Þegar tvö tungumál eru borin saman er alltaf munur til staðar; hljóðkerfið er ólíkt, beygingakerfið og setningafræðin sömuleiðis. Þetta á líka við þegar kemur að orðaforða tveggja mála. Hann er aldrei nákvæmlega eins. Til dæmis er ekki til orð á ensku sem þýðir nákvæmlega það sama og íslenska sögnin nenna. Hins vegar er hægt að koma sömu merkingu til skila og þá með orðasamböndum, útskýringum eða öðrum aðferðum.
Í íslensku eru fjölmörg orð til um mismunandi snjókomu en hins vegar má gera ráð fyrir því að orð um snjó séu ekki mörg til að mynda á arabísku. Hið sama gildir um táknmál. Í íslensku táknmáli eru ekki mörg tákn fyrir tónlist, hljóðfæri, hljóm eða tónfall. Orðaforði málsamfélags ræðst af umhverfinu sem það hrærist í og þeim umfjöllunarefnum sem upp koma.
Af þessu leiðir að svarið við spurningunni er nei, ekki eru öll orð sem við notum venjulega í okkar máli til á táknmáli. Það eru heldur ekki til orð á íslensku fyrir öll tákn sem eru til á íslensku táknmáli. Samt sem áður duga bæði málin vel til að tala um hvaðeina, hvort sem er einfalda hluti eða flókna, heimspeki eða veðurfar.
Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra
Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra
Mynd: HB