Er eignarfall orðsins "sjór" jafnrétt sem "sjós" og "sjávar"? (Sbr. að "fara til sjós" og "róa til sjávar".)Eignarfallið sjós er aðeins notað í orðasambandinu til sjós, til dæmis 'vera til sjós', stunda sjóinn, 'fara til sjós', fara að sækja sjó, og svo framvegis. Eignarfallið sjávar er notað ella, þar á meðal í samsettum orðum eins og 'sjávarföll', 'sjávarhættir', 'sjávarborð' og svo framvegis. Samsettu orðin 'sjómaður', 'sjóskip', 'sjósókn' eru hins vegar mynduð með stofnsamsetningu sem kallað er. Við könnumst ekki við orðtakið að "róa til sjávar" og efumst raunar um að það sé gerlegt þar sem slíkur róður færi væntanlega fram á landi. Eignarföllin blandast skemmtilega saman í orðtökum sem eru sum hver til með báðum myndunum, samanber til dæmis 'til sjós og lands', 'til lands og sjávar', 'til sjávar og sveita'. Eignarfallsmyndin sjós og orðasambandið til sjós virðast hafa verið litin hornauga hjá sumum málfræðingum áður fyrr, líklega vegna þess að menn hafa tengt það síðarnefnda við danska orðtakið til søs.
Hvernig er orðið sjór í eignarfalli?
Útgáfudagur
14.9.2000
Síðast uppfært
31.5.2018
Spyrjandi
Helga Eiríks
Tilvísun
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvernig er orðið sjór í eignarfalli?“ Vísindavefurinn, 14. september 2000, sótt 10. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=907.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2000, 14. september). Hvernig er orðið sjór í eignarfalli? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=907
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvernig er orðið sjór í eignarfalli?“ Vísindavefurinn. 14. sep. 2000. Vefsíða. 10. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=907>.