Sólin Sólin Rís 04:58 • sest 21:54 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 05:41 • Sest 09:57 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:56 • Síðdegis: 24:37 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:49 • Síðdegis: 17:59 í Reykjavík

Hvað er vinátta?

Geir Þ. Þórarinsson

Vinátta er þegar tvær manneskjur unna hvor annarri eins og sjálfri sér og láta sig hag hinnar varða hennar sjálfrar vegna eða eins og forngríski heimspekingurinn Aristóteles komst að orði: "Vinurinn er annað sjálf" (Siðfræði Níkómakkosar [= SN] IX.4, 1166a31. Allar þýðingar eru Svavars Hrafns Svarassonar). Aristóteles áleit mikilvægt að vinirnir unni hvor öðrum því hann taldi að vinátta gæti ekki verið fyrir hendi ef einungis annar ann hinum. Þessu neitar Sókrates í samræðunni Lýsis eftir Platon.

Samkvæmt því sem fram kemur í ritinu Minnisverð samtöl Sókratesar eftir Xenofon, kunningja og lærisvein Sókratesar, taldi Sókrates að vinátta væri ætíð nytsemisvinátta, það er að segja að gagnið sem maður hefði af vini sínum væri grundvöllur vináttunnar. Platon, sem var einnig lærisveinn Sókratesar, dregur upp aðra mynd af kennara sínum en Xenofon, en í samræðunni Lýsis, sem fjallar um vináttuna, heldur Sókrates því samt sem áður fram að maður elski vin sinn vegna nytsemi hans. Nytsemin reynist reyndar vera fólgin í þekkingu sem vinurinn býr yfir. Samræðunni lýkur án þess að endanlegt svar hafi fengist við spurningunni hvað vinátta sé.

Aristóteles taldi að einhugur og sameiginlegt gildismat væri forsenda vináttunnar og raunar undirstaða réttláts samfélags því „[v]inátta virðist halda saman borgríkjum“ (SN VIII.1, 1155a22-23). Fornmenn skildu reyndar vináttuhugtakið (filia) mun víðara skilningi en við gerum. Stundum líkist gríska hugtakið filia fremur hugtökunum kærleik og bróðerni en vináttu. Í ákveðnum skilningi eru allir samborgarar manns vinir hans. En vinátta er vitaskuld einnig til í þrengri skilningi.


Mósaíkmynd af Aristótelesi.

Í riti sínu Siðfræði Níkomakkosar greinir Aristóteles á milli nytsemisvináttu, ánægjuvináttu og sannrar vináttu. Nytsemisvinátta er velvild í garð annars sem byggist á nytsemi vinarins. Hún beinist þess vegna að manns eigin heill en ekki að heill vinarins hans sjálfs vegna. Ánægjuvinátta er vinátta sem byggir á ánægjunni sem við höfum af samvist með vininum. Aristóteles segir um þessar gerðir vináttu að „[á]stúðin beinist ekki að þeim sem er unnað að svo miklu leyti sem honum er unnað heldur að svo miklu leyti sem hann er nytsamlegur eða ánægjulegur“ (SN VIII.3, 1156a14-16). Aristóteles telur að ánægjuvinátta sé líkari sannri vináttu en nytsemisvinátta. En bæði ánægjuvinátta og nytsemisvinátta eru ótraustar og rofna auðveldlega.

Sönn vinátta segir Aristóteles að sé "vinátta góðra manna sem eru gæddir sömu dyggðum, því þeir óska hver öðrum heilla af því þeir eru góðir" (SN VIII.3, 1156b7-8). Aristóteles segir að vinátta af þessu tagi endist "svo lengi sem góðleiki þeirra og dyggð endast" (SN VIII.3, 1156b11-12). Sönn vinátta er einnig ánægjuleg því góðir menn eru ánægjulegir ekki síst hvor í augum annars. Enn fremur er sönn vinátta nytsamleg því góðir menn eru nytsamlegir hvor öðrum. Samt sem áður byggir sönn vinátta ekki á nytsemi eða ánægju heldur á því að góðir menn unni hvor öðrum af því að þeir eru góðir menn. Vinur er sá sem vill vini sínum það sem er gott hans sjálfs vegna. Þetta einkennir einnig samband góðs manns við sjálfan sig. Þess vegna telur Aristóteles að öll vinátta byggi á ást sem maður ber til sjálfs sín enda tengist hann vini sínum eins og sjálfum sér því vinurinn er annað sjálf.

Stóuspekingar héldu því seinna fram að vinátta gæti einungis verið til meðal góðra manna, það er að segja dygðugra manna. Þeir töldu að vináttan væri nauðsynleg forsenda hamingjunnar því vináttan er dygð og einungis dygðugur maður er góður og hamingjusamur. Þeir sem ekki eru dygðugir eru vondir og vesælir og geta ekki átt vini í raun. Kenning stóumanna um vináttuna var undir miklum áhrifum frá Aristótelesi en stóumenn voru þó afdráttarlausari en Aristóteles, sem taldi ekki ómögulegt að vondur maður ætti sér vini; hann gæti jafnvel átt góða menn að vinum en sú vinátta væri að vísu ekki sönn vinátta heldur annað hvort nytsemisvinátta eða ánægjuvinátta. En stóumenn höfnuðu þeim flokkum vináttu.

Aftur á móti taldi heimspekingurinn Epikúros að vinátta væri á endanum ánægjuvinátta af því að hún byggði á ánægjunni sem af henni hlytist. Og vináttan er mikilvægur þáttur í lífshamingjunni sem Epikúros taldi að einmitt væri fólgin í ánægjulegu líferni. Hann hélt þó ekki að munaður og taumlausar nautnir færðu okkur hamingju því hann taldi að hámark ánægjunnar væri sársaukaleysi og auk þess taldi hann að andleg ánægja væri æðri líkamlegri ánægju. Epikúros boðaði þess vegna hófsemi en ekki taumleysi. En samneyti við vini hjálpar okkur að öðlast sálarró og er líka gagnlegt til þess að forða okkur sársauka því vinir hjálpast að, allir þurfa einhvern tímann á vinum að halda. En ánægjan sem við veitum vinum okkar er jafn mikils virði og okkar eigin ánægja.

Epikúros taldi því að okkar eigin hagsmunir væru undirstaða vináttunnar en hann vissi samt sem áður að það er sælla að gefa en þiggja og því er vináttan ekki einungis ánægjuleg af því að vinurinn veitir okkur ánægju heldur einnig af því að hún gefur okkur tækifæri á að veita vininum ánægju. Og það er einnig ánægjulegt út af fyrir sig. Þess vegna er vináttan líka eftirsóknarverð í sjálfri sér þótt Epikúros telji að orsökin sé á endanum ánægja.

Frekari fróðleikur:
  • Aristóteles, Siðfræði Níkomakkosar. Svavar Hrafn Svavarsson (þýð.) (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélags, 1995). Aristóteles helgar 8. og 9. bók umfjöllun um vináttuna.
  • Cicero, Um vináttuna. Margrét Oddsdóttir (þýð.) (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélags, 1993).

Tengill:
  • Helm, Bennet, Friendship, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2005).

Mynd:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

9.11.2007

Spyrjandi

Steinar Ólafsson, f. 1988

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað er vinátta?“ Vísindavefurinn, 9. nóvember 2007. Sótt 1. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6895.

Geir Þ. Þórarinsson. (2007, 9. nóvember). Hvað er vinátta? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6895

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað er vinátta?“ Vísindavefurinn. 9. nóv. 2007. Vefsíða. 1. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6895>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er vinátta?
Vinátta er þegar tvær manneskjur unna hvor annarri eins og sjálfri sér og láta sig hag hinnar varða hennar sjálfrar vegna eða eins og forngríski heimspekingurinn Aristóteles komst að orði: "Vinurinn er annað sjálf" (Siðfræði Níkómakkosar [= SN] IX.4, 1166a31. Allar þýðingar eru Svavars Hrafns Svarassonar). Aristóteles áleit mikilvægt að vinirnir unni hvor öðrum því hann taldi að vinátta gæti ekki verið fyrir hendi ef einungis annar ann hinum. Þessu neitar Sókrates í samræðunni Lýsis eftir Platon.

Samkvæmt því sem fram kemur í ritinu Minnisverð samtöl Sókratesar eftir Xenofon, kunningja og lærisvein Sókratesar, taldi Sókrates að vinátta væri ætíð nytsemisvinátta, það er að segja að gagnið sem maður hefði af vini sínum væri grundvöllur vináttunnar. Platon, sem var einnig lærisveinn Sókratesar, dregur upp aðra mynd af kennara sínum en Xenofon, en í samræðunni Lýsis, sem fjallar um vináttuna, heldur Sókrates því samt sem áður fram að maður elski vin sinn vegna nytsemi hans. Nytsemin reynist reyndar vera fólgin í þekkingu sem vinurinn býr yfir. Samræðunni lýkur án þess að endanlegt svar hafi fengist við spurningunni hvað vinátta sé.

Aristóteles taldi að einhugur og sameiginlegt gildismat væri forsenda vináttunnar og raunar undirstaða réttláts samfélags því „[v]inátta virðist halda saman borgríkjum“ (SN VIII.1, 1155a22-23). Fornmenn skildu reyndar vináttuhugtakið (filia) mun víðara skilningi en við gerum. Stundum líkist gríska hugtakið filia fremur hugtökunum kærleik og bróðerni en vináttu. Í ákveðnum skilningi eru allir samborgarar manns vinir hans. En vinátta er vitaskuld einnig til í þrengri skilningi.


Mósaíkmynd af Aristótelesi.

Í riti sínu Siðfræði Níkomakkosar greinir Aristóteles á milli nytsemisvináttu, ánægjuvináttu og sannrar vináttu. Nytsemisvinátta er velvild í garð annars sem byggist á nytsemi vinarins. Hún beinist þess vegna að manns eigin heill en ekki að heill vinarins hans sjálfs vegna. Ánægjuvinátta er vinátta sem byggir á ánægjunni sem við höfum af samvist með vininum. Aristóteles segir um þessar gerðir vináttu að „[á]stúðin beinist ekki að þeim sem er unnað að svo miklu leyti sem honum er unnað heldur að svo miklu leyti sem hann er nytsamlegur eða ánægjulegur“ (SN VIII.3, 1156a14-16). Aristóteles telur að ánægjuvinátta sé líkari sannri vináttu en nytsemisvinátta. En bæði ánægjuvinátta og nytsemisvinátta eru ótraustar og rofna auðveldlega.

Sönn vinátta segir Aristóteles að sé "vinátta góðra manna sem eru gæddir sömu dyggðum, því þeir óska hver öðrum heilla af því þeir eru góðir" (SN VIII.3, 1156b7-8). Aristóteles segir að vinátta af þessu tagi endist "svo lengi sem góðleiki þeirra og dyggð endast" (SN VIII.3, 1156b11-12). Sönn vinátta er einnig ánægjuleg því góðir menn eru ánægjulegir ekki síst hvor í augum annars. Enn fremur er sönn vinátta nytsamleg því góðir menn eru nytsamlegir hvor öðrum. Samt sem áður byggir sönn vinátta ekki á nytsemi eða ánægju heldur á því að góðir menn unni hvor öðrum af því að þeir eru góðir menn. Vinur er sá sem vill vini sínum það sem er gott hans sjálfs vegna. Þetta einkennir einnig samband góðs manns við sjálfan sig. Þess vegna telur Aristóteles að öll vinátta byggi á ást sem maður ber til sjálfs sín enda tengist hann vini sínum eins og sjálfum sér því vinurinn er annað sjálf.

Stóuspekingar héldu því seinna fram að vinátta gæti einungis verið til meðal góðra manna, það er að segja dygðugra manna. Þeir töldu að vináttan væri nauðsynleg forsenda hamingjunnar því vináttan er dygð og einungis dygðugur maður er góður og hamingjusamur. Þeir sem ekki eru dygðugir eru vondir og vesælir og geta ekki átt vini í raun. Kenning stóumanna um vináttuna var undir miklum áhrifum frá Aristótelesi en stóumenn voru þó afdráttarlausari en Aristóteles, sem taldi ekki ómögulegt að vondur maður ætti sér vini; hann gæti jafnvel átt góða menn að vinum en sú vinátta væri að vísu ekki sönn vinátta heldur annað hvort nytsemisvinátta eða ánægjuvinátta. En stóumenn höfnuðu þeim flokkum vináttu.

Aftur á móti taldi heimspekingurinn Epikúros að vinátta væri á endanum ánægjuvinátta af því að hún byggði á ánægjunni sem af henni hlytist. Og vináttan er mikilvægur þáttur í lífshamingjunni sem Epikúros taldi að einmitt væri fólgin í ánægjulegu líferni. Hann hélt þó ekki að munaður og taumlausar nautnir færðu okkur hamingju því hann taldi að hámark ánægjunnar væri sársaukaleysi og auk þess taldi hann að andleg ánægja væri æðri líkamlegri ánægju. Epikúros boðaði þess vegna hófsemi en ekki taumleysi. En samneyti við vini hjálpar okkur að öðlast sálarró og er líka gagnlegt til þess að forða okkur sársauka því vinir hjálpast að, allir þurfa einhvern tímann á vinum að halda. En ánægjan sem við veitum vinum okkar er jafn mikils virði og okkar eigin ánægja.

Epikúros taldi því að okkar eigin hagsmunir væru undirstaða vináttunnar en hann vissi samt sem áður að það er sælla að gefa en þiggja og því er vináttan ekki einungis ánægjuleg af því að vinurinn veitir okkur ánægju heldur einnig af því að hún gefur okkur tækifæri á að veita vininum ánægju. Og það er einnig ánægjulegt út af fyrir sig. Þess vegna er vináttan líka eftirsóknarverð í sjálfri sér þótt Epikúros telji að orsökin sé á endanum ánægja.

Frekari fróðleikur:
  • Aristóteles, Siðfræði Níkomakkosar. Svavar Hrafn Svavarsson (þýð.) (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélags, 1995). Aristóteles helgar 8. og 9. bók umfjöllun um vináttuna.
  • Cicero, Um vináttuna. Margrét Oddsdóttir (þýð.) (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélags, 1993).

Tengill:
  • Helm, Bennet, Friendship, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2005).

Mynd: