- Af hverju finnst manni ískur svona óþægilegt? (Magni)
- Af hverju fæ ég mikla ónotatilfinningu þegar ég kem við eða heyri einhvern koma við einangrunarplast? (Sveinn)
Hljóð eru yfirleitt sett saman úr margs konar tíðni, sjá svar sama höfundar við spurningunni Hvað ákveður nákvæmlega tónhæð hvers tóns? Í fyrstu gæti virst sem öll þessi óþægilegu hljóð sem nefnd voru hér á undan ættu það sameiginlegt að vera hávær hátíðnihljóð, en svo er ekki endilega þegar betur er að gáð. Halpern, Blake og Hillenbrand (1986) umbreyttu óþægilegum hljóðum með því að sía úr tóna af vissri tíðni. Þessi breyttu hljóð voru svo spiluð fyrir fólk, og kom þá í ljós að það voru ekki hátíðnitónarnir heldur fremur tónar af lágri og miðlungs tíðni sem þóttu ógeðfelldir. Styrkur hljóðsins hafði ekki mikil áhrif, tónarnir þóttu jafnóþægilegir hvort sem þeir voru spilaðir hátt eða lágt (hljóð yfir sársaukamörkum eru auðvitað alltaf óþægileg og geta valdið heyrnarskaða).
Ofangreindar niðurstöður snúast um hvaða eiginleika hljóð þurfi að hafa til þess að teljast ógeðfelld. Þegar spurt er af hverju þessir eiginleikar veki með fólki tilfinningaviðbrögð er aftur á móti fátt um svör. Sumir hafa getið sér þess til að þessi óhljóð líkist öðrum hljóðum, svo sem varnarköllum, sem eru til marks um að hætta steðji að og að því hafi þróast með mönnum sá eiginleiki að forðast þau. Áhugavert er þó að rannsóknir á skeggöpum benda til þess að þeir þoli illa stöðug varnarköll en finnist skerandi hljóð sem líkjast naglaskrapi á krítartöflu ekkert verri á að hlusta en jafnhátt hvítasuð (e. white noise, suð með jafnri tíðnidreifingu). Ef til vill er því sá furðulegi eiginleiki að finna til óþæginda sökum ískurhljóða eingöngu bundinn við manninn. Þó er ekki útilokað að hann finnist hjá öðrum prímötum, svo sem simpönsum, sem eru náskyldir mönnum.
Frekara lesefni á Vísindavefnum
- Af hverju fær maður gæsahúð þegar maður hlustar á góða tónlist? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson.
- Af hverju getur tónlist vakið tilfinningar sem eru stundum framandi? eftir Jón Hrólf Sigurjónsson og Þóri Þórisson.
- Er til tónn sem er svo ljótur að hann er kenndur við djöfulinn? eftir Karólínu Eiríksdóttur.
- Hvað aðgreinir tónlist frá hávaða? eftir Karólínu Eiríksdóttur.
- Hver er munurinn á hljóði og útvarpsbylgjum? eftir Þorstein Vilhjálmsson.
- Hvernig verka skilningarvitin fimm (sjón, heyrn, snerting, bragð og lykt)? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur.
- Halpern, D. L., Blake, R. og Hillenbrand, J. (1986). Psychoacoustics of a chilling sound. Perception and Psychophysics, 39, 77-80.
- Munger, D. (2005). Why we can't all be divas. Cognitive Daily.
- McDermott, J. and Hauser, M. (2004). Are consonant intervals music to their ears? Spontaneous acoustic preferences in a nonhuman primate. Cognition, 94, B11-B21.
- Phenomenology of sound events. The Sounding Object.
- Myndin er fengin af síðunni Alliance of Residents Concerning O'Hare Inc.