Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað eru ormagöng?

Tryggvi Þorgeirsson

Ormagöng eru fræðileg fyrirbæri sem skjóta upp kollinum við útleggingar á almennu afstæðiskenningunni. Samkvæmt kenningum er hugsanlegt að þau megi nota til að flytja sig til fjarlægra staða í alheiminum á örskotstundu eða jafnvel til að fara aftur í tímann eða til annarra alheima. Þrátt fyrir að hugmyndin um ormagöng sé í góðu samræmi við kenningar er ekki víst að þau séu raunverulega til og um þessar mundir þykir ólíklegt að þau verði hægt að nota til fólksflutninga.


Mynd 1

Á fjórða áratugnum settu Einstein og starfsbróðir hans, Nathan Rosen, fram þá kenningu að svarthol gætu hugsanlega myndað tengingu í annan alheim. Þess konar tenging, sem hefur verið nefnd Einstein-Rosen brú, er táknuð á mynd 1.

Annar möguleiki er að tenging myndist milli tveggja staða í okkar eigin alheimi. Slík tenging kallast ormagöng og er hún sýnd á mynd 2. Hugmyndin er að með því að fara inn um annan endann, sem væri svarthol, megi koma út á öðrum stað í alheiminum eftir stutt ferðalag. Tilvist slíkra ormaganga er ekki í ósamræmi við almennu afstæðiskenninguna. Séu þau til er hins vegar ólíklegt að þau verði nokkurn tíma hægt að nota til ferðalaga, meðal annars vegna þess hve skammlíf þau væru. Gríðarsterkt þyngdarsvið svartholsins mundi valda því að göngin féllu saman áður en geimskip eða nokkuð annað (meira að segja ljósgeisli) næði að fara um þau. Auk þess hafa sjávarfallakraftar svartholsins þau áhrif á efni sem fellur inn í það að efnið splundrast í smæstu eindir sínar um það bil sem það kemur að svokölluðum sjónhvörfum, samanber til dæmis svar Tryggva Þorgeirssonar og Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hvað er svarthol?.

Á síðustu árum og áratugum hafa komið fram hugmyndir um að halda megi ormagöngum opnum ef vegið er á móti þyngdarsviðinu með svokölluðu framandi efni (e. exotic matter) sem kynni að hafa neikvæðan massa og hefði því um sig eins konar andþyngdarsvið. Eins og fram kemur í svari Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Er hægt að búa til andþyngdarafl? er sú hugmynd hins vegar afar umdeild.

Mynd 2.

Ef ferðalög um ormagöng væru möguleg eru líkur á því að þau gætu ekki aðeins fært okkur á milli staða heldur einnig aftur í tímann; þau væru eins konar tímavél. Tímaferðalögum tengjast hins vegar ótal þversagnir og verða þau að teljast ólíkleg.

Að svo stöddu er ekkert hægt að segja með vissu um tilvist eða gerð ormaganga, þau eru enn aðeins fræðileg fyrirbæri sem ekki hefur verið hægt að rökstyðja með athugunum. Það er því ljóst að vísindamenn munu halda áfram að rannsaka og skeggræða þessi undarlegu fyrirbæri á komandi árum.

Lesendum er bent á áhugaverða gagnvirka vefsíðu um svarthol: Space Telescope Science Institute: Black Holes: Gravity's Relentless Pull.

Höfundur

Tryggvi Þorgeirsson

læknir og fyrrverandi starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

21.6.2000

Spyrjandi

Sveinbjörn Geirsson

Tilvísun

Tryggvi Þorgeirsson. „Hvað eru ormagöng?“ Vísindavefurinn, 21. júní 2000. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=551.

Tryggvi Þorgeirsson. (2000, 21. júní). Hvað eru ormagöng? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=551

Tryggvi Þorgeirsson. „Hvað eru ormagöng?“ Vísindavefurinn. 21. jún. 2000. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=551>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað eru ormagöng?
Ormagöng eru fræðileg fyrirbæri sem skjóta upp kollinum við útleggingar á almennu afstæðiskenningunni. Samkvæmt kenningum er hugsanlegt að þau megi nota til að flytja sig til fjarlægra staða í alheiminum á örskotstundu eða jafnvel til að fara aftur í tímann eða til annarra alheima. Þrátt fyrir að hugmyndin um ormagöng sé í góðu samræmi við kenningar er ekki víst að þau séu raunverulega til og um þessar mundir þykir ólíklegt að þau verði hægt að nota til fólksflutninga.


Mynd 1

Á fjórða áratugnum settu Einstein og starfsbróðir hans, Nathan Rosen, fram þá kenningu að svarthol gætu hugsanlega myndað tengingu í annan alheim. Þess konar tenging, sem hefur verið nefnd Einstein-Rosen brú, er táknuð á mynd 1.

Annar möguleiki er að tenging myndist milli tveggja staða í okkar eigin alheimi. Slík tenging kallast ormagöng og er hún sýnd á mynd 2. Hugmyndin er að með því að fara inn um annan endann, sem væri svarthol, megi koma út á öðrum stað í alheiminum eftir stutt ferðalag. Tilvist slíkra ormaganga er ekki í ósamræmi við almennu afstæðiskenninguna. Séu þau til er hins vegar ólíklegt að þau verði nokkurn tíma hægt að nota til ferðalaga, meðal annars vegna þess hve skammlíf þau væru. Gríðarsterkt þyngdarsvið svartholsins mundi valda því að göngin féllu saman áður en geimskip eða nokkuð annað (meira að segja ljósgeisli) næði að fara um þau. Auk þess hafa sjávarfallakraftar svartholsins þau áhrif á efni sem fellur inn í það að efnið splundrast í smæstu eindir sínar um það bil sem það kemur að svokölluðum sjónhvörfum, samanber til dæmis svar Tryggva Þorgeirssonar og Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hvað er svarthol?.

Á síðustu árum og áratugum hafa komið fram hugmyndir um að halda megi ormagöngum opnum ef vegið er á móti þyngdarsviðinu með svokölluðu framandi efni (e. exotic matter) sem kynni að hafa neikvæðan massa og hefði því um sig eins konar andþyngdarsvið. Eins og fram kemur í svari Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Er hægt að búa til andþyngdarafl? er sú hugmynd hins vegar afar umdeild.

Mynd 2.

Ef ferðalög um ormagöng væru möguleg eru líkur á því að þau gætu ekki aðeins fært okkur á milli staða heldur einnig aftur í tímann; þau væru eins konar tímavél. Tímaferðalögum tengjast hins vegar ótal þversagnir og verða þau að teljast ólíkleg.

Að svo stöddu er ekkert hægt að segja með vissu um tilvist eða gerð ormaganga, þau eru enn aðeins fræðileg fyrirbæri sem ekki hefur verið hægt að rökstyðja með athugunum. Það er því ljóst að vísindamenn munu halda áfram að rannsaka og skeggræða þessi undarlegu fyrirbæri á komandi árum.

Lesendum er bent á áhugaverða gagnvirka vefsíðu um svarthol: Space Telescope Science Institute: Black Holes: Gravity's Relentless Pull....