Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Oft er sagt að allt sé afstætt, en er svo í raun?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Þegar einhver segir: “Það er alltaf rigning um helgar” skiljum við að viðkomandi meinar í raun og veru að sér finnist oft rigna um helgar en ekki að það rigni allan sólarhringinn um hverja einustu helgi. Á sama hátt má ætla að fullyrðingin “Allt er afstætt” geti þýtt að margt sé afstætt en ekki að bókstaflega allt sé afstætt. Þó getur verið að sumir sem varpa fram þessari fullyrðingu eigi í raun og veru við að allt sé afstætt og þannig séu þeir að lýsa því yfir að þeir aðhyllist afstæðishyggju um allt sem er til.

Við köllum eitthvað afstætt ef það er háð afstöðu sinni við aðra hluti, háð mismunandi viðmiðunum. Tveggja ára barn sem er stærra en flestir jafnaldrar þess er samt lítið miðað við fullorðið fólk. Þar af leiðandi er það afstætt hvort barnið er stórt eða lítið. Sólarhringur er langur miðað við sekúndu og allt of langur til að við getum haldið niðri í okkur andanum meðan hann er að líða. Hann er hins vegar of stuttur til hægt sé að byggja háhýsi á sólarhring og örstuttur miðað við aldur jarðarinnar. Engum blandast hugur um að þessir hlutir séu afstæðir; við hljótum öll að vera sammála um að margt sé afstætt.

Yfirleitt er ekki talað um afstæðishyggju nema það sé umdeilt hvort þeir hlutir sem hún snýr að séu afstæðir. Rétt er að geta þess, til að forðast útbreiddan misskilning, að afstæðiskenning Einsteins tengist ekki á nokkurn hátt því sem almennt er kallað afstæðishyggja. Afstæðiskenningin dregur nafn sitt af því að í henni felst að fyrirbæri eins og vegalengd og tími geta verið afstæð en slíkt afstæði felur ekkert í sér um eðli sannleikans (sjá umfjöllun Þórðar Jónssonar um afstæðiskenninguna). Því er mjög villandi að segja að afstæðiskenningin feli í sér afstæðishyggju, án þess að tilgreina það nánar, þar sem orðið afstæðishyggja er oftast notað um afstæðishyggju um siðferði eða sannleika.

Samkvæmt afstæðishyggju um sannleikan er sjálfur sannleikurinn afstæður.

Samkvæmt siðferðilegri afstæðishyggju eru siðferðileg gildi, rétt og rangt, mismunandi eftir þjóðum eða þjóðfélagshópum og sögulegum tímabilum. Það sem er rétt að gera á Íslandi árið 2000 kann að vera rangt í Kína á sama tíma og ef til vill líka rangt á Íslandi árið 1000. Hvort sem við aðhyllumst afstæðishyggju eða ekki vitum við að hugmyndir fólks um siðferði geta verið afar ólíkar, enda blasir það við ef við kynnum okkur menningu framandi þjóða eða jafnvel þegar við hlustum á fólkið í næsta húsi. Afstæðishyggja um siðferði felur hinsvegar líka í sér að það sé hreinlega mismunandi hjá mismunandi þjóðum eða hópum hvað rétt og rangt; siðalögmál eru ekki algild heldur miðast þau við ríkjandi hefðir og hugmyndakerfi hjá hverjum hóp fyrir sig.

Hægt er að aðhyllast siðferðilega afstæðishyggju án þess að aðhyllast afstæðishyggju um sannleikann, sem gengur lengra. Samkvæmt henni er sjálfur sannleikurinn afstæður, það miðast við ríkjandi hugmyndir eða hugmyndakerfi og heimsmynd hjá viðkomandi hópi eða einstaklingi hvort einhver staðhæfing er sönn eða ósönn. Af þessu leiðir að engar algildar staðreyndir geta verið til. Hugsum okkur til dæmis staðhæfinguna “Jörðin snýst í kringum sólina”. Nú á dögum og hér um slóðir er þessi staðhæfing almennt álitin sönn og hún virðist samrýmast ríkjandi hugmyndakerfi okkar alveg prýðilega. Því myndi afstæðishyggjufólk segja að hún væri sönn núna á Íslandi. Fyrir nokkrum öldum síðan var hins vegar álitið að það væri sólin sem snerist um jörðina og samkvæmt afstæðishyggjunni var staðhæfingin “Jörðin snýst í kringum sólina” því ósönn þá. Sú staðreynd að jörðin snúist kringum sólina er ekki algild, hún gildir ekki á öllum tímum og stöðum. Það er þetta afbrigði afstæðishyggju, afstæðishyggja um sannleikann, sem felst í bókstaflegri túlkun á staðhæfingunni “Allt er afstætt”.

Ýmis vandkvæði eru bundin bæði siðferðilegri afstæðishyggju og afstæðishyggju um sannleikann. Siðferðileg afstæðishyggja samrýmist til dæmis illa hugmyndum um mannréttindi. Mannréttindahugtakið byggir á því að ákveðin siðalögmál séu algild, óháð landamærum eða ríkjandi viðhorfum til mannréttinda á hverjum stað. Þetta kemur í sívaxandi mæli fram í þróun þessara mála í heiminum nú á dögum og er ekki laust við að sumar þjóðir virðist vilja andmæla þessu eða draga það í efa.

Algeng rök gegn afstæðishyggju um sannleikann eru að hún feli í sér mótsögn. Þeirri fullyrðingu að sannleikurinn sé afstæður er nefnilega ætlað að vera algild, hún á að gilda um allar fullyrðingar. Þar af leiðandi hlýtur það að vera afstætt hvort fullyrðingin “Sannleikurinn er afstæður” er sönn eða ósönn. Ef ákveðinn hópur fólks trúir því að sannleikurinn sé algildur er sannleikurinn ekki afstæður hjá viðkomandi hópi og þá getur það ekki staðist að algilt sé að sannleikurinn sé afstæður. Afstæðishyggja um sannleikann virðist því falla um sjálfa sig sem almenn kenning um eðli sannleikans.

Niðurstaðan er að ef sú gagnrýni á afstæðishyggju sem hér hefur verið lýst stenst getur það ekki verið rétt, í bókstaflegum skilningi, að allt sé afstætt. Ef allt er afstætt hlýtur einnig að vera afstætt hvort fullyrðingin “Allt er afstætt” er sönn og þar af leiðandi getur ekki allt verið afstætt. Fullyrðingin getur eðlis síns vegna ekki staðist sem alhæfing.

Frekara lesefni:
  • Þorsteinn Vilhjálmsson, “Vísindin, sagan og sannleikurinn”. Hjá Andra S. Björnssyni o.fl. (ritstj.), Er vit í vísindum? Reykjavík, Háskólaútgáfan, 1996. Sbr. einnig ritgerð Þorsteins Gylfasonar í sömu bók.

Myndir:

Höfundur

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

12.9.2000

Spyrjandi

Bragi Kristjánsson

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Oft er sagt að allt sé afstætt, en er svo í raun?“ Vísindavefurinn, 12. september 2000. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=905.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2000, 12. september). Oft er sagt að allt sé afstætt, en er svo í raun? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=905

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Oft er sagt að allt sé afstætt, en er svo í raun?“ Vísindavefurinn. 12. sep. 2000. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=905>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Oft er sagt að allt sé afstætt, en er svo í raun?
Þegar einhver segir: “Það er alltaf rigning um helgar” skiljum við að viðkomandi meinar í raun og veru að sér finnist oft rigna um helgar en ekki að það rigni allan sólarhringinn um hverja einustu helgi. Á sama hátt má ætla að fullyrðingin “Allt er afstætt” geti þýtt að margt sé afstætt en ekki að bókstaflega allt sé afstætt. Þó getur verið að sumir sem varpa fram þessari fullyrðingu eigi í raun og veru við að allt sé afstætt og þannig séu þeir að lýsa því yfir að þeir aðhyllist afstæðishyggju um allt sem er til.

Við köllum eitthvað afstætt ef það er háð afstöðu sinni við aðra hluti, háð mismunandi viðmiðunum. Tveggja ára barn sem er stærra en flestir jafnaldrar þess er samt lítið miðað við fullorðið fólk. Þar af leiðandi er það afstætt hvort barnið er stórt eða lítið. Sólarhringur er langur miðað við sekúndu og allt of langur til að við getum haldið niðri í okkur andanum meðan hann er að líða. Hann er hins vegar of stuttur til hægt sé að byggja háhýsi á sólarhring og örstuttur miðað við aldur jarðarinnar. Engum blandast hugur um að þessir hlutir séu afstæðir; við hljótum öll að vera sammála um að margt sé afstætt.

Yfirleitt er ekki talað um afstæðishyggju nema það sé umdeilt hvort þeir hlutir sem hún snýr að séu afstæðir. Rétt er að geta þess, til að forðast útbreiddan misskilning, að afstæðiskenning Einsteins tengist ekki á nokkurn hátt því sem almennt er kallað afstæðishyggja. Afstæðiskenningin dregur nafn sitt af því að í henni felst að fyrirbæri eins og vegalengd og tími geta verið afstæð en slíkt afstæði felur ekkert í sér um eðli sannleikans (sjá umfjöllun Þórðar Jónssonar um afstæðiskenninguna). Því er mjög villandi að segja að afstæðiskenningin feli í sér afstæðishyggju, án þess að tilgreina það nánar, þar sem orðið afstæðishyggja er oftast notað um afstæðishyggju um siðferði eða sannleika.

Samkvæmt afstæðishyggju um sannleikan er sjálfur sannleikurinn afstæður.

Samkvæmt siðferðilegri afstæðishyggju eru siðferðileg gildi, rétt og rangt, mismunandi eftir þjóðum eða þjóðfélagshópum og sögulegum tímabilum. Það sem er rétt að gera á Íslandi árið 2000 kann að vera rangt í Kína á sama tíma og ef til vill líka rangt á Íslandi árið 1000. Hvort sem við aðhyllumst afstæðishyggju eða ekki vitum við að hugmyndir fólks um siðferði geta verið afar ólíkar, enda blasir það við ef við kynnum okkur menningu framandi þjóða eða jafnvel þegar við hlustum á fólkið í næsta húsi. Afstæðishyggja um siðferði felur hinsvegar líka í sér að það sé hreinlega mismunandi hjá mismunandi þjóðum eða hópum hvað rétt og rangt; siðalögmál eru ekki algild heldur miðast þau við ríkjandi hefðir og hugmyndakerfi hjá hverjum hóp fyrir sig.

Hægt er að aðhyllast siðferðilega afstæðishyggju án þess að aðhyllast afstæðishyggju um sannleikann, sem gengur lengra. Samkvæmt henni er sjálfur sannleikurinn afstæður, það miðast við ríkjandi hugmyndir eða hugmyndakerfi og heimsmynd hjá viðkomandi hópi eða einstaklingi hvort einhver staðhæfing er sönn eða ósönn. Af þessu leiðir að engar algildar staðreyndir geta verið til. Hugsum okkur til dæmis staðhæfinguna “Jörðin snýst í kringum sólina”. Nú á dögum og hér um slóðir er þessi staðhæfing almennt álitin sönn og hún virðist samrýmast ríkjandi hugmyndakerfi okkar alveg prýðilega. Því myndi afstæðishyggjufólk segja að hún væri sönn núna á Íslandi. Fyrir nokkrum öldum síðan var hins vegar álitið að það væri sólin sem snerist um jörðina og samkvæmt afstæðishyggjunni var staðhæfingin “Jörðin snýst í kringum sólina” því ósönn þá. Sú staðreynd að jörðin snúist kringum sólina er ekki algild, hún gildir ekki á öllum tímum og stöðum. Það er þetta afbrigði afstæðishyggju, afstæðishyggja um sannleikann, sem felst í bókstaflegri túlkun á staðhæfingunni “Allt er afstætt”.

Ýmis vandkvæði eru bundin bæði siðferðilegri afstæðishyggju og afstæðishyggju um sannleikann. Siðferðileg afstæðishyggja samrýmist til dæmis illa hugmyndum um mannréttindi. Mannréttindahugtakið byggir á því að ákveðin siðalögmál séu algild, óháð landamærum eða ríkjandi viðhorfum til mannréttinda á hverjum stað. Þetta kemur í sívaxandi mæli fram í þróun þessara mála í heiminum nú á dögum og er ekki laust við að sumar þjóðir virðist vilja andmæla þessu eða draga það í efa.

Algeng rök gegn afstæðishyggju um sannleikann eru að hún feli í sér mótsögn. Þeirri fullyrðingu að sannleikurinn sé afstæður er nefnilega ætlað að vera algild, hún á að gilda um allar fullyrðingar. Þar af leiðandi hlýtur það að vera afstætt hvort fullyrðingin “Sannleikurinn er afstæður” er sönn eða ósönn. Ef ákveðinn hópur fólks trúir því að sannleikurinn sé algildur er sannleikurinn ekki afstæður hjá viðkomandi hópi og þá getur það ekki staðist að algilt sé að sannleikurinn sé afstæður. Afstæðishyggja um sannleikann virðist því falla um sjálfa sig sem almenn kenning um eðli sannleikans.

Niðurstaðan er að ef sú gagnrýni á afstæðishyggju sem hér hefur verið lýst stenst getur það ekki verið rétt, í bókstaflegum skilningi, að allt sé afstætt. Ef allt er afstætt hlýtur einnig að vera afstætt hvort fullyrðingin “Allt er afstætt” er sönn og þar af leiðandi getur ekki allt verið afstætt. Fullyrðingin getur eðlis síns vegna ekki staðist sem alhæfing.

Frekara lesefni:
  • Þorsteinn Vilhjálmsson, “Vísindin, sagan og sannleikurinn”. Hjá Andra S. Björnssyni o.fl. (ritstj.), Er vit í vísindum? Reykjavík, Háskólaútgáfan, 1996. Sbr. einnig ritgerð Þorsteins Gylfasonar í sömu bók.

Myndir:

...