Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Eru sítrónur eins mikið töfralyf og margir halda fram á veraldarvefnum?

Anna Ragna Fossberg Jóhönnudóttir

Spurningin hljóðaði svona í heild sinni:
Eru sítrónur og aðrir sítrusávextir eins mikið töfralyf og margir halda fram á veraldarvefnum? Til dæmis hér: 20 Reasons you should Drink Lemon Water in the Morning

Sítrónur og aðrir sítrusávextir innihalda ýmis næringarefni, til dæmis A-, E- og C-vítamín, fólasín, járn, kalsín og kalín, auk trefja og sítrónusýru.[1] (Frumefnin kalsín (Ca) og kalín (K) eru stundum nefnd kalsíum og kalíum en um íslensk heiti frumefna er hægt að lesa í svari við spurningunni Hvað heita öll frumefnin?)

Yfirleitt neyta menn aðeins safans úr sítrónum. Í honum eru engar trefjar, sáralítið A- og E-vítamín, sáralítið kalsín og mun minna fólasín heldur en í heilum sítrónum. Safinn er aftur á móti ríkur af C-vítamíni, kalíni og sítrónusýru.[2]

Sítrónusýra gerir sítrusávexti súra, með lágt pH-gildi. Sítrónusýra getur leyst upp tannglerunginn og valdið glerungseyðingu sem er óafturkræfur sjúkdómur og lýsir sér í mikilli næmni fyrir hita og kulda og síðar sársauka.[3]

Safi úr sítrónum er ríkur af C-vítamíni, kalíni og sítrónusýru en í honum eru engar trefjar og sáralítið A- og E-vítamín.

C-vítamín og kalín er líka hægt að fá úr öðrum ávöxtum og úr grænmeti. Bláber, brokkólí og paprika eru rík af C-vítamíni. Bananar og spínat eru góðir kalíngjafar. Ýmsar hnetur, baunir og fræ eru kalínrík.[4]

C-vítamín og kalín eru lífsnauðsynleg næringarefni sem við þurfum að neyta í hæfilegu magni flesta daga lífsins.

Það er aftur á móti löngu búið að afsanna að háskammta C-vítamín meðferð fyrirbyggi eða lækni kvef, aðrar sýkingar eða krabbamein.[5]

Eftir að líkaminn meltir og brennir fæðuna verða steinefnin eftir. Kalín og aðrar plúshlaðnar jónir, svo sem kalsín og magnesín, binda sýru og hafa því basamyndandi áhrif, hækka pH-gildið. Dýraafurðir og kornvörur eru sýrumyndandi vegna fosfats og brennisteinssambanda en ávextir og grænmeti eru basamyndandi. Hrein fita, einföld kolvetni og sterkja hafa engin áhrif á sýrustig.[6]

Sýrustig munnvatns er breytilegt eftir því hvaða fæðu við innbyrðum. Sýrustig þvags er líka breytilegt. En líkaminn stýrir sýrustiginu að öðru leyti. Saltsýra magans og natrínbíkarbónat þarmanna stýra sýrustiginu í meltingarveginum. Sýrustigi blóðs er stýrt af stuðpúðum eða dúum sem leysa og binda sýru eftir þörfum. Ef dúarnir hafa ekki undan tekur það lungun örfáar sekúndur að bregðast við með því að auka eða minnka útöndun sýru (koltvíildis eða koldíoxíðs). Nýrun sjá líka um að skilja út umframsýru sem endar í þvagi. Séu lungun veik tekur það nýrun 2-3 sólarhringa að stilla sýrustigið. Þannig er sýrustigi líkamans ætíð haldið á þröngu bili kringum 7,4. Annars skapast lífshættulegt ástand.[7]

Þeirri kenningu var varpað fram að ef of lítið væri af plúshlöðnum jónum í fæðinu yrði líkaminn í súrari kantinum. Það gæti haft alvarlegar langtímaafleiðingar, því líkaminn brygðist við með því að leysa kalsín úr beinunum til að hlutleysa sýru í blóðinu. Þar af leiðandi gæti neysla sýrumyndandi fæðis (dýraafurða og kornvara) orsakað beinþynningu, og basamyndandi fæði (grænmeti og ávextir) hindrað hana. Þetta hefur verið afsannað. Þau smávægilegu basísku áhrif sem plúsjónir í fæði hafa á blóð skipta engu máli fyrir beinheilsu.[8]

Sítrusávextir eru næringarrík matvæli en þeir eru ekki töfralyf.

Fylgnirannsóknir hafa sýnt að þeir sem borða mikið af trefjaríkri fæðu úr jurtaríkinu fá síður ýmsa langvinna sjúkdóma eins og krabbamein, gigt og hjarta- og æðasjúkdóma.[9] Það hefur þó ekki tekist að sýna fram á að það tengist basamyndandi áhrifum plúshlaðinna jóna á líkamsvessa.[10]

Niðurstaða

Sítrónur og aðrir sítrusávextir eru næringarrík matvæli sem ættu að vera hluti af fjölbreyttu fæði okkar allra. C-vítamín og kalín eru lífsnauðsynleg næringarefni sem við fáum úr grænmeti, ávöxtum, berjum, hnetum, fræjum og baunum.

Tannanna vegna er betra að drekka sítrónusafa í hófi eða með röri svo tennurnar komist hjá sýrubaði.

Engar vísbendingar eru um að sítrónur og aðrir sítrusávextir lækni eða fyrirbyggi krabbamein, hjarta- og æðasjúkdóma, beinþynningu, gigt, kvef eða aðrar sýkingar.

Sítrónur og aðrir sítrusávextir eru því miður ekki töfralyf.

Neðanmálsgreinar:
  1. ^ Næringarefnatöflur - Íslenska - ISGEM - www.matis.is. (Skoðað 10.02.2015).
  2. ^ Sama heimild og í nr. 1.
  3. ^ Acid erosion - Wikipedia, the free encyclopedia. (Skoðað 10.02.2015).
  4. ^ Sama heimild og í nr. 1.
  5. ^ The Dark Side of Linus Pauling's Legacy. (Skoðað 10.02.2015).
  6. ^ The kidney and acid-base regulation - Advances in Physiology Education. (Skoðað 10.02.2015).
  7. ^ Heilræði - heilsuráðgjöf. (Skoðað 10.02.2015). Sama heimild og í nr. 6.
  8. ^ The pH Myth: Part 1. (Skoðað 10.02.2015). Alkaline diet - Wikipedia, the free encyclopedia. (Skoðað 10.02.2015).
  9. ^ Nýjar opinberar ráðleggingar um mataræði. (Skoðað 10.02.2015).
  10. ^ Sama heimild og sú seinni í nr. 8.

Myndir:

Höfundur

Anna Ragna Fossberg Jóhönnudóttir

næringarfræðingur, doktor í heilbrigðisvísindum

Útgáfudagur

11.2.2015

Spyrjandi

Þorsteinn Kristján Ragnarsson

Tilvísun

Anna Ragna Fossberg Jóhönnudóttir. „Eru sítrónur eins mikið töfralyf og margir halda fram á veraldarvefnum?“ Vísindavefurinn, 11. febrúar 2015. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=69189.

Anna Ragna Fossberg Jóhönnudóttir. (2015, 11. febrúar). Eru sítrónur eins mikið töfralyf og margir halda fram á veraldarvefnum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=69189

Anna Ragna Fossberg Jóhönnudóttir. „Eru sítrónur eins mikið töfralyf og margir halda fram á veraldarvefnum?“ Vísindavefurinn. 11. feb. 2015. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=69189>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Eru sítrónur eins mikið töfralyf og margir halda fram á veraldarvefnum?
Spurningin hljóðaði svona í heild sinni:

Eru sítrónur og aðrir sítrusávextir eins mikið töfralyf og margir halda fram á veraldarvefnum? Til dæmis hér: 20 Reasons you should Drink Lemon Water in the Morning

Sítrónur og aðrir sítrusávextir innihalda ýmis næringarefni, til dæmis A-, E- og C-vítamín, fólasín, járn, kalsín og kalín, auk trefja og sítrónusýru.[1] (Frumefnin kalsín (Ca) og kalín (K) eru stundum nefnd kalsíum og kalíum en um íslensk heiti frumefna er hægt að lesa í svari við spurningunni Hvað heita öll frumefnin?)

Yfirleitt neyta menn aðeins safans úr sítrónum. Í honum eru engar trefjar, sáralítið A- og E-vítamín, sáralítið kalsín og mun minna fólasín heldur en í heilum sítrónum. Safinn er aftur á móti ríkur af C-vítamíni, kalíni og sítrónusýru.[2]

Sítrónusýra gerir sítrusávexti súra, með lágt pH-gildi. Sítrónusýra getur leyst upp tannglerunginn og valdið glerungseyðingu sem er óafturkræfur sjúkdómur og lýsir sér í mikilli næmni fyrir hita og kulda og síðar sársauka.[3]

Safi úr sítrónum er ríkur af C-vítamíni, kalíni og sítrónusýru en í honum eru engar trefjar og sáralítið A- og E-vítamín.

C-vítamín og kalín er líka hægt að fá úr öðrum ávöxtum og úr grænmeti. Bláber, brokkólí og paprika eru rík af C-vítamíni. Bananar og spínat eru góðir kalíngjafar. Ýmsar hnetur, baunir og fræ eru kalínrík.[4]

C-vítamín og kalín eru lífsnauðsynleg næringarefni sem við þurfum að neyta í hæfilegu magni flesta daga lífsins.

Það er aftur á móti löngu búið að afsanna að háskammta C-vítamín meðferð fyrirbyggi eða lækni kvef, aðrar sýkingar eða krabbamein.[5]

Eftir að líkaminn meltir og brennir fæðuna verða steinefnin eftir. Kalín og aðrar plúshlaðnar jónir, svo sem kalsín og magnesín, binda sýru og hafa því basamyndandi áhrif, hækka pH-gildið. Dýraafurðir og kornvörur eru sýrumyndandi vegna fosfats og brennisteinssambanda en ávextir og grænmeti eru basamyndandi. Hrein fita, einföld kolvetni og sterkja hafa engin áhrif á sýrustig.[6]

Sýrustig munnvatns er breytilegt eftir því hvaða fæðu við innbyrðum. Sýrustig þvags er líka breytilegt. En líkaminn stýrir sýrustiginu að öðru leyti. Saltsýra magans og natrínbíkarbónat þarmanna stýra sýrustiginu í meltingarveginum. Sýrustigi blóðs er stýrt af stuðpúðum eða dúum sem leysa og binda sýru eftir þörfum. Ef dúarnir hafa ekki undan tekur það lungun örfáar sekúndur að bregðast við með því að auka eða minnka útöndun sýru (koltvíildis eða koldíoxíðs). Nýrun sjá líka um að skilja út umframsýru sem endar í þvagi. Séu lungun veik tekur það nýrun 2-3 sólarhringa að stilla sýrustigið. Þannig er sýrustigi líkamans ætíð haldið á þröngu bili kringum 7,4. Annars skapast lífshættulegt ástand.[7]

Þeirri kenningu var varpað fram að ef of lítið væri af plúshlöðnum jónum í fæðinu yrði líkaminn í súrari kantinum. Það gæti haft alvarlegar langtímaafleiðingar, því líkaminn brygðist við með því að leysa kalsín úr beinunum til að hlutleysa sýru í blóðinu. Þar af leiðandi gæti neysla sýrumyndandi fæðis (dýraafurða og kornvara) orsakað beinþynningu, og basamyndandi fæði (grænmeti og ávextir) hindrað hana. Þetta hefur verið afsannað. Þau smávægilegu basísku áhrif sem plúsjónir í fæði hafa á blóð skipta engu máli fyrir beinheilsu.[8]

Sítrusávextir eru næringarrík matvæli en þeir eru ekki töfralyf.

Fylgnirannsóknir hafa sýnt að þeir sem borða mikið af trefjaríkri fæðu úr jurtaríkinu fá síður ýmsa langvinna sjúkdóma eins og krabbamein, gigt og hjarta- og æðasjúkdóma.[9] Það hefur þó ekki tekist að sýna fram á að það tengist basamyndandi áhrifum plúshlaðinna jóna á líkamsvessa.[10]

Niðurstaða

Sítrónur og aðrir sítrusávextir eru næringarrík matvæli sem ættu að vera hluti af fjölbreyttu fæði okkar allra. C-vítamín og kalín eru lífsnauðsynleg næringarefni sem við fáum úr grænmeti, ávöxtum, berjum, hnetum, fræjum og baunum.

Tannanna vegna er betra að drekka sítrónusafa í hófi eða með röri svo tennurnar komist hjá sýrubaði.

Engar vísbendingar eru um að sítrónur og aðrir sítrusávextir lækni eða fyrirbyggi krabbamein, hjarta- og æðasjúkdóma, beinþynningu, gigt, kvef eða aðrar sýkingar.

Sítrónur og aðrir sítrusávextir eru því miður ekki töfralyf.

Neðanmálsgreinar:
  1. ^ Næringarefnatöflur - Íslenska - ISGEM - www.matis.is. (Skoðað 10.02.2015).
  2. ^ Sama heimild og í nr. 1.
  3. ^ Acid erosion - Wikipedia, the free encyclopedia. (Skoðað 10.02.2015).
  4. ^ Sama heimild og í nr. 1.
  5. ^ The Dark Side of Linus Pauling's Legacy. (Skoðað 10.02.2015).
  6. ^ The kidney and acid-base regulation - Advances in Physiology Education. (Skoðað 10.02.2015).
  7. ^ Heilræði - heilsuráðgjöf. (Skoðað 10.02.2015). Sama heimild og í nr. 6.
  8. ^ The pH Myth: Part 1. (Skoðað 10.02.2015). Alkaline diet - Wikipedia, the free encyclopedia. (Skoðað 10.02.2015).
  9. ^ Nýjar opinberar ráðleggingar um mataræði. (Skoðað 10.02.2015).
  10. ^ Sama heimild og sú seinni í nr. 8.

Myndir:

...