar tegundarík ætt með nokkra tugi þúsunda þekktra tegunda. Á Íslandi hafa fundist 33 tegundir smiðsbjallna, þar af eru 26 tegundir landlægar. Járnsmiðurinn er mjög algengur á láglendi á Íslandi. Á hálendinu hefur hann helst fundist á jarðhitasvæðum. Járnsmiður lifir í ýmiskonar umhverfi, oft á lítt grónum bökkum straumvatna og tjarna og í opnum og rökum jarðvegi. Hann er líka algengur í húsagörðum þar sem hann sést gjarnan á kvöldin þegar raki er í lofti. Auðvelt er að rugla járnsmiðnum saman við áþekka ættingja, svo sem kragasmið (Calathus melanocephalus) sem einnig er mjög algengur á Íslandi. Smiðsbjöllur, þar með talinn hinn eini sanni járnsmiður, eru langflestar rándýr sem veiða sér önnur smádýr til matar. Þær lifa meðal annars á sniglum og skordýralirfum en einnig maurum og smærri bjöllum. Sumar smiðsbjöllur, svo sem gullsmiður (Amara quenseli) sem finnst hér víða um land, naga einnig plöntur og fræ til viðbótar við smádýrin sem þær veiða. Heimildir:
- Erling Ólafsson. (2009, 14. ágúst). Járnsmiður (Nebria rufescens). Náttúrufræðistofnun. https://www.natt.is/is/biota/animalia/arthropoda/hexapoda/insecta/coleoptera/carabidae/jarnsmidur-nebria-rufescens
- Erling Ólafsson. (2012, 27. júní). Kragasmiður (Calathus melanocephalus). Náttúrufræðistofnun. https://www.natt.is/is/biota/animalia/arthropoda/hexapoda/insecta/coleoptera/carabidae/kragasmidur-calathus-melanocephalus
- Erling Ólafsson. (2010, 24. febrúar). Gullsmiður (Amara quenseli). Náttúrufræðistofnun. https://www.natt.is/is/biota/animalia/arthropoda/hexapoda/insecta/coleoptera/carabidae/gullsmidur-amara-quenseli
- Yfirlitsmynd: Náttúrufræðistofnun Íslands. Ljósmyndari er Erling Ólafsson. Birt með góðfúslegu leyfi. Sótt 18.6.2012. Járnsmiður (Nebria rufescens) - Náttúrufræðistofnun Íslands. (Sótt 28.11.2025).
