Sólin Sólin Rís 08:44 • sest 18:39 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 22:50 • Sest 09:10 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:04 • Síðdegis: 20:22 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:00 • Síðdegis: 14:18 í Reykjavík

Hver var Jón Thoroddsen og hvað skrifaði hann?

Már Jónsson

Jón Thoroddsen er þekktastur fyrir skáldsögur sínar Pilt og stúlku og Mann og konu, auk þess sem mörg ljóða hans eru vel þekkt, ekki síst þau sem sonarsonur hans Emil Thoroddsen gerði lög við, svo sem „Búðarvísur“, „Vögguvísu“ (Litfríð og ljóshærð) og „Til skýsins“, að ógleymdum ættjarðarljóðum á borð við „Ísland“ (Ó! fögur er vor fósturjörð) og náttúrulýsingum, svo sem „Vorvísu“ (Vorið er komið og grundirnar gróa).

Jón fæddist á Reykhólum í Reykhólasveit 5. október 1818 og voru foreldrar hans vel stæðir bændur af góðum ættum, tengd eða skyld helstu auð- og áhrifamönnum við Breiðafjörð. Þriggja ára var hann sendur í fóstur í Sælingsdalstungu í Dalasýslu til vinafólks foreldranna og þar var hann í tíu ár, en eftir það hluta úr vetrum við nám hjá prestum, því til stóð að hann færi í Bessastaðaskóla og yrði prestur eða sýslumaður. Að loknu námi sumarið 1840 fór hann norður að Hrafnagili í Eyjafirði sem heimiliskennari hjá séra Hallgrími Thorlacius og Guðrúnu Magnúsdóttur, sem áttu þrjá syni og eina dóttur, Ólöfu. Þau Jón felldu hugi saman og trúlofuðust, en hann var að öllum líkindum farinn áleiðis til Kaupmannahafnar þegar dóttir þeirra Elín Guðrún fæddist 9. ágúst 1841. Hann sá hana ekki fyrr en tveimur áratugum síðar, því Ólöf kynntist öðrum manni og giftist í desember 1843.

Jón Thoroddsen fæddist á Reykhólum í Reykhólasveit 5. október 1818. Hann er þekktastur fyrir skáldsögur sínar Pilt og stúlku og Mann og konu, auk þess sem mörg ljóða hans eru vel þekkt.

Jón var næstu tíu árin í Kaupmannahöfn en skaust þó heim til fjölskyldu sinnar sumurin 1843 og 1847, sem ekki var algengt að íslenskir háskólanemar gerðu. Hann féll á prófum eftir fyrsta veturinn en náði þeim ári síðar og hóf laganám. Ekki var hann atkvæðamikill í félagslífi og stjórnmálavafstri landa sinna, en umgekkst þó og þekkti kappa sem þar fóru fremstir, svo sem Brynjólf Pétursson, Gísla Brynjúlfsson, Grím Thomsen, Jón Sigurðsson og Jónas Hallgrímsson. Fyrsta ljóðið sem Jón sá á prenti birtist í síðasta hefti tímaritsins Fjölni vorið 1847. Það var hin angurværa „Kveðja“, sem hefst svo: „Vindur blæs og voðir fyllir breiðar, verpur skipi ströndum ísa frá...“ Nokkur kvæði birtust síðan í tímaritinu Norðurfara sem hann gaf sjálfur út með Gísla Brynjúlfssyni vorið 1848 og haustið 1849.

Ekki ber á því að Jón hafi sinnt náminu svo nokkru nemi og í apríl 1848 gerðist hann sjálfboðaliði í herför Dana gegn sjálfstæðistilburðum þýskumælandi manna í suðurhluta Jótlands, héruðunum Slésvík og Holtsetalandi. Þar var hann í fjóra mánuði og tók fullan þátt í bardögum, drap að eigin sögn einn mann og særði annan.

Næstu tvo vetur í Kaupmannahöfn skrifaði hann Pilt og stúlku, sem er hugljúf og bráðskemmtileg saga af ástum Sigríðar og Indriða, sem kynnast börn að aldri en njótast eigi fyrr en i bókarlok eftir allskyns misskilning og klæki óprúttinna einstaklinga, ekki síst móður hennar. Þarna birtast magnaðar aukapersónur á borð við Gróu á Leiti og Bárð á Búrfelli, sem Íslendingar tóku snemma ástfóstri við og nota enn sem viðmið um æskilegt framferði og skapgerð. Bókin var prentuð í 500 eintökum í Kaupmannahöfn í apríl 1850.

Almennt er talað um Pilt og stúlku sem fyrstu íslensku nútímaskáldsöguna í þeim skilningi að hún tók mið af og líktist tilþrifum fremstu rithöfunda samtímans, sem mikið var þýtt af á dönsku á þeim árum sem Jón var í Kaupmannahöfn, einkum úr ensku. Má þar nefna höfunda á borð við Charles Dickens (1812-1870) og Walter Scott (1771-1832), sem enn eru vel þekktir, en líka höfunda sem þá voru vinsælir en eru það ekki lengur, svo sem Frances Trollope (1779-1863), nú þekktust sem móðir rithöfundarins Anthony Trollope (1815-1882). Ekki færri en tólf bækur eftir hana komu út í Kaupmannahöfn á fimmta áratug 19. aldar og í bréfi til Gísla Brynjúlfssonar 20. janúar 1852 bað Jón um eintak af Den givte Enke eða The Widow Married, sem kom út á ensku árið 1840 en á dönsku fjórum árum síðar – má telja víst að hann hafi lesið bækur hennar á meðan hann var í borginni. Í bréfum segir hann annars fátt um skáldskap eða lestur, en nefnir þó Scott í bréfi til Gísla 25. nóvember 1854 og vitað er að hann átti að minnsta kosti Pickwick Papers eftir Dickens.

Fáum vikum eftir fyrstu útgáfu Pilts og stúlku fluttist Jón aftur til Íslands, próflaus og peningalítill. Hann var svo heppinn að Barðastrandarsýsla var laus og fékk hann setningu sem sýslumaður til bráðabirgða, en gat ekki gert sér vonir um fastráðningu án þess að ljúka prófi. Hann settist að í Flatey, þar sem bjuggu á annað hundrað manns og voru bestu bókasöfn í landinu fyrir utan Reykjavík og Akureyri.

Vorið 1851 trúlofaðist hann Kristínu Ólínu Þorvaldsdóttur í Hrappsey og setti faðir hennar Þorvaldur Sívertsen það skilyrði að Jón lyki námi. Hann sigldi því til Kaupmannahafnar snemma árs 1853 og var þar í hálft annað ár, lauk prófi með góðum árangri og tryggði sér sýsluna, en flýtti sér síðan heim á ný. Brúðkaup þeirra Kristínar var í Flatey 29. ágúst 1854 og þau fóru í brúðkaupsferð að Holti í Önundarfirði, þar sem systir hennar Katrín bjó. Fyrsta veturinn bjuggu þau í Flatey en næstu sjö árin að Haga á Barðaströnd. Fyrsta barn þeirra var Þorvaldur, fæddur í Flatey sumarið 1855, en í Haga eignuðust þau fimm börn og dóu þrjú þeirra fljótlega eftir fæðingu, en tvö lifðu til fullorðinsára, Þórður og Skúli. Tvo syni eignuðust þau síðar og lifði annar, Sigurður.

Piltur og stúlka var fyrst prentuð í 500 eintökum í Kaupmannahöfn í apríl 1850.

Embættisannir og búskaparstrit komu í veg fyrir að Jón fengi skrifað nokkuð á þessum árum, en nokkur kvæði eru þó til, einkum erfiljóð. Hann tók við embætti sýslumanns í Borgarfjarðarsýslu sumarið 1862 og fjölskyldan settist að á Leirá í Leirársveit. Svo virðist sem búseta nær Reykjavík, þar sem hann þekkti mann og annan, hafi hvatt hann til að taka upp þráðinn við skáldsagnagerð. Árið 1865 hóf hann að endurskoða Pilt og stúlku til nýrrar útgáfu og bætti við löngum kafla og ærið ærslafullum um brúðkaup Sigríðar og Indriða. Fyrsta útgáfan var líka ófáanleg og höfðu viðtökur verið góðar, þannig að Jón taldi jafnvel að hann gæti grætt á verkinu. Vorið 1867 var svo komið að hann sendi skáldsöguna til prentunar í Reykjavík og önnuðust svili hans Jón Árnason þjóðsagnasafnari og Sveinn Skúlason ritstjóri yfirlestur og allan frágang. Bókin kom út í júní 1867 og var nú prentuð í 1200 eintökum, sem miðað við höfðatölu jafngildir sex þúsund eintaka upplagi nú til dags.

Um haustið vann Jón hörðum höndum við nýja skáldsögu, sem hann þó hlýtur að hafa verið byrjaður á nokkru fyrr, þótt ekki sé hægt að tímasetja upphafið. Söguna nefndi hann ýmist Karl og kerlingu eða Hlíðarfólkið, en endanlegt heiti varð Maður og kona. Ekki tókst honum að ljúka verkinu nema að tveimur þriðju hlutum áður en hann lést 8. mars 1868, eftir erfið veikindi síðustu mánuðina. Sem fyrr er meginþráðurinn ástarsaga og aðalpersónurnar Þórarinn og Sigrún heldur litlausar, líkt og Indriði og Sigríður, en sagan sem slík er öllu kraftmeiri og dýpri en Piltur og stúlka, samtöl betri og mannlýsingar enn magnaðri. Nægir þar að nefna þá félaga séra Sigvalda og Hjálmar tudda.

Kristín Ólína seldi Hinu íslenska bókmenntafélagi í Kaupmannahöfn handritið að Manni og konu og líka handrit að kvæðum Jóns, sem hann hafði ætlað sér að gefa út á bók. Jón Sigurðsson forseti fór fyrir hópi manna sem svo gáfu út kvæðasafn Jóns árið 1871 en Mann og konu fimm árum síðar. Handriti sögunnar fylgdi ágrip af því sem höfundur hafði átt eftir að skrifa með hendi Þórðar Grímssonar, sem var sýsluskrifari Jóns og hafði hreinritað mestan hluta handritsins. Útgefendurnir komu sér saman um „að láta prenta söguna öldungis eins og hún var komin frá hendi höfundarins“, en þóttust þurfa að gera nokkrar breytingar „þar sem bersýnilega var misritað og höfundurinn hafði ekki leiðrétt, því engin sýnileg merki voru til, að hann hefði lesið handritið yfir að lyktum“ (inngangur, bls. vii).

Nú er Maður og kona ófáanleg á markaði, því hún hefur ekki komið út sérstaklega síðan árið 1984 og í trússi með Heljarslóðarorrustu Benedikts Gröndals góðkunningja Jóns átta árum síðar. Piltur og stúlka er aðgengilegri og fæst enn í búðum á rúmar þrjú þúsund krónur, enda síðast gefin út árið 2008 í þeim búningi sem Jón bjó sögunni árið 1867.

Heimildir:
 • Bréf Jóns Thoroddsens. Útgefandi Már Jónsson (Reykjavík: Sögufélag 2016).
 • Jón Thoroddsen, Maður og kona. Skáldsaga (Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmentafèlag 1876).
 • Piltur og stúlka. Dálítil frásaga (Kaupmannahöfn: höfundur 1850).
 • Piltur og stúlka. Dálítil frásaga (Reykjavík: höfundur 1867).
 • Piltur og stúlka. Dálítil frásaga. Formáli eftir Sigríði Rögnvaldsdóttur (Reykjavík: Bjartur 2008).
 • Kvæði eptir Jón Thóroddsen sýslumann (Kaupmannahöfn: Hið íslenska bókmenntafélag 1871).
 • Kvæði eptir Jón Þórðarson Thóroddsen. Önnur útgáfa aukin (Kaupmannahöfn: Sigurður Kristjánsson 1919).
 • Skáldsögur Jóns Thoroddsens. Tvö bindi. Steingrímur J. Þorsteinsson gaf út (Reykjavík: Helgafellsútgáfan 1942).
 • Steingrímur J. Þorsteinsson, Jón Thoroddsen og skáldsögur hans. Tvö bindi (Reykjavík: Helgafell 1943).
 • Þjóðskáldin. Úrval úr bókmenntum 19. Aldar. Guðmundur Andri Thorsson valdi (Reykjavík: Mál og menning 1992).

Myndir:

Höfundur

Már Jónsson

prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

25.10.2016

Spyrjandi

Lovísa Þórunn

Tilvísun

Már Jónsson. „Hver var Jón Thoroddsen og hvað skrifaði hann?“ Vísindavefurinn, 25. október 2016. Sótt 27. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=20000.

Már Jónsson. (2016, 25. október). Hver var Jón Thoroddsen og hvað skrifaði hann? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=20000

Már Jónsson. „Hver var Jón Thoroddsen og hvað skrifaði hann?“ Vísindavefurinn. 25. okt. 2016. Vefsíða. 27. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=20000>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Jón Thoroddsen og hvað skrifaði hann?
Jón Thoroddsen er þekktastur fyrir skáldsögur sínar Pilt og stúlku og Mann og konu, auk þess sem mörg ljóða hans eru vel þekkt, ekki síst þau sem sonarsonur hans Emil Thoroddsen gerði lög við, svo sem „Búðarvísur“, „Vögguvísu“ (Litfríð og ljóshærð) og „Til skýsins“, að ógleymdum ættjarðarljóðum á borð við „Ísland“ (Ó! fögur er vor fósturjörð) og náttúrulýsingum, svo sem „Vorvísu“ (Vorið er komið og grundirnar gróa).

Jón fæddist á Reykhólum í Reykhólasveit 5. október 1818 og voru foreldrar hans vel stæðir bændur af góðum ættum, tengd eða skyld helstu auð- og áhrifamönnum við Breiðafjörð. Þriggja ára var hann sendur í fóstur í Sælingsdalstungu í Dalasýslu til vinafólks foreldranna og þar var hann í tíu ár, en eftir það hluta úr vetrum við nám hjá prestum, því til stóð að hann færi í Bessastaðaskóla og yrði prestur eða sýslumaður. Að loknu námi sumarið 1840 fór hann norður að Hrafnagili í Eyjafirði sem heimiliskennari hjá séra Hallgrími Thorlacius og Guðrúnu Magnúsdóttur, sem áttu þrjá syni og eina dóttur, Ólöfu. Þau Jón felldu hugi saman og trúlofuðust, en hann var að öllum líkindum farinn áleiðis til Kaupmannahafnar þegar dóttir þeirra Elín Guðrún fæddist 9. ágúst 1841. Hann sá hana ekki fyrr en tveimur áratugum síðar, því Ólöf kynntist öðrum manni og giftist í desember 1843.

Jón Thoroddsen fæddist á Reykhólum í Reykhólasveit 5. október 1818. Hann er þekktastur fyrir skáldsögur sínar Pilt og stúlku og Mann og konu, auk þess sem mörg ljóða hans eru vel þekkt.

Jón var næstu tíu árin í Kaupmannahöfn en skaust þó heim til fjölskyldu sinnar sumurin 1843 og 1847, sem ekki var algengt að íslenskir háskólanemar gerðu. Hann féll á prófum eftir fyrsta veturinn en náði þeim ári síðar og hóf laganám. Ekki var hann atkvæðamikill í félagslífi og stjórnmálavafstri landa sinna, en umgekkst þó og þekkti kappa sem þar fóru fremstir, svo sem Brynjólf Pétursson, Gísla Brynjúlfsson, Grím Thomsen, Jón Sigurðsson og Jónas Hallgrímsson. Fyrsta ljóðið sem Jón sá á prenti birtist í síðasta hefti tímaritsins Fjölni vorið 1847. Það var hin angurværa „Kveðja“, sem hefst svo: „Vindur blæs og voðir fyllir breiðar, verpur skipi ströndum ísa frá...“ Nokkur kvæði birtust síðan í tímaritinu Norðurfara sem hann gaf sjálfur út með Gísla Brynjúlfssyni vorið 1848 og haustið 1849.

Ekki ber á því að Jón hafi sinnt náminu svo nokkru nemi og í apríl 1848 gerðist hann sjálfboðaliði í herför Dana gegn sjálfstæðistilburðum þýskumælandi manna í suðurhluta Jótlands, héruðunum Slésvík og Holtsetalandi. Þar var hann í fjóra mánuði og tók fullan þátt í bardögum, drap að eigin sögn einn mann og særði annan.

Næstu tvo vetur í Kaupmannahöfn skrifaði hann Pilt og stúlku, sem er hugljúf og bráðskemmtileg saga af ástum Sigríðar og Indriða, sem kynnast börn að aldri en njótast eigi fyrr en i bókarlok eftir allskyns misskilning og klæki óprúttinna einstaklinga, ekki síst móður hennar. Þarna birtast magnaðar aukapersónur á borð við Gróu á Leiti og Bárð á Búrfelli, sem Íslendingar tóku snemma ástfóstri við og nota enn sem viðmið um æskilegt framferði og skapgerð. Bókin var prentuð í 500 eintökum í Kaupmannahöfn í apríl 1850.

Almennt er talað um Pilt og stúlku sem fyrstu íslensku nútímaskáldsöguna í þeim skilningi að hún tók mið af og líktist tilþrifum fremstu rithöfunda samtímans, sem mikið var þýtt af á dönsku á þeim árum sem Jón var í Kaupmannahöfn, einkum úr ensku. Má þar nefna höfunda á borð við Charles Dickens (1812-1870) og Walter Scott (1771-1832), sem enn eru vel þekktir, en líka höfunda sem þá voru vinsælir en eru það ekki lengur, svo sem Frances Trollope (1779-1863), nú þekktust sem móðir rithöfundarins Anthony Trollope (1815-1882). Ekki færri en tólf bækur eftir hana komu út í Kaupmannahöfn á fimmta áratug 19. aldar og í bréfi til Gísla Brynjúlfssonar 20. janúar 1852 bað Jón um eintak af Den givte Enke eða The Widow Married, sem kom út á ensku árið 1840 en á dönsku fjórum árum síðar – má telja víst að hann hafi lesið bækur hennar á meðan hann var í borginni. Í bréfum segir hann annars fátt um skáldskap eða lestur, en nefnir þó Scott í bréfi til Gísla 25. nóvember 1854 og vitað er að hann átti að minnsta kosti Pickwick Papers eftir Dickens.

Fáum vikum eftir fyrstu útgáfu Pilts og stúlku fluttist Jón aftur til Íslands, próflaus og peningalítill. Hann var svo heppinn að Barðastrandarsýsla var laus og fékk hann setningu sem sýslumaður til bráðabirgða, en gat ekki gert sér vonir um fastráðningu án þess að ljúka prófi. Hann settist að í Flatey, þar sem bjuggu á annað hundrað manns og voru bestu bókasöfn í landinu fyrir utan Reykjavík og Akureyri.

Vorið 1851 trúlofaðist hann Kristínu Ólínu Þorvaldsdóttur í Hrappsey og setti faðir hennar Þorvaldur Sívertsen það skilyrði að Jón lyki námi. Hann sigldi því til Kaupmannahafnar snemma árs 1853 og var þar í hálft annað ár, lauk prófi með góðum árangri og tryggði sér sýsluna, en flýtti sér síðan heim á ný. Brúðkaup þeirra Kristínar var í Flatey 29. ágúst 1854 og þau fóru í brúðkaupsferð að Holti í Önundarfirði, þar sem systir hennar Katrín bjó. Fyrsta veturinn bjuggu þau í Flatey en næstu sjö árin að Haga á Barðaströnd. Fyrsta barn þeirra var Þorvaldur, fæddur í Flatey sumarið 1855, en í Haga eignuðust þau fimm börn og dóu þrjú þeirra fljótlega eftir fæðingu, en tvö lifðu til fullorðinsára, Þórður og Skúli. Tvo syni eignuðust þau síðar og lifði annar, Sigurður.

Piltur og stúlka var fyrst prentuð í 500 eintökum í Kaupmannahöfn í apríl 1850.

Embættisannir og búskaparstrit komu í veg fyrir að Jón fengi skrifað nokkuð á þessum árum, en nokkur kvæði eru þó til, einkum erfiljóð. Hann tók við embætti sýslumanns í Borgarfjarðarsýslu sumarið 1862 og fjölskyldan settist að á Leirá í Leirársveit. Svo virðist sem búseta nær Reykjavík, þar sem hann þekkti mann og annan, hafi hvatt hann til að taka upp þráðinn við skáldsagnagerð. Árið 1865 hóf hann að endurskoða Pilt og stúlku til nýrrar útgáfu og bætti við löngum kafla og ærið ærslafullum um brúðkaup Sigríðar og Indriða. Fyrsta útgáfan var líka ófáanleg og höfðu viðtökur verið góðar, þannig að Jón taldi jafnvel að hann gæti grætt á verkinu. Vorið 1867 var svo komið að hann sendi skáldsöguna til prentunar í Reykjavík og önnuðust svili hans Jón Árnason þjóðsagnasafnari og Sveinn Skúlason ritstjóri yfirlestur og allan frágang. Bókin kom út í júní 1867 og var nú prentuð í 1200 eintökum, sem miðað við höfðatölu jafngildir sex þúsund eintaka upplagi nú til dags.

Um haustið vann Jón hörðum höndum við nýja skáldsögu, sem hann þó hlýtur að hafa verið byrjaður á nokkru fyrr, þótt ekki sé hægt að tímasetja upphafið. Söguna nefndi hann ýmist Karl og kerlingu eða Hlíðarfólkið, en endanlegt heiti varð Maður og kona. Ekki tókst honum að ljúka verkinu nema að tveimur þriðju hlutum áður en hann lést 8. mars 1868, eftir erfið veikindi síðustu mánuðina. Sem fyrr er meginþráðurinn ástarsaga og aðalpersónurnar Þórarinn og Sigrún heldur litlausar, líkt og Indriði og Sigríður, en sagan sem slík er öllu kraftmeiri og dýpri en Piltur og stúlka, samtöl betri og mannlýsingar enn magnaðri. Nægir þar að nefna þá félaga séra Sigvalda og Hjálmar tudda.

Kristín Ólína seldi Hinu íslenska bókmenntafélagi í Kaupmannahöfn handritið að Manni og konu og líka handrit að kvæðum Jóns, sem hann hafði ætlað sér að gefa út á bók. Jón Sigurðsson forseti fór fyrir hópi manna sem svo gáfu út kvæðasafn Jóns árið 1871 en Mann og konu fimm árum síðar. Handriti sögunnar fylgdi ágrip af því sem höfundur hafði átt eftir að skrifa með hendi Þórðar Grímssonar, sem var sýsluskrifari Jóns og hafði hreinritað mestan hluta handritsins. Útgefendurnir komu sér saman um „að láta prenta söguna öldungis eins og hún var komin frá hendi höfundarins“, en þóttust þurfa að gera nokkrar breytingar „þar sem bersýnilega var misritað og höfundurinn hafði ekki leiðrétt, því engin sýnileg merki voru til, að hann hefði lesið handritið yfir að lyktum“ (inngangur, bls. vii).

Nú er Maður og kona ófáanleg á markaði, því hún hefur ekki komið út sérstaklega síðan árið 1984 og í trússi með Heljarslóðarorrustu Benedikts Gröndals góðkunningja Jóns átta árum síðar. Piltur og stúlka er aðgengilegri og fæst enn í búðum á rúmar þrjú þúsund krónur, enda síðast gefin út árið 2008 í þeim búningi sem Jón bjó sögunni árið 1867.

Heimildir:
 • Bréf Jóns Thoroddsens. Útgefandi Már Jónsson (Reykjavík: Sögufélag 2016).
 • Jón Thoroddsen, Maður og kona. Skáldsaga (Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmentafèlag 1876).
 • Piltur og stúlka. Dálítil frásaga (Kaupmannahöfn: höfundur 1850).
 • Piltur og stúlka. Dálítil frásaga (Reykjavík: höfundur 1867).
 • Piltur og stúlka. Dálítil frásaga. Formáli eftir Sigríði Rögnvaldsdóttur (Reykjavík: Bjartur 2008).
 • Kvæði eptir Jón Thóroddsen sýslumann (Kaupmannahöfn: Hið íslenska bókmenntafélag 1871).
 • Kvæði eptir Jón Þórðarson Thóroddsen. Önnur útgáfa aukin (Kaupmannahöfn: Sigurður Kristjánsson 1919).
 • Skáldsögur Jóns Thoroddsens. Tvö bindi. Steingrímur J. Þorsteinsson gaf út (Reykjavík: Helgafellsútgáfan 1942).
 • Steingrímur J. Þorsteinsson, Jón Thoroddsen og skáldsögur hans. Tvö bindi (Reykjavík: Helgafell 1943).
 • Þjóðskáldin. Úrval úr bókmenntum 19. Aldar. Guðmundur Andri Thorsson valdi (Reykjavík: Mál og menning 1992).

Myndir:

...