Eiturlyf hafa verið til frá alda öðli en á undanförnum áratugum hafa sterkari, og jafnvel mannskæð efni verið þróuð og hefur það kallað á hertari löggjöf um fíkniefni almennt.
Á Íslandi er skýr og skilmerkileg löggjöf varðandi eiturlyf. Í lögum númer 65/1974 um ávana- og fíkniefni er í 2. grein tekið fram að varsla og meðferð ávana- og fíkniefna (sem talin eru upp í 6. gr. samnefndra laga) sé óheimil á íslensku forráðasvæði. Í 4. málsgrein sömu greinar er tekið fram að í orðunum 'varsla' og 'meðferð' sé átt við innflutning, útflutning, sölu, kaup, skipti, afhendingu, móttöku og framleiðslu eða tilbúning. Þó getur ráðherra veitt undanþágur frá lögum um meðferð ávana- og fíkniefna en slíkar undanþágur eru ávallt afturtækar.
Ef ný tegund af ávana- eða fíkniefni kæmi fram á sjónarsviðið má telja víst að ný lög eða reglugerð yrði gefin út til að hefta útbreiðslu þeirra (sbr. reglugerð nr. 82/1998). Hinsvegar eru efnin ekki ólögleg án slíkra laga og ekki er hægt að refsa mönnum fyrir eitthvað sem ekki er ólöglegt þó svo að það verði kannski gert ólöglegt á morgun. Það er grundvallaratriði í refsilöggjöfinni; hún er ekki afturvirk.
Lög númer 65 frá 1974 gefa það einnig til kynna að ávana- og fíkniefni eins og hass, kókaín, meskalín og svo framvegis skulu skilgreind sem lyf og þar með falli þau undir meðferð venjulegra lyfja sem fást úti í apóteki. Þannig má draga þá ályktun að þessi efni yrðu áfram talin til lyfja og eingöngu seld í lyfjabúðum ef einhver þeirra yrðu einhvern tímann leyfð.
Við höfum enga endanlega skilgreiningu á því hvað telst vera fíkniefni. Sumir halda því fram að drykkir eins og kaffi, áfengi eða jafnvel coca-cola gosdrykkurinn hefðu verið meðhöndlaðir sem ávana- og fíkniefni ef þeir hefðu verið fundnir upp á 20. öldinni. Um áfengi er það að segja að það var ólöglegt á Íslandi á fyrri hluta 20. aldarinnar.
Myndin er af e-töflum sem bandaríska tollþjónustan hefur lagt hald á: U.S. Customs Service