Sólin Sólin Rís 05:12 • sest 21:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:09 • Síðdegis: 20:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:12 • Síðdegis: 14:14 í Reykjavík

Hvers konar bókmenntastefna er klassisismi?

Sveinn Yngvi Egilsson

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:

Hvaða bókmenntastefna tíðkaðist á tímum upplýsingarinnar?

Upplýsingin var ekki eiginleg bókmenntastefna þó að áherslumál hennar birtust með ýmsum hætti í skáldskapnum. Mikið var lagt upp úr skynsemi og þekkingarleit en bókmenntir áttu líka að vekja ánægju. Svokallaður klassisismi hafði einkennt evrópskar og ekki síst franskar bókmenntir á 17. öld. Var þá litið aftur til klassískrar fornaldar Grikkja og Rómverja og endurvaktar hugmyndir um fagurfræði sem lesa mátti úr þeim bókmenntatextum sem varðveittir voru frá þessu söguskeiði. Franskir rithöfundar og leikskáld lögðu sig eftir hugmyndum Aristótelesar (384-322 f.Kr.) um skáldskaparlistina og miðuðu við einingarnar þrjár: að verk gerðist innan sólarhrings, að það gerðist á einum stað og að engin atriði þess vikju frá aðalefninu. Skáldverk áttu að einkennast af skynsemi, rökvísi og skýrleika, þar sem lýst var almennum manngerðum fremur en sérstæðum einstaklingum. Stefnt var að einfaldleika og góðu jafnvægi. réttum hlutföllum og því sem kallaðist decorum: að nota form sem hæfði efninu. Stíll og bragarháttur áttu að endurspegla það sem um var fjallað og málfar persónu að vera í samræmi við samfélagslegan bakgrunn hennar.

Á 17. öld lögðu franskir rithöfundar og leikskáld sig eftir hugmyndum Aristótelesar um skáldskaparlistina og miðuðu við einingarnar þrjár: að verk gerðist innan sólarhrings, að það gerðist á einum stað og að engin atriði þess vikju frá aðalefninu. Myndin er úr uppfærslu á leikriti eftir franska leikskáldið Jean Racine (1639-1699) frá 1874.

Klassisismi var áfram áberandi í Evrópu á 18. öld og viðmiðanir hans samræmdust kröfum upplýsingarmanna um skynsamlega og skipulega meðferð efnisins. Bókmenntirnar höfðu félagslegu hlutverki að gegna. Að hætti rómverskra skálda á tímum Ágústusar keisara (63 f.Kr.-14 e.Kr.) beittu upplýsingarhöfundar háði og notuðu háðsádeilu eða satíru til að deila á það sem þeim fannst miður fara í samtímanum. Að sama skapi var blandað saman gamni og alvöru eða hinu gagnlega og ánægjulega (lat. miscuit utile dulci) eins og skáldið Hóratius (65-8 f.Kr.) hafði orðað það i ljóði sínu um skáldskaparlistina (Ars poetica, um 10-8 f.Kr.). Vísbendingar um þessa listrænu aðferð á upplýsingartímanum er að finna í bókarheitum og í niðurskiptingu efnis innan bóka. Magnús Stephensen notar til dæmis bókarheiti eins og Margvíslegt gaman og alvara (1798) og Eggert Ólafsson skiptir ljóðum sínum í flokka eftir blöndu þeirra af gamni og alvöru.

Klassisiminn var ekki eina bókmenntastefnan sem blandaðist upplýsingunni. Á síðari hluta 18. aldar skaraðist upplýsingin töluvert við svokallaða forrómantík eða tilfinningastefnu. Forrómantíkin varð til í eins konar andstöðu við formfestu klassisimans og þar var lögð áhersla á tilfinningar og ímyndunarafl sem uppsprettu hins sanna skáldskapar. Svissnesk-franski heimspekingurinn Jean-Jacques Rousseau (1712-1778) hafði hvatt fólk til að leita til upprunans og náttúrunnar enda taldi hann að siðmenningin hefði bælandi áhrif á einstaklinginn og tilfinningalíf hans. Þýsku skáldin Friedrich Schiller (1759-1805) og Johann Wolfgang von Goethe (1749-1832), sem meðal annars eru kennd við Sturm und Drang eða tilfinningaólgu, skrifuðu verk sín í þessum anda og tóku afstöðu gegn kaldri rökhyggju upplýsingarinnar. Hið sama má segja um náttúruljóð ýmissa annarra skálda 18. aldar sem voru undanfarar rómantískra skálda á 19. öld. Þannig koma saman á þessum tíma ólíkar stefnur sem birtast jafnvel í verkum einstakra skálda eins og ljóðagerð Eggerts Ólafssonar sem var í senn upplýsingarmaður og forrómantíker. Í formála sem Eggert skrifaði fyrir ljóðum sínum vitnar hann mikið í rómversk skáld eins og Horatius og Virgil og heldur fram því klassíska viðhorfi að skáldskaparlistin sé ein grein mælskulistar: „Skáldskaparkonstin er ei annað en sú efsta trappa mælskukonstarinnar, og tilgangur og nytsemi skálda og mælindismanna á að vera allur hinn sami, sem sé: að hræra mannleg hjörtu og draga þau til samsýnis sér" (Eggert Ólafsson, 2). Klassisismi Eggerts helst í hendur við tilraunir hans til að vekja tilfinningar landsmanna og fá þá til að sjá fegurðina í náttúrunni.

Mynd:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.

Höfundur

Sveinn Yngvi Egilsson

prófessor í íslenskum bókmenntum

Útgáfudagur

8.2.2023

Spyrjandi

Fjóla Þórisdóttir

Tilvísun

Sveinn Yngvi Egilsson. „Hvers konar bókmenntastefna er klassisismi?“ Vísindavefurinn, 8. febrúar 2023. Sótt 27. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=81084.

Sveinn Yngvi Egilsson. (2023, 8. febrúar). Hvers konar bókmenntastefna er klassisismi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=81084

Sveinn Yngvi Egilsson. „Hvers konar bókmenntastefna er klassisismi?“ Vísindavefurinn. 8. feb. 2023. Vefsíða. 27. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=81084>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers konar bókmenntastefna er klassisismi?
Upprunalega spurningin hljóðaði svona:

Hvaða bókmenntastefna tíðkaðist á tímum upplýsingarinnar?

Upplýsingin var ekki eiginleg bókmenntastefna þó að áherslumál hennar birtust með ýmsum hætti í skáldskapnum. Mikið var lagt upp úr skynsemi og þekkingarleit en bókmenntir áttu líka að vekja ánægju. Svokallaður klassisismi hafði einkennt evrópskar og ekki síst franskar bókmenntir á 17. öld. Var þá litið aftur til klassískrar fornaldar Grikkja og Rómverja og endurvaktar hugmyndir um fagurfræði sem lesa mátti úr þeim bókmenntatextum sem varðveittir voru frá þessu söguskeiði. Franskir rithöfundar og leikskáld lögðu sig eftir hugmyndum Aristótelesar (384-322 f.Kr.) um skáldskaparlistina og miðuðu við einingarnar þrjár: að verk gerðist innan sólarhrings, að það gerðist á einum stað og að engin atriði þess vikju frá aðalefninu. Skáldverk áttu að einkennast af skynsemi, rökvísi og skýrleika, þar sem lýst var almennum manngerðum fremur en sérstæðum einstaklingum. Stefnt var að einfaldleika og góðu jafnvægi. réttum hlutföllum og því sem kallaðist decorum: að nota form sem hæfði efninu. Stíll og bragarháttur áttu að endurspegla það sem um var fjallað og málfar persónu að vera í samræmi við samfélagslegan bakgrunn hennar.

Á 17. öld lögðu franskir rithöfundar og leikskáld sig eftir hugmyndum Aristótelesar um skáldskaparlistina og miðuðu við einingarnar þrjár: að verk gerðist innan sólarhrings, að það gerðist á einum stað og að engin atriði þess vikju frá aðalefninu. Myndin er úr uppfærslu á leikriti eftir franska leikskáldið Jean Racine (1639-1699) frá 1874.

Klassisismi var áfram áberandi í Evrópu á 18. öld og viðmiðanir hans samræmdust kröfum upplýsingarmanna um skynsamlega og skipulega meðferð efnisins. Bókmenntirnar höfðu félagslegu hlutverki að gegna. Að hætti rómverskra skálda á tímum Ágústusar keisara (63 f.Kr.-14 e.Kr.) beittu upplýsingarhöfundar háði og notuðu háðsádeilu eða satíru til að deila á það sem þeim fannst miður fara í samtímanum. Að sama skapi var blandað saman gamni og alvöru eða hinu gagnlega og ánægjulega (lat. miscuit utile dulci) eins og skáldið Hóratius (65-8 f.Kr.) hafði orðað það i ljóði sínu um skáldskaparlistina (Ars poetica, um 10-8 f.Kr.). Vísbendingar um þessa listrænu aðferð á upplýsingartímanum er að finna í bókarheitum og í niðurskiptingu efnis innan bóka. Magnús Stephensen notar til dæmis bókarheiti eins og Margvíslegt gaman og alvara (1798) og Eggert Ólafsson skiptir ljóðum sínum í flokka eftir blöndu þeirra af gamni og alvöru.

Klassisiminn var ekki eina bókmenntastefnan sem blandaðist upplýsingunni. Á síðari hluta 18. aldar skaraðist upplýsingin töluvert við svokallaða forrómantík eða tilfinningastefnu. Forrómantíkin varð til í eins konar andstöðu við formfestu klassisimans og þar var lögð áhersla á tilfinningar og ímyndunarafl sem uppsprettu hins sanna skáldskapar. Svissnesk-franski heimspekingurinn Jean-Jacques Rousseau (1712-1778) hafði hvatt fólk til að leita til upprunans og náttúrunnar enda taldi hann að siðmenningin hefði bælandi áhrif á einstaklinginn og tilfinningalíf hans. Þýsku skáldin Friedrich Schiller (1759-1805) og Johann Wolfgang von Goethe (1749-1832), sem meðal annars eru kennd við Sturm und Drang eða tilfinningaólgu, skrifuðu verk sín í þessum anda og tóku afstöðu gegn kaldri rökhyggju upplýsingarinnar. Hið sama má segja um náttúruljóð ýmissa annarra skálda 18. aldar sem voru undanfarar rómantískra skálda á 19. öld. Þannig koma saman á þessum tíma ólíkar stefnur sem birtast jafnvel í verkum einstakra skálda eins og ljóðagerð Eggerts Ólafssonar sem var í senn upplýsingarmaður og forrómantíker. Í formála sem Eggert skrifaði fyrir ljóðum sínum vitnar hann mikið í rómversk skáld eins og Horatius og Virgil og heldur fram því klassíska viðhorfi að skáldskaparlistin sé ein grein mælskulistar: „Skáldskaparkonstin er ei annað en sú efsta trappa mælskukonstarinnar, og tilgangur og nytsemi skálda og mælindismanna á að vera allur hinn sami, sem sé: að hræra mannleg hjörtu og draga þau til samsýnis sér" (Eggert Ólafsson, 2). Klassisismi Eggerts helst í hendur við tilraunir hans til að vekja tilfinningar landsmanna og fá þá til að sjá fegurðina í náttúrunni.

Mynd:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum. ...