Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig og hvar vex ananas?

Ananasplantan (Ananas comosus) er fræplanta af ættinni Bromeliaceae. Hún vex villt í Mið- og Suður-Ameríku en hefur verið flutt og ræktuð til nytja víða annars staðar svo sem til margra Asíu- og Afríkuríkja.

Ananasplantan er með 30-40 stíf og safarík blöð sem mynda oft rósettulaga krans umhverfis þykkan og sterklegan stöngul. Hjá villtum afbrigðum myndast blóm efst á plöntunni sem með auknum þroska gildna og renna saman og mynda þannig ávöxt sem í daglegu tali er nefndur ananas. Ananasávöxturinn er fullmyndaður fimm til sex mánuðum eftir að plantan blómstrar. Ananasávöxturinn hjá ræktuðum afbrigðum er venjulega um eitt til tvö kg að þyngd en minni hjá villtum jurtum.

Elstu frásagnir af ananasplöntunni eru frá landkönnuðunum Kristófer Kólumbus, Gonzalo Fernández de Oviedo y Valdés og Sir Walter Raleigh. Raleigh fann villtan ananas í Vestur-Indíum þar sem innfæddir nýttu hann til matar- og víngerðar.Ananasplantan (Ananas comosus) með vel þroskaðan ávöxt.

Portúgalar voru sennilega fyrstir til að flytja plöntuna út fyrir upprunaleg heimkynni þegar þeir fluttu nokkrar plöntur til ræktunnar á eyjunni St. Helen árið 1502. Þeir fluttu hana til Afríku fáeinum árum síðar og til Indlands um 1550. Fyrir lok 16. aldar voru menn farnir að rækta ananas á stórum svæðum í hitabelti Asíu og Afríku. Óhætt er því að segja að þessi ávöxtur hafi slegið rækilega í gegn.

Í dag er mest ræktað af ananas á Tælandi (um 20% heimsframleiðslunnar) en önnur stór ræktarsvæði eru á Hawaii-eyjum, Filippseyjum, Kína, Brasilíu, Mexíkó, Fílabeinsströndinni, Taívan og á Indlandi.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Útgáfudagur

8.4.2005

Spyrjandi

Þórhildur Orradóttir, f. 1988

Efnisorð

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvernig og hvar vex ananas?“ Vísindavefurinn, 8. apríl 2005. Sótt 3. maí 2016. http://visindavefur.is/svar.php?id=4876.

Jón Már Halldórsson. (2005, 8. apríl). Hvernig og hvar vex ananas? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4876

Jón Már Halldórsson. „Hvernig og hvar vex ananas?“ Vísindavefurinn. 8. apr. 2005. Vefsíða. 3. maí. 2016. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4876>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Ópið

Norski listmálarinn Edvard Munch málaði fjórar útgáfur af verki sem nefnt er Ópið. Tvær elstu gerðirnar eru frá 1893, þriðja frá 1895 og sú síðasta líklega frá 1910. Ópið er ein kunnasta táknmynd nútímalistar og fjölmargar túlkanir hafa verið settar fram á verkinu. Einn Munch-fræðingur telur að fyrirmynd mannverunnar á myndinni sé múmía frá Perú sem Munch gæti hafa séð í París 1889.