Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hver var fyrsta skáldsagan?

Torfi H. Tulinius

Þessi spurning er erfið og verður svarið því óhjákvæmilega bæði flókið og ófullkomið. Listina að segja sögu hefur mannkynið stundað frá örófi alda en hvenær tekur þessi list á sér það form sem við köllum skáldsögu? Þetta veltur auðvitað á því hvernig við skilgreinum skáldsöguna.

Ef við skilgreinum hana sem frásögn af fólki sem er líkara venjulegu fólki en persónum úr epískum hetjuljóðum, má segja að fyrstu varðveittu skáldsögurnar séu frásagnir frá 1. öld eftir Krist, sem voru samdar á latínu og lýsa lífi og háttum fremur lágsettra einstaklinga í samfélaginu, annars vegar Satýríkon eftir Petróníus (íslensk þýðing eftir Erling E. Halldórsson frá 1997) og hins vegar Gullasninn eftir Apúleius). Þessar sögur eru frábrugðnar eldri frásagnarbókmenntum (epískum hetjuljóðum á borð við Kviður Hómers) að því leyti að viðfangsefnið er lágt og hversdaglegt og formið er óbundið mál en ekki bundið.

Þrátt fyrir þetta er vandasamt að skilgreina þessar sögur sem skáldsögur, í fyrsta lagi vegna þess að höfundar þeirra virðast ekki hafa vitað af því að þeir væru að brjóta blað í þróun frásagnarlistarinnar, í öðru lagi vegna þess að erfitt er að greina þar þann formvilja sem einkennir skáldsöguna á síðari stigum, og í þriðja lagi vegna þess að spurningar um stöðu einstaklingsins gagnvart samfélaginu og tilverunni eru ekki eins áleitnar og síðar verða.

Með kristnitökunni og síðar með falli vest-rómverska heimsveldisins skapast ákveðið rof í þróun vestrænna bókmennta. Bókmenntir á latínu staðna að mörgu leyti vegna þess að aðeins fámenn stétt klerka skilur þær en frásagnarlist almennings er ekki varðveitt í rituðu formi. Ný skil á milli epískra hetjuljóða og annars konar frásagnarlistar verða ekki fyrr en fram koma á frönsku málsvæði söguljóð um riddara um miðbik 12. aldar. Þó að frásagnir þessar fjalli um hetjur sem eru býsna fjarri því að vera hverdagslegir menn, eru þær þó nær hversdagslífinu en hetjukvæði frá sama tíma.

Þó að söguljóðin séu í bundnu máli hafa þau samt mörg einkenni prósafrásagnarinnar, það er óbundins máls. Þau voru kölluð "roman" og þar sem þetta orð er enn í dag notað um skáldsögur í mörgum evrópskum tungumálum, bendir það til þess að í þeim megi sjá ákveðið upphaf að skáldsagnaritun í Evrópu. Það sem styður þessa skoðun er í fyrsta lagi að höfundar þessara ljóða vissu mjög vel af því að þeir væru að búa til listaverk gædd merkingu, en ekki bara að greina frá atburðum, og í öðru lagi að þessar frásagnir fjalla öðru fremur um hlutskipti einstaklingsins og viðleitni hans til að finna lífi sínu merkingu í flóknum og dularfullum heimi.

Riddaraljóð þessi náðu geysilegri útbreiðslu um gervalla Evrópu og segja má að 13. öldin sé öld geysilegrar gerjunar í frásagnarlist. Frásagnir af riddurum brjótast út úr viðjum bundna málsins og æ fleiri þjóðfélagshópar koma við sögu. Auk þess nær þessi bókmenntabylting til æ fleiri landa í Vestur Evrópu. Þróun sagnaritunar á Íslandi á 13. og 14. öld ber að skilja í þessu ljósi.



Pablo Picasso

"Don Quixote"

Segja má að riddarasagan sé smám saman að breytast í skáldsögu allar síðmiðaldir en margir vilja líta á þrjú bókmenntaverk sem mikilvæga áfanga á leiðinni:

  • Il Decamerone eða Tídægra eftir Boccaccio, sem var gefin út árið 1999 í íslenskri þýðingu Erlings E. Halldórssonar. Þetta er ítalskt verk frá 14. öld, safn stuttra frásagna sem draga til samans upp mynd af samfélagi og einstaklingunum í því.
  • Gargantúi og Pantagrúll eftir Rabelais, sem er einnig til í þýðingu Erlings, frá 1997. Franskar sögur frá fyrri hluta 16. aldar sem stæla riddarasögur en gera grín að þeim, um leið og þær fjalla um allt það sem menn deildu um og hugsuðu á endurreisnaröld.
  • Don Kíkóti eftir Miguel de Cervantes, sem er til á íslensku í þýðingu Guðbergs Bergssonar. Spænskt verk frá aldamótunum 1600 um aðalsmann sem hefur lesið yfir sig af riddarasögum og heldur út í heim í þeirri trú að þar bíði hans ævintýri á borð við þau sem einvörðungu er að finna á síðum bóka. Með þessu verki má segja að evrópsk menning sé virkilega komin inn í öld skáldsögunnar því að hún fjallar ekki einvörðungu um muninn á heiminum eins og hann er og ímyndunarheimum skáldskaparins heldur fyrst og fremst um það hlutskipti allra einstaklinga að heimurinn er í raun að verulegu leyti frábrugðinn þeirri mynd sem þeir gera sér af honum.

Lesefni:

Milan Kundera: List skáldsögunnar, Mál og menning, Reykjavík 2000.

Torfi H. Tulinius: "Sjálfstætt fólk og list skáldsögunnar," Lesbók Mbl. 4. desember 1999.

Höfundur

Torfi H. Tulinius

prófessor í íslenskum miðaldafræðum við HÍ

Útgáfudagur

8.3.2000

Spyrjandi

Stefán Smári

Efnisorð

Tilvísun

Torfi H. Tulinius. „Hver var fyrsta skáldsagan?“ Vísindavefurinn, 8. mars 2000. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=198.

Torfi H. Tulinius. (2000, 8. mars). Hver var fyrsta skáldsagan? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=198

Torfi H. Tulinius. „Hver var fyrsta skáldsagan?“ Vísindavefurinn. 8. mar. 2000. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=198>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var fyrsta skáldsagan?
Þessi spurning er erfið og verður svarið því óhjákvæmilega bæði flókið og ófullkomið. Listina að segja sögu hefur mannkynið stundað frá örófi alda en hvenær tekur þessi list á sér það form sem við köllum skáldsögu? Þetta veltur auðvitað á því hvernig við skilgreinum skáldsöguna.

Ef við skilgreinum hana sem frásögn af fólki sem er líkara venjulegu fólki en persónum úr epískum hetjuljóðum, má segja að fyrstu varðveittu skáldsögurnar séu frásagnir frá 1. öld eftir Krist, sem voru samdar á latínu og lýsa lífi og háttum fremur lágsettra einstaklinga í samfélaginu, annars vegar Satýríkon eftir Petróníus (íslensk þýðing eftir Erling E. Halldórsson frá 1997) og hins vegar Gullasninn eftir Apúleius). Þessar sögur eru frábrugðnar eldri frásagnarbókmenntum (epískum hetjuljóðum á borð við Kviður Hómers) að því leyti að viðfangsefnið er lágt og hversdaglegt og formið er óbundið mál en ekki bundið.

Þrátt fyrir þetta er vandasamt að skilgreina þessar sögur sem skáldsögur, í fyrsta lagi vegna þess að höfundar þeirra virðast ekki hafa vitað af því að þeir væru að brjóta blað í þróun frásagnarlistarinnar, í öðru lagi vegna þess að erfitt er að greina þar þann formvilja sem einkennir skáldsöguna á síðari stigum, og í þriðja lagi vegna þess að spurningar um stöðu einstaklingsins gagnvart samfélaginu og tilverunni eru ekki eins áleitnar og síðar verða.

Með kristnitökunni og síðar með falli vest-rómverska heimsveldisins skapast ákveðið rof í þróun vestrænna bókmennta. Bókmenntir á latínu staðna að mörgu leyti vegna þess að aðeins fámenn stétt klerka skilur þær en frásagnarlist almennings er ekki varðveitt í rituðu formi. Ný skil á milli epískra hetjuljóða og annars konar frásagnarlistar verða ekki fyrr en fram koma á frönsku málsvæði söguljóð um riddara um miðbik 12. aldar. Þó að frásagnir þessar fjalli um hetjur sem eru býsna fjarri því að vera hverdagslegir menn, eru þær þó nær hversdagslífinu en hetjukvæði frá sama tíma.

Þó að söguljóðin séu í bundnu máli hafa þau samt mörg einkenni prósafrásagnarinnar, það er óbundins máls. Þau voru kölluð "roman" og þar sem þetta orð er enn í dag notað um skáldsögur í mörgum evrópskum tungumálum, bendir það til þess að í þeim megi sjá ákveðið upphaf að skáldsagnaritun í Evrópu. Það sem styður þessa skoðun er í fyrsta lagi að höfundar þessara ljóða vissu mjög vel af því að þeir væru að búa til listaverk gædd merkingu, en ekki bara að greina frá atburðum, og í öðru lagi að þessar frásagnir fjalla öðru fremur um hlutskipti einstaklingsins og viðleitni hans til að finna lífi sínu merkingu í flóknum og dularfullum heimi.

Riddaraljóð þessi náðu geysilegri útbreiðslu um gervalla Evrópu og segja má að 13. öldin sé öld geysilegrar gerjunar í frásagnarlist. Frásagnir af riddurum brjótast út úr viðjum bundna málsins og æ fleiri þjóðfélagshópar koma við sögu. Auk þess nær þessi bókmenntabylting til æ fleiri landa í Vestur Evrópu. Þróun sagnaritunar á Íslandi á 13. og 14. öld ber að skilja í þessu ljósi.



Pablo Picasso

"Don Quixote"

Segja má að riddarasagan sé smám saman að breytast í skáldsögu allar síðmiðaldir en margir vilja líta á þrjú bókmenntaverk sem mikilvæga áfanga á leiðinni:

  • Il Decamerone eða Tídægra eftir Boccaccio, sem var gefin út árið 1999 í íslenskri þýðingu Erlings E. Halldórssonar. Þetta er ítalskt verk frá 14. öld, safn stuttra frásagna sem draga til samans upp mynd af samfélagi og einstaklingunum í því.
  • Gargantúi og Pantagrúll eftir Rabelais, sem er einnig til í þýðingu Erlings, frá 1997. Franskar sögur frá fyrri hluta 16. aldar sem stæla riddarasögur en gera grín að þeim, um leið og þær fjalla um allt það sem menn deildu um og hugsuðu á endurreisnaröld.
  • Don Kíkóti eftir Miguel de Cervantes, sem er til á íslensku í þýðingu Guðbergs Bergssonar. Spænskt verk frá aldamótunum 1600 um aðalsmann sem hefur lesið yfir sig af riddarasögum og heldur út í heim í þeirri trú að þar bíði hans ævintýri á borð við þau sem einvörðungu er að finna á síðum bóka. Með þessu verki má segja að evrópsk menning sé virkilega komin inn í öld skáldsögunnar því að hún fjallar ekki einvörðungu um muninn á heiminum eins og hann er og ímyndunarheimum skáldskaparins heldur fyrst og fremst um það hlutskipti allra einstaklinga að heimurinn er í raun að verulegu leyti frábrugðinn þeirri mynd sem þeir gera sér af honum.

Lesefni:

Milan Kundera: List skáldsögunnar, Mál og menning, Reykjavík 2000.

Torfi H. Tulinius: "Sjálfstætt fólk og list skáldsögunnar," Lesbók Mbl. 4. desember 1999.

...