Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hver var hugsuðurinn Demókrítos og hvað gerði hann?

Geir Þ. Þórarinsson

Vísindavefnum hafa borist margar fyrirspurnir um Demókrítos og hér verður því reynt að svara einnig eftirfarandi spurningum:

  • Hver er hluti Demókrítosar í sögu eðlisfræðinnar? (Valgerður Kristmannsdóttir, f. 1988)
  • Mig vantar eitthvað um Demókrítos og ekki væri verra að fá mynd. (Valgerður Jóhannesdóttir, f. 1988)
  • Hvað er maðurinn Demókrítos þekktur fyrir? Hvar var hann fæddur og hvenær varð hann frægur? (Jóhanna Lilja)
  • Hver var frumeindakenning Demókrítosar? (Hrefna Dagbjartsdóttir)

Ævi Demókrítosar

Demókrítos var einn af frumherjum grískrar heimspeki, sem oft eru nefndir forverar Sókratesar þótt það sé villandi í tilfelli Demókrítosar því hann var níu árum yngri en Sókrates. Demókrítos fæddist árið 460 f. Kr. í borginni Abderu í Þrakíu í Norður-Grikklandi og lést árið 370 f. Kr. Heimildum ber ekki saman um hverra manna hann var, og er hann ýmist sagður sonur Hegesistratosar eða Aþenokrítosar eða jafnvel Damasipposar. Demókrítos er sagður hafa verið nemandi Levkipposar, en einungis einn vitnisburður hefur varðveist eftir hinn síðarnefnda:

Ekkert er án tilgangs, heldur eru rök og nauðsyn fyrir öllu (þýð. Eyjólfs Kjalars Emilssonar).

Lítið meira er vitað með vissu um ævi og störf Demókrítosar þótt ýmsar sögur hafi farið um hann. Hann ferðaðist víða, til dæmis til Egyptalands og Persíu. Rómverski stjórnmálamaðurinn og heimspekingurinn Cíceró (106-43 f. Kr.) og rómverska skáldið Hóratíus (65-8 f. Kr.) kölluðu báðir Demókrítos heimspekinginn hlæjandi og festist sú ímynd við hann.

Demókrítos var einstaklega fjölhæfur heimspekingur og skrifaði meðal annars um stærðfræði, eðlisfræði, stjörnufræði, heimsfræði, landafræði, læknisfræði, lífeðlisfræði, grasafræði, heimspeki og myndlist svo eitthvað sé nefnt. Sagnaritarinn Díogenes Laertíos segir að bókasafnið mikla í Alexandríu hafi haft titla 60 bóka eftir Demókrítos á skrá sinni. Sögur fóru af ritsnilld Demókrítosar og hlaut hann meðal annars lof hjá Cíceró fyrir stíl sinn. Töluvert er varðveitt af skrifum Demókrítosar, eða á þriðja hundrað brota úr ritum hans en því miður engin í heilu lagi.

Eindahyggjan

Demókrítos er frægastur fyrir framlag sitt í heimspeki, nánar tiltekið í frumspeki og þekkingarfræði, en hann var ásamt Levkipposi höfundur eindahyggjunnar eða atómismans. Kenningin varð til sem einhvers konar viðbragð við kenningum Parmenídesar frá Eleu (um 515-443 f. Kr.) og lærisveins hans, Zenons (fæddur um 490 f. Kr.), og ef til vill einnig sem viðbragð við kenningum Anaxagórasar frá Klasómenæ (um 500-428 f. Kr.). Þeir Parmenídes og Zenon færðu rök fyrir því að hreyfing og breyting væru ekki til heldur væri hvort tveggja eintóm blekking. Um þetta má lesa í svari Ólafs Páls Jónssonar við spurningunni Hver setti fram þá tilgátu að hreyfing væri ekki til? Er hún sönn? Zenon varð frægur fyrr þverstæður sínar sem áttu að sýna fram á þetta. Frægust þeirra er sennilega þverstæðan um Akkilles og skjaldbökuna en þar er því haldið fram að hinn fótfrái Akkilles geti ekki unnið skjaldböku í kapphlaupi. Kristín Halla Jónsdóttir fjallar meira um þetta í svari sínu Ef skjaldbaka byrjar kapphlaup við hest með 100 m forskoti, getur hann einhvern tímann náð henni? Einnig er bent á Er hægt að hugsa til enda að eitthvað sé endalaust? eftir Ólaf Pál Jónsson. Anaxagóras hélt því aftur á móti fram að til væru óendanlega mörg frumefni og að efninu væri endalaust hægt að skipta í smærri eindir.


Demókrítos er þekktastur fyrir að vera faðir eindahyggjunnar, hugmyndarinnar um að allt sé gert úr örsmáum ódeilanlegum eindum, eða atómum.

Eindakenningin er í meginatriðum sú að ekkert sé til nema örsmáar eindir, sem þeir nefndu atóm (ódeili), og tómarúm. Allt sem við sjáum – borð og stólar, hús og bílar, hundar, kettir og við sjálf – allt er byggt upp af þessum eindum en eindirnar eru svo smáar að við sjáum þær ekki með berum augum. Eindirnar eru allar úr sama efni, en þær eru óendanlega margar og fjölbreytilegar. Allar breytingar í heiminum eru fólgnar í nýskipan eindanna en eindirnar sjálfar verða hvorki til né eyðast. Hreyfing er náttúrulegt ástand eindanna og þar sem hreyfingin er eindunum eðlileg þarf ekki að útskýra hana. Það sem þarf að útskýra er breyting á hreyfingu, til dæmis breyting á stefnu eða hraða. Eindirnar svífa um í tómarúminu og rekast hver á aðra. Við áreksturinn breyta þær ýmist stefnu sinni eða festast saman og mynda þá hluti sem við þekkjum úr daglegu lífi okkar. Vilji menn kynna sér nútímahugmyndir um atóm er þeim bent á að lesa svar Árdísar Elíasdóttur og Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Eru atóm alls staðar og í öllu? Hver er þá munurinn á uppbyggingu manns og steins?

Eins og sjá má er eindakenningin römm efnishyggja; samkvæmt henni er allt efnislegt. Demókrítos virðist meira að segja hafa verið þeirrar skoðunar að sálin væri efnisleg, gerð úr afar fíngerðum kúlulöguðum atómum sem gátu smogið í gegnum önnur „söfn” atóma. Þessi sálaratóm voru náskyld atómum eldsins og í raun eins í laginu. Þau gátu enn fremur komið af stað hreyfingu. Um efnishyggju og hyghyggju, líkama og sál má lesa í svari Atla Harðarsonar við spurningunni Hvað er einhyggja og tvíhyggja? Hvers vegna eru þær svo fyrirferðarmiklar í sögunni?

Eitt helsta afrek eindakenningarinnar er greinarmunurinn á frumlegum og annarlegum eiginleikum sem við nefnum svo. Eindirnar sjálfar hafa einungis frumlega eiginleika, svo sem lögun, þyngd og hraða. Annarlegu eiginleikarnir, en það eru eiginleikar á borð við hljóð, liti, bragð og svo framvegis, verða til við samspil frumlegu eiginleikanna og skynfæra okkar. Í einu frægasta broti Demókrítosar segir hann:

Sætt og súrt, heitt og kalt, og litur eru ákvörðunaratriði, í veruleikanum eru ódeilin og tómið (þýð. Eyjólfs Kjalars Emilssonar).

Þessu fylgdi svo ítarleg kenning um skynjun þar sem því er lýst hvernig eindirnar í skynfærum okkar komast í snertingu við eindir sem streyma út frá hlutunum.

Samkvæmt eindakenningunni gerist allt af nauðsyn. Það eru engar tilviljanir heldur gengur heimurinn fyrir vélrænum lögmálum. Þessi hugmynd er yfirleitt nefnd löghyggja eða vélhyggja. Í eindakenningu Demókrítosar og Levkipposar kemur slík allsherjarlöghyggja í fyrsta sinn fram hjá heimspekingi á Vesturlöndum. Enn í dag eru rökræður um að hvaða marki heimurinn sé vélrænn og, ef svo er, hvort hægt sé að tala um frelsi viljans.


Samkvæmt löghyggju gengur heimurinn fyrir vélrænum lögmálum. Eitt leiðir óhjákvæmilega af öðru, rétt eins og snúningur eins tannhjóls knýr annað af stað.

Um frjálsan vilja má lesa í svarinu Er hægt að tala um frjálsan vilja? eftir Atla Harðarson og í Frjálsum vilja úr greinasafninu Afarkostum eftir sama höfund. Einnig er bent á svar hans við spurningunni Gerist það sama aftur ef allar aðstæður verða aftur þær sömu? Er þá ekki allt ákveðið fyrir fram og hægt að reikna það út?

Þekkingarfræði

Þekking virðist hafa verið Demókrítosi nokkuð hugleikin. Demókrítos taldi að öll þekking fengist með skynreynslu. En skynfærin eru brigðul og gefa oft bjagaða mynd af því sem skynjað er. Þess vegna var þeim, að mati Demókrítosar, ekki fyllilega treystandi. En þótt Demókrítos hafi verið fullur efasemda um að skynreynsla gæti fært okkur nokkra fullvissu var hann eftir sem áður ekki efahyggjumaður enda ætti hann þá erfitt með að setja fram kenningar um eðli heimsins, skynjunar og fleira. Við þurfum að leggja mat á skynjanir okkar og vinna úr upplýsingunum sem þau veita okkur. Við erum ekki óskeikul en getum þó með þessu móti öðlast einhverja vitneskju um heiminn.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir fjallar um hugmyndir heimspekinga um þekkingu í svarinu Hvað er þekking? og Alti Harðarson um áreiðanleika skynfæranna í svarinu Getur skynjunin gefið okkur raunverulega þekkingu á veröldinni kringum okkur?

Siðfræðin

Demókrítos var fyrstur af frumherjum grískrar heimspeki til að fjalla um manninn. Meirihluti brotanna sem varðveitt eru fjalla um siðferði og stjórnmál, en þeim er yfirleitt lítill gaumur gefinn. Ein ástæðan er ef til vill sú að þrátt fyrir þann fjölda af brotum sem fjalla um siðfræði höfum við ekki nema grófa hugmynd um í hverju siðfræði Demókrítosar fólst. Ef til vill hefur siðfræði hans verið um margt lík siðfræði Epikúrosar.

Demókrítos taldi að hamingjan væri hin mestu gæði í lífinu en hamingjuna taldi hann vera fólgna í ánægju, gleði og umfram allt jafnaðargeði (evþýmía). Hann sagði að ánægja og skortur á ánægju séu mælikvarðinn á hvað er gagnlegt og hvað ekki. En Demókrítos var ekki óheflaður nautnahyggjumaður. Hann brýndi fyrir fólki mikilvægi hófseminnar og sagði að óhófleg löngun einkenni fremur börn en fullorðið fólk. Það er erfitt að hafa stjórn á löngunum sínum en takist það ber það vott um skynsemi. Og sá sem beitir annan ranglæti er vesælli en sá sem fyrir ranglætinu verður. Síðastnefnda atriðið minnir mjög á fullyrðingu Sókratesar í samræðunni Gorgías eftir Platon.

Arfleifð Demókrítosar

Demókrítos var áhrifamikill hugsuður. Hann hafði mikil áhrif á Epikúros (341-270 f.Kr.) sem tók upp eindakenninguna, með ofurlitlum breytingum, og kann einnig að hafa verið undir áhrifum frá Demókrítosi í siðfræði. Rómverska skáldið Títus Lucretíus Carus (95-54 f.Kr.) gerði heimspeki Epikúrosar vinsæla meðal Rómverja með kvæði sínu De rerum natura eða Um eðli hlutanna.

Demókrítos hafði einnig áhrif á hugsuði eins og Pyrrhon frá Elís (365-275 f.Kr.) en Pyrrhon hélt því fram að ekki væri hægt að vita neitt vegna þess að heimurinn væri í eðli sínu ódæmanlegur og ómælanlegur og þess vegna segðu skynfærin okkur hvorki satt né ósatt. Úr því að ekkert væri hægt að vita ættum við að leitast við að vera skoðanalaus og þannig myndum við öðlast sálarró.

Demókrítos hafði enn fremur áhrif á heimspekinga og vísindamenn á 17. öld en þá dustaði Pierre Gassendi (1592-1655) rykið af epikúrismanum og þar með eindahyggjunni og tefldi henni fram gegn aristótelískum vísindum.

Heimildir og ábendingar um frekara lesefni

Á vefnum

Rit

  • Barnes, Jonathan, The Presocratic Philosophers (London: Routledge, 1979/1982).
  • Eyjólfur Kjalar Emilsson og Patricia Kenig Curd, „Frumherjar grískrar heimspeki”, hjá Sigurði A. Magnússyni, Kristjáni Árnasyni, Þorsteini Þorsteinssyni og Guðmundi J. Guðmundssyni (ritstj.), Grikkland ár og síð (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1991).
  • Guthrie, W.K.C., A History of Greek Philosophy volume II: The Presocratic Tradition from Parmenides to Democritus (Cambridge: Cambridge University Press, 1965).
  • Kirk, G.S., Raven, J.E. og Schofield, M, The Presocratic Philosophers, 2. útgáfa (Cambridge: Cambridge University Press, 1983).
  • Wilbur, J.B. og Allen, H.J., The Worlds of the Early Greek Philosophers (Buffalo: Prometheus Books, 1979).

Myndir

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

1.9.2005

Spyrjandi

Þórhildur Kristjánsdóttir, f. 1988

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var hugsuðurinn Demókrítos og hvað gerði hann?“ Vísindavefurinn, 1. september 2005. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5236.

Geir Þ. Þórarinsson. (2005, 1. september). Hver var hugsuðurinn Demókrítos og hvað gerði hann? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5236

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var hugsuðurinn Demókrítos og hvað gerði hann?“ Vísindavefurinn. 1. sep. 2005. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5236>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var hugsuðurinn Demókrítos og hvað gerði hann?
Vísindavefnum hafa borist margar fyrirspurnir um Demókrítos og hér verður því reynt að svara einnig eftirfarandi spurningum:

  • Hver er hluti Demókrítosar í sögu eðlisfræðinnar? (Valgerður Kristmannsdóttir, f. 1988)
  • Mig vantar eitthvað um Demókrítos og ekki væri verra að fá mynd. (Valgerður Jóhannesdóttir, f. 1988)
  • Hvað er maðurinn Demókrítos þekktur fyrir? Hvar var hann fæddur og hvenær varð hann frægur? (Jóhanna Lilja)
  • Hver var frumeindakenning Demókrítosar? (Hrefna Dagbjartsdóttir)

Ævi Demókrítosar

Demókrítos var einn af frumherjum grískrar heimspeki, sem oft eru nefndir forverar Sókratesar þótt það sé villandi í tilfelli Demókrítosar því hann var níu árum yngri en Sókrates. Demókrítos fæddist árið 460 f. Kr. í borginni Abderu í Þrakíu í Norður-Grikklandi og lést árið 370 f. Kr. Heimildum ber ekki saman um hverra manna hann var, og er hann ýmist sagður sonur Hegesistratosar eða Aþenokrítosar eða jafnvel Damasipposar. Demókrítos er sagður hafa verið nemandi Levkipposar, en einungis einn vitnisburður hefur varðveist eftir hinn síðarnefnda:

Ekkert er án tilgangs, heldur eru rök og nauðsyn fyrir öllu (þýð. Eyjólfs Kjalars Emilssonar).

Lítið meira er vitað með vissu um ævi og störf Demókrítosar þótt ýmsar sögur hafi farið um hann. Hann ferðaðist víða, til dæmis til Egyptalands og Persíu. Rómverski stjórnmálamaðurinn og heimspekingurinn Cíceró (106-43 f. Kr.) og rómverska skáldið Hóratíus (65-8 f. Kr.) kölluðu báðir Demókrítos heimspekinginn hlæjandi og festist sú ímynd við hann.

Demókrítos var einstaklega fjölhæfur heimspekingur og skrifaði meðal annars um stærðfræði, eðlisfræði, stjörnufræði, heimsfræði, landafræði, læknisfræði, lífeðlisfræði, grasafræði, heimspeki og myndlist svo eitthvað sé nefnt. Sagnaritarinn Díogenes Laertíos segir að bókasafnið mikla í Alexandríu hafi haft titla 60 bóka eftir Demókrítos á skrá sinni. Sögur fóru af ritsnilld Demókrítosar og hlaut hann meðal annars lof hjá Cíceró fyrir stíl sinn. Töluvert er varðveitt af skrifum Demókrítosar, eða á þriðja hundrað brota úr ritum hans en því miður engin í heilu lagi.

Eindahyggjan

Demókrítos er frægastur fyrir framlag sitt í heimspeki, nánar tiltekið í frumspeki og þekkingarfræði, en hann var ásamt Levkipposi höfundur eindahyggjunnar eða atómismans. Kenningin varð til sem einhvers konar viðbragð við kenningum Parmenídesar frá Eleu (um 515-443 f. Kr.) og lærisveins hans, Zenons (fæddur um 490 f. Kr.), og ef til vill einnig sem viðbragð við kenningum Anaxagórasar frá Klasómenæ (um 500-428 f. Kr.). Þeir Parmenídes og Zenon færðu rök fyrir því að hreyfing og breyting væru ekki til heldur væri hvort tveggja eintóm blekking. Um þetta má lesa í svari Ólafs Páls Jónssonar við spurningunni Hver setti fram þá tilgátu að hreyfing væri ekki til? Er hún sönn? Zenon varð frægur fyrr þverstæður sínar sem áttu að sýna fram á þetta. Frægust þeirra er sennilega þverstæðan um Akkilles og skjaldbökuna en þar er því haldið fram að hinn fótfrái Akkilles geti ekki unnið skjaldböku í kapphlaupi. Kristín Halla Jónsdóttir fjallar meira um þetta í svari sínu Ef skjaldbaka byrjar kapphlaup við hest með 100 m forskoti, getur hann einhvern tímann náð henni? Einnig er bent á Er hægt að hugsa til enda að eitthvað sé endalaust? eftir Ólaf Pál Jónsson. Anaxagóras hélt því aftur á móti fram að til væru óendanlega mörg frumefni og að efninu væri endalaust hægt að skipta í smærri eindir.


Demókrítos er þekktastur fyrir að vera faðir eindahyggjunnar, hugmyndarinnar um að allt sé gert úr örsmáum ódeilanlegum eindum, eða atómum.

Eindakenningin er í meginatriðum sú að ekkert sé til nema örsmáar eindir, sem þeir nefndu atóm (ódeili), og tómarúm. Allt sem við sjáum – borð og stólar, hús og bílar, hundar, kettir og við sjálf – allt er byggt upp af þessum eindum en eindirnar eru svo smáar að við sjáum þær ekki með berum augum. Eindirnar eru allar úr sama efni, en þær eru óendanlega margar og fjölbreytilegar. Allar breytingar í heiminum eru fólgnar í nýskipan eindanna en eindirnar sjálfar verða hvorki til né eyðast. Hreyfing er náttúrulegt ástand eindanna og þar sem hreyfingin er eindunum eðlileg þarf ekki að útskýra hana. Það sem þarf að útskýra er breyting á hreyfingu, til dæmis breyting á stefnu eða hraða. Eindirnar svífa um í tómarúminu og rekast hver á aðra. Við áreksturinn breyta þær ýmist stefnu sinni eða festast saman og mynda þá hluti sem við þekkjum úr daglegu lífi okkar. Vilji menn kynna sér nútímahugmyndir um atóm er þeim bent á að lesa svar Árdísar Elíasdóttur og Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Eru atóm alls staðar og í öllu? Hver er þá munurinn á uppbyggingu manns og steins?

Eins og sjá má er eindakenningin römm efnishyggja; samkvæmt henni er allt efnislegt. Demókrítos virðist meira að segja hafa verið þeirrar skoðunar að sálin væri efnisleg, gerð úr afar fíngerðum kúlulöguðum atómum sem gátu smogið í gegnum önnur „söfn” atóma. Þessi sálaratóm voru náskyld atómum eldsins og í raun eins í laginu. Þau gátu enn fremur komið af stað hreyfingu. Um efnishyggju og hyghyggju, líkama og sál má lesa í svari Atla Harðarsonar við spurningunni Hvað er einhyggja og tvíhyggja? Hvers vegna eru þær svo fyrirferðarmiklar í sögunni?

Eitt helsta afrek eindakenningarinnar er greinarmunurinn á frumlegum og annarlegum eiginleikum sem við nefnum svo. Eindirnar sjálfar hafa einungis frumlega eiginleika, svo sem lögun, þyngd og hraða. Annarlegu eiginleikarnir, en það eru eiginleikar á borð við hljóð, liti, bragð og svo framvegis, verða til við samspil frumlegu eiginleikanna og skynfæra okkar. Í einu frægasta broti Demókrítosar segir hann:

Sætt og súrt, heitt og kalt, og litur eru ákvörðunaratriði, í veruleikanum eru ódeilin og tómið (þýð. Eyjólfs Kjalars Emilssonar).

Þessu fylgdi svo ítarleg kenning um skynjun þar sem því er lýst hvernig eindirnar í skynfærum okkar komast í snertingu við eindir sem streyma út frá hlutunum.

Samkvæmt eindakenningunni gerist allt af nauðsyn. Það eru engar tilviljanir heldur gengur heimurinn fyrir vélrænum lögmálum. Þessi hugmynd er yfirleitt nefnd löghyggja eða vélhyggja. Í eindakenningu Demókrítosar og Levkipposar kemur slík allsherjarlöghyggja í fyrsta sinn fram hjá heimspekingi á Vesturlöndum. Enn í dag eru rökræður um að hvaða marki heimurinn sé vélrænn og, ef svo er, hvort hægt sé að tala um frelsi viljans.


Samkvæmt löghyggju gengur heimurinn fyrir vélrænum lögmálum. Eitt leiðir óhjákvæmilega af öðru, rétt eins og snúningur eins tannhjóls knýr annað af stað.

Um frjálsan vilja má lesa í svarinu Er hægt að tala um frjálsan vilja? eftir Atla Harðarson og í Frjálsum vilja úr greinasafninu Afarkostum eftir sama höfund. Einnig er bent á svar hans við spurningunni Gerist það sama aftur ef allar aðstæður verða aftur þær sömu? Er þá ekki allt ákveðið fyrir fram og hægt að reikna það út?

Þekkingarfræði

Þekking virðist hafa verið Demókrítosi nokkuð hugleikin. Demókrítos taldi að öll þekking fengist með skynreynslu. En skynfærin eru brigðul og gefa oft bjagaða mynd af því sem skynjað er. Þess vegna var þeim, að mati Demókrítosar, ekki fyllilega treystandi. En þótt Demókrítos hafi verið fullur efasemda um að skynreynsla gæti fært okkur nokkra fullvissu var hann eftir sem áður ekki efahyggjumaður enda ætti hann þá erfitt með að setja fram kenningar um eðli heimsins, skynjunar og fleira. Við þurfum að leggja mat á skynjanir okkar og vinna úr upplýsingunum sem þau veita okkur. Við erum ekki óskeikul en getum þó með þessu móti öðlast einhverja vitneskju um heiminn.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir fjallar um hugmyndir heimspekinga um þekkingu í svarinu Hvað er þekking? og Alti Harðarson um áreiðanleika skynfæranna í svarinu Getur skynjunin gefið okkur raunverulega þekkingu á veröldinni kringum okkur?

Siðfræðin

Demókrítos var fyrstur af frumherjum grískrar heimspeki til að fjalla um manninn. Meirihluti brotanna sem varðveitt eru fjalla um siðferði og stjórnmál, en þeim er yfirleitt lítill gaumur gefinn. Ein ástæðan er ef til vill sú að þrátt fyrir þann fjölda af brotum sem fjalla um siðfræði höfum við ekki nema grófa hugmynd um í hverju siðfræði Demókrítosar fólst. Ef til vill hefur siðfræði hans verið um margt lík siðfræði Epikúrosar.

Demókrítos taldi að hamingjan væri hin mestu gæði í lífinu en hamingjuna taldi hann vera fólgna í ánægju, gleði og umfram allt jafnaðargeði (evþýmía). Hann sagði að ánægja og skortur á ánægju séu mælikvarðinn á hvað er gagnlegt og hvað ekki. En Demókrítos var ekki óheflaður nautnahyggjumaður. Hann brýndi fyrir fólki mikilvægi hófseminnar og sagði að óhófleg löngun einkenni fremur börn en fullorðið fólk. Það er erfitt að hafa stjórn á löngunum sínum en takist það ber það vott um skynsemi. Og sá sem beitir annan ranglæti er vesælli en sá sem fyrir ranglætinu verður. Síðastnefnda atriðið minnir mjög á fullyrðingu Sókratesar í samræðunni Gorgías eftir Platon.

Arfleifð Demókrítosar

Demókrítos var áhrifamikill hugsuður. Hann hafði mikil áhrif á Epikúros (341-270 f.Kr.) sem tók upp eindakenninguna, með ofurlitlum breytingum, og kann einnig að hafa verið undir áhrifum frá Demókrítosi í siðfræði. Rómverska skáldið Títus Lucretíus Carus (95-54 f.Kr.) gerði heimspeki Epikúrosar vinsæla meðal Rómverja með kvæði sínu De rerum natura eða Um eðli hlutanna.

Demókrítos hafði einnig áhrif á hugsuði eins og Pyrrhon frá Elís (365-275 f.Kr.) en Pyrrhon hélt því fram að ekki væri hægt að vita neitt vegna þess að heimurinn væri í eðli sínu ódæmanlegur og ómælanlegur og þess vegna segðu skynfærin okkur hvorki satt né ósatt. Úr því að ekkert væri hægt að vita ættum við að leitast við að vera skoðanalaus og þannig myndum við öðlast sálarró.

Demókrítos hafði enn fremur áhrif á heimspekinga og vísindamenn á 17. öld en þá dustaði Pierre Gassendi (1592-1655) rykið af epikúrismanum og þar með eindahyggjunni og tefldi henni fram gegn aristótelískum vísindum.

Heimildir og ábendingar um frekara lesefni

Á vefnum

Rit

  • Barnes, Jonathan, The Presocratic Philosophers (London: Routledge, 1979/1982).
  • Eyjólfur Kjalar Emilsson og Patricia Kenig Curd, „Frumherjar grískrar heimspeki”, hjá Sigurði A. Magnússyni, Kristjáni Árnasyni, Þorsteini Þorsteinssyni og Guðmundi J. Guðmundssyni (ritstj.), Grikkland ár og síð (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1991).
  • Guthrie, W.K.C., A History of Greek Philosophy volume II: The Presocratic Tradition from Parmenides to Democritus (Cambridge: Cambridge University Press, 1965).
  • Kirk, G.S., Raven, J.E. og Schofield, M, The Presocratic Philosophers, 2. útgáfa (Cambridge: Cambridge University Press, 1983).
  • Wilbur, J.B. og Allen, H.J., The Worlds of the Early Greek Philosophers (Buffalo: Prometheus Books, 1979).

Myndir

...