Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Það er ekki svo fráleitt að ýmislegt sem við tengjum við forgengileika megi rekja til oxunar þegar að er gáð. Ryðgun járns er oxun eins og fram kemur í svari Ágústs Kvaran og Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Ryðga málmar í frosti? Spanskgrænan sem fellur á kopar í lofti, til dæmis á myndastyttur, verður líka til við oxun. Þegar viður kolast með aldri, og þarf ekki eld til, þá er kolefnið í viðnum að oxast. Svipaða sögu er að segja um ýmis ferli sem tengjast öldrun í líkömum manna og annarra dýra. Þannig hefur oxun áhrif á amínósýrur í próteinum, fitusýrur og fleiri efni líkamans. Áhrifin á prótein varða stöðugleika og leiða til niðurrifs. Í líkamanum eru ensímháð oxunarefni sem eru beinlínis ætluð til þess arna í ákveðnum tilvikum, auk þess sem oxunin gerist líka af handahófi.
Spyrjandi virðist nú hugsa sér að finna það andoxunarefni sem telst öflugast í skilningi eðlis- og efnafræðinnar og nota það síðan með einhverjum hætti til að koma í veg fyrir eða draga úr öldrun. Leitin að andoxunarefninu er ekki verulegur þröskuldur því að það eru alkalímálmar og jarðalkalímálmar sem hafa mesta "afoxunarspennu" af frumefnunum. Þar með er þó ekki sjálfgefið að þessi eiginleiki þeirra mundi nýtast við þær aðstæður sem ríkja í mannslíkamanum.
Hitt er þó enn síður ljóst að menn geti nýtt sér þessa þekkingu betur en þegar hefur verið gert eða að menn nái lengra í þessu en náttúran. Hún sér okkur nefnilega líka fyrir andoxunarefnum sem henta líkama okkar. Þetta eru ekki síst sum þeirra efna sem við köllum vítamín, einkum C-vítamín (ascorbat) og E-vítamín (tocopherol). Þau eru, hvert með sínu móti, andoxunarefni og vinna gegn öldrun með ýmsum hætti.
Eins og eðlilegt er grípur fólk til ýmissa ráða þegar ólæknandi sjúkdómar eins og krabbamein eru annars vegar. Þar á meðal reyna sjúklingar að taka inn fyrrgreind vítamín og önnur efni sem draga úr oxun. Hins vegar vita læknavísindin ekki að svo stöddu hvort slíkt hefur raunveruleg áhrif og þá hvernig.
Þetta svar grípur inn í margar fræðigreinar og er því ekki verk eins manns heldur hefur það verið borið undir marga starfsfélaga höfundarins sem nafngreindur er.
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvert er öflugasta andoxunarefnið? Og stafar öldrun ekki aðallega af oxun í líkamanum?“ Vísindavefurinn, 12. september 2000, sótt 8. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=904.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2000, 12. september). Hvert er öflugasta andoxunarefnið? Og stafar öldrun ekki aðallega af oxun í líkamanum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=904
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvert er öflugasta andoxunarefnið? Og stafar öldrun ekki aðallega af oxun í líkamanum?“ Vísindavefurinn. 12. sep. 2000. Vefsíða. 8. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=904>.