Sykursýki (Diabetes Mellitus) er efnaskiptasjúkdómur sem dregur nafn sitt af auknu sykurmagni í blóði. Sjúkdómurinn kemur fram þegar briskirtillinn framleiðir of lítið insúlín eða þegar líkaminn getur ekki nýtt sér það insúlín sem brisið framleiðir.
Til eru tvær tegundir sykursýki: tegund 1 er insúlínháð sykursýki sem aðallega greinist hjá börnum og unglingum og tegund 2 er insúlínóháð sykursýki sem leggst aðallega á fullorðna. Fjallað er um sykursýki á Vísindavefnum í svari Davíðs Þórissonar við spurningunni 'Hvað er það sem gerist í frumunum þegar við fáum sykursýki?' Á doktor.is eru margar greinar um sykursýki og einnig er umfjöllun um sjúkdóminn á heimsíðu Rafns Benediktssonar læknis www.efnaskipti.com.
Talið er að um 10-15% sykursjúkra hafi tegund 1 og um 85-90% séu með tegund 2. Um 5.000 einstaklingar hafa verið greindir með sykursýki 2 hér á landi og um 500 með tegund 1.
Í pistli Sigríðar Jóhannsdóttur og Fríðu Bragadóttur á doktor.is kemur fram að nýleg dönsk rannsókn sýni að fyrir hvern þann sem greindur er með sykursýki af tegund 2 gangi 2-3 einstaklingar með sjúkdóminn ógreindan. Sykursýki er því mun algengari en tölur frá heilbrigðisyfirvöldum gefa til kynna. Í pistlinum kemur einnig fram að sykursýki af tegund 1 er algengasti langvinni sjúkómurinn hjá börnum á Vesturlöndum. Tíðni sykursýki af tegund 2 vex sífellt með hækkandi lífaldri og á það hefur verið bent að innan fárra ára verði sá sjúkdómur eitt helsta heilbrigðisvandamál í hinum vestræna heimi.
Heimildir:- Doktor.is – Samtök sykursjúkra grein eftir Sigríði Jóhannsdóttur og Fríðu Bragadóttur
- Efnaskipti.com – heimasíða Rafns Benediktssonar læknis
- Hvað er langt í það að unnt verði að setja tæki inn í sykursjúka? eftir Ástráð B. Heiðarsson
- Hvers vegna eykst sykursýki hjá börnum og unglingum svona mikið? eftir Árna V. Þórsson
- Hvað er það sem gerist í frumunum þegar við fáum sykursýki? eftir Davíð Þórisson
- Samtök sykursjúkra
- Doktor.is - greinar um sykursýki
- Medline Plus – ítarlegar upplýsingar um sykursýki fyrir almenning
- Landspítalinn - fræðsluefni um sykursýki á meðgöngu
- Hjartavernd – Sykursýki og kransæðasjúkdómar eftir Gunnar Sigurðsson prófessor
Mynd: DPC - Diagnostic Products Corporation