Sólin Sólin Rís 04:10 • sest 22:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 08:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:25 • Síðdegis: 20:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:23 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 04:10 • sest 22:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 08:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:25 • Síðdegis: 20:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:23 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er fyrsta íslenska skáldsagan og hvernig hófst nútímaleg skáldskapargerð hér á landi?

Sveinn Yngvi Egilsson

Álitamál er hve mikil áhrif forn sögustíll hafði á þróun sagnalistar á 18. og 19. öld. Líklegt verður þó að teljast að raunsæisleg og breið frásagnaraðferð íslenskra miðaldabókmennta, einkum Íslendingasagna, hafi haft þýðingu fyrir þróun skáldsagnagerðar en fornaldar- og riddarasögur (e. romances) höfðu þar líka mikið að segja. Sú frásagnaraðferð sem einkenndi þessar bókmenntir festist í sessi og á síðari öldum héldu menn áfram að setja saman sögur af svipuðu tagi. Ævintýralegar frásagnir í anda Róbinsons Krúsó voru þýddar á 18. öld og þær kynntu Íslendinga fyrir framandi slóðum og ferðalöngum sem þurftu að sanna sig í erfiðum kringumstæðum. Þannig lifði þjóðin sig inn í heillandi sagnaheima sem frumsamdar sögur sóttu svo innblástur í.

Aðdraganda nútímalegrar skáldsagnagerðar á Íslandi er ekki síður að leita á 18. en á 19. öld eins og rannsóknir á undanförnum áratugum hafa leitt í ljós. Piltur og stúlka eftir Jón Thoroddsen (1850) er fyrsta íslenska skáldsagan sem prentuð er, fær verulega útbreiðslu og hefur greinileg áhrif á ýmsar sögur sem á eftir koma. Aftur á móti höfðu margvíslegar tilraunir verið gerðar með skáldsagnaformið áður en sú saga var skrifuð og prentuð. Má þar nefna höfunda eins og séra Jón Oddsson Hjaltalín (1749-1835) sem samdi margar sögur í rómönsustíl, til dæmis Söguna af Hinriki heilráða og Fimmbræðrasögu. Enn nær nútímaskáldsögum standa þó frásagnir Eiríks Laxdal (1743-1816).

Piltur og stúlka er fyrsta íslenska skáldsagan sem prentuð er. Hún var fyrst prentuð í 500 eintökum í Kaupmannahöfn í apríl 1850.

Eiríkur var bæði fyrirrennari þjóðsagnasafnara og skáldsagnahöfunda 19. og 20. aldar. Í formála sínum að Íslenskum þjóðsögum og ævintýrum dregur Guðbrandur Vigfússon (1827-1889) upp mynd af honum sem sögufróðum flakkara norðanlands. Eiríkur hafði verið við háskólann í Kaupmannahöfn í nokkur ár, sneri síðan heim til Íslands

en var þreyjulítill, fór jafnan milli manna, og hafði ofan af fyrir sér með því að segja sögur, og grófst um leið eftir sögnum þar sem sögufróðir menn vóru. Allar þær sögur, bæði sem hann kunni sjálfur, og þær sem honum vóru sagðar, skrifaði hann upp hjá sér í mikið safn. En af því maðurinn var kallaður skáld og gáfaður, en jafnframt sérvitur, þá setti hann allar þessar sögur saman eins og honum bauð við að horfa, í eina sögu, og orti vísur inn í, og er því ekki hægt að vita hvað verið hafi samsetningur hans og hvað sé alþýðusögur. Þetta sögusafn sitt greindi hann að sögn í tvær aðaldeildir, vóru í annarri álfasögur; hana kallaði hann Ólafs sögu Þórhallasonar, en í hinni vóru ævintýri; hana nefndi hann Ólandssögu (Guðbrandur Vigfússon, xxiv).

Þessar sögur Eiríks hafa verið gefnir út af Þorsteini Antonssyni og Maríu Önnu Þorsteinsdóttur (1987 og 2006). Sögurnar eru byggðar á þjóðsagnaefni og heimarnir sem þær lýsa eru ævintýralegir. Saga Ólafs Þórhallasonar: Álfasagan mikla er varðveitt í eiginhandarriti höfundar frá því um 1800. Aðalpersónan Ólafur rís úr öskustónni (svokallað kolbítsminni) og leggur land undir fót. Hann hittir marga að máli sem segja honum ævintýri og eru það yfirleitt álfkonur sem eru auðugar, vel til fara og tala hátíðlegt mál. Álfheimurinn er neðanjarðar og að nokkru leyti eins og hugmynd upplýsingarmanna um betra og fullkomnara mannlíf. Kynni Ólafs af álfunum þroska hann og sagan markast af ferðalögum og leit eins og oft er í þroskasögum; sú leit getur verið á trúarlegum forsendum eins og í sögu Jóns Oddssonar Hjaltalín um Hinrik heilráða. Frásögnin í Sögu Ólafs Þórhallasonar er þéttofin og hefur öll helstu einkenni skáldsögu.

Ólandssaga Eiríks, sem er skrifuð um 1777, er einnig ævintýraleg en hún fjallar um átök konungsætta og kynjavera á víkingatímanum. Sögusviðið er „ólandið“ eða útópían Evrópa og stutt í siðaboðskap enda eru persónur ýmist góðar eða vondar. Sagan er eins konar sagnasveigur og byggð upp af laustengdum frásögnum sem einn segir öðrum eins og ævintýrasafninu Þúsund og einni nótt. Austurlensku ævintýrin voru þekkt á Íslandi og til í þýðingu og endursögn í ýmsum handritum, til dæmis í Lbs. 1855 4to frá árinu 1816, en síðar á 19. öld var prentuð sú þýðing þeirra sem fór víðast, Þúsund og ein nótt: Arabískar sögur (1857-1864) eftir Steingrím Thorsteinsson. Austurlensk minni koma meðal annars fyrir í Fimmbræðrasögu Jóns Oddssonar Hjaltalín og hann þýddi líka söguna Zadig eftir Voltaire (eftir danskri þýðingu) sem fjallar um leitina að lífshamingjunni í Mið-Austurlöndum. Menningararfur þessa austræna heimshluta hafði líka ratað til þjóðarinnar eftir öðrum leiðum því að hún hafði um aldir þekkt sögusamsteypur eins og Biblíuna og þá frásagnarhefð sem átti uppruna sinn fyrir botni Miðjarðarhafsins.

Frásagnir Eiríks Laxdal (1743-1816) standa nokkuð nálægt nútímaskáldsögum. Í Ólandssögu er sögusviðið „ólandið“ eða útópían Evrópa. Sagan er eins konar sagnasveigur og byggð upp af laustengdum frásögnum. Myndin er af eiginhandarriti Eiríks af Ólandssögu.

Sagan af Árna yngra ljúfling eftir Jón Espólín (1769-1836) er einnig byggð á þjóðsagnaefni eins og sögur Eiríks Laxdal en hún er um leið héraðslýsing í skáldsöguformi. Sagan, sem er varðveitt í eiginhandarriti frá síðustu árum höfundar, segir frá flakkaranum Árna sem ferðast um landið og hlýðir á tal manna. Skoðanaskipti um margvísleg málefni eru höfð eftir íbúum einstakra héraða og þó að bygging sögunnar sé einföld má þar greina tilraun til þjóðlífslýsingar af því tagi sem síðari höfundar eins og Jón Thoroddsen áttu eftir að útfæra í skáldsögum sínum.

Myndir:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.

Höfundur

Sveinn Yngvi Egilsson

prófessor í íslenskum bókmenntum

Útgáfudagur

13.10.2023

Spyrjandi

Kristjana V.

Tilvísun

Sveinn Yngvi Egilsson. „Hver er fyrsta íslenska skáldsagan og hvernig hófst nútímaleg skáldskapargerð hér á landi?“ Vísindavefurinn, 13. október 2023, sótt 24. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=85386.

Sveinn Yngvi Egilsson. (2023, 13. október). Hver er fyrsta íslenska skáldsagan og hvernig hófst nútímaleg skáldskapargerð hér á landi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=85386

Sveinn Yngvi Egilsson. „Hver er fyrsta íslenska skáldsagan og hvernig hófst nútímaleg skáldskapargerð hér á landi?“ Vísindavefurinn. 13. okt. 2023. Vefsíða. 24. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=85386>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver er fyrsta íslenska skáldsagan og hvernig hófst nútímaleg skáldskapargerð hér á landi?
Álitamál er hve mikil áhrif forn sögustíll hafði á þróun sagnalistar á 18. og 19. öld. Líklegt verður þó að teljast að raunsæisleg og breið frásagnaraðferð íslenskra miðaldabókmennta, einkum Íslendingasagna, hafi haft þýðingu fyrir þróun skáldsagnagerðar en fornaldar- og riddarasögur (e. romances) höfðu þar líka mikið að segja. Sú frásagnaraðferð sem einkenndi þessar bókmenntir festist í sessi og á síðari öldum héldu menn áfram að setja saman sögur af svipuðu tagi. Ævintýralegar frásagnir í anda Róbinsons Krúsó voru þýddar á 18. öld og þær kynntu Íslendinga fyrir framandi slóðum og ferðalöngum sem þurftu að sanna sig í erfiðum kringumstæðum. Þannig lifði þjóðin sig inn í heillandi sagnaheima sem frumsamdar sögur sóttu svo innblástur í.

Aðdraganda nútímalegrar skáldsagnagerðar á Íslandi er ekki síður að leita á 18. en á 19. öld eins og rannsóknir á undanförnum áratugum hafa leitt í ljós. Piltur og stúlka eftir Jón Thoroddsen (1850) er fyrsta íslenska skáldsagan sem prentuð er, fær verulega útbreiðslu og hefur greinileg áhrif á ýmsar sögur sem á eftir koma. Aftur á móti höfðu margvíslegar tilraunir verið gerðar með skáldsagnaformið áður en sú saga var skrifuð og prentuð. Má þar nefna höfunda eins og séra Jón Oddsson Hjaltalín (1749-1835) sem samdi margar sögur í rómönsustíl, til dæmis Söguna af Hinriki heilráða og Fimmbræðrasögu. Enn nær nútímaskáldsögum standa þó frásagnir Eiríks Laxdal (1743-1816).

Piltur og stúlka er fyrsta íslenska skáldsagan sem prentuð er. Hún var fyrst prentuð í 500 eintökum í Kaupmannahöfn í apríl 1850.

Eiríkur var bæði fyrirrennari þjóðsagnasafnara og skáldsagnahöfunda 19. og 20. aldar. Í formála sínum að Íslenskum þjóðsögum og ævintýrum dregur Guðbrandur Vigfússon (1827-1889) upp mynd af honum sem sögufróðum flakkara norðanlands. Eiríkur hafði verið við háskólann í Kaupmannahöfn í nokkur ár, sneri síðan heim til Íslands

en var þreyjulítill, fór jafnan milli manna, og hafði ofan af fyrir sér með því að segja sögur, og grófst um leið eftir sögnum þar sem sögufróðir menn vóru. Allar þær sögur, bæði sem hann kunni sjálfur, og þær sem honum vóru sagðar, skrifaði hann upp hjá sér í mikið safn. En af því maðurinn var kallaður skáld og gáfaður, en jafnframt sérvitur, þá setti hann allar þessar sögur saman eins og honum bauð við að horfa, í eina sögu, og orti vísur inn í, og er því ekki hægt að vita hvað verið hafi samsetningur hans og hvað sé alþýðusögur. Þetta sögusafn sitt greindi hann að sögn í tvær aðaldeildir, vóru í annarri álfasögur; hana kallaði hann Ólafs sögu Þórhallasonar, en í hinni vóru ævintýri; hana nefndi hann Ólandssögu (Guðbrandur Vigfússon, xxiv).

Þessar sögur Eiríks hafa verið gefnir út af Þorsteini Antonssyni og Maríu Önnu Þorsteinsdóttur (1987 og 2006). Sögurnar eru byggðar á þjóðsagnaefni og heimarnir sem þær lýsa eru ævintýralegir. Saga Ólafs Þórhallasonar: Álfasagan mikla er varðveitt í eiginhandarriti höfundar frá því um 1800. Aðalpersónan Ólafur rís úr öskustónni (svokallað kolbítsminni) og leggur land undir fót. Hann hittir marga að máli sem segja honum ævintýri og eru það yfirleitt álfkonur sem eru auðugar, vel til fara og tala hátíðlegt mál. Álfheimurinn er neðanjarðar og að nokkru leyti eins og hugmynd upplýsingarmanna um betra og fullkomnara mannlíf. Kynni Ólafs af álfunum þroska hann og sagan markast af ferðalögum og leit eins og oft er í þroskasögum; sú leit getur verið á trúarlegum forsendum eins og í sögu Jóns Oddssonar Hjaltalín um Hinrik heilráða. Frásögnin í Sögu Ólafs Þórhallasonar er þéttofin og hefur öll helstu einkenni skáldsögu.

Ólandssaga Eiríks, sem er skrifuð um 1777, er einnig ævintýraleg en hún fjallar um átök konungsætta og kynjavera á víkingatímanum. Sögusviðið er „ólandið“ eða útópían Evrópa og stutt í siðaboðskap enda eru persónur ýmist góðar eða vondar. Sagan er eins konar sagnasveigur og byggð upp af laustengdum frásögnum sem einn segir öðrum eins og ævintýrasafninu Þúsund og einni nótt. Austurlensku ævintýrin voru þekkt á Íslandi og til í þýðingu og endursögn í ýmsum handritum, til dæmis í Lbs. 1855 4to frá árinu 1816, en síðar á 19. öld var prentuð sú þýðing þeirra sem fór víðast, Þúsund og ein nótt: Arabískar sögur (1857-1864) eftir Steingrím Thorsteinsson. Austurlensk minni koma meðal annars fyrir í Fimmbræðrasögu Jóns Oddssonar Hjaltalín og hann þýddi líka söguna Zadig eftir Voltaire (eftir danskri þýðingu) sem fjallar um leitina að lífshamingjunni í Mið-Austurlöndum. Menningararfur þessa austræna heimshluta hafði líka ratað til þjóðarinnar eftir öðrum leiðum því að hún hafði um aldir þekkt sögusamsteypur eins og Biblíuna og þá frásagnarhefð sem átti uppruna sinn fyrir botni Miðjarðarhafsins.

Frásagnir Eiríks Laxdal (1743-1816) standa nokkuð nálægt nútímaskáldsögum. Í Ólandssögu er sögusviðið „ólandið“ eða útópían Evrópa. Sagan er eins konar sagnasveigur og byggð upp af laustengdum frásögnum. Myndin er af eiginhandarriti Eiríks af Ólandssögu.

Sagan af Árna yngra ljúfling eftir Jón Espólín (1769-1836) er einnig byggð á þjóðsagnaefni eins og sögur Eiríks Laxdal en hún er um leið héraðslýsing í skáldsöguformi. Sagan, sem er varðveitt í eiginhandarriti frá síðustu árum höfundar, segir frá flakkaranum Árna sem ferðast um landið og hlýðir á tal manna. Skoðanaskipti um margvísleg málefni eru höfð eftir íbúum einstakra héraða og þó að bygging sögunnar sé einföld má þar greina tilraun til þjóðlífslýsingar af því tagi sem síðari höfundar eins og Jón Thoroddsen áttu eftir að útfæra í skáldsögum sínum.

Myndir:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum. ...