Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Vísindavefur Háskóla Íslands fjallar um öll vísindi, hverju nafni sem nefnast, allt frá stjörnufræði til handrita og frá sameindalíffræði til sálfræði. Á Vísindavefnum geta gestir lesið svör við spurningum um flest milli himins og jarðar og jafnframt lagt til nýjar spurningar um allt það sem ætla má að fræðimenn Háskóla Íslands eða aðrir með tilskilda þekkingu geti svarað.
Meginmarkmið vefsins er að veita almenningi í landinu, bæði börnum og fullorðnum, traustar upplýsingar um vísindi og fræði. Tilgangurinn er jafnframt að efla áhuga á vísindum og að ná til sem flestra, með vönduðum skrifum um vísindi á íslensku.
Svör Vísindavefsins
Almennt
Svör á Vísindavefnum eiga að standa á sterkum fræðilegum grunni og skulu rituð af fræðimönnum á viðkomandi sviði. Enn fremur eiga þau að vera læsileg, á vönduðu máli. Efni svaranna á að miðast við almenna þekkingu og hafa verður aldur spyrjenda í huga. Miðað er við að hvert svar á Vísindavefnum standi sjálfstætt og sé á bilinu 200 til 1000 orð.
Spurningar og forgangsröðun
Allir geta sent inn spurningar en ritstjóri skal forgangsraða spurningum sem sendar eru til svarshöfunda. Ritstjóri og annað starfsfólk Vísindavefsins getur einnig leitað að fyrra bragði til fræðimanna um svör við mikilvægum spurningum. Til dæmis geta atburðir líðandi stundar gefið tilefni til þess, sbr. það sem segir um verkefni ritnefndar hér fyrir neðan. Einnig geta fræðimenn sjálfir haft frumkvæði að slíkri umfjöllun í samráði við ritstjóra.
Yfirlestur, frágangur og fleira
Svör vefsins eru ekki ritrýnd en þau eru lesin yfir af ritstjóra og eftir atvikum öðrum fræðimönnum. Almennt er reynt að vísa í heimildir í svörunum, nema um sé að ræða efni sem telja má að falli undir almenna þekkingu eða einfaldan handbókarfróðleik. Starfsfólk vefsins tekur oft að sér að skrifa einfaldari svör handa yngri lesendum og styðst þá við efni á Vísindavefnum sem upphaflega var samið handa fólki með dýpri skilning á umfjöllunarefninu.
Heimildir og tilvísanir
Hafa skal í huga að svör Vísindavefsins eru oft notuð sem heimildir í ritgerðarvinnu á grunnskóla-, framhaldsskóla- og bakkalárstigi. Þess vegna fylgja nauðsynlegar bókfræðiupplýsingar með öllum svörum. Nafn höfundar kemur fram með hverri færslu, sem og upplýsingar um fræðasvið hans. Birtingardagur svara er skýrt tilgreindur og lesendur geta auðveldlega vitnað í svörin eftir algengum heimildastöðlum. Þegar háskólanemendur svara spurningum er það gert í umboði og með ábyrgð fræðimanns í greininni og nöfn allra sem að svarinu koma eru tilgreind. Almennt skal geta nafns spyrjanda.
Leit, efnisorð og efnisflokkar
Auðvelt á að vera að leita að svörum á vefsíðu Vísindavefsins. Til að leiða notendur á réttan stað er svörum á vefnum raðað í efnisflokka eftir fræðasviðum og gengið er úr skugga um að hverju svari fylgi viðeigandi efnisorð. Tilvísanir í skyld svör fylgja með þegar það á við.
Endurbætur og lagfæringar
Ef rökstuddar og málefnalegar athugasemdir berast um efni tiltekins svars er höfundur þess beðinn um að taka afstöðu til þeirra. Ef ástæða reynist til er svarið lagfært í samráði við höfund. Ritstjóri hefur ávallt heimild til að gera smávægilegar breytingar eða leiðréttingar á svörum þegar þess er þörf en hann getur einnig óskað að fyrra bragði eftir að fræðimaður endurskoði svar. Þegar breytingar eru gerðar á svari skal þess getið með skýrum hætti og ber ritstjóri ábyrgð á því.
Ábyrgð á starfi Vísindavefsins
Ritnefnd
Fagleg ritnefnd starfar við Vísindavefinn, skipuð fræðafólki af öllum fræðasviðum HÍ. Hún ber ábyrgð á því að setja vefnum ritstjórnarstefnu og endurskoða eftir þörfum. Rektor Háskóla Íslands skipar ritnefndina samkvæmt tillögum fræðasviðsforseta til þriggja ára í senn og skipar formann hennar. Ritnefndin skal reglulega meta hvort málefni líðandi stundar kalli á sérstaka umfjöllun með skipulögðum hætti. Þar má meðal annars nefna mál eins og tækniþróun, farsóttir, eldgos eða jarðskjálfta, svo nokkur dæmi séu nefnd.
Ritstjóri
Ritstjóri Vísindavefsins starfar í umboði ritstjórnar, framfylgir ritstjórnarstefnunni og ber ábyrgð á daglegu starfi vefsins. Enn fremur ber hann ábyrgð á
að finna fræðimenn sem geti svarað spurningum sem berast til Vísindavefsins, meta til hvaða fræðasviðs skuli leita og hafa þá í huga hvort fleiri en eitt fræðasvið komi til greina
að rækta tengsl við svarshöfunda
að meta hvaða spurningum skuli svarað hverju sinni m.a. eftir vægi þeirra út frá ritstjórnarstefnu og hvort svipuðum spurningum hafi verið svarað áður
að leiðbeina fræðimanni um hve ítarlega skuli svara og til hvaða aldurhóps svari sé beint
að lesa yfir svör og meta hvort þau þurfi nánari yfirlestur frá öðrum fræðimönnum
að ganga þannig frá svörum að umbrot og frágangur sé í samræmi við ritstjórnarstefnu og hefðir og venjur Vísindavefsins
að gera áætlanir um þróun vefsins til lengri tíma í samráði við ritnefndina.
Fræðimenn
Fræðimenn sem svara spurningum eða leiðbeina nemendum við svör spurninga á Vísindavefnum bera ábyrgð á fræðilegu innihaldi svarsins.
Yfirlitsmynd:
Kristinn Ingvarsson.
Ritstjórn Vísindavefsins þakkar Ara Páli Kristinssyni, rannsóknarprófessor hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, fyrir yfirlestur og gagnlegar ábendingar.
Ritnefnd Vísindavefsins. „Hver er ritstjórnarstefna Vísindavefsins?“ Vísindavefurinn, 31. desember 2025, sótt 31. desember 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=88349.
Ritnefnd Vísindavefsins. (2025, 31. desember). Hver er ritstjórnarstefna Vísindavefsins? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=88349