Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Eruð þið heimskir?

Ritstjórn Vísindavefsins

Þetta er kærkomin og mikilvæg spurning þó að henni sé ef til vill ekki auðsvarað á þann hátt að lesandinn trúi svarinu. Það fyrsta sem vekur athygli er að spyrjandi, sem er 12 ára, notar karlkyn. Hann spyr ekki "Eruð þið heimsk?" heldur "Eruð þið heimskir?" Sennilega hefur hann fundið á sér að konurnar sem vinna við Vísindavefinn eru alls ekki heimskar og við karlmennirnir tökum alveg undir það með honum. Þetta gildir óháð því hvaða skilningur sem lagður er í orðið "heimskur". (Ef við værum að skrifa í fullri alvöru félli þetta undir nokkuð sem kallað er jákvæð mismunun en hún er ólíkindatól eins og við sjáum á eftir).

Þá er athyglisvert að spyrjandi skuli láta sér detta í hug að spyrja okkur sjálf um þetta. Ef við erum heimsk, getur hann þá tekið nokkurt mark á svari okkar? Ætti hann ekki frekar að spyrja einhverja aðra sem þekkja til okkar og hafa kynnt sér Vísindavefinn? Eða kannski að kynna sér heimsku okkar af eigin raun með því að lesa svör hér á vefnum?

Hér má hafa í huga að rannsóknir sýna að "heimskt" fólk gerir sér sjaldnast grein fyrir heimsku sinni og á erfitt með að skilja þegar aðrir finna að málflutningi þess. Lesandinn ræður því þess vegna algerlega sjálfur hvað hann gerir með það sem hér fer á eftir.

Lýsingarorðið "heimskur" er eins og mörg önnur orð tungumálsins að því leyti að hægt er að skilja það á nokkra vegu. Mörg orð bera til dæmis með sér ýmsar aukamerkingar sem lita aðalmerkingu orðsins og hafa áhrif á notkun þess í góðu og vönduðu máli þar sem fólk vandar orðaval. Þessar aukamerkingar geta til dæmis komið til af því hvernig orðið er myndað.

Ef orðið "heimskur" er skilið sem "fávís, fáfróður, fákunnandi" þá erum við karlmennirnir hér á Vísindavefnum vissulega heimskir því að þekking og viska mannanna nær skammt miðað við heiminn sem við erum að reyna að ráða í, gáturnar sem verið er að glíma við. Þetta á við um öll vísindi.

En nú þyngist hins vegar brúnin á konunum hérna og þær spyrja hvort þær megi ekki líka teljast heimskar í þessum skilningi. Líklega hefur tilraunin til jákvæðrar mismununar þá mistekist enda er þetta vandræðagripur eins og við ýjuðum að áðan. En alltént höfum við lært að það þarf ekki að vera slæmt að vera heimskur; það getur jafnvel talist eftirsóknarvert í sumum tilvikum.

Enski eðlisfræðingurinn Ísak Newton (1643-1730), einn mesti vísindamaður sögunnar, lét hafa eftir sér fræg ummæli um "heimsku" sína eða fákunnáttu:
Ég veit ekki hvernig heimurinn kann að líta á mig; en mér virðist sjálfum ég hafi aðeins verið eins og lítill drengur sem leikur sér í fjörunni og styttir sér stundir með því að finna öðru hverju sléttari stein eða fallegri skel en gengur og gerist, meðan gervallt úthaf sannleikans var ókannað fyrir fótum mínum. [Tilvitnun úr bókinni Heimsmynd á hverfanda hveli 2 eftir Þorstein Vilhjálmsson, bls. 272.]
En íslenska orðið "heimskur" getur líka þýtt "vitgrannur" með vísun í "heimaalinn", samanber stofn orðanna og málsháttinn "Heimskt er heimaalið barn". Þó að við hérna hjá Vísindavefnum reynum að temja okkur hæversku og lítillæti höldum við samt ekki að við séum "heimskari" en aðrir í þessari merkingu. Mörg okkar (eða margir) hafa ferðast víða og dvalist með öðrum þjóðum og við hvetjum lesendur okkar til að gera slíkt hið sama. Þessi reynsla okkar kemur lesendum til góða með ýmsum hætti.

En hvort sem við erum í raun heimsk(ir) eða ekki þá sýnist hitt ljóst, að það væri heimskulegt af okkur að reyna að svara þessari spurningu með já-i eða nei-i.

Þetta svar er föstudagssvar. Ef einhver tekur eitthvað í því alvarlega er það alfarið á hans eða hennar eigin ábyrgð.

Útgáfudagur

15.3.2002

Spyrjandi

N.N.

Tilvísun

Ritstjórn Vísindavefsins. „Eruð þið heimskir?“ Vísindavefurinn, 15. mars 2002. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2193.

Ritstjórn Vísindavefsins. (2002, 15. mars). Eruð þið heimskir? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2193

Ritstjórn Vísindavefsins. „Eruð þið heimskir?“ Vísindavefurinn. 15. mar. 2002. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2193>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Eruð þið heimskir?
Þetta er kærkomin og mikilvæg spurning þó að henni sé ef til vill ekki auðsvarað á þann hátt að lesandinn trúi svarinu. Það fyrsta sem vekur athygli er að spyrjandi, sem er 12 ára, notar karlkyn. Hann spyr ekki "Eruð þið heimsk?" heldur "Eruð þið heimskir?" Sennilega hefur hann fundið á sér að konurnar sem vinna við Vísindavefinn eru alls ekki heimskar og við karlmennirnir tökum alveg undir það með honum. Þetta gildir óháð því hvaða skilningur sem lagður er í orðið "heimskur". (Ef við værum að skrifa í fullri alvöru félli þetta undir nokkuð sem kallað er jákvæð mismunun en hún er ólíkindatól eins og við sjáum á eftir).

Þá er athyglisvert að spyrjandi skuli láta sér detta í hug að spyrja okkur sjálf um þetta. Ef við erum heimsk, getur hann þá tekið nokkurt mark á svari okkar? Ætti hann ekki frekar að spyrja einhverja aðra sem þekkja til okkar og hafa kynnt sér Vísindavefinn? Eða kannski að kynna sér heimsku okkar af eigin raun með því að lesa svör hér á vefnum?

Hér má hafa í huga að rannsóknir sýna að "heimskt" fólk gerir sér sjaldnast grein fyrir heimsku sinni og á erfitt með að skilja þegar aðrir finna að málflutningi þess. Lesandinn ræður því þess vegna algerlega sjálfur hvað hann gerir með það sem hér fer á eftir.

Lýsingarorðið "heimskur" er eins og mörg önnur orð tungumálsins að því leyti að hægt er að skilja það á nokkra vegu. Mörg orð bera til dæmis með sér ýmsar aukamerkingar sem lita aðalmerkingu orðsins og hafa áhrif á notkun þess í góðu og vönduðu máli þar sem fólk vandar orðaval. Þessar aukamerkingar geta til dæmis komið til af því hvernig orðið er myndað.

Ef orðið "heimskur" er skilið sem "fávís, fáfróður, fákunnandi" þá erum við karlmennirnir hér á Vísindavefnum vissulega heimskir því að þekking og viska mannanna nær skammt miðað við heiminn sem við erum að reyna að ráða í, gáturnar sem verið er að glíma við. Þetta á við um öll vísindi.

En nú þyngist hins vegar brúnin á konunum hérna og þær spyrja hvort þær megi ekki líka teljast heimskar í þessum skilningi. Líklega hefur tilraunin til jákvæðrar mismununar þá mistekist enda er þetta vandræðagripur eins og við ýjuðum að áðan. En alltént höfum við lært að það þarf ekki að vera slæmt að vera heimskur; það getur jafnvel talist eftirsóknarvert í sumum tilvikum.

Enski eðlisfræðingurinn Ísak Newton (1643-1730), einn mesti vísindamaður sögunnar, lét hafa eftir sér fræg ummæli um "heimsku" sína eða fákunnáttu:
Ég veit ekki hvernig heimurinn kann að líta á mig; en mér virðist sjálfum ég hafi aðeins verið eins og lítill drengur sem leikur sér í fjörunni og styttir sér stundir með því að finna öðru hverju sléttari stein eða fallegri skel en gengur og gerist, meðan gervallt úthaf sannleikans var ókannað fyrir fótum mínum. [Tilvitnun úr bókinni Heimsmynd á hverfanda hveli 2 eftir Þorstein Vilhjálmsson, bls. 272.]
En íslenska orðið "heimskur" getur líka þýtt "vitgrannur" með vísun í "heimaalinn", samanber stofn orðanna og málsháttinn "Heimskt er heimaalið barn". Þó að við hérna hjá Vísindavefnum reynum að temja okkur hæversku og lítillæti höldum við samt ekki að við séum "heimskari" en aðrir í þessari merkingu. Mörg okkar (eða margir) hafa ferðast víða og dvalist með öðrum þjóðum og við hvetjum lesendur okkar til að gera slíkt hið sama. Þessi reynsla okkar kemur lesendum til góða með ýmsum hætti.

En hvort sem við erum í raun heimsk(ir) eða ekki þá sýnist hitt ljóst, að það væri heimskulegt af okkur að reyna að svara þessari spurningu með já-i eða nei-i.

Þetta svar er föstudagssvar. Ef einhver tekur eitthvað í því alvarlega er það alfarið á hans eða hennar eigin ábyrgð....