Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Hvað getið þið sagt mér um herskipið Bismarck?

Skúli Sæland

Hér er einnig svarað spurningunum:
  • Hvernig sökk herskipið Bismarck?
  • Hvar sökk herskipið Hood?

Orrustuskipið Bismarck og systurskip þess Tirpitz voru öflugustu herskip Þjóðverja í síðari heimsstyrjöldinni og á sínum tíma sennilega þau öflugustu í Atlantshafinu. Bretar óttuðust mjög um sinn hag með tilkomu Biskmarcks því herskipafloti þeirra var úr sér genginn og gamaldags þó þeir hefðu yfir margfalt fleiri herskipum að ráða. Þeir gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til þess að finna Bismarck og eyðileggja og beittu til þess hátt í sjötíu skipum og kafbátum og ótal flugvélum. Svo fór að lokum að þeir náðu að sökkva skipinu rétt áður en það komst til hafnar í Frakklandi. Níu daga för Bismarcks og fylgdarskipsins Prinz Eugens síðari hluta maímánaðar 1941 er ein frægasta og dramatískasta viðureign herskipa síðustu aldar og vel þess virði að líta nánar yfir atburðarásina.


Hér má sjá Bismarck í Korsfirði við Björgvin í Noregi að morgni 21. maí 1941 á mynd sem tekin var af fylgdarskipinu Prinz Eugen.

Herskipið Bismarck var skírt í höfuðið á Otto von Bismarck kanslara Þýskalands árin 1871-1890. Hönnun skipsins hófst árið 1934 og kjölurinn var lagður 1. júlí 1936 af Blohm & Voss í Hamborg. Bismarck var hleypt af stokkunum þann 14. febrúar 1939 og í ágúst, ári síðar, tók áhöfn Ernst Lindemanns kapteins við skipinu.

Herskip þessa tíma voru búin frumstæðum skammdrægum ratsjám sem aðallega voru ætlaðar til notkunar þegar fallbyssum var miðað en þau voru einnig búin neðansjávarhlustunartækjum. Að auki gátu skip numið ratsjárgeisla annarra skipa og því var algengt að skip sem reyndu að dyljast hefðu slökkt á ratsjám sínum. Þessi tæknibúnaður nýttist best í slæmu skyggni en að öðru leyti notuðust herskipin við varðbergsmenn með sjónauka.

Helstu eiginleikar skipanna sem tóku þátt í átökunum 24.-27. maí 19411.
Skip/ eiginleikarBismarckPrinz EugenH.M.S.2 Hood3H.M.S. Prince of Wales4H.M.S. RodneyH.M.S. Norfolk5
Stærð (tonn)50.90019.04248.40044.40041.00013.400
Helstu vopn (fjöldi* hlaupvídd í cm)8*388*20,38*38,110*35,69*40,68*20,3
Brynvörn byrðings í mm32080305348-37435625-50
Hraði í hnútum3032,530-31282132

1) Öflugustu vígdrekar úthafanna skiptust gróflega í tvo flokka: orrustuskip og beitiskip. Orrustuskipin voru búin öflugustu byssunum og þykkustu brynvörninni en urðu fyrir vikið oft fullhægfara. Beitiskipin voru með veigaminni vopn og brynvörn en orrustuskipin en hraði þeirra átti að vera meiri og gera þeim kleift að komast undan í bardaga. Á milli þeirra í getu og styrk komu svo orrustubeitiskip sem voru öflug en með veigalítilli brynvörn samanborið við orrustuskipin.

2) Breski flotinn hefur til siðs að skíra herskip sín His (her) Majesty’s Ship, skammstafað H.M.S., til aðgreiningar frá öðrum skipum en til einföldunar verður þessum forheitum að mestu sleppt hér.

3) Hood var orrustubeitiskip.

4) Prince of Wales og King George V voru systurskip. Líkt og Rodney og Bismarck voru þau orrustuskip

5) Suffolk og Dorsetshire voru systurskip Norfolks. Þau voru beitiskip líkt og Prinz Eugen.

Erich Raeder aðmíráll yfirmaður þýska flotans (þ. Kriegsmarine) taldi best að ráðast gegn aðflutningsleiðum bresku samveldisríkjanna með því að senda herskip þýska flotans og vopnuð kaupför í víking út um öll heimshöf í von um að dreifa kröftum andstæðingsins. Þessi hernaðaráætlun var áhættusöm því Þjóðverjar réðu yfir fáum herskipum svo að missir hvers skips var þeim afskaplega afdrifaríkur. Hún gekk þó vel framan af eða þar til Bretar réðu Enigma-dulmál þýska flotans nægilega til að finna þýsku skipin.

För Bismarcks og fylgdarskipa þess undir stjórn Günther Lütjens aðmíráls hlaut dulnefnið Rínaræfing (þ. Rheinübung). Ætlunin var að sækja síðla vetrar 1941 út á Atlantshafið fram hjá Íslandi til að herja á siglingaleiðir andstæðingsins en af ýmsum ástæðum tafðist brottför til 18. maí.

Bretum var löngu orðið ljóst hvað stæði til, meðal annars vegna dulmálshlerana sinna. Til að auðvelda eftirlit með þýskum skipum hafði verið komið upp varðlínu breskra skipa milli Skotlands, Færeyja, Íslands og Grænlands ásamt viðamiklu tundurduflabelti. (Umfjöllun um tundurdufl og tundurduflalagnir Breta hér við land og afleiðingar þeirra má sjá annars staðar á Vísindavefnum.) Einnig sendu Bretar beitiskipið Norfolk til að vakta Grænlandssund með systurskipi sínu Suffolk.


Víðfræg njósnamynd sem tekin var úr Spitfire flugvél og sýnir Bismarck í Grimstadfirði við Björgvin í Noregi. Þessi mynd gerði Bretum kleyft að sannreyna að það væri Bismarck sem hefði haldið af stað út á Atlantshafið.

Þýsku herskipin sáust í Björgvin í Noregi morguninn 21. maí þar sem Prinz Eugen tók olíu. Sir John Tovey aðmíráll, yfirmaður breska Heimaflotans (e. Home Fleet), sendi því orrustubeitiskipið Hood undir stjórn Lancelots Hollands varaaðmíráls og orrustuskipið Prince of Wales ásamt sex tundurspillum úr heimahöfn flotans í Orkneyjum, suður fyrir Ísland til að geta brugðist við hvorum megin við landið sem þýsku herskipin myndu reyna að fara. Flýtirinn var slíkur að fjöldi viðgerðarmanna var enn um borð í orrustuskipinu og bilanir áttu eftir að hrjá skipið þegar mest á reyndi í orrustunni við Bismarck.

Lütjens aðmíráll virðist hafa ákveðið að nýta þokuna á Grænlandshafi til þess að reyna að sleppa óséður meðfram ísröndinnni frekar en að taka olíu af birgðaskipinu Weissenburg sem beið reiðubúið norðan Íslands. Herskipin sluppu þó ekki óséð því kl. 19:22 þann 23. maí sá varðbergsmaður Suffolk skipin í sjö mílna fjarlægð, vel innan skotfæris fallbyssna Bismarcks sem drógu 20 mílur. Breska skipið sneri samstundis inn í þokubakka og duldist þar inn á milli tundurduflagirðinganna á meðan Bismarck og Prinz Eugen sigldu hjá. Þjóðverjarnir urðu sömuleiðis varir við breska skipið með tækjabúnaði sínum en misstu af því í þokunni. Suffolk og Norfolk héldu í humátt á eftir þýsku skipunum og kölluðu eftir hjálp. Bismarck sneri nokkrum sinnum við til þess að reyna að komast í skotfæri við bresku skipin og fæla þau burt en þau urðu þess jafnan vör og héldu sig utan skotfæris.

Breska flotadeildin suður af Íslandi sigldi nú í veg fyrir þýsku skipin tvö og laust þeim saman um kl. 5:50 þann 24. maí um 200 sjómílum vestur af Reykjanesi. Hood réðst strax að þýsku skipunum og stefndi hratt að þeim. Talið er að Holland varaaðmíráll hafi óttast að fá skot ofan á skipið því brynvörn þilfarsins var til muna þynnri en síðubrynvörnin. Með því að komast í návígi við Bismarck kæmu skotin í flatari skotkúrfu og minni hætta væri á að fá þau ofan á skipið. Vegna mistaka skutu Bretar að báðum þýsku skipunum og dýrmætur tími leið áður en mistökin voru leiðrétt. Eftir stutta en snarpa viðureign sprakk Hood í loft upp. Talið er að skot frá Bismarck hafi komist í gegnum byrðing skipsins undir sjólínu sem var ekki eins vel brynvarin og sprungið í skotfærageymslu. Einungis þrír skipverjar komust af úr 1.418 manna áhöfn Hood.


Ein frægasta stríðsfréttamynd heimsstyrjaldarinnar. H.M.S. Hood er nýsprungið og Bismarck er farið að skjóta á H.M.S. Prince of Wales.

Bresku skipin hörfuðu við þetta og kölluðu eftir liðsauka en þau þýsku héldu áfram för sinni suður á bóginn. Bismarck hafði orðið fyrir þremur skotum sem höfðu náð að skaða eldsneytistanka skipsins að framan og skorti skipið nú eldsneyti til útilegu. Þýsku skipherrarnir ákváðu því að skipta liði í von um að hrista af sér óvininn. Bretar urðu ekki varir við að beitiskipið hvarf frá Bismarck en eltu áfram orrustuskipið. Síðdegis sama dag barst þeim aðstoð þegar Swordfish-flugvélar af flugmóðurskipinu Victorious gerðu misheppnaða árás á Bismarck. Bresku herskipin sigldu nú í krákustígum vegna ótta við kafbáta og því hvarf Bismarck reglulega úr ratsjá þeirra sem vísaði einungis fram á við. Þetta ákvað Lütjens aðmíráll að nýta sér og þegar bresku skipin sneru frá Bismarck einu sinni sem oftar sneri hann í hina áttina og sigldi aftur fyrir þau. Þau vöruðu sig ekki á þessu bragði og misstu því af Biskmarck.

Yfirmenn Bismarcks áttuðu sig hins vegar ekki á því að þeim hefði tekist að losna undan eftirförinni og sendu skeyti til þýsku flotastjórnarinnar um skemmdir og að Bismarck kæmi til St.-Nazaire í Frakklandi til viðgerðar. Breskum hlerunarstöðvum tókst að hlera þessi skeyti og miða út staðsetningu skipsins. Þeir misreiknuðu sig þó og sendu bresku leitarskipin á rangan stað. Loks fundu þeir þó Bismarck með PDY-4 Catalinu leitarflugvélum frá N.-Írlandi.

Nú var Bismarck hins vegar að sleppa úr greipum Breta því skipið var að ná til flugverndarsvæðis Þjóðverja í Frakklandi. Gerðu Bretar örvæntingarfulla tilraun til að stöðva þýska bryndrekann með tundurskeytaflugvélum af flugmóðurskipinu Ark Royal. Ekki tókst betur til en svo að fyrir mistök var ráðist á Sheffield, eitt af þeirra eigin skipum. Heppnin var þó með þeim í næstu árás því um kl. 21:00 þann 26. maí festist stýri Bismarcks þegar það var að beygja undan tundurskeyti. Beygði það nú af leið og sigldi í hringi. Gerð var næturárás með tundurspillum en veður var slæmt og áhöfn Bismarcks náði að verjast henni.

Endalokin voru þó óumflýjanleg og herskip frá Gíbraltar mættu nú á svæðið ásamt fleiri herskipum sem elt höfðu Bismarck yfir Atlantshafið undir stjórn Toveys aðmíráls. Skipunum laust saman um 8:45 að morgni og tókust þar orrustuskipin King Georg V og Rodney ásamt beitiskipunum Norfolk og Dorsetshire á við Bismarck. Talið er að fimmtán til tuttugu mínútum síðar hafi aðalstjórnstöð stórskotaliðs Bismarcks laskast og eftir það gat það litla björg sér veitt. Rigndi fallbyssuskotum og tundurskeytum yfir þýska bryndrekann úr öllum áttum uns áhöfnin sprengdi göt á botn skipsins til að flýta fyrir endalokum þess og yfirgaf skipið. Bismarck sökk svo kl. 10:39.


Endalok Bismarcks séð frá beitiskipinu Dorsetshire.

Til marks um hve naumlega Bretum tókst að stöðva skipið er að nokkur herskipa þeirra urðu frá að hverfa í miðjum bardaga vegna eldsneytisskorts. En flestra áhafnarmeðlima Bismarcks biðu hörmungar því Dorsetshire og Maori, sem skipað var að bjarga þeim, hættu björgunaraðgerðum í miðju kafi því óttast var að kafbátur hefði sést á svæðinu. Slíkt fær þó ekki staðist og þegar kafbáturinn U-74 undir stjórn Kentrats kom á vettvang fann hann einungis þrjá á lífi. (Rúmum mánuði áður hafði U-74 undir stjórn Kentrats þessa ráðist heiftarlega á fiskiskipið Fróða ÍS 454 með þeim afleiðingum að fimm féllu, sjá svar við spurningunni Hversu mörgum íslenskum skipum var sökkt í seinni heimsstyrjöldinni?). Nokkru síðar kom þýska veðurathugunarskipið Saschenwald á vettvang og náðu þeir að bjarga tveimur skipverjum til viðbótar. Alls björguðust 115 manns af 2.206 áhafnarmeðlimum.

Eftir að Bismarck var sökkt missti Hitler trúna á að þýsk herskip gætu varist þeim bresku á úthafinu og í september sama ár bannaði hann frekari útrás bryndreka sinna út á Atlantshaf.

Flak Bismarcks fannst í júní árið 1989 í uppréttri stöðu á rúmlega 4500 m dýpi um 650 km vestur af Brest í Frakklandi. Leitinni að flakinu var stjórnað af Dr. Robert Ballard sem fann Titanic á sínum tíma. Að þessu sinni gaf hann þó ekki upp staðsetningu flaksins svo safnarar gætu ekki rænt hlutum úr því enda hefur þýska ríkið slegið eign sinni á flakið í samræmi við alþjóðalög og lýst það vota gröf sjóliðanna sem í því eru. Yfirbygging skipsins var töluvert löskuð eftir skothríðina auk þess sem fallbyssuturnarnir fjórir höfðu brotnað af en einungis minni háttar skemmdir voru vegna tundurskeyta. Sjá mátti líka vegsummerki sem styðja staðhæfingar skipverja um aðgerðir þeirra sjálfra til að sökkva skipinu.

Heimildir:

Myndir:

Höfundur

Skúli Sæland

sagnfræðingur

Útgáfudagur

11.4.2005

Spyrjandi

Bárður Hilmarsson
Magnús Ómarsson
Hafdís Ásgeirsdóttir

Tilvísun

Skúli Sæland. „Hvað getið þið sagt mér um herskipið Bismarck?“ Vísindavefurinn, 11. apríl 2005. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=4879.

Skúli Sæland. (2005, 11. apríl). Hvað getið þið sagt mér um herskipið Bismarck? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4879

Skúli Sæland. „Hvað getið þið sagt mér um herskipið Bismarck?“ Vísindavefurinn. 11. apr. 2005. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4879>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um herskipið Bismarck?
Hér er einnig svarað spurningunum:

  • Hvernig sökk herskipið Bismarck?
  • Hvar sökk herskipið Hood?

Orrustuskipið Bismarck og systurskip þess Tirpitz voru öflugustu herskip Þjóðverja í síðari heimsstyrjöldinni og á sínum tíma sennilega þau öflugustu í Atlantshafinu. Bretar óttuðust mjög um sinn hag með tilkomu Biskmarcks því herskipafloti þeirra var úr sér genginn og gamaldags þó þeir hefðu yfir margfalt fleiri herskipum að ráða. Þeir gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til þess að finna Bismarck og eyðileggja og beittu til þess hátt í sjötíu skipum og kafbátum og ótal flugvélum. Svo fór að lokum að þeir náðu að sökkva skipinu rétt áður en það komst til hafnar í Frakklandi. Níu daga för Bismarcks og fylgdarskipsins Prinz Eugens síðari hluta maímánaðar 1941 er ein frægasta og dramatískasta viðureign herskipa síðustu aldar og vel þess virði að líta nánar yfir atburðarásina.


Hér má sjá Bismarck í Korsfirði við Björgvin í Noregi að morgni 21. maí 1941 á mynd sem tekin var af fylgdarskipinu Prinz Eugen.

Herskipið Bismarck var skírt í höfuðið á Otto von Bismarck kanslara Þýskalands árin 1871-1890. Hönnun skipsins hófst árið 1934 og kjölurinn var lagður 1. júlí 1936 af Blohm & Voss í Hamborg. Bismarck var hleypt af stokkunum þann 14. febrúar 1939 og í ágúst, ári síðar, tók áhöfn Ernst Lindemanns kapteins við skipinu.

Herskip þessa tíma voru búin frumstæðum skammdrægum ratsjám sem aðallega voru ætlaðar til notkunar þegar fallbyssum var miðað en þau voru einnig búin neðansjávarhlustunartækjum. Að auki gátu skip numið ratsjárgeisla annarra skipa og því var algengt að skip sem reyndu að dyljast hefðu slökkt á ratsjám sínum. Þessi tæknibúnaður nýttist best í slæmu skyggni en að öðru leyti notuðust herskipin við varðbergsmenn með sjónauka.

Helstu eiginleikar skipanna sem tóku þátt í átökunum 24.-27. maí 19411.
Skip/ eiginleikarBismarckPrinz EugenH.M.S.2 Hood3H.M.S. Prince of Wales4H.M.S. RodneyH.M.S. Norfolk5
Stærð (tonn)50.90019.04248.40044.40041.00013.400
Helstu vopn (fjöldi* hlaupvídd í cm)8*388*20,38*38,110*35,69*40,68*20,3
Brynvörn byrðings í mm32080305348-37435625-50
Hraði í hnútum3032,530-31282132

1) Öflugustu vígdrekar úthafanna skiptust gróflega í tvo flokka: orrustuskip og beitiskip. Orrustuskipin voru búin öflugustu byssunum og þykkustu brynvörninni en urðu fyrir vikið oft fullhægfara. Beitiskipin voru með veigaminni vopn og brynvörn en orrustuskipin en hraði þeirra átti að vera meiri og gera þeim kleift að komast undan í bardaga. Á milli þeirra í getu og styrk komu svo orrustubeitiskip sem voru öflug en með veigalítilli brynvörn samanborið við orrustuskipin.

2) Breski flotinn hefur til siðs að skíra herskip sín His (her) Majesty’s Ship, skammstafað H.M.S., til aðgreiningar frá öðrum skipum en til einföldunar verður þessum forheitum að mestu sleppt hér.

3) Hood var orrustubeitiskip.

4) Prince of Wales og King George V voru systurskip. Líkt og Rodney og Bismarck voru þau orrustuskip

5) Suffolk og Dorsetshire voru systurskip Norfolks. Þau voru beitiskip líkt og Prinz Eugen.

Erich Raeder aðmíráll yfirmaður þýska flotans (þ. Kriegsmarine) taldi best að ráðast gegn aðflutningsleiðum bresku samveldisríkjanna með því að senda herskip þýska flotans og vopnuð kaupför í víking út um öll heimshöf í von um að dreifa kröftum andstæðingsins. Þessi hernaðaráætlun var áhættusöm því Þjóðverjar réðu yfir fáum herskipum svo að missir hvers skips var þeim afskaplega afdrifaríkur. Hún gekk þó vel framan af eða þar til Bretar réðu Enigma-dulmál þýska flotans nægilega til að finna þýsku skipin.

För Bismarcks og fylgdarskipa þess undir stjórn Günther Lütjens aðmíráls hlaut dulnefnið Rínaræfing (þ. Rheinübung). Ætlunin var að sækja síðla vetrar 1941 út á Atlantshafið fram hjá Íslandi til að herja á siglingaleiðir andstæðingsins en af ýmsum ástæðum tafðist brottför til 18. maí.

Bretum var löngu orðið ljóst hvað stæði til, meðal annars vegna dulmálshlerana sinna. Til að auðvelda eftirlit með þýskum skipum hafði verið komið upp varðlínu breskra skipa milli Skotlands, Færeyja, Íslands og Grænlands ásamt viðamiklu tundurduflabelti. (Umfjöllun um tundurdufl og tundurduflalagnir Breta hér við land og afleiðingar þeirra má sjá annars staðar á Vísindavefnum.) Einnig sendu Bretar beitiskipið Norfolk til að vakta Grænlandssund með systurskipi sínu Suffolk.


Víðfræg njósnamynd sem tekin var úr Spitfire flugvél og sýnir Bismarck í Grimstadfirði við Björgvin í Noregi. Þessi mynd gerði Bretum kleyft að sannreyna að það væri Bismarck sem hefði haldið af stað út á Atlantshafið.

Þýsku herskipin sáust í Björgvin í Noregi morguninn 21. maí þar sem Prinz Eugen tók olíu. Sir John Tovey aðmíráll, yfirmaður breska Heimaflotans (e. Home Fleet), sendi því orrustubeitiskipið Hood undir stjórn Lancelots Hollands varaaðmíráls og orrustuskipið Prince of Wales ásamt sex tundurspillum úr heimahöfn flotans í Orkneyjum, suður fyrir Ísland til að geta brugðist við hvorum megin við landið sem þýsku herskipin myndu reyna að fara. Flýtirinn var slíkur að fjöldi viðgerðarmanna var enn um borð í orrustuskipinu og bilanir áttu eftir að hrjá skipið þegar mest á reyndi í orrustunni við Bismarck.

Lütjens aðmíráll virðist hafa ákveðið að nýta þokuna á Grænlandshafi til þess að reyna að sleppa óséður meðfram ísröndinnni frekar en að taka olíu af birgðaskipinu Weissenburg sem beið reiðubúið norðan Íslands. Herskipin sluppu þó ekki óséð því kl. 19:22 þann 23. maí sá varðbergsmaður Suffolk skipin í sjö mílna fjarlægð, vel innan skotfæris fallbyssna Bismarcks sem drógu 20 mílur. Breska skipið sneri samstundis inn í þokubakka og duldist þar inn á milli tundurduflagirðinganna á meðan Bismarck og Prinz Eugen sigldu hjá. Þjóðverjarnir urðu sömuleiðis varir við breska skipið með tækjabúnaði sínum en misstu af því í þokunni. Suffolk og Norfolk héldu í humátt á eftir þýsku skipunum og kölluðu eftir hjálp. Bismarck sneri nokkrum sinnum við til þess að reyna að komast í skotfæri við bresku skipin og fæla þau burt en þau urðu þess jafnan vör og héldu sig utan skotfæris.

Breska flotadeildin suður af Íslandi sigldi nú í veg fyrir þýsku skipin tvö og laust þeim saman um kl. 5:50 þann 24. maí um 200 sjómílum vestur af Reykjanesi. Hood réðst strax að þýsku skipunum og stefndi hratt að þeim. Talið er að Holland varaaðmíráll hafi óttast að fá skot ofan á skipið því brynvörn þilfarsins var til muna þynnri en síðubrynvörnin. Með því að komast í návígi við Bismarck kæmu skotin í flatari skotkúrfu og minni hætta væri á að fá þau ofan á skipið. Vegna mistaka skutu Bretar að báðum þýsku skipunum og dýrmætur tími leið áður en mistökin voru leiðrétt. Eftir stutta en snarpa viðureign sprakk Hood í loft upp. Talið er að skot frá Bismarck hafi komist í gegnum byrðing skipsins undir sjólínu sem var ekki eins vel brynvarin og sprungið í skotfærageymslu. Einungis þrír skipverjar komust af úr 1.418 manna áhöfn Hood.


Ein frægasta stríðsfréttamynd heimsstyrjaldarinnar. H.M.S. Hood er nýsprungið og Bismarck er farið að skjóta á H.M.S. Prince of Wales.

Bresku skipin hörfuðu við þetta og kölluðu eftir liðsauka en þau þýsku héldu áfram för sinni suður á bóginn. Bismarck hafði orðið fyrir þremur skotum sem höfðu náð að skaða eldsneytistanka skipsins að framan og skorti skipið nú eldsneyti til útilegu. Þýsku skipherrarnir ákváðu því að skipta liði í von um að hrista af sér óvininn. Bretar urðu ekki varir við að beitiskipið hvarf frá Bismarck en eltu áfram orrustuskipið. Síðdegis sama dag barst þeim aðstoð þegar Swordfish-flugvélar af flugmóðurskipinu Victorious gerðu misheppnaða árás á Bismarck. Bresku herskipin sigldu nú í krákustígum vegna ótta við kafbáta og því hvarf Bismarck reglulega úr ratsjá þeirra sem vísaði einungis fram á við. Þetta ákvað Lütjens aðmíráll að nýta sér og þegar bresku skipin sneru frá Bismarck einu sinni sem oftar sneri hann í hina áttina og sigldi aftur fyrir þau. Þau vöruðu sig ekki á þessu bragði og misstu því af Biskmarck.

Yfirmenn Bismarcks áttuðu sig hins vegar ekki á því að þeim hefði tekist að losna undan eftirförinni og sendu skeyti til þýsku flotastjórnarinnar um skemmdir og að Bismarck kæmi til St.-Nazaire í Frakklandi til viðgerðar. Breskum hlerunarstöðvum tókst að hlera þessi skeyti og miða út staðsetningu skipsins. Þeir misreiknuðu sig þó og sendu bresku leitarskipin á rangan stað. Loks fundu þeir þó Bismarck með PDY-4 Catalinu leitarflugvélum frá N.-Írlandi.

Nú var Bismarck hins vegar að sleppa úr greipum Breta því skipið var að ná til flugverndarsvæðis Þjóðverja í Frakklandi. Gerðu Bretar örvæntingarfulla tilraun til að stöðva þýska bryndrekann með tundurskeytaflugvélum af flugmóðurskipinu Ark Royal. Ekki tókst betur til en svo að fyrir mistök var ráðist á Sheffield, eitt af þeirra eigin skipum. Heppnin var þó með þeim í næstu árás því um kl. 21:00 þann 26. maí festist stýri Bismarcks þegar það var að beygja undan tundurskeyti. Beygði það nú af leið og sigldi í hringi. Gerð var næturárás með tundurspillum en veður var slæmt og áhöfn Bismarcks náði að verjast henni.

Endalokin voru þó óumflýjanleg og herskip frá Gíbraltar mættu nú á svæðið ásamt fleiri herskipum sem elt höfðu Bismarck yfir Atlantshafið undir stjórn Toveys aðmíráls. Skipunum laust saman um 8:45 að morgni og tókust þar orrustuskipin King Georg V og Rodney ásamt beitiskipunum Norfolk og Dorsetshire á við Bismarck. Talið er að fimmtán til tuttugu mínútum síðar hafi aðalstjórnstöð stórskotaliðs Bismarcks laskast og eftir það gat það litla björg sér veitt. Rigndi fallbyssuskotum og tundurskeytum yfir þýska bryndrekann úr öllum áttum uns áhöfnin sprengdi göt á botn skipsins til að flýta fyrir endalokum þess og yfirgaf skipið. Bismarck sökk svo kl. 10:39.


Endalok Bismarcks séð frá beitiskipinu Dorsetshire.

Til marks um hve naumlega Bretum tókst að stöðva skipið er að nokkur herskipa þeirra urðu frá að hverfa í miðjum bardaga vegna eldsneytisskorts. En flestra áhafnarmeðlima Bismarcks biðu hörmungar því Dorsetshire og Maori, sem skipað var að bjarga þeim, hættu björgunaraðgerðum í miðju kafi því óttast var að kafbátur hefði sést á svæðinu. Slíkt fær þó ekki staðist og þegar kafbáturinn U-74 undir stjórn Kentrats kom á vettvang fann hann einungis þrjá á lífi. (Rúmum mánuði áður hafði U-74 undir stjórn Kentrats þessa ráðist heiftarlega á fiskiskipið Fróða ÍS 454 með þeim afleiðingum að fimm féllu, sjá svar við spurningunni Hversu mörgum íslenskum skipum var sökkt í seinni heimsstyrjöldinni?). Nokkru síðar kom þýska veðurathugunarskipið Saschenwald á vettvang og náðu þeir að bjarga tveimur skipverjum til viðbótar. Alls björguðust 115 manns af 2.206 áhafnarmeðlimum.

Eftir að Bismarck var sökkt missti Hitler trúna á að þýsk herskip gætu varist þeim bresku á úthafinu og í september sama ár bannaði hann frekari útrás bryndreka sinna út á Atlantshaf.

Flak Bismarcks fannst í júní árið 1989 í uppréttri stöðu á rúmlega 4500 m dýpi um 650 km vestur af Brest í Frakklandi. Leitinni að flakinu var stjórnað af Dr. Robert Ballard sem fann Titanic á sínum tíma. Að þessu sinni gaf hann þó ekki upp staðsetningu flaksins svo safnarar gætu ekki rænt hlutum úr því enda hefur þýska ríkið slegið eign sinni á flakið í samræmi við alþjóðalög og lýst það vota gröf sjóliðanna sem í því eru. Yfirbygging skipsins var töluvert löskuð eftir skothríðina auk þess sem fallbyssuturnarnir fjórir höfðu brotnað af en einungis minni háttar skemmdir voru vegna tundurskeyta. Sjá mátti líka vegsummerki sem styðja staðhæfingar skipverja um aðgerðir þeirra sjálfra til að sökkva skipinu.

Heimildir:

Myndir:...