Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Hvað er frumspeki?

Geir Þ. Þórarinsson

Frumspeki er undirgrein heimspekinnar sem fjallar um eðli veruleikans. Á ensku heitir frumspeki metaphysics en það og samsvarandi orð í öðrum málum er komið úr grísku. Þegar ritverk Aristótelesar voru gefin út á 1. öld f. Kr. var bókunum um frumspeki nefnilega gefinn titillinn ta meta ta physika sem merkir „bækurnar á eftir eðlisfræðinni“. Sjálfur nefndi Aristóteles frumspekina he prote filosofia eða hina fyrstu heimspeki, sem íslenska orðið ‘frumspeki’ nær vel, og jafnvel þeologia eða guðfræði.

Verufræði

Ein af megingreinum frumspekinnar er verufræðin (e. ontology) sem fjallar um hvað sé á endanum til. Er til efni? Er til andi eða sál? Eru stólar og borð til í sama skilningi og atómin sem mynda þau eða eiga þau sér einungis annars stigs tilvist? Eru til tölur eða staðreyndir? Er tíminn til? Ef svo í hvaða skilningi?

Grískir heimspekingar áttu margvísleg svör við þessum spurningum. Demókrítos frá Abderu (460–370 f. Kr.) hélt því fram að á endanum væri ekkert til nema atóm og tómarúm. Stólar og borð eru þess vegna ekkert nema söfn atóma og söfnin eiga sér ekki sjálfstæða tilvist, óháð atómunum. Þess vegna eru atómin raunverulegri en stólar og borð að mati Demókrítosar.

Platon (427–347 f. Kr.) taldi að heimurinn sem við skynjum væri eins og léleg eftirmynd af svokölluðum frummyndum. Að mati Platons eru skynjanlegir stólar þess vegna ekkert nema eftirlíkingar af frummynd stólsins – stólnum sjálfum – sem er raunverulegri en eftirmyndirnar. Efnisheimurinn er því ekki raunverulegur, að minnsta kosti ekki jafn raunverulegur og frummyndirnar.


Platon hélt því fram að sérhvert fyrirbæri í efnisheiminum, þar á meðal fólk, ætti sér frummynd. Frummyndirnar eru raunverulegar og fullkomnar, eftirmyndir þeirra ónákvæmar og óraunverulegar.

Að lokum má nefna Parmenídes frá Eleu (515–443 f. Kr.) sem færði rök fyrir því að ekkert væri til nema veran sem væri ein og óskipt. Af niðurstöðu sinni dró hann þá ályktun að hreyfing og breyting og allur mismunur væri eintóm blekking; allt er en er ekki að verða neitt.

Deilan um altök

Deilan um altök er gömul innan frumspekinnar. Altök eru altæk hugtök sem standa fyrir almenna eiginleika, svo sem rauður (eða roði), blár eða (blámi), stór (eða stærð) og fallegur (eða fegurð). Vensl eða tengsl, svo sem skyldleikavensl eða orsakarvensl, eru líka altök. En eru þessi altök í einhverjum skilningi til? Hluthyggja um altök er sú kenning að altökin eigi sér tilvist óháð hugmyndum okkar um þau. Frummyndakenning Platons er öðrum þræði hluthyggja um altök. Aristóteles var einnig hluthyggjumaður um altök en hafnaði þeirri hugmynd að altökin væru til óháð hlutunum sjálfum. Þess í stað hélt hann að altökin væru til í hlutunum; hlutur hefur raunverulegan lit; stærð og fegurð eru raunverulegir eiginleikar tiltekinna hluta. Hluthyggja af þessu tagi kallast in rebus hluthyggja um altök.

Á miðöldum varð til nafnhyggja um altök, meðal annars hjá heimspekingnum William af Ockham (1285–1345) og ef til vill líka Pierre Abelard (1079–1142). Hugmyndin hafði raunar komið fram þegar í upphafi 6. aldar hjá Boethiusi (uppi um 475/480–524). Nafnhyggja er sú kenning að altök séu strangt tekið ekki til. Samkvæmt nafnhyggjunni er ekkert til nema einstakir hlutir sem líkjast hver öðrum mismikið. Þegar þeir líkjast nægilega mikið notum við sama orðið eða hugtakið til að vísa til þeirra. Altökin verða þess vegna til eftir á, samkvæmt nafnhyggjunni. Við búum þau til okkur til hægðarauka, til þess að auðvelda okkur að að tala um hlutina. Almennir eiginleikar eiga þess vegna ekkert sameiginlegt nema nöfnin ein. Ockham hafði margvísleg rök fyrir kenningu sinni. Einn hvatinn að kenningunni var krafan um einfaldleika heimspekilegra (og síðar vísindalegra) skýringa. Ockham taldi einmitt, eins og raunar margir á undan honum, að einfaldari kenning, sem gerir ráð fyrir tilvist færri tegunda af hlutum, sé sennilegri en flóknari kenning, sem gerir ráð fyrir tilvist hluta af fleira tagi, ef skýringarmáttur beggja kenninga er jafnmikill. Þessi aðferðafræðilega regla var á 19. öld nefnd rakhnífur Ockhams.


Samkvæmt nafnhyggju flokkum við líka hluti saman (epli, perur, tómatar, kýr o.s.frv.) til hægðarauka en í raun eiga þeir ekkert sameiginlegt nema nafnið.

Nafnhyggjan átti lengi vinsældum að fagna meðal breskra heimspekinga. Thomas Hobbes (1588–1679), John Locke (1632–1704) og George Berkeley (1685–1753) voru til að mynda allir nafnhyggjumenn. Á 20. öld var enn deilt um altök og verufræðilega stöðu þeirra. Wilfrid Sellars (1912–1989) og Willard Van Orman Quine (1908–2000) voru nafnhyggjumenn en Gottlob Frege (1848–1925), George Edward Moore (1873–1958) og Bertrand Russell (1872–1970) voru allir einhvers konar hluthyggjumenn um altök og sennilega er ástralski heimspekingurinn David M. Armstrong (f. 1926) frægasti málsvari hluthyggju um altök á síðari hluta 20. aldar.

Hugspeki: Tvíhyggja og efnishyggja

Einn áhrifamesti hugsuður nýaldar var franski heimspekingurinn René Descartes (1596–1650). Descartes gerði skarpan greinarmun á efni og anda en hvort tveggja taldi hann að væri jafnraunverulegt, andinn væri bara annars konar veruleiki en efni. Þessi hugmynd er síðan til í fjölmörgum útgáfum og nefnist tvíhyggja um efni og anda (eða líkama og sál).

Tvíhyggjan hefur verið gríðarlega áhrifamikil síðan á tímum Descartes en hefur átt undir högg að sækja frá því á 20. öld. Þá urðu hvers kyns efnishyggjukenningar ráðandi. Í grófum dráttum má segja að efnishyggja feli í sér að það sem er til sé efnislegt og allt annað, eins og til að mynda mannshugurinn, orsakist einhvern veginn af efninu og sé jafnvel smættanlegt í efnið. Því ætti að mega gera fullkomna grein fyrir mannshuganum á grundvelli efnislegra skýringa. Efnishyggjukenningar eru einhyggjukenningar því samkvæmt þeim er það sem er til allt af einni sort, það er efnislegt.

Andúð á frumspeki

Skoski heimspekingurinn David Hume (1711-1776) sagði að frumspekilegar staðhæfingar á borð við „Altök eiga sér sjálfstæða tilvist” væru ávallt ósannanlegar og þess vegna til einskis að velta þeim fyrir sér; frumspekin byrgði manni einungis sýn. Snemma á 20. öld varð svo tíska meðal margra heimspekinga að líta niður á frumspeki. Ef til vill gengu rökfræðilegir raunhyggjumenn hvað lengst þar sem þeir héldu fram að frumspekilegar staðhæfingar væru einfaldlega merkingarlausar þar sem ekki væri með nokkru móti hægt að sannreyna þær, hvorki með rökleiðslu né raunprófunum.

Vinsældir rökfræðilegu raunhyggjunnar dvínuðu fljótt en andúðin á frumspekinni lifði eftir hjá mörgum heimspekingum, til dæmis í vísindalegri náttúruhyggju W. V. O. Quines. Quine taldi bestu leiðin til að svara spurningunni um hvað sé til vera að finna út hvaða verufræðilegu skuldbindingar fylgja nútímavísindum. Þessi andúð á frumspeki er ekki lengur í tísku meðal heimspekinga eins og hún var um tíma, enda þótt auðvitað hafi ekki allir heimspekingar áhuga á frumspekilegum spurningum. Þó má ef til vill segja að frumspeki hafi aftur komist í tísku seint á sjöunda áratugnum og snemma á þeim áttunda, ekki síst vegna Sauls Kripkes (1940– ) sem setti fram kenningu um eðlishyggju og náttúrulegar tegundir.

Tengdar greinar

Myndir

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

21.10.2005

Spyrjandi

Erlendur Jónsson

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað er frumspeki?“ Vísindavefurinn, 21. október 2005. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5346.

Geir Þ. Þórarinsson. (2005, 21. október). Hvað er frumspeki? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5346

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað er frumspeki?“ Vísindavefurinn. 21. okt. 2005. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5346>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er frumspeki?
Frumspeki er undirgrein heimspekinnar sem fjallar um eðli veruleikans. Á ensku heitir frumspeki metaphysics en það og samsvarandi orð í öðrum málum er komið úr grísku. Þegar ritverk Aristótelesar voru gefin út á 1. öld f. Kr. var bókunum um frumspeki nefnilega gefinn titillinn ta meta ta physika sem merkir „bækurnar á eftir eðlisfræðinni“. Sjálfur nefndi Aristóteles frumspekina he prote filosofia eða hina fyrstu heimspeki, sem íslenska orðið ‘frumspeki’ nær vel, og jafnvel þeologia eða guðfræði.

Verufræði

Ein af megingreinum frumspekinnar er verufræðin (e. ontology) sem fjallar um hvað sé á endanum til. Er til efni? Er til andi eða sál? Eru stólar og borð til í sama skilningi og atómin sem mynda þau eða eiga þau sér einungis annars stigs tilvist? Eru til tölur eða staðreyndir? Er tíminn til? Ef svo í hvaða skilningi?

Grískir heimspekingar áttu margvísleg svör við þessum spurningum. Demókrítos frá Abderu (460–370 f. Kr.) hélt því fram að á endanum væri ekkert til nema atóm og tómarúm. Stólar og borð eru þess vegna ekkert nema söfn atóma og söfnin eiga sér ekki sjálfstæða tilvist, óháð atómunum. Þess vegna eru atómin raunverulegri en stólar og borð að mati Demókrítosar.

Platon (427–347 f. Kr.) taldi að heimurinn sem við skynjum væri eins og léleg eftirmynd af svokölluðum frummyndum. Að mati Platons eru skynjanlegir stólar þess vegna ekkert nema eftirlíkingar af frummynd stólsins – stólnum sjálfum – sem er raunverulegri en eftirmyndirnar. Efnisheimurinn er því ekki raunverulegur, að minnsta kosti ekki jafn raunverulegur og frummyndirnar.


Platon hélt því fram að sérhvert fyrirbæri í efnisheiminum, þar á meðal fólk, ætti sér frummynd. Frummyndirnar eru raunverulegar og fullkomnar, eftirmyndir þeirra ónákvæmar og óraunverulegar.

Að lokum má nefna Parmenídes frá Eleu (515–443 f. Kr.) sem færði rök fyrir því að ekkert væri til nema veran sem væri ein og óskipt. Af niðurstöðu sinni dró hann þá ályktun að hreyfing og breyting og allur mismunur væri eintóm blekking; allt er en er ekki að verða neitt.

Deilan um altök

Deilan um altök er gömul innan frumspekinnar. Altök eru altæk hugtök sem standa fyrir almenna eiginleika, svo sem rauður (eða roði), blár eða (blámi), stór (eða stærð) og fallegur (eða fegurð). Vensl eða tengsl, svo sem skyldleikavensl eða orsakarvensl, eru líka altök. En eru þessi altök í einhverjum skilningi til? Hluthyggja um altök er sú kenning að altökin eigi sér tilvist óháð hugmyndum okkar um þau. Frummyndakenning Platons er öðrum þræði hluthyggja um altök. Aristóteles var einnig hluthyggjumaður um altök en hafnaði þeirri hugmynd að altökin væru til óháð hlutunum sjálfum. Þess í stað hélt hann að altökin væru til í hlutunum; hlutur hefur raunverulegan lit; stærð og fegurð eru raunverulegir eiginleikar tiltekinna hluta. Hluthyggja af þessu tagi kallast in rebus hluthyggja um altök.

Á miðöldum varð til nafnhyggja um altök, meðal annars hjá heimspekingnum William af Ockham (1285–1345) og ef til vill líka Pierre Abelard (1079–1142). Hugmyndin hafði raunar komið fram þegar í upphafi 6. aldar hjá Boethiusi (uppi um 475/480–524). Nafnhyggja er sú kenning að altök séu strangt tekið ekki til. Samkvæmt nafnhyggjunni er ekkert til nema einstakir hlutir sem líkjast hver öðrum mismikið. Þegar þeir líkjast nægilega mikið notum við sama orðið eða hugtakið til að vísa til þeirra. Altökin verða þess vegna til eftir á, samkvæmt nafnhyggjunni. Við búum þau til okkur til hægðarauka, til þess að auðvelda okkur að að tala um hlutina. Almennir eiginleikar eiga þess vegna ekkert sameiginlegt nema nöfnin ein. Ockham hafði margvísleg rök fyrir kenningu sinni. Einn hvatinn að kenningunni var krafan um einfaldleika heimspekilegra (og síðar vísindalegra) skýringa. Ockham taldi einmitt, eins og raunar margir á undan honum, að einfaldari kenning, sem gerir ráð fyrir tilvist færri tegunda af hlutum, sé sennilegri en flóknari kenning, sem gerir ráð fyrir tilvist hluta af fleira tagi, ef skýringarmáttur beggja kenninga er jafnmikill. Þessi aðferðafræðilega regla var á 19. öld nefnd rakhnífur Ockhams.


Samkvæmt nafnhyggju flokkum við líka hluti saman (epli, perur, tómatar, kýr o.s.frv.) til hægðarauka en í raun eiga þeir ekkert sameiginlegt nema nafnið.

Nafnhyggjan átti lengi vinsældum að fagna meðal breskra heimspekinga. Thomas Hobbes (1588–1679), John Locke (1632–1704) og George Berkeley (1685–1753) voru til að mynda allir nafnhyggjumenn. Á 20. öld var enn deilt um altök og verufræðilega stöðu þeirra. Wilfrid Sellars (1912–1989) og Willard Van Orman Quine (1908–2000) voru nafnhyggjumenn en Gottlob Frege (1848–1925), George Edward Moore (1873–1958) og Bertrand Russell (1872–1970) voru allir einhvers konar hluthyggjumenn um altök og sennilega er ástralski heimspekingurinn David M. Armstrong (f. 1926) frægasti málsvari hluthyggju um altök á síðari hluta 20. aldar.

Hugspeki: Tvíhyggja og efnishyggja

Einn áhrifamesti hugsuður nýaldar var franski heimspekingurinn René Descartes (1596–1650). Descartes gerði skarpan greinarmun á efni og anda en hvort tveggja taldi hann að væri jafnraunverulegt, andinn væri bara annars konar veruleiki en efni. Þessi hugmynd er síðan til í fjölmörgum útgáfum og nefnist tvíhyggja um efni og anda (eða líkama og sál).

Tvíhyggjan hefur verið gríðarlega áhrifamikil síðan á tímum Descartes en hefur átt undir högg að sækja frá því á 20. öld. Þá urðu hvers kyns efnishyggjukenningar ráðandi. Í grófum dráttum má segja að efnishyggja feli í sér að það sem er til sé efnislegt og allt annað, eins og til að mynda mannshugurinn, orsakist einhvern veginn af efninu og sé jafnvel smættanlegt í efnið. Því ætti að mega gera fullkomna grein fyrir mannshuganum á grundvelli efnislegra skýringa. Efnishyggjukenningar eru einhyggjukenningar því samkvæmt þeim er það sem er til allt af einni sort, það er efnislegt.

Andúð á frumspeki

Skoski heimspekingurinn David Hume (1711-1776) sagði að frumspekilegar staðhæfingar á borð við „Altök eiga sér sjálfstæða tilvist” væru ávallt ósannanlegar og þess vegna til einskis að velta þeim fyrir sér; frumspekin byrgði manni einungis sýn. Snemma á 20. öld varð svo tíska meðal margra heimspekinga að líta niður á frumspeki. Ef til vill gengu rökfræðilegir raunhyggjumenn hvað lengst þar sem þeir héldu fram að frumspekilegar staðhæfingar væru einfaldlega merkingarlausar þar sem ekki væri með nokkru móti hægt að sannreyna þær, hvorki með rökleiðslu né raunprófunum.

Vinsældir rökfræðilegu raunhyggjunnar dvínuðu fljótt en andúðin á frumspekinni lifði eftir hjá mörgum heimspekingum, til dæmis í vísindalegri náttúruhyggju W. V. O. Quines. Quine taldi bestu leiðin til að svara spurningunni um hvað sé til vera að finna út hvaða verufræðilegu skuldbindingar fylgja nútímavísindum. Þessi andúð á frumspeki er ekki lengur í tísku meðal heimspekinga eins og hún var um tíma, enda þótt auðvitað hafi ekki allir heimspekingar áhuga á frumspekilegum spurningum. Þó má ef til vill segja að frumspeki hafi aftur komist í tísku seint á sjöunda áratugnum og snemma á þeim áttunda, ekki síst vegna Sauls Kripkes (1940– ) sem setti fram kenningu um eðlishyggju og náttúrulegar tegundir.

Tengdar greinar

Myndir

...