Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Er hægt að "borða" með einhverju öðru en munninum?

Stefán Jónsson

Svarið við þessu ræðst af því hvaða merkingu menn leggja í sögnina að borða. Næringarefni geta vissulega borist inn í líkamann eftir öðrum leiðum. Það er til dæmis alþekkt að fólki sé gefin næring í æð: nokkurs konar nál sé stungið í eina af stærri æðum líkamans, tengd við hana slanga og vökva með næringarefnum dælt inn um hana. Annar möguleiki er svokölluð magaþræðing. Í henni felst að gert er gat á kviðarholið og magann með einfaldri skurðaðgerð. Inn um þetta gat er leidd slanga og eftir henni er dælt sérstökum graut eða súpu sem innheldur öll helstu næringarefni. Útsjónarsamir læknar hafa eflaust upphugsað margar aðrar leiðir til að koma næringu inn í líkamann eftir öðrum leiðum en munninum.

Á hinn bóginn er þetta þunnur þrettándi í samanburði við eiginlega máltíð. Í því að borða felst vanalega mun meira en bara það að nærast. Át er nautn og félagsleg athöfn. Maður sem fær næringu með hjálp magaþræðingar nýtur þess kannski að hafa fengið fylli sína, ef svo má segja; það er alltént ekki tómahljóð í honum og hann hefur ekki sultarverki. Hins vegar finnur hann auðvitað ekki bragðið af súpunni. Hann fer í veigamiklum atriðum á mis við þá einföldu nautn að skynja það sem hann "borðar", að ekki sé nú minnst á þá ánægju sem má hafa af góðri matargerð.

Eins er þetta með át sem félagslega athöfn. Það er að sönnu hægt að gera samfélagslegt mál úr annars konar næringarnámi en borðhaldi (bjóða fólki til hátíðarbrigða að þiggja með sér næringu í æð!) en flestum þætti það sennilega heldur snautt enda er það á skjön við blæbrigði sagnarinnar að borða.

Mergur málsins er nefnilega sá að þó næringarnám með æðalegg, magaþræðingu eða einhverju enn öðru eigi einn þátt sameiginlegan með því að matast á venjulegan hátt (þ.e. "fæðunámið" sjálft), er mun meira sem ber á milli. Orðið að borða vísar ekki bara til næringarnáms heldur fjöldamargs annars sem ekki er til að dreifa ef fæðan er innbyrt með öðrum hætti en vanalega. Þetta sést enn greinilegar á bókstaflegri merkingu orðsins. Eins og kom fram í svari Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni: Borða dýrin? er orðið dregið af því að fólk sest yfirleitt til borðs. Það gera dýr ekki og þess vegna er ekki sagt að þau borði.

Hins vegar er auðvelt að gefa dýri næringu í æð og það er þá að "nærast" í alveg sama skilningi og maður sem liggur á sjúkrahúsi með slöngu í handleggnum. Í þessu dæmi eiga dýrið og maðurinn það sameiginlegt að gera fæst af því sem vanalega fylgir því að borða. Af því leiðir að í svipuðum tilfellum og þessum á orðið ekki við nema það sé skilið harla óvenjulegri merkingu. Niðurstaðan er því sú að menn geti hæglega fengið næringu inn um eitthvað annað en munninn, en það er vafamál að þeir séu þar með að borða.



Mynd:

Vefsetur auglýsingaljósmyndarans Peter Lippmann

Höfundur

fyrrverandi starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

22.3.2002

Spyrjandi

Stefanía Árnadóttir, fædd 1992

Tilvísun

Stefán Jónsson. „Er hægt að "borða" með einhverju öðru en munninum?“ Vísindavefurinn, 22. mars 2002. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2233.

Stefán Jónsson. (2002, 22. mars). Er hægt að "borða" með einhverju öðru en munninum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2233

Stefán Jónsson. „Er hægt að "borða" með einhverju öðru en munninum?“ Vísindavefurinn. 22. mar. 2002. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2233>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er hægt að "borða" með einhverju öðru en munninum?
Svarið við þessu ræðst af því hvaða merkingu menn leggja í sögnina að borða. Næringarefni geta vissulega borist inn í líkamann eftir öðrum leiðum. Það er til dæmis alþekkt að fólki sé gefin næring í æð: nokkurs konar nál sé stungið í eina af stærri æðum líkamans, tengd við hana slanga og vökva með næringarefnum dælt inn um hana. Annar möguleiki er svokölluð magaþræðing. Í henni felst að gert er gat á kviðarholið og magann með einfaldri skurðaðgerð. Inn um þetta gat er leidd slanga og eftir henni er dælt sérstökum graut eða súpu sem innheldur öll helstu næringarefni. Útsjónarsamir læknar hafa eflaust upphugsað margar aðrar leiðir til að koma næringu inn í líkamann eftir öðrum leiðum en munninum.

Á hinn bóginn er þetta þunnur þrettándi í samanburði við eiginlega máltíð. Í því að borða felst vanalega mun meira en bara það að nærast. Át er nautn og félagsleg athöfn. Maður sem fær næringu með hjálp magaþræðingar nýtur þess kannski að hafa fengið fylli sína, ef svo má segja; það er alltént ekki tómahljóð í honum og hann hefur ekki sultarverki. Hins vegar finnur hann auðvitað ekki bragðið af súpunni. Hann fer í veigamiklum atriðum á mis við þá einföldu nautn að skynja það sem hann "borðar", að ekki sé nú minnst á þá ánægju sem má hafa af góðri matargerð.

Eins er þetta með át sem félagslega athöfn. Það er að sönnu hægt að gera samfélagslegt mál úr annars konar næringarnámi en borðhaldi (bjóða fólki til hátíðarbrigða að þiggja með sér næringu í æð!) en flestum þætti það sennilega heldur snautt enda er það á skjön við blæbrigði sagnarinnar að borða.

Mergur málsins er nefnilega sá að þó næringarnám með æðalegg, magaþræðingu eða einhverju enn öðru eigi einn þátt sameiginlegan með því að matast á venjulegan hátt (þ.e. "fæðunámið" sjálft), er mun meira sem ber á milli. Orðið að borða vísar ekki bara til næringarnáms heldur fjöldamargs annars sem ekki er til að dreifa ef fæðan er innbyrt með öðrum hætti en vanalega. Þetta sést enn greinilegar á bókstaflegri merkingu orðsins. Eins og kom fram í svari Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni: Borða dýrin? er orðið dregið af því að fólk sest yfirleitt til borðs. Það gera dýr ekki og þess vegna er ekki sagt að þau borði.

Hins vegar er auðvelt að gefa dýri næringu í æð og það er þá að "nærast" í alveg sama skilningi og maður sem liggur á sjúkrahúsi með slöngu í handleggnum. Í þessu dæmi eiga dýrið og maðurinn það sameiginlegt að gera fæst af því sem vanalega fylgir því að borða. Af því leiðir að í svipuðum tilfellum og þessum á orðið ekki við nema það sé skilið harla óvenjulegri merkingu. Niðurstaðan er því sú að menn geti hæglega fengið næringu inn um eitthvað annað en munninn, en það er vafamál að þeir séu þar með að borða.



Mynd:

Vefsetur auglýsingaljósmyndarans Peter Lippmann...