Seneca var mikilvirkur rithöfundur en auk varðveittra verka hans, sem eru á annað þúsund blaðsíður, eru varðveittir titlar glataðra rita um landafræði, eðlisfræði og náttúruvísindi og siðfræði auk þess sem hann samdi fjölmargar ræður. Varðveitt rit Senecu skiptast í tvennt, annars vegar leikrit og hins vegar rit í óbundnu máli sem fjalla meira og minna öll um heimspeki en Seneca aðhylltist stóuspeki, sem var gríðarlega vinsæl heimspekistefna í fornöld. Senecu eru eignaðir tíu harmleikir en þeir eru Herkúles, Medea. Trójukonur, Þýestes, Fædra, Agamemnon, Ödípús, Fönikíukonur, Herkúles á Ötafjalli og Octavia. Talið er að síðastnefnda leikritið sé örugglega ranglega eignað Senecu og Herkúles á Ötafjalli gæti einnig verið ranglega eignað honum. Harmleikirnir virðast hafa verið samdir fyrst og fremst fyrir lesendur en ekki til að vera settir á svið. Af heimspekiritunum ber fyrst að nefna safn tíu ritgerða sem samdar voru á árunum 37-43. Þær eru Um forsjón, Um staðfestu vitringsins, Um reiðina (í þremur bindum), Um hið góða líf, Um næði, Um sálarró, Um stuttleika lífsins, Huggun handa Marciu, Huggun handa Polybiusi og Huggun handa Helvíu móður minni. Auk þessara tíu ritgerða eru tvær aðrar, Um miskunnsemi sem beint var til Nerós og Um góðverk í sjö bókum sem fjalla um það að gefa og þiggja gjafir. Í ritinu Náttúrurannsóknir fjallaði Seneca í sjö bókum um ýmis náttúrufyrirbæri á borð við eldingar og flóð frá sjónarhóli stóuspekinnar fremur en vísinda. Markmiðið var að finna stóískri siðfræði undirstöðu í náttúrunni. Verkið naut mikilla vinsælda á miðöldum og var þá notað sem kennslubók í náttúruvísindum. Bréf um siðfræði til Luciliusar er safn 124 mislangra bréfa sem samin voru eftir að Seneca dró sig í hlé frá stjórnmálum. Þau fjalla aðallega um siðfræði og alls kyns hversdaglegar uppákomur. Bréfin eru að öllum líkindum ekki raunveruleg sendibréf heldur dulbúnar ritgerðir í formi bréfa. Þau eru rituð í léttum og heillandi stíl og eru meðal vinsælustu rita Senecu fyrr og síðar. Að lokum ber að nefna satíruna Apocolocyntosis sem er háðsádeila á Claudius keisara samin að honum látnum. Þar segir frá því er Claudius er tekinn í graskeratölu í dauðanum. Seneca hafði mikil áhrif á þróun latnesks stíls. Mælskufræðikennarinn Quintilianus gagnrýndi stíl Senecu og taldi hann ekki góða fyrirmynd fyrir unga nemendur en eigi að síður naut hann mikilla vinsælda í fornöld og ekki síst meðal kristinna höfunda sem urðu fyrir ómældum áhrifum af ritum hans. Harmleikirnir hlutu ekki eins mikla eftirtekt og heimspekiritin en þeir nutu hins vegar gríðarlega mikilla vinsælda á tíma endurreisnarinnar. Efni um Senecu og eftir hann er til dæmis hægt að finna í Gegni með því að slá inn leitarorðið Seneca
Tengt efni á Vísindavefnum:
- Hvað þýðir spakmæli Seneca: Cui prodest scelus, is fecit? eftir Geir Þ. Þórarinsson