Sólin Sólin Rís 10:54 • sest 15:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:02 • Síðdegis: 20:23 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:45 • Síðdegis: 14:25 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:54 • sest 15:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:02 • Síðdegis: 20:23 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:45 • Síðdegis: 14:25 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað eru þjóðsögur og hverjir urðu fyrstir til að safna þeim hér á landi?

Gísli Sigurðsson

Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun
Þjóðsögur eru frásagnir sem lifað hafa í munnmælum mann fram af manni. Við notum hugtakið þjóðsaga þó aðallega um sögur sem menntamenn tóku að safna af vörum alþýðu á 19. öld og skrá á bækur, innblásnir af rómantískum hugmyndum sem lögðu áherslu á forn fræði og listræna sköpun alþýðu.

Frumkvæðið má rekja til þýska fræðimannsins Jakobs Grimm (1785-1863) sem gaf út Grimms ævintýri í félagi við Wilhelm (1786-1859) bróður sinn á árunum 1812-1815. Upp úr því tóku menn í öðrum löndum Evrópu að safna sams konar efni og skrásetja það. Fyrsti meiri háttar ávöxtur slíkrar söfnunar hér á landi var safn sem Jón Árnason (1819-1888) tók saman og kom út í tveimur bindum í Leipzig 1862 og 1864: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri.

Jón Árnason (1819-1888).

Á öllum öldum hefur aðeins lítið brot af munnlegri orðlist verið fært í letur. Úrvalið hefur ráðist af áhuga skrifara á því efni sem alþýða manna hafði sér til skemmtunar. Áhugi lærðra manna mótaðist af stefnum og hugmyndum sem breiddust út með bókum og kölluðu á aðrar bækur í sama stíl. Ólæs fjöldinn var lítt bundinn af slíkum tískusveiflum og breytti ekki sögum sínum og kvæðum í takt við bókmenntasöguna.

Sú fornmenntastefna sem skapaði jarðveg hér á landi á 17. öld fyrir söfnun gamalla handrita skilaði sér líka í áhuga á þeim sögum og kvæðum sem þá gengu á manna vörum og fjölluðu um líkt efni og handritin. Því safnaði Árni Magnússon (1663-1730) frá fólki, bæði ævintýrum og frásögnum um fornmenn og Sæmund fróða til að varpa ljósi á fortíðina. Með rómantíkinni skapaðist síðan hugmyndafræðilegur grundvöllur til að þessar munnmælasögur yrðu viðurkenndar menntir á prentaðri bók. Jón Árnason birti þannig sögur og ævintýri úr fórum Árna í sínu safni og þekkti þá jafnvel sama efni líka beint úr munnlegri geymd.

Árni Magnússon (1663-1730).

Einnig er til fjölmargt af þjóðlegum fróðleik sem var skráð á 17. öld, eða umskrifað og notað af höfundum í lengri ritgerðum og frásögnum. Má þar nefna Annálabrot og Undur Íslands eftir Gísla Oddsson Skálholtsbiskup (1593-1638), latínukvæði eftir séra Þorstein Björnsson (d. 1675), Noctes Setbergenses, með ýmsu þjóðtrúarefni, rit Jóns Guðmundssonar lærða (1574-1658) sem fjalla meðal annars um álfa, ritgerð Björns Jónssonar á Skarðsá (1574-1655) um rúnir, og galdramannasögur „Ólafs gamla“ (líklega dulnefni Jóns Eggertssonar (1643-1689)) frá miðri öldinni (sem Bjarni Einarsson gaf út í Munnmælasögum 17. aldar).

Frá 18. öld ber hæst rit Jóns Ólafssonar úr Grunnavík (1705-1779), lærisveins Árna Magnússonar, og verk Eiríks Laxdals (1743-1816) sem flæktist víða á seinni hluta aldarinnar og safnaði þjóðsögum og ævintýrum sem hann felldi saman í lengri sögur með miklum viðbótum frá sjálfum sér: Ólafs sögu Þórhallasonar og Ólandssögu. Sagnaritarar á borð við Gísla Konráðsson (1787-1877) og Brynjólf Jónsson frá Minna-Núpi (1838-1914) hafa líka lagt ómælt til þjóðlegra fræða, en ýmislegt úr syrpum Gísla var tekið upp í Þjóðsögur Jóns Árnasonar.

(Þetta svar er klippt og skorið úr kafla höfundar um þjóðsögur í 3. bindi Íslenskrar bókmenntasögu.)

Myndir:

Höfundur

rannsóknarprófessor á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

16.9.2003

Síðast uppfært

7.7.2022

Spyrjandi

Sigurbjörg Jónsdóttir

Tilvísun

Gísli Sigurðsson. „Hvað eru þjóðsögur og hverjir urðu fyrstir til að safna þeim hér á landi?“ Vísindavefurinn, 16. september 2003, sótt 4. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3736.

Gísli Sigurðsson. (2003, 16. september). Hvað eru þjóðsögur og hverjir urðu fyrstir til að safna þeim hér á landi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3736

Gísli Sigurðsson. „Hvað eru þjóðsögur og hverjir urðu fyrstir til að safna þeim hér á landi?“ Vísindavefurinn. 16. sep. 2003. Vefsíða. 4. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3736>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað eru þjóðsögur og hverjir urðu fyrstir til að safna þeim hér á landi?
Þjóðsögur eru frásagnir sem lifað hafa í munnmælum mann fram af manni. Við notum hugtakið þjóðsaga þó aðallega um sögur sem menntamenn tóku að safna af vörum alþýðu á 19. öld og skrá á bækur, innblásnir af rómantískum hugmyndum sem lögðu áherslu á forn fræði og listræna sköpun alþýðu.

Frumkvæðið má rekja til þýska fræðimannsins Jakobs Grimm (1785-1863) sem gaf út Grimms ævintýri í félagi við Wilhelm (1786-1859) bróður sinn á árunum 1812-1815. Upp úr því tóku menn í öðrum löndum Evrópu að safna sams konar efni og skrásetja það. Fyrsti meiri háttar ávöxtur slíkrar söfnunar hér á landi var safn sem Jón Árnason (1819-1888) tók saman og kom út í tveimur bindum í Leipzig 1862 og 1864: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri.

Jón Árnason (1819-1888).

Á öllum öldum hefur aðeins lítið brot af munnlegri orðlist verið fært í letur. Úrvalið hefur ráðist af áhuga skrifara á því efni sem alþýða manna hafði sér til skemmtunar. Áhugi lærðra manna mótaðist af stefnum og hugmyndum sem breiddust út með bókum og kölluðu á aðrar bækur í sama stíl. Ólæs fjöldinn var lítt bundinn af slíkum tískusveiflum og breytti ekki sögum sínum og kvæðum í takt við bókmenntasöguna.

Sú fornmenntastefna sem skapaði jarðveg hér á landi á 17. öld fyrir söfnun gamalla handrita skilaði sér líka í áhuga á þeim sögum og kvæðum sem þá gengu á manna vörum og fjölluðu um líkt efni og handritin. Því safnaði Árni Magnússon (1663-1730) frá fólki, bæði ævintýrum og frásögnum um fornmenn og Sæmund fróða til að varpa ljósi á fortíðina. Með rómantíkinni skapaðist síðan hugmyndafræðilegur grundvöllur til að þessar munnmælasögur yrðu viðurkenndar menntir á prentaðri bók. Jón Árnason birti þannig sögur og ævintýri úr fórum Árna í sínu safni og þekkti þá jafnvel sama efni líka beint úr munnlegri geymd.

Árni Magnússon (1663-1730).

Einnig er til fjölmargt af þjóðlegum fróðleik sem var skráð á 17. öld, eða umskrifað og notað af höfundum í lengri ritgerðum og frásögnum. Má þar nefna Annálabrot og Undur Íslands eftir Gísla Oddsson Skálholtsbiskup (1593-1638), latínukvæði eftir séra Þorstein Björnsson (d. 1675), Noctes Setbergenses, með ýmsu þjóðtrúarefni, rit Jóns Guðmundssonar lærða (1574-1658) sem fjalla meðal annars um álfa, ritgerð Björns Jónssonar á Skarðsá (1574-1655) um rúnir, og galdramannasögur „Ólafs gamla“ (líklega dulnefni Jóns Eggertssonar (1643-1689)) frá miðri öldinni (sem Bjarni Einarsson gaf út í Munnmælasögum 17. aldar).

Frá 18. öld ber hæst rit Jóns Ólafssonar úr Grunnavík (1705-1779), lærisveins Árna Magnússonar, og verk Eiríks Laxdals (1743-1816) sem flæktist víða á seinni hluta aldarinnar og safnaði þjóðsögum og ævintýrum sem hann felldi saman í lengri sögur með miklum viðbótum frá sjálfum sér: Ólafs sögu Þórhallasonar og Ólandssögu. Sagnaritarar á borð við Gísla Konráðsson (1787-1877) og Brynjólf Jónsson frá Minna-Núpi (1838-1914) hafa líka lagt ómælt til þjóðlegra fræða, en ýmislegt úr syrpum Gísla var tekið upp í Þjóðsögur Jóns Árnasonar.

(Þetta svar er klippt og skorið úr kafla höfundar um þjóðsögur í 3. bindi Íslenskrar bókmenntasögu.)

Myndir:...