Sólin Sólin Rís 06:01 • sest 20:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:34 • Síðdegis: 21:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:23 • Síðdegis: 15:33 í Reykjavík

Hvernig vita fornleifafræðingar hvar þeir eiga að grafa þegar þeir leita að fornleifum?

Orri Vésteinsson

Það getur verið vandaverk að staðsetja uppgraftarsvæði þannig að svör fáist við þeim spurningum sem lagt er upp með í fornleifarannsókn. Stundum er það tiltölulega einfalt, til dæmis þegar rannsaka á byggingar sem ennþá sést móta fyrir, en þá getur samt verið álitamál hversu langt út fyrir veggi uppgröfturinn er látinn ná. Það geta verið eldri byggingarstig sem ekki sést móta fyrir á yfirborði og allskonar ummerki önnur sem ekki eru hluti af byggingunni en tengjast henni, til dæmis eldstæði eða öskuhaugar og það getur því haft talsverð áhrif á niðurstöðurnar hvort þau eru grafin upp líka.

Mjög oft er hinsvegar alls ekki augljóst hvar þær leifar liggja sem rannsaka á áður en byrjað er að grafa. Oftast byggir val á rannsóknarstað á einhverskonar vísbendingum, til dæmis gripa- eða öskudreif, mannvirkjaleifum sem sjást í rofi (til dæmis sjávarbakka) eða þá örnefnum eða merkingum á gömlum kortum. Þá skiptir máli að byrja á að reyna að gera sér grein fyrir umfangi fornleifanna á staðnum og eru til þess margskonar aðferðir sem skipta má í aðalatriðum í tvo flokka: fjarkönnun og könnunargröft.

Fjarkönnun

Stundum má greina mannvirkjaleifar úr lofti sem ekki sjást svo glöggt á jörðu niðri. Loftmyndataka getur því komið að góðu gagni en hún er yfirleitt mjög háð sérstökum skilyrðum, eins og árstíðum, veðurfari og sólarhæð. Í sléttuðu túni geta mannvirki undir sverði myndað misjöfnur sem eru svo lágar að þær sjást aðeins úr hæð, til dæmis þegar sól er mjög lágt á lofti og skuggar varpast af misjöfnunum eða þegar snjó skefur upp að þeim.Loftmynd af rústum eyðibýlisins Einarsstaða í Þegjandadal í Suður-Þingeyjarsýslu. Rústirnar eru greinanlegar á yfirborði en létt snjóföl dregur þær einstaklega vel fram. Myndina tók Arnþór Garðarsson.

Mannvirki undir sverði geta einnig haft áhrif á jarðveginn og gróðurinn sem yfir þeim vex. Grjótveggur skammt undir grasrót getur til dæmis valdið því að korn eða gras sem yfir honum vex verður lægra en plönturnar í kring sem standa í dýpri jarðvegi og þannig varpast skuggar sem ella myndu ekki sjást. Ef moldarflag eða snöggvaxið tún er yfir mannvirkinu þá getur jarðvegurinn beint yfir grjótveggjunum þornað fyrr en jarðvegurinn í kring og þannig myndast munstur sem sýna hvar byggingin er. Við ákveðin skilyrði geta vísbendingar af þessu tagi gefið frábærlega skýra mynd af því sem er undir sverði, en þau skilyrði eru sjaldgæf og oft hreinasta slembilukka að hitta á þau.

Ýmsar jarðeðlisfræðilegar aðferðir eru til sem geta gefið vísbendingar um hvað leynist undir sverði. Það eru einkum þrjár sem hafa verið notaðar með góðum árangri við fornleifarannsóknir, jarðsjármælingar, segulmælingar og viðnámsmælingar. Jarðsjá er radar og er sú eina af þessum aðferðum sem getur gefið hugmynd um mismunandi eiginleika mannvistar- og jarðlaga á mismunandi dýpi (sjá svar Sigurjóns Páls Ísakssonar við spurningunni Hvað er jarðsjá og hvernig er hún notuð?), en segul- og viðnámsmælingar greina aðeins breytileika í segulnæmi og viðnámi og koma einkum að gagni þar sem skýr eðlismunur er á mannvirkjaleifum og jarðveginum í kring, til dæmis þar sem mannvirki úr steini liggja í mold eða sandi. Þessar aðferðir krefjast allar flókins tækjabúnaðar og nauðsynlegt er að sérfræðingar beiti tækjunum og túlki niðurstöðurnar. Aðferðirnar geta allar gefið skýrar vísbendingar en aðalannmarki þeirra er að þó að mælingarnar sýni ekki neitt er ekki þar með sagt að treysta megi því að engar fornleifar séu á staðnum.Niðurstöður viðnámsmælingar í Skálholti 2002. Mælingin sýnir vel legu steinveggja sem voru rétt undir sverði og kom að miklu gagni við skipulagningu uppgraftar á þessum stað 2002-2006. Mælinguna gerði Timothy J. Horsley.

Könnunargröftur

Þegar fjarkönnun verður ekki komið við eða niðurstöður hennar eru ekki afdráttarlausar er stundum nauðsynlegt að grafa holur eða skurði í könnunarskyni til að ganga úr skugga um umfang og eðli fornleifanna. Fjöldi og stærð holanna og lengd skurðanna fer eftir eðli minjastaðarins og markmiðum verkefnisins. Könnunargröftur hefur þann kost að hann er tiltölulega ódýr og fljótleg leið til að ganga úr skugga um hvort og hverskonar fornleifar eru á staðnum og til að afla upplýsinga um varðveisluskilyrði sem miklu máli getur skipt að vita um áður en uppgröftur hefst. Ókosturinn við könnunargröft er að holur og skurðir rjúfa samhengi mannvistarlaganna og geta orðið til mikils trafala á seinni stigum rannsókna. Það er því oftast ráðlegt að stilla slíkum grefti mjög í hóf.

Það fer mjög eftir aðstæðum hvaða aðferðir er best að nota og í raun er það oftast fjármagn sem hefur mest áhrif á það hverjar verða fyrir valinu. Meðal annars þessvegna reyna fornleifafræðingar oft að velja staði til rannsókna þar sem ekki þarf að leggja í dýrar forkannanir áður en uppgröftur getur hafist. Markviss og vönduð forkönnun getur hinsvegar skipt sköpum fyrir árangur fornleifauppgraftar.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimild og myndir:

  • Colin Renfrew & Paul Bahn 2004, Archaeology. Theories, Method and Practice, 4. útg, London: Thams&Hudson, einkum bls. 75-109.
  • Loftmynd af rústum: Arnþór Garðarsson.
  • Niðurstöður viðnámsmælingar: Timothy J. Horsley.

Höfundur

Orri Vésteinsson

prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

26.1.2010

Spyrjandi

Baldur Þórsson

Tilvísun

Orri Vésteinsson. „Hvernig vita fornleifafræðingar hvar þeir eiga að grafa þegar þeir leita að fornleifum?“ Vísindavefurinn, 26. janúar 2010. Sótt 13. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=9451.

Orri Vésteinsson. (2010, 26. janúar). Hvernig vita fornleifafræðingar hvar þeir eiga að grafa þegar þeir leita að fornleifum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=9451

Orri Vésteinsson. „Hvernig vita fornleifafræðingar hvar þeir eiga að grafa þegar þeir leita að fornleifum?“ Vísindavefurinn. 26. jan. 2010. Vefsíða. 13. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=9451>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig vita fornleifafræðingar hvar þeir eiga að grafa þegar þeir leita að fornleifum?
Það getur verið vandaverk að staðsetja uppgraftarsvæði þannig að svör fáist við þeim spurningum sem lagt er upp með í fornleifarannsókn. Stundum er það tiltölulega einfalt, til dæmis þegar rannsaka á byggingar sem ennþá sést móta fyrir, en þá getur samt verið álitamál hversu langt út fyrir veggi uppgröfturinn er látinn ná. Það geta verið eldri byggingarstig sem ekki sést móta fyrir á yfirborði og allskonar ummerki önnur sem ekki eru hluti af byggingunni en tengjast henni, til dæmis eldstæði eða öskuhaugar og það getur því haft talsverð áhrif á niðurstöðurnar hvort þau eru grafin upp líka.

Mjög oft er hinsvegar alls ekki augljóst hvar þær leifar liggja sem rannsaka á áður en byrjað er að grafa. Oftast byggir val á rannsóknarstað á einhverskonar vísbendingum, til dæmis gripa- eða öskudreif, mannvirkjaleifum sem sjást í rofi (til dæmis sjávarbakka) eða þá örnefnum eða merkingum á gömlum kortum. Þá skiptir máli að byrja á að reyna að gera sér grein fyrir umfangi fornleifanna á staðnum og eru til þess margskonar aðferðir sem skipta má í aðalatriðum í tvo flokka: fjarkönnun og könnunargröft.

Fjarkönnun

Stundum má greina mannvirkjaleifar úr lofti sem ekki sjást svo glöggt á jörðu niðri. Loftmyndataka getur því komið að góðu gagni en hún er yfirleitt mjög háð sérstökum skilyrðum, eins og árstíðum, veðurfari og sólarhæð. Í sléttuðu túni geta mannvirki undir sverði myndað misjöfnur sem eru svo lágar að þær sjást aðeins úr hæð, til dæmis þegar sól er mjög lágt á lofti og skuggar varpast af misjöfnunum eða þegar snjó skefur upp að þeim.Loftmynd af rústum eyðibýlisins Einarsstaða í Þegjandadal í Suður-Þingeyjarsýslu. Rústirnar eru greinanlegar á yfirborði en létt snjóföl dregur þær einstaklega vel fram. Myndina tók Arnþór Garðarsson.

Mannvirki undir sverði geta einnig haft áhrif á jarðveginn og gróðurinn sem yfir þeim vex. Grjótveggur skammt undir grasrót getur til dæmis valdið því að korn eða gras sem yfir honum vex verður lægra en plönturnar í kring sem standa í dýpri jarðvegi og þannig varpast skuggar sem ella myndu ekki sjást. Ef moldarflag eða snöggvaxið tún er yfir mannvirkinu þá getur jarðvegurinn beint yfir grjótveggjunum þornað fyrr en jarðvegurinn í kring og þannig myndast munstur sem sýna hvar byggingin er. Við ákveðin skilyrði geta vísbendingar af þessu tagi gefið frábærlega skýra mynd af því sem er undir sverði, en þau skilyrði eru sjaldgæf og oft hreinasta slembilukka að hitta á þau.

Ýmsar jarðeðlisfræðilegar aðferðir eru til sem geta gefið vísbendingar um hvað leynist undir sverði. Það eru einkum þrjár sem hafa verið notaðar með góðum árangri við fornleifarannsóknir, jarðsjármælingar, segulmælingar og viðnámsmælingar. Jarðsjá er radar og er sú eina af þessum aðferðum sem getur gefið hugmynd um mismunandi eiginleika mannvistar- og jarðlaga á mismunandi dýpi (sjá svar Sigurjóns Páls Ísakssonar við spurningunni Hvað er jarðsjá og hvernig er hún notuð?), en segul- og viðnámsmælingar greina aðeins breytileika í segulnæmi og viðnámi og koma einkum að gagni þar sem skýr eðlismunur er á mannvirkjaleifum og jarðveginum í kring, til dæmis þar sem mannvirki úr steini liggja í mold eða sandi. Þessar aðferðir krefjast allar flókins tækjabúnaðar og nauðsynlegt er að sérfræðingar beiti tækjunum og túlki niðurstöðurnar. Aðferðirnar geta allar gefið skýrar vísbendingar en aðalannmarki þeirra er að þó að mælingarnar sýni ekki neitt er ekki þar með sagt að treysta megi því að engar fornleifar séu á staðnum.Niðurstöður viðnámsmælingar í Skálholti 2002. Mælingin sýnir vel legu steinveggja sem voru rétt undir sverði og kom að miklu gagni við skipulagningu uppgraftar á þessum stað 2002-2006. Mælinguna gerði Timothy J. Horsley.

Könnunargröftur

Þegar fjarkönnun verður ekki komið við eða niðurstöður hennar eru ekki afdráttarlausar er stundum nauðsynlegt að grafa holur eða skurði í könnunarskyni til að ganga úr skugga um umfang og eðli fornleifanna. Fjöldi og stærð holanna og lengd skurðanna fer eftir eðli minjastaðarins og markmiðum verkefnisins. Könnunargröftur hefur þann kost að hann er tiltölulega ódýr og fljótleg leið til að ganga úr skugga um hvort og hverskonar fornleifar eru á staðnum og til að afla upplýsinga um varðveisluskilyrði sem miklu máli getur skipt að vita um áður en uppgröftur hefst. Ókosturinn við könnunargröft er að holur og skurðir rjúfa samhengi mannvistarlaganna og geta orðið til mikils trafala á seinni stigum rannsókna. Það er því oftast ráðlegt að stilla slíkum grefti mjög í hóf.

Það fer mjög eftir aðstæðum hvaða aðferðir er best að nota og í raun er það oftast fjármagn sem hefur mest áhrif á það hverjar verða fyrir valinu. Meðal annars þessvegna reyna fornleifafræðingar oft að velja staði til rannsókna þar sem ekki þarf að leggja í dýrar forkannanir áður en uppgröftur getur hafist. Markviss og vönduð forkönnun getur hinsvegar skipt sköpum fyrir árangur fornleifauppgraftar.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimild og myndir:

  • Colin Renfrew & Paul Bahn 2004, Archaeology. Theories, Method and Practice, 4. útg, London: Thams&Hudson, einkum bls. 75-109.
  • Loftmynd af rústum: Arnþór Garðarsson.
  • Niðurstöður viðnámsmælingar: Timothy J. Horsley.
...