Sólin Sólin Rís 11:15 • sest 15:30 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:11 • Síðdegis: 17:36 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:33 • Síðdegis: 23:44 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:15 • sest 15:30 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:11 • Síðdegis: 17:36 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:33 • Síðdegis: 23:44 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er hægt að lækna fólk sem „paníkerar“? Hvað með fólk með áráttu eða þráhyggju?

Jakob Smári

Eru þeir sem „paníkera“ að missa vitið? Hvað um þá sem eru alltaf með einhverja vitleysu á heilanum, til dæmis að þeir þurfi sífellt að þvo sér um hendurnar? Er eitthvað hægt að aðstoða slíkt fólk?

Felmtur

„Paník“ er á íslensku yfirleitt kallað felmtur eða fát. Einkenni felmturskasts eru að fólk fær andnauð og hjartslátt, oft að því er virðist upp úr þurru, og finnst þá eins það sé að deyja. Þetta gerist helst þegar viðkomandi er spenntur, undir álagi eða hefur til dæmis drukkið mikið kaffi. Felmtur getur staðið fólki verulega fyrir þrifum í leik og starfi en er ekki endilega upphafsmerki um eitt eða neitt.

Til er meðferð við því sem gefur mjög góða raun sem nefnist hugræn atferlismeðferð. Hún kom fram fyrir einum 10-15 árum og rannsóknir hafa leitt í ljós að þetta er ein árangursríkasta sálfræðimeðferðin sem fyrirfinnst. Allt að 90% þeirra sem njóta þessarar meðferðar losna að mestu við köstin.

Vandinn við felmtur er að fólk upplifir oft köstin sem lífshættulegan líkamlegan sjúkdóm þrátt að fyrir að ítrekaðar læknisrannsóknir hafi ef til vill leitt í ljós að ekkert slíkt sé á ferðinni. Þetta er þó ekkert skrítið þar sem upplifunin er mjög sterk. Í hugrænni meðferð lærist manni hægt og hægt að ýmis merki frá líkamanum sem maður er vanur að líta á sem forboða válegra tíðinda eru það ekki. Manni lærist að það er einmitt athyglin sem maður beinir að þessum merkjum og túlkun þeirra sem magna þau þannig að maður verður felmtri sleginn. Það er nokkuð breytilegt hve langan tíma meðferðin tekur en reikna má með 10-15 tímum hjá sálfræðingi sem beitir þessari meðferð.

Árátta og þráhyggja

Um áráttuhugsun og þráhyggju er það að segja að algengt er að furðulegustu hugsanir skjóti upp kollinum hjá fólki. Stundum eru þetta hugsanir sem því finnst óviðeigandi, hættulegar eða dónalegar. Þetta geta verið hugsanir um að meiða einhvern, skaða eða jafnvel drepa. Yfirleitt veita menn þessu samt litla athygli og láta hugsanirnar ekki hafa áhrif á sig. Hjá sumum þróast þetta hins vegar í þá átt að þeim finnst þeir þurfa stöðugt að reyna halda aftur af þessum hugsunum og koma í veg fyrir að það sem í þeim felst verði að veruleika. Fólk áttar sig á að þessar hugsanir eru alls ekki um það sem það óskar sér að gerist en er samt sem áður hrætt við að svo sé. Sumir hætta að þora að aka bíl þar sem þeim finnst þeir muni aka yfir á rangan vegarhelming eða óttast að þeir hafi ekið á einhvern án þess að taka eftir því. Þetta er kallað þráhyggja.


Handþvottur er nokkuð algeng árátta sem ætlað er að bægja burt óþægilegum þráhyggjuhugsunum.

Vandamálið getur líka komið fram með þeim hætti að manni finnst maður þurfa stöðugt að þvo sér eða forðast óhreinindi, hegðun sem er dæmi um áráttu. Þótt fólk geri sér yfirleitt alltaf grein fyrir því að áhyggjurnar og hegðunin sé ástæðulaus finnst því að það verði engu að síður að láta undan knýjandi þörf til þess að bregðast við eins og hætta sé á ferðum.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að slíkt fólk er alls ekki að missa vitið. Hugsanirnar eru alls ekki merki um neitt slíkt. Þær benda heldur ekki til neinnar sérstakrar löngunar til að fremja óhæfuverk. Vandinn er að þeir sem eiga við þráhyggjuhugsanir að stríða taka þær svo bókstaflega. Það er því erfitt og tímafrekt að lifa með áráttu og þráhyggju. Viljinn einn nægir oftast ekki til að losna úr viðjunum. Sem betur fer er hins vegar til ýmiss konar meðferð við áráttu og þráhyggju. Meðal annars er þar um að ræða sálfræðilega meðferð sem skilar mjög góðum árangri.

Mynd: Deezo Feezo blog.

Höfundur

fyrrverandi prófessor í sálarfræði við HÍ

Útgáfudagur

14.2.2000

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Jakob Smári. „Er hægt að lækna fólk sem „paníkerar“? Hvað með fólk með áráttu eða þráhyggju?“ Vísindavefurinn, 14. febrúar 2000, sótt 14. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=95.

Jakob Smári. (2000, 14. febrúar). Er hægt að lækna fólk sem „paníkerar“? Hvað með fólk með áráttu eða þráhyggju? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=95

Jakob Smári. „Er hægt að lækna fólk sem „paníkerar“? Hvað með fólk með áráttu eða þráhyggju?“ Vísindavefurinn. 14. feb. 2000. Vefsíða. 14. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=95>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er hægt að lækna fólk sem „paníkerar“? Hvað með fólk með áráttu eða þráhyggju?
Eru þeir sem „paníkera“ að missa vitið? Hvað um þá sem eru alltaf með einhverja vitleysu á heilanum, til dæmis að þeir þurfi sífellt að þvo sér um hendurnar? Er eitthvað hægt að aðstoða slíkt fólk?

Felmtur

„Paník“ er á íslensku yfirleitt kallað felmtur eða fát. Einkenni felmturskasts eru að fólk fær andnauð og hjartslátt, oft að því er virðist upp úr þurru, og finnst þá eins það sé að deyja. Þetta gerist helst þegar viðkomandi er spenntur, undir álagi eða hefur til dæmis drukkið mikið kaffi. Felmtur getur staðið fólki verulega fyrir þrifum í leik og starfi en er ekki endilega upphafsmerki um eitt eða neitt.

Til er meðferð við því sem gefur mjög góða raun sem nefnist hugræn atferlismeðferð. Hún kom fram fyrir einum 10-15 árum og rannsóknir hafa leitt í ljós að þetta er ein árangursríkasta sálfræðimeðferðin sem fyrirfinnst. Allt að 90% þeirra sem njóta þessarar meðferðar losna að mestu við köstin.

Vandinn við felmtur er að fólk upplifir oft köstin sem lífshættulegan líkamlegan sjúkdóm þrátt að fyrir að ítrekaðar læknisrannsóknir hafi ef til vill leitt í ljós að ekkert slíkt sé á ferðinni. Þetta er þó ekkert skrítið þar sem upplifunin er mjög sterk. Í hugrænni meðferð lærist manni hægt og hægt að ýmis merki frá líkamanum sem maður er vanur að líta á sem forboða válegra tíðinda eru það ekki. Manni lærist að það er einmitt athyglin sem maður beinir að þessum merkjum og túlkun þeirra sem magna þau þannig að maður verður felmtri sleginn. Það er nokkuð breytilegt hve langan tíma meðferðin tekur en reikna má með 10-15 tímum hjá sálfræðingi sem beitir þessari meðferð.

Árátta og þráhyggja

Um áráttuhugsun og þráhyggju er það að segja að algengt er að furðulegustu hugsanir skjóti upp kollinum hjá fólki. Stundum eru þetta hugsanir sem því finnst óviðeigandi, hættulegar eða dónalegar. Þetta geta verið hugsanir um að meiða einhvern, skaða eða jafnvel drepa. Yfirleitt veita menn þessu samt litla athygli og láta hugsanirnar ekki hafa áhrif á sig. Hjá sumum þróast þetta hins vegar í þá átt að þeim finnst þeir þurfa stöðugt að reyna halda aftur af þessum hugsunum og koma í veg fyrir að það sem í þeim felst verði að veruleika. Fólk áttar sig á að þessar hugsanir eru alls ekki um það sem það óskar sér að gerist en er samt sem áður hrætt við að svo sé. Sumir hætta að þora að aka bíl þar sem þeim finnst þeir muni aka yfir á rangan vegarhelming eða óttast að þeir hafi ekið á einhvern án þess að taka eftir því. Þetta er kallað þráhyggja.


Handþvottur er nokkuð algeng árátta sem ætlað er að bægja burt óþægilegum þráhyggjuhugsunum.

Vandamálið getur líka komið fram með þeim hætti að manni finnst maður þurfa stöðugt að þvo sér eða forðast óhreinindi, hegðun sem er dæmi um áráttu. Þótt fólk geri sér yfirleitt alltaf grein fyrir því að áhyggjurnar og hegðunin sé ástæðulaus finnst því að það verði engu að síður að láta undan knýjandi þörf til þess að bregðast við eins og hætta sé á ferðum.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að slíkt fólk er alls ekki að missa vitið. Hugsanirnar eru alls ekki merki um neitt slíkt. Þær benda heldur ekki til neinnar sérstakrar löngunar til að fremja óhæfuverk. Vandinn er að þeir sem eiga við þráhyggjuhugsanir að stríða taka þær svo bókstaflega. Það er því erfitt og tímafrekt að lifa með áráttu og þráhyggju. Viljinn einn nægir oftast ekki til að losna úr viðjunum. Sem betur fer er hins vegar til ýmiss konar meðferð við áráttu og þráhyggju. Meðal annars er þar um að ræða sálfræðilega meðferð sem skilar mjög góðum árangri.

Mynd: Deezo Feezo blog....