Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Hvað varð til þess að fólk flutti úr dreifbýli í þéttbýli?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Á miðöldum bjó yfirgnæfandi hluti Evrópubúa í sveitum, líklega víða um 95% þeirra. Á Íslandi voru hreint engir bæir til; það sem komst næst þeim kann að hafa verið sveitaþorpið Þykkvibær á Suðurlandi og litlar þyrpingar fiskimannabúða þar sem lendingarskilyrði voru góð. Þegar þetta var vann næstum allt vinnufært fólk við að afla matar og klæðaefnis, handa eigin heimili og eitthvað lítið til sölu, svo og við að þjóna þeim sem öfluðu matarins og klæðaefnisins. Mat þurfti að matreiða, spinna band úr ull, vefa voðir úr bandinu og sauma klæði úr voðunum. Líka þótti þurfa fjölmennt klerkalið til að biðja fyrir hinum, og í sumum löndum höfðu mann það að atvinnu að vera tilbúnir að berjast við óvini, raunverulega eða ímyndaða. Annars voru framleiðsluaðferðir svo frumstæðar, á okkar mælikvarða metið, að næstum allt tiltækt vinnuafl þurfti til að afla nauðsynja og búa þær til neyslu.

Nánast allt vinnufært fólk þurfti til þess að afla nauðsynja og vinna úr þeim. Baðstofan var vinnustaður, hér er karlinn að kemba og konan að spinna.

Líklega hefur alltaf verið til fólk sem hugsaði upp nýjar og auðveldari leiðir til að lifa lífinu, og örlítil búsetuþróun varð strax á miðöldum. En á 16., 17. og 18. öld varð algengt í Evrópu að fólk tæki upp leiðir til að framleiða meiri mat og klæðaefni með sama vinnuframlagi. Á fyrsta stigi gerðist þetta án þess að notuð væri ný véltækni eða nýjar orkulindir. Víða fólust breytingarnar í að nýta ræktunarland betur með því að breyta nýtingunni eftir ákveðnum reglum, að sá ýmist í það korni eða nota það til grasræktar, beitar og endurnæringar. Klæðaiðn var líka gerð afkastameiri með rokkum í staðinn fyrir snældur og vefstólum í staðinn fyrir frumstæða vefstaði. Á Íslandi voru þilskip dæmigerð „gömul nýjung“ af þessu tagi. Í þeim var engin ný véltækni, og landsmenn höfðu séð útlendinga fiska á þeim á Íslandsmiðum síðan á 15. öld, en Íslendingar tóku þau ekki í notkun að neinu ráði fyrr en á 19. öld. Eins var um þann útflutningsatvinnuveg að selja sauðfé lifandi til Bretlands. Tæknilega hefði verið hægt að byrja hann öldum fyrr, en það var ekki gert fyrr en á síðari hluta 19. aldar.

Á síðara stigum fólst breytingin svo í því að finna upp og taka upp nýja véltækni, á fyrsta stigi einkum steinkolaknúðar gufuvélar, og er það kallað iðnbylting. Á Íslandi gerðist iðnbylting fyrst í útgerð togara og vélbáta; togarar voru knúðir með gufuvélum, vélbátarnir með sprengihreyflum sem brenndu steinolíu.

Þegar framleiðni óx í sveitum þurfti ekki vinnuafl allra til að framleiða nægar neysluvörur handa öllum. Æ fleiri gátu flust úr sveitunum, fundið sér atvinnu í bæjum og skapað þannig markað fyrir umframframleiðslu sveitamanna. Svo hélt þróunin áfram og áfram. Véltækni og verksmiðjuframleiddur áburður margfölduðu landbúnaðarframleiðslu sem kallaði á enn þá meiri fólksflutninga úr sveitunum sem skapaði meiri markað fyrir landbúnaðarvörur, sem kallaði á enn meiri véltækni í landbúnaði. Líka kom í ljós að þéttbýlislíf þótti að mörgu leyti þægilegra en dreifbýlislíf, til dæmis víðast styttra að sækja verslun, skóla og skemmtanir.

Þegar Íslendingar voru taldir í fyrsta sinn, árið 1703, var stærsti þéttbýlisstaður landsins Hellissandur þar sem 231 íbúi bjó í 55 þurrbúðum. Á nokkrum öðrum útgerðarstöðum bjuggu um 100 íbúar. Á 18. öld tók svo að vaxa upp smábær í Reykjavík og hafði náð rétt yfir 300 íbúa um aldamótin 1800. Frá árinu 1889 liggja fyrst fyrir tölur um fjölda íbúa í þéttbýli og dreifbýli á öllu landinu, og voru þéttbýlisbúar, þeir sem bjuggu á stöðum með 50 íbúa eða fleiri þá 13% þeirra. Síðan breytast hlutföllin hratt, og árið 1923 voru í fyrsta sinn skráðir fleiri íbúar í þéttbýli en dreifbýli, 50,3%. Þróunin hélt svo áfram alla 20. öldina og allt til þessa dags þegar dreifbýlisbúar teljast rúmlega 6% landsmanna.

Akureyri seint á 19. öld. Fyrstu tölur um fjölda íbúa í þéttbýli og dreifbýli eru frá árinu 1889 en þá voru íbúar á Akureyri 601.

Varla er mjög erfitt að skilja þessa þróun eftir að hún var farin af stað. En hvers vegna byrjaði hún? Hvers vegna tók fólk upp á því á öldunum eftir lok miðalda að fara að hugsa um nýjar og hagkvæmari framleiðsluaðferðir? Kannski hafa landafundirnir miklu undir lok 15. aldar, þegar Evrópumenn uppgötvuðu meðal annars Ameríku, gefið fólki hugmynd um að heimurinn væri öðruvísi en alltaf hafði verið haldið og gæti haldið áfram að breytast. En hvers vegna var þá farið að leita nýrra siglingaleiða og nýrra landa á 15. öld? Við finnum aldrei hið endanlega upphaf að sögulegri orsakakeðju. Alltaf má halda áfram að spyrja: En hvers vegna gerðist orsökin?

Heimildir og myndir:

  • Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland. Ritstjórar Guðmundur Jónsson, Magnús S. Magnússon. Reykjavík, Hagstofa Íslands, 1997.
  • Saga Íslands IX-X. Samin að tilhlutan þjóðhátíðarnefndar 1974. Ritstjórar Sigurður Líndal, Pétur Hrafn Árnason. Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag, 2008-9.
  • Hagstofa Íslands.
  • Mynd úr baðstofu: Listmalun. (Sótt 12.9.2012).
  • Mynd frá Akureyri: Akureyri 19th century.jpg - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 12.9.2012).

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

5.11.2012

Spyrjandi

Heiða Ösp Sturludóttir

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvað varð til þess að fólk flutti úr dreifbýli í þéttbýli?“ Vísindavefurinn, 5. nóvember 2012. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=60925.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2012, 5. nóvember). Hvað varð til þess að fólk flutti úr dreifbýli í þéttbýli? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=60925

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvað varð til þess að fólk flutti úr dreifbýli í þéttbýli?“ Vísindavefurinn. 5. nóv. 2012. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=60925>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað varð til þess að fólk flutti úr dreifbýli í þéttbýli?
Á miðöldum bjó yfirgnæfandi hluti Evrópubúa í sveitum, líklega víða um 95% þeirra. Á Íslandi voru hreint engir bæir til; það sem komst næst þeim kann að hafa verið sveitaþorpið Þykkvibær á Suðurlandi og litlar þyrpingar fiskimannabúða þar sem lendingarskilyrði voru góð. Þegar þetta var vann næstum allt vinnufært fólk við að afla matar og klæðaefnis, handa eigin heimili og eitthvað lítið til sölu, svo og við að þjóna þeim sem öfluðu matarins og klæðaefnisins. Mat þurfti að matreiða, spinna band úr ull, vefa voðir úr bandinu og sauma klæði úr voðunum. Líka þótti þurfa fjölmennt klerkalið til að biðja fyrir hinum, og í sumum löndum höfðu mann það að atvinnu að vera tilbúnir að berjast við óvini, raunverulega eða ímyndaða. Annars voru framleiðsluaðferðir svo frumstæðar, á okkar mælikvarða metið, að næstum allt tiltækt vinnuafl þurfti til að afla nauðsynja og búa þær til neyslu.

Nánast allt vinnufært fólk þurfti til þess að afla nauðsynja og vinna úr þeim. Baðstofan var vinnustaður, hér er karlinn að kemba og konan að spinna.

Líklega hefur alltaf verið til fólk sem hugsaði upp nýjar og auðveldari leiðir til að lifa lífinu, og örlítil búsetuþróun varð strax á miðöldum. En á 16., 17. og 18. öld varð algengt í Evrópu að fólk tæki upp leiðir til að framleiða meiri mat og klæðaefni með sama vinnuframlagi. Á fyrsta stigi gerðist þetta án þess að notuð væri ný véltækni eða nýjar orkulindir. Víða fólust breytingarnar í að nýta ræktunarland betur með því að breyta nýtingunni eftir ákveðnum reglum, að sá ýmist í það korni eða nota það til grasræktar, beitar og endurnæringar. Klæðaiðn var líka gerð afkastameiri með rokkum í staðinn fyrir snældur og vefstólum í staðinn fyrir frumstæða vefstaði. Á Íslandi voru þilskip dæmigerð „gömul nýjung“ af þessu tagi. Í þeim var engin ný véltækni, og landsmenn höfðu séð útlendinga fiska á þeim á Íslandsmiðum síðan á 15. öld, en Íslendingar tóku þau ekki í notkun að neinu ráði fyrr en á 19. öld. Eins var um þann útflutningsatvinnuveg að selja sauðfé lifandi til Bretlands. Tæknilega hefði verið hægt að byrja hann öldum fyrr, en það var ekki gert fyrr en á síðari hluta 19. aldar.

Á síðara stigum fólst breytingin svo í því að finna upp og taka upp nýja véltækni, á fyrsta stigi einkum steinkolaknúðar gufuvélar, og er það kallað iðnbylting. Á Íslandi gerðist iðnbylting fyrst í útgerð togara og vélbáta; togarar voru knúðir með gufuvélum, vélbátarnir með sprengihreyflum sem brenndu steinolíu.

Þegar framleiðni óx í sveitum þurfti ekki vinnuafl allra til að framleiða nægar neysluvörur handa öllum. Æ fleiri gátu flust úr sveitunum, fundið sér atvinnu í bæjum og skapað þannig markað fyrir umframframleiðslu sveitamanna. Svo hélt þróunin áfram og áfram. Véltækni og verksmiðjuframleiddur áburður margfölduðu landbúnaðarframleiðslu sem kallaði á enn þá meiri fólksflutninga úr sveitunum sem skapaði meiri markað fyrir landbúnaðarvörur, sem kallaði á enn meiri véltækni í landbúnaði. Líka kom í ljós að þéttbýlislíf þótti að mörgu leyti þægilegra en dreifbýlislíf, til dæmis víðast styttra að sækja verslun, skóla og skemmtanir.

Þegar Íslendingar voru taldir í fyrsta sinn, árið 1703, var stærsti þéttbýlisstaður landsins Hellissandur þar sem 231 íbúi bjó í 55 þurrbúðum. Á nokkrum öðrum útgerðarstöðum bjuggu um 100 íbúar. Á 18. öld tók svo að vaxa upp smábær í Reykjavík og hafði náð rétt yfir 300 íbúa um aldamótin 1800. Frá árinu 1889 liggja fyrst fyrir tölur um fjölda íbúa í þéttbýli og dreifbýli á öllu landinu, og voru þéttbýlisbúar, þeir sem bjuggu á stöðum með 50 íbúa eða fleiri þá 13% þeirra. Síðan breytast hlutföllin hratt, og árið 1923 voru í fyrsta sinn skráðir fleiri íbúar í þéttbýli en dreifbýli, 50,3%. Þróunin hélt svo áfram alla 20. öldina og allt til þessa dags þegar dreifbýlisbúar teljast rúmlega 6% landsmanna.

Akureyri seint á 19. öld. Fyrstu tölur um fjölda íbúa í þéttbýli og dreifbýli eru frá árinu 1889 en þá voru íbúar á Akureyri 601.

Varla er mjög erfitt að skilja þessa þróun eftir að hún var farin af stað. En hvers vegna byrjaði hún? Hvers vegna tók fólk upp á því á öldunum eftir lok miðalda að fara að hugsa um nýjar og hagkvæmari framleiðsluaðferðir? Kannski hafa landafundirnir miklu undir lok 15. aldar, þegar Evrópumenn uppgötvuðu meðal annars Ameríku, gefið fólki hugmynd um að heimurinn væri öðruvísi en alltaf hafði verið haldið og gæti haldið áfram að breytast. En hvers vegna var þá farið að leita nýrra siglingaleiða og nýrra landa á 15. öld? Við finnum aldrei hið endanlega upphaf að sögulegri orsakakeðju. Alltaf má halda áfram að spyrja: En hvers vegna gerðist orsökin?

Heimildir og myndir:

  • Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland. Ritstjórar Guðmundur Jónsson, Magnús S. Magnússon. Reykjavík, Hagstofa Íslands, 1997.
  • Saga Íslands IX-X. Samin að tilhlutan þjóðhátíðarnefndar 1974. Ritstjórar Sigurður Líndal, Pétur Hrafn Árnason. Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag, 2008-9.
  • Hagstofa Íslands.
  • Mynd úr baðstofu: Listmalun. (Sótt 12.9.2012).
  • Mynd frá Akureyri: Akureyri 19th century.jpg - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 12.9.2012).
...