Sólin Sólin Rís 03:42 • sest 23:23 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:28 • Sest 23:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:35 • Síðdegis: 13:20 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:50 • Síðdegis: 19:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:42 • sest 23:23 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:28 • Sest 23:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:35 • Síðdegis: 13:20 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:50 • Síðdegis: 19:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvar, hvenær og hvers vegna er Jörfagleði haldin?

Terry Gunnell

Hin svokallaða Jörfagleði var vikivakadansleikur sem haldinn var árlega á jólum í Haukadal í Dalasýslu seint á 17. öld og snemma á 18. öld. (Um vikivakadansleiki þar sem fólk söng og dansaði og skemmti sér við ýmiss konar dulbúningsleiki eins og hestleik, Háa-Þóruleik og Þingálpnsleik sjá Jón Samsonarson, Kvæði og dansleikir I-II [Reykjavík, 1964].)

Þess háttar dansleikir virðast hafa verið sérstaklega vinsælir á Íslandi á þessum tíma. Álíka frægar og Jörfagleðin voru Ingjaldsgleði undir Jökli og Stapagleði, en við höfum líka fregnir af öðrum vikivakaveislum, til dæmis í Skálholti, Efra-Seli í Hreppum, Þingeyrum og Flangastöðum á Garðskaga. Vel eru líka þekktar sagnir um Dansinn í Hruna og á Bakkastað.

Kirkjumenn og embættismenn voru ekki sérstaklega hrifnir af hegðun manna á þessum samkomum og þeirra síst Björn sýslumaður Jónsson sem afstýrði Jörfagleðinni fyrst 1695. Mikið var drukkið á þessum samkomum og Jörfagleðin varð afar fjölmenn þegar Staðarfellsgleðin í Dalasýslu var úr sögunni seint á 17 öld. Til Jörfa kom fólk langt að, frá Skógarströnd og Hrútafirði auk Dalasýslu. Sumt vinnufólk fékk meira að segja að hafa það í samningum sínum að það hefði leyfi til að fara þangað. Má segja að þessa samkomur hafi verið svipaðar og nútíma Acid House veislur í Bretlandi.

Sagt er að dansað hafi verið í baðstofunni á Jörfa, og leiknir Hoffinnsleikur, hindaleikur og Þórhildarleikur. En það var ekki allt og sumt eins og Hjörtur Pálsson bendir á í grein sinni Jörfagleði í Dölum (Tímariti Þjóðræknisfélags Íslendinga, 1964, 31-36):
Við síðustu Jörfagleðina, sem haldin var, er sagt, að komið hafi undir nítján börn. Fylgdi það sögunni, að ekki hefði alls staðar verið hægt um vik að feðra þessa anga. Séra Einar Jónsson að Kirkjubæ hefur það eftir Jóni Sigurðssyni í Njarðvík, að þau hafi ekki verið 19, heldur 30, og sýnir þetta, hve jólagleðin á Jörfa hefur verið alræmd.

En gleðin virtist einnig hafa haft kraft af öðrum toga. Bann Björns Jónssonar við Jörfagleði árið 1695 (vegna sögusagna um siðleysi) var árangurslaust, utan að hann dó sjálfur sama ár. Eins og Hjörtur Pálsson skrifar: „Hafði ... efnum hans hnignað mjög síðan hann dæmdi af gleðina“.

Jóni Magnússyni sýslumanni í Dalasýslu varð meira ágengt snemma á 18.öld þegar skemmtunin var bönnuð fyrir fullt og allt. Skömmu eftir þetta missti Jón embættið og slapp naumlega við að vera hýddur og tekinn af lífi fyrir ýmiss konar lögbrot. Hann dó seinna í sárri fátækt. Óheppni Jóns var af mörgum talin bera vott um „reiði álfa og landvætta sem áttu að hafa tekið þátt í gleðinni.“ Hér stóð huldufólk með vinnumönnum á móti yfirstéttinni.

Höfundur

Terry Gunnell

prófessor emeritus í þjóðfræði við HÍ

Útgáfudagur

21.9.2000

Spyrjandi

Jóhann V Jóhannsson

Tilvísun

Terry Gunnell. „Hvar, hvenær og hvers vegna er Jörfagleði haldin?“ Vísindavefurinn, 21. september 2000, sótt 15. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=929.

Terry Gunnell. (2000, 21. september). Hvar, hvenær og hvers vegna er Jörfagleði haldin? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=929

Terry Gunnell. „Hvar, hvenær og hvers vegna er Jörfagleði haldin?“ Vísindavefurinn. 21. sep. 2000. Vefsíða. 15. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=929>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvar, hvenær og hvers vegna er Jörfagleði haldin?
Hin svokallaða Jörfagleði var vikivakadansleikur sem haldinn var árlega á jólum í Haukadal í Dalasýslu seint á 17. öld og snemma á 18. öld. (Um vikivakadansleiki þar sem fólk söng og dansaði og skemmti sér við ýmiss konar dulbúningsleiki eins og hestleik, Háa-Þóruleik og Þingálpnsleik sjá Jón Samsonarson, Kvæði og dansleikir I-II [Reykjavík, 1964].)

Þess háttar dansleikir virðast hafa verið sérstaklega vinsælir á Íslandi á þessum tíma. Álíka frægar og Jörfagleðin voru Ingjaldsgleði undir Jökli og Stapagleði, en við höfum líka fregnir af öðrum vikivakaveislum, til dæmis í Skálholti, Efra-Seli í Hreppum, Þingeyrum og Flangastöðum á Garðskaga. Vel eru líka þekktar sagnir um Dansinn í Hruna og á Bakkastað.

Kirkjumenn og embættismenn voru ekki sérstaklega hrifnir af hegðun manna á þessum samkomum og þeirra síst Björn sýslumaður Jónsson sem afstýrði Jörfagleðinni fyrst 1695. Mikið var drukkið á þessum samkomum og Jörfagleðin varð afar fjölmenn þegar Staðarfellsgleðin í Dalasýslu var úr sögunni seint á 17 öld. Til Jörfa kom fólk langt að, frá Skógarströnd og Hrútafirði auk Dalasýslu. Sumt vinnufólk fékk meira að segja að hafa það í samningum sínum að það hefði leyfi til að fara þangað. Má segja að þessa samkomur hafi verið svipaðar og nútíma Acid House veislur í Bretlandi.

Sagt er að dansað hafi verið í baðstofunni á Jörfa, og leiknir Hoffinnsleikur, hindaleikur og Þórhildarleikur. En það var ekki allt og sumt eins og Hjörtur Pálsson bendir á í grein sinni Jörfagleði í Dölum (Tímariti Þjóðræknisfélags Íslendinga, 1964, 31-36):
Við síðustu Jörfagleðina, sem haldin var, er sagt, að komið hafi undir nítján börn. Fylgdi það sögunni, að ekki hefði alls staðar verið hægt um vik að feðra þessa anga. Séra Einar Jónsson að Kirkjubæ hefur það eftir Jóni Sigurðssyni í Njarðvík, að þau hafi ekki verið 19, heldur 30, og sýnir þetta, hve jólagleðin á Jörfa hefur verið alræmd.

En gleðin virtist einnig hafa haft kraft af öðrum toga. Bann Björns Jónssonar við Jörfagleði árið 1695 (vegna sögusagna um siðleysi) var árangurslaust, utan að hann dó sjálfur sama ár. Eins og Hjörtur Pálsson skrifar: „Hafði ... efnum hans hnignað mjög síðan hann dæmdi af gleðina“.

Jóni Magnússyni sýslumanni í Dalasýslu varð meira ágengt snemma á 18.öld þegar skemmtunin var bönnuð fyrir fullt og allt. Skömmu eftir þetta missti Jón embættið og slapp naumlega við að vera hýddur og tekinn af lífi fyrir ýmiss konar lögbrot. Hann dó seinna í sárri fátækt. Óheppni Jóns var af mörgum talin bera vott um „reiði álfa og landvætta sem áttu að hafa tekið þátt í gleðinni.“ Hér stóð huldufólk með vinnumönnum á móti yfirstéttinni.

...