Sólin Sólin Rís 02:56 • sest 24:01 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:01 • Sest 02:01 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:44 • Síðdegis: 13:28 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:39 í Reykjavík

Hversu gömul varð Guðrún Ósvífursdóttir í Laxdæla sögu?

Ármann Jakobsson

Í Íslendingasögum kemur sjaldan fram nákvæmlega hversu gamlar persónurnar urðu enda er hið kristna tímatal ekki notað að ráði í þessari bókmenntagrein. Í Laxdæla sögu er þó sagt að Snorri goði hafi orðið 67 ára og í Egils sögu kemur fram að Egill Skalla-Grímsson komst á níræðisaldur. En það er undantekning fremur en regla að slíkar upplýsingar séu veittar.

Guðrún Ósvífursdóttir er ein mikilvægasta sögupersónan í Laxdæla sögu. Flestar sögupersónur Íslendingasagna voru álitnar sögulegar persónur á ritunartíma þeirra og Guðrúnar er ekki aðeins getið í Laxdæla sögu heldur er alloft minnst á hana í Landnámabók. Óhætt er að slá því föstu að 13. aldar menn hafi litið svo á að Guðrún hafi verið til í raun og veru, fædd um 970 og dáin um miðbik 11. aldar.


Guðrún Ósvífursdóttir bjó síðari hluta ævi sinnar á Helgafelli.

Um langlífi Guðrúnar Ósvífursdóttur er aðeins sagt í Laxdæla sögu að hún „varð gömul kona og er það sögn manna að hún yrði sjónlaus“. Það er algengur misskilningur að miðaldamenn hafi ekki getað orðið jafn gamlir og nútímamenn en þó eru allmörg dæmi um fólk sem náði jafn háum aldri og í nútímanum eins og rakið er í grein minni, „Aldraðir Íslendingar 1100–1400.“ Ekki virðist sögumönnum í fornsögum heldur þykja mikið til um háan aldur persónanna nema þær séu orðnar 80-90 ára gamlar. Kannski hefur Guðrún náð slíkum aldri en til öryggis er ekki hægt að vera nákvæmari en svo að sagan láti að því liggja að hún hafi orðið 70-100 ára.

Guðrún átti sem kunnugt er fjóra eiginmenn. Þeim fyrsta er hún gefin aðeins fimmtán ára og er það hjónaband barnlaust. Það endist skammt og hún giftist strax Þórði Ingunnarsyni. Þau eigast hins vegar ekki lengi því að hann drukknar eftir aðeins einn vetur. Þá er Guðrún væntanlega enn ekki orðin tvítug og eignast eftir lát hans fyrsta barn sitt, Þórð kött. Líklega er Guðrún á þrítugsaldri þegar hún gengur að eiga Bolla Þorleiksson og þau eiga tvo syni, Þorleik og Bolla. Þorkatli Eyjólfssyni giftist hún á fertugsaldri og þau eiga soninn Gelli skömmu síðar. Ekki er greint frá fleiri börnum Guðrúnar.

Heimildir:
  • Ármann Jakobsson, „Aldraðir Íslendingar 1100-1400: Ímyndir ellinnar í sagnaritum miðalda,“ Saga 46 (2008), 115–40.

Mynd:

Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:
Hversu gömul varð Guðrún Ósvífursdóttir og hversu gömul var hún þegar hún giftist mönnunum sínum og eignaðist börnin sín?

Höfundur

Ármann Jakobsson

prófessor við íslensku- og menningardeild HÍ

Útgáfudagur

15.9.2009

Spyrjandi

Sigrún Ólafsdóttir, Snæbjörn Eyjólfsson, f. 1993

Tilvísun

Ármann Jakobsson. „Hversu gömul varð Guðrún Ósvífursdóttir í Laxdæla sögu?“ Vísindavefurinn, 15. september 2009. Sótt 15. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=9171.

Ármann Jakobsson. (2009, 15. september). Hversu gömul varð Guðrún Ósvífursdóttir í Laxdæla sögu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=9171

Ármann Jakobsson. „Hversu gömul varð Guðrún Ósvífursdóttir í Laxdæla sögu?“ Vísindavefurinn. 15. sep. 2009. Vefsíða. 15. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=9171>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hversu gömul varð Guðrún Ósvífursdóttir í Laxdæla sögu?
Í Íslendingasögum kemur sjaldan fram nákvæmlega hversu gamlar persónurnar urðu enda er hið kristna tímatal ekki notað að ráði í þessari bókmenntagrein. Í Laxdæla sögu er þó sagt að Snorri goði hafi orðið 67 ára og í Egils sögu kemur fram að Egill Skalla-Grímsson komst á níræðisaldur. En það er undantekning fremur en regla að slíkar upplýsingar séu veittar.

Guðrún Ósvífursdóttir er ein mikilvægasta sögupersónan í Laxdæla sögu. Flestar sögupersónur Íslendingasagna voru álitnar sögulegar persónur á ritunartíma þeirra og Guðrúnar er ekki aðeins getið í Laxdæla sögu heldur er alloft minnst á hana í Landnámabók. Óhætt er að slá því föstu að 13. aldar menn hafi litið svo á að Guðrún hafi verið til í raun og veru, fædd um 970 og dáin um miðbik 11. aldar.


Guðrún Ósvífursdóttir bjó síðari hluta ævi sinnar á Helgafelli.

Um langlífi Guðrúnar Ósvífursdóttur er aðeins sagt í Laxdæla sögu að hún „varð gömul kona og er það sögn manna að hún yrði sjónlaus“. Það er algengur misskilningur að miðaldamenn hafi ekki getað orðið jafn gamlir og nútímamenn en þó eru allmörg dæmi um fólk sem náði jafn háum aldri og í nútímanum eins og rakið er í grein minni, „Aldraðir Íslendingar 1100–1400.“ Ekki virðist sögumönnum í fornsögum heldur þykja mikið til um háan aldur persónanna nema þær séu orðnar 80-90 ára gamlar. Kannski hefur Guðrún náð slíkum aldri en til öryggis er ekki hægt að vera nákvæmari en svo að sagan láti að því liggja að hún hafi orðið 70-100 ára.

Guðrún átti sem kunnugt er fjóra eiginmenn. Þeim fyrsta er hún gefin aðeins fimmtán ára og er það hjónaband barnlaust. Það endist skammt og hún giftist strax Þórði Ingunnarsyni. Þau eigast hins vegar ekki lengi því að hann drukknar eftir aðeins einn vetur. Þá er Guðrún væntanlega enn ekki orðin tvítug og eignast eftir lát hans fyrsta barn sitt, Þórð kött. Líklega er Guðrún á þrítugsaldri þegar hún gengur að eiga Bolla Þorleiksson og þau eiga tvo syni, Þorleik og Bolla. Þorkatli Eyjólfssyni giftist hún á fertugsaldri og þau eiga soninn Gelli skömmu síðar. Ekki er greint frá fleiri börnum Guðrúnar.

Heimildir:
  • Ármann Jakobsson, „Aldraðir Íslendingar 1100-1400: Ímyndir ellinnar í sagnaritum miðalda,“ Saga 46 (2008), 115–40.

Mynd:

Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:
Hversu gömul varð Guðrún Ósvífursdóttir og hversu gömul var hún þegar hún giftist mönnunum sínum og eignaðist börnin sín?

...