- Hverjir voru sérrómversku guðirnir, þeir sem ekki samsvöruðu grísku guðunum? (Helga Guðrún Óskarsdóttir)
- Hverjir voru sérrómversku guðirnir og hvað var merkilegt við þá? Hverjar voru Vestumeyjarnar? (Dagný Ívarsdóttir)
Rómversk goðafræði er að langmestu leyti ættuð frá Forngrikkjum. Hefðbundið er að telja að Rómaborg hafi verið stofnsett árið 753 f. Kr., en helstu heimildir um trú og goðafræði Rómverja eru frá 1. öld f. Kr. Frá þeim tíma eru meðal annars skáldverk Virgils og Óvíds sem sækja efni sitt í goðafræði. Á þessum langa tíma, 7-8 öldum, urðu forngrísk áhrif svo sterk í Róm að nánast er hægt að leggja að jöfnu gríska og rómverska goðafræði og slíkt er gjarnan gert í umfjöllun um goðafræði.
Varast ber þó að einfalda samhengið þarna á milli um of. Rómverjar voru duglegir að flytja inn guði frá löndum sem þeir höfðu einhver samskipti við. Margir rómverskir guðir voru þó komnir til sögunnar áður en þeir tóku á sig eigindir hinna grísku guða.
Líkindi grískra og rómverskra guða gætu líka verið komin til vegna sameiginlegs uppruna. Þannig eru nöfn Seifs og Júpiters runnin af sömu indó-evrópsku rótinni „diu“, sem þýðir bjartur. Júpiter er dæmi um guð sem til hefur verið áður en forngrísk áhrif komu til, hann var himnaguð líkt og Seifur. Einnig má nefna Júnó, Mars og Seres, tvíeykið og tvíburana Kastor og Pollux, og etrúsku guðina Vúlkan og Satúrnus. Öll komu þau til sögunnar án grískrar aðstoðar að því er virðist, og gengdu ólíku hlutverki upphaflega en síðar varð.
Hér fyrir neðan er tafla sem sýnir samsvörunina milli helstu forngrísku og rómversku guðanna. Athyglisvert er að nafn Appollós/Appollons er hið eina sem helst hið sama. Vani er að telja tólf guði til helstu guðanna, misjafnt er hverjir það eru. Höfum við því fleiri núna svo allir fái að vera með. Röðin er ekki úthugsuð en þó byrjað á valdamestu guðunum:| Seifur | Júpiter | Himnaguð, þrumuguð, guð rigningar og skýja |
| Hera | Júnó | Verndari hjónabandsins |
| Póseidon | Neptúnus | Sjávarguð |
| Hades | Plútó | Undirheimaguð og guð verðmætra málma |
| Pallas Aþena | Mínerva | Gyðja borgarinnar, menntagyðja og gyðja vísinda, stríðsgyðja |
| Föbus Appollon | Appolló | Sólarguð, guð sannleika, tónlistar og lækningar |
| Artemis | Díana | Veiðigyðja, náttúrugyðja |
| Afródíta | Venus | Gyðja ástar og fegurðar |
| Hermes | Merkúr | Guð verslunar og viðskipta, sendiboði guðanna (Seifs) |
| Ares | Mars | Stríðsguð |
| Hefestus | Vúlkan | Guð smíða og elds, vinnumaður guðanna |
| Hestía | Vesta | Meygyðja arinelds og heimilis, gyðja heilags elds borgríkja |
| Eros | Kúpídó, Amor | Ástarguð |
| Persefóna | Proserpína | Vorgyðja (gyðja árstíðanna), undirheimagyðja |
| Demetra | Seres | Korngyðja, jarðargyðja, gyðja uppskerunnar |
| Díónýsus | Bakkus | Vínguð, guð gleðinnar |
Nokkrir guðir, eða goðmögn, áttu einungis heima í rómverskri goðafræði og trúarbrögðum. Gyðjan Vesta var sérstök gyðja arinelds og heimilis sem alla tíð gegndi mikilvægu hlutverki í rómversku samfélagi. Vegna grískra áhrifa hlaut hún víðari skírskotun og var sérstaklega dýrkuð í Rómaborg en þar sinntu prestshlutverki hinar skírlífu Vestumeyjar. Mars tengdist upphaflega landbúnaði og þéttbýli (hvort þar er um mótsögn eða þróun að ræða, skal ekki sagt til um), og var talinn forfaðir Rómverja, þar eð Rómulus og Remus voru synir hans.
Af þeim guðum sem ekki eiga sér hliðstæðu í grískri goðafræði, er helst að nefna Janus, hinn tvíhöfða guð dyra og hliða. Forfeðradýrkun tíðkaðist í Rómaveldi tengd goðmögnum sem nefndust Lares og í hverju húsi var altari þeim til heiðurs, lararium. Verndarandar forðabúra, svonefndir Penates gegndu einnig mikilvægu hlutverki. Dýrkun frjósemisguðsins Príapusar sótti á fyrir upphaf okkar tímatals og má sjá áhrif hennar meðal annars í bókinni Gullasnanum eftir Apúleius. Etrúsk áhrif, fyrr í sögu Róm, ýttu undir mikilvægi helgisiða, sem alla tíð skiptu Rómverja miklu máli.
Áður en kristni varð ríkistrú, hafði persneski guðinn Míþra átt miklu fylgi að fagna víða í Rómaveldi, en hans bíður umfjöllun í öðru svari.
Heimildir og myndir:- Íslensk alfræðiorðabók, Örn og Örlygur, Reykjavík 1990
- Um Róm, rómversk trúarbrögð, Júpiter og Janus á vefsetri Encyclopædia Britannica
- Roman Mythology
- Greek and Roman Mythological Gods
- Conference and Workshop Constanta 2000