Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Tacitus og hvað gerði hann merkilegt?

Geir Þ. Þórarinsson

Publius Cornelius Tacitus er gjarnan talinn mestur rómverskra sagnaritara. Um ævi hans er ýmislegt vitað en þó afar lítið með vissu og meira að segja leikur vafi á hvort hann hét Publius eða Gaius. Hann fæddist um árið 55 að öllum líkindum í Gallíu en hlaut menntun sína í Róm. Sitthvað er vitað um stjórnmálaferil Tacitusar en sjálfur segir hann að frami hans hafi hafist í keisaratíð Vespasianusar (69-79) og að honum hafi orðið framgengt fyrst undir stjórn Títusar (79-81) og aftur undir stjórn Domitianusar (81-96) (Hist. I.1). Hann var að öllum líkindum quaestor árið 81 og praetor árið 88. Tacitus var fjarri Róm árin 89-93 en ekki er vitað hvar eða í hvaða stöðu hann var. Stjórnmálaferill Tacitusar hélt áfram eftir að Domitianus lést. Hann varð ræðismaður árið 97 eftir að ræðismaðurinn Verginius Rufus lést í embætti af slysförum, öldungaráðsmaður og skattlandsstjóri í skattlandinu Asíu árið 112 eða 113.

Tacitus kvæntist dóttur stjórnmálamannsins og herforingjans Gnaejusar Júlíusar Agricola árið 78 og hann skrifaði síðar bók um tengdaföður sinn. Tacitus var vinur rithöfundarins Pliniusar yngri en vitað er að þeir sóttu saman mál gegn Mariusi Priscusi, fyrrverandi landstjóra í skattlandinu Afríku, fyrir hönd íbúanna. Þeim málaferlum lauk árið 100 með sakfellingu Mariusar Priscusar. Ekki er vitað hvenær Tacitus lést en líklega hefur það verið eftir árið 117.

Talið er að Tacitus hafi ekki hafist handa við að semja þau rit sem eftir hann eru varðveitt fyrr en seint á ferli Domitianusar. Samræða um mælskumenn (Dialogus de oratoribus) var lengi talin vera elsta varðveitta rit hans, samin jafnvel snemma á 9. áratugnum, en nú telja flestir að hún hafi verið þriðja rit Tacitusar og ef til vill ekki samin fyrr árið 102. Raunar hafa ýmsir efast um að Samræðan sé ósvikin, ekki síst vegna þess að bæði efnistök og stíll eru afar frábrugðin öðrum verkum Tacitusar. Flestir fræðimenn eru þó sammála um að hún sé höfundarverk Tacitusar. Samræðan er rökræða sem fjallar um ástæður þess að rómversk mælskulist fór hnignandi á 1. öldinni (rökræðan á að eiga sér stað um árið 75).

Tacitus samdi tvö önnur stutt rit snemma á ferli sínum, Agricola og Germania, sem bæði hafa verið þýdd á íslensku. Þau komu bæði út árið 98. Agricola eða Um ævi og siði Júlíusar Agricola (De vita et moribus Iulii Agricolae), eins og verkið heitir fullum titli, er ævisaga tengdaföður Tacitusar, sem hafði aukið yfirráðasvæði Rómverja á Bretlandi í keisaratíð Domitianusar. Agricola og Samræðan eiga það sammerkt að í bakgrunninum má greina vandamál sem spretta af alræði keisarastjórnarinnar: Vandi mælskumannsins og vandi stjórnmálamannsins eru í raun einn og hinn sami, það er að segja metnaður stjórnmálamannsins er honum jafn hættulegur og hispursleysi mælskumannsins af því að vald keisarans var svo mikið. Enda þótt Tacitus segi að frjálsræði og öryggi borgaranna hafi aldrei verið meira eftir að Nerva og Trajanus komust til valda og að menn séu í senn frjálsir hugsana sinna og geti tjáð hug sinn að vild sýna þessi rit Tacitusar fram á alvarlegar brotalamir í stjórnkerfi Rómverja.

Í Agricola er að finna ýmsar lýsingar á innfæddum þjóðflokkum á Bretlandi en Germania er einnig þjóðfræðirit ekki síður en sagnfræðirit. Það fjallar um uppruna og siði germönsku þjóðflokkanna handan Rínar, sem Tacitus lýsir sem sterkbyggðum og óspilltum en frumstæðum og ósiðuðum. Umfjöllun Tacitusar byggir ekki á hans eigin reynslu, heldur á rituðum heimildum, einkum á riti Pliniusar eldri Bella Germaniae, sem nú er glatað. Reyndar hafa engar af heimildum Tacitusar varðveist.

Á árunum 104 til 109 samdi Tacitus fyrra af tveimur meginritum sínum, Historiae. Í því gerir Tacitus upp stjórn flavísku ættarinnar í tólf (eða fjórtán) bókum. Hann hefur söguna árið 69, hálfu ári eftir að Neró lést. Það ár tókust fjórir á um völdin: Galba, Otho og Vitellius urðu allir keisarar (og létust) þetta ár en að lokum komst Títus Flavius Vespasianus til valda þann 1. júlí og hélt völdum í áratug en eftir hans dag tóku synir hans Títus (79-81) og Domitianus (81-96) við völdum. Fyrstu fjórar bækurnar og hluti af fimmtu bók eru varðveittar í handriti frá 11. öld.

Síðara meginverk Tacitusar hefur verið þekkt undir titlinum Annálarnir (Annales) frá 16. öld en heitir fullum titli Frá andláti hins goðumlíka Ágústusar (Ab excessu divi Augusti). Í Annálunum fjallar Tacitus um tímabilið frá andláti Ágústusar árið 14 til andláts Nerós árið 68 í sextán eða (sennilega) átján bókum. Tacitus segir að fyrri sagnaritarar hafi ýmist fegrað söguna af ótta við keisarann eða haft horn í síðu látinna valdhafa sem þeir urðu fyrir barðinu á (Ann. I.1). Hann taldi á hinn bóginn mikilvægt að sagan væri rétt sögð því hún hefði lærdómsgildi og kveðst rita án reiði eða hlutdrægni (sine ira et studio). Bækur 1-4 eru varðveittar auk brota úr bókum 5 og 6. Enn fremur eru varðveittar bækur 11-15 og upphafið á 16. bók.

Titillinn Annales leiðir hugann að samnefndu kvæði Quintusar Enniusar sem samdi sögukvæði undir sexliðahætti um sögu Rómar frá stofnun borgarinnar og forsögu hennar í átján bókum. Ennius notar annálaformið til að skipuleggja efni sitt, það er að segja allir þræðir sögunnar eru raktir eitt ár í einu en formið, sem var rómversk uppfinning, á rætur að rekja til opinberra skjala sem hétu annales maximi og tóku saman mikilvægustu atburði sem gerðust ár hvert, svo sem kosningar, orrustur og þar fram eftir götunum. Þessi gögn voru mikilvægar heimildir fyrir fyrstu sagnaritara Rómar og höfðu áhrif á hvernig þeir skipuðu efni sínu. Ritið Origines eftir Marcus Porcius Cato (Cato gamla) rak til dæmis söguþráðinn á þennan hátt en það var fyrsta rómverska sagnfræðiritið sem samið var á latínu (áður hafði rómversk sagnfræði verið rituð á forngrísku) og hið mikla rit Títusar Liviusar, Frá stofnun borgarinnar (Ab urbe condita) í 142 bókum notaði einnig annálaformið. Annálar Tacitusar eru vitaskuld einnig annálar eins og Historiae líka.

Tacitusi hefur verið líkt við framúrskarandi leikskáld en hann nær oftast nær að gera söguþráðinn ljóslifandi auk þess sem sálarlíf gerenda skín oft í gegnum frásögn hans og metnaður þeirra og hvatir verða óbeint hluti af frásögninni. Oft laumar Tacitus ásetningi og meiningu manna að með því að hafa eftir eintóman orðróm. Þessi list Tacitusar er mikilvægur hluti af aðferðafræði hans. Frægust er sennilega lýsingin á Tiberiusi keisara en illgirni hans og grimmd brýst smám saman í gegnum lýsingu Tacitusar á atburðarásinni. Þá má einnig nefna lýsinguna á Sejanusi, sem var trúnaðarmaður Tiberiusar og foringi lífvarðarsveita keisarans en einnig gjörspilltur maður sem sveifst einskis samkvæmt lýsingu Tacitusar og veldur straumhvörfum í stjórn Tiberiusar. Og lýsingin á öldungaráðsmönnum, sem smjaðra fyrir keisaranum og hlæja við honum til þess eins að komast í náðina og auka frama sinn er af sama meiði.

Þótt ekkert af ritum Tacitusar fjalli beinlínis um lýðveldistímann í sögu Rómar er ekki fráleitt að segja að hann virðist sjá lýðveldið í hillingum. Hins vegar virðist hann telja að einveldið sé ill nauðsyn, sem kemur meðal annars í veg fyrir borgarastríð. Hann gerði sér þó grein fyrir að einveldið var ófullkomið og hættulegt fyrirkomulag: valdaskipti voru vandkvæðum bundin eins og ár hinna fjögurra keisara sýndi; og alræði keisarans var yfirþyrmandi, ekki síst ef slæmur stjórnandi komst til valda eins og Domitianus eða Tiberius.

Heimildir og ítarefni:
  • Ash, Rhiannon. Tacitus (London: Bristol Classical Press, 2006).
  • Conte, Gian Biagio. Latin Literature: A History. Joseph B. Solodow (þýð.), Don Fowler og Glenn W. Most (endursk.) (Baltimore: The Johns Hopkins University Press, 1994).
  • Cornelius Tacitus. Agricola. Jónas Knútsson (þýð.) (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1998).
  • Cornelius Tacitus. Germanía. Páll Sveinsson (þýð.) (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2001).
  • Dudley, Donald R. The World of Tacitus (London: Secker & Warburg, 1968).
  • Krebs, Cristopher B. A Most Dangerous Book: Tacitus’ Germania from the Roman Empire to the Third Reich (New York: W.W. Norton & Company, 2011).
  • Martin, Ronald. Tacitus, 2. útg. (London: Bristol Classical Press, 1994).
  • Syme, Ronald. Tacitus (Oxford: Clarendon Press, 1958).

Mynd:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

8.8.2011

Síðast uppfært

13.5.2019

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var Tacitus og hvað gerði hann merkilegt?“ Vísindavefurinn, 8. ágúst 2011, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60400.

Geir Þ. Þórarinsson. (2011, 8. ágúst). Hver var Tacitus og hvað gerði hann merkilegt? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60400

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var Tacitus og hvað gerði hann merkilegt?“ Vísindavefurinn. 8. ágú. 2011. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60400>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Tacitus og hvað gerði hann merkilegt?
Publius Cornelius Tacitus er gjarnan talinn mestur rómverskra sagnaritara. Um ævi hans er ýmislegt vitað en þó afar lítið með vissu og meira að segja leikur vafi á hvort hann hét Publius eða Gaius. Hann fæddist um árið 55 að öllum líkindum í Gallíu en hlaut menntun sína í Róm. Sitthvað er vitað um stjórnmálaferil Tacitusar en sjálfur segir hann að frami hans hafi hafist í keisaratíð Vespasianusar (69-79) og að honum hafi orðið framgengt fyrst undir stjórn Títusar (79-81) og aftur undir stjórn Domitianusar (81-96) (Hist. I.1). Hann var að öllum líkindum quaestor árið 81 og praetor árið 88. Tacitus var fjarri Róm árin 89-93 en ekki er vitað hvar eða í hvaða stöðu hann var. Stjórnmálaferill Tacitusar hélt áfram eftir að Domitianus lést. Hann varð ræðismaður árið 97 eftir að ræðismaðurinn Verginius Rufus lést í embætti af slysförum, öldungaráðsmaður og skattlandsstjóri í skattlandinu Asíu árið 112 eða 113.

Tacitus kvæntist dóttur stjórnmálamannsins og herforingjans Gnaejusar Júlíusar Agricola árið 78 og hann skrifaði síðar bók um tengdaföður sinn. Tacitus var vinur rithöfundarins Pliniusar yngri en vitað er að þeir sóttu saman mál gegn Mariusi Priscusi, fyrrverandi landstjóra í skattlandinu Afríku, fyrir hönd íbúanna. Þeim málaferlum lauk árið 100 með sakfellingu Mariusar Priscusar. Ekki er vitað hvenær Tacitus lést en líklega hefur það verið eftir árið 117.

Talið er að Tacitus hafi ekki hafist handa við að semja þau rit sem eftir hann eru varðveitt fyrr en seint á ferli Domitianusar. Samræða um mælskumenn (Dialogus de oratoribus) var lengi talin vera elsta varðveitta rit hans, samin jafnvel snemma á 9. áratugnum, en nú telja flestir að hún hafi verið þriðja rit Tacitusar og ef til vill ekki samin fyrr árið 102. Raunar hafa ýmsir efast um að Samræðan sé ósvikin, ekki síst vegna þess að bæði efnistök og stíll eru afar frábrugðin öðrum verkum Tacitusar. Flestir fræðimenn eru þó sammála um að hún sé höfundarverk Tacitusar. Samræðan er rökræða sem fjallar um ástæður þess að rómversk mælskulist fór hnignandi á 1. öldinni (rökræðan á að eiga sér stað um árið 75).

Tacitus samdi tvö önnur stutt rit snemma á ferli sínum, Agricola og Germania, sem bæði hafa verið þýdd á íslensku. Þau komu bæði út árið 98. Agricola eða Um ævi og siði Júlíusar Agricola (De vita et moribus Iulii Agricolae), eins og verkið heitir fullum titli, er ævisaga tengdaföður Tacitusar, sem hafði aukið yfirráðasvæði Rómverja á Bretlandi í keisaratíð Domitianusar. Agricola og Samræðan eiga það sammerkt að í bakgrunninum má greina vandamál sem spretta af alræði keisarastjórnarinnar: Vandi mælskumannsins og vandi stjórnmálamannsins eru í raun einn og hinn sami, það er að segja metnaður stjórnmálamannsins er honum jafn hættulegur og hispursleysi mælskumannsins af því að vald keisarans var svo mikið. Enda þótt Tacitus segi að frjálsræði og öryggi borgaranna hafi aldrei verið meira eftir að Nerva og Trajanus komust til valda og að menn séu í senn frjálsir hugsana sinna og geti tjáð hug sinn að vild sýna þessi rit Tacitusar fram á alvarlegar brotalamir í stjórnkerfi Rómverja.

Í Agricola er að finna ýmsar lýsingar á innfæddum þjóðflokkum á Bretlandi en Germania er einnig þjóðfræðirit ekki síður en sagnfræðirit. Það fjallar um uppruna og siði germönsku þjóðflokkanna handan Rínar, sem Tacitus lýsir sem sterkbyggðum og óspilltum en frumstæðum og ósiðuðum. Umfjöllun Tacitusar byggir ekki á hans eigin reynslu, heldur á rituðum heimildum, einkum á riti Pliniusar eldri Bella Germaniae, sem nú er glatað. Reyndar hafa engar af heimildum Tacitusar varðveist.

Á árunum 104 til 109 samdi Tacitus fyrra af tveimur meginritum sínum, Historiae. Í því gerir Tacitus upp stjórn flavísku ættarinnar í tólf (eða fjórtán) bókum. Hann hefur söguna árið 69, hálfu ári eftir að Neró lést. Það ár tókust fjórir á um völdin: Galba, Otho og Vitellius urðu allir keisarar (og létust) þetta ár en að lokum komst Títus Flavius Vespasianus til valda þann 1. júlí og hélt völdum í áratug en eftir hans dag tóku synir hans Títus (79-81) og Domitianus (81-96) við völdum. Fyrstu fjórar bækurnar og hluti af fimmtu bók eru varðveittar í handriti frá 11. öld.

Síðara meginverk Tacitusar hefur verið þekkt undir titlinum Annálarnir (Annales) frá 16. öld en heitir fullum titli Frá andláti hins goðumlíka Ágústusar (Ab excessu divi Augusti). Í Annálunum fjallar Tacitus um tímabilið frá andláti Ágústusar árið 14 til andláts Nerós árið 68 í sextán eða (sennilega) átján bókum. Tacitus segir að fyrri sagnaritarar hafi ýmist fegrað söguna af ótta við keisarann eða haft horn í síðu látinna valdhafa sem þeir urðu fyrir barðinu á (Ann. I.1). Hann taldi á hinn bóginn mikilvægt að sagan væri rétt sögð því hún hefði lærdómsgildi og kveðst rita án reiði eða hlutdrægni (sine ira et studio). Bækur 1-4 eru varðveittar auk brota úr bókum 5 og 6. Enn fremur eru varðveittar bækur 11-15 og upphafið á 16. bók.

Titillinn Annales leiðir hugann að samnefndu kvæði Quintusar Enniusar sem samdi sögukvæði undir sexliðahætti um sögu Rómar frá stofnun borgarinnar og forsögu hennar í átján bókum. Ennius notar annálaformið til að skipuleggja efni sitt, það er að segja allir þræðir sögunnar eru raktir eitt ár í einu en formið, sem var rómversk uppfinning, á rætur að rekja til opinberra skjala sem hétu annales maximi og tóku saman mikilvægustu atburði sem gerðust ár hvert, svo sem kosningar, orrustur og þar fram eftir götunum. Þessi gögn voru mikilvægar heimildir fyrir fyrstu sagnaritara Rómar og höfðu áhrif á hvernig þeir skipuðu efni sínu. Ritið Origines eftir Marcus Porcius Cato (Cato gamla) rak til dæmis söguþráðinn á þennan hátt en það var fyrsta rómverska sagnfræðiritið sem samið var á latínu (áður hafði rómversk sagnfræði verið rituð á forngrísku) og hið mikla rit Títusar Liviusar, Frá stofnun borgarinnar (Ab urbe condita) í 142 bókum notaði einnig annálaformið. Annálar Tacitusar eru vitaskuld einnig annálar eins og Historiae líka.

Tacitusi hefur verið líkt við framúrskarandi leikskáld en hann nær oftast nær að gera söguþráðinn ljóslifandi auk þess sem sálarlíf gerenda skín oft í gegnum frásögn hans og metnaður þeirra og hvatir verða óbeint hluti af frásögninni. Oft laumar Tacitus ásetningi og meiningu manna að með því að hafa eftir eintóman orðróm. Þessi list Tacitusar er mikilvægur hluti af aðferðafræði hans. Frægust er sennilega lýsingin á Tiberiusi keisara en illgirni hans og grimmd brýst smám saman í gegnum lýsingu Tacitusar á atburðarásinni. Þá má einnig nefna lýsinguna á Sejanusi, sem var trúnaðarmaður Tiberiusar og foringi lífvarðarsveita keisarans en einnig gjörspilltur maður sem sveifst einskis samkvæmt lýsingu Tacitusar og veldur straumhvörfum í stjórn Tiberiusar. Og lýsingin á öldungaráðsmönnum, sem smjaðra fyrir keisaranum og hlæja við honum til þess eins að komast í náðina og auka frama sinn er af sama meiði.

Þótt ekkert af ritum Tacitusar fjalli beinlínis um lýðveldistímann í sögu Rómar er ekki fráleitt að segja að hann virðist sjá lýðveldið í hillingum. Hins vegar virðist hann telja að einveldið sé ill nauðsyn, sem kemur meðal annars í veg fyrir borgarastríð. Hann gerði sér þó grein fyrir að einveldið var ófullkomið og hættulegt fyrirkomulag: valdaskipti voru vandkvæðum bundin eins og ár hinna fjögurra keisara sýndi; og alræði keisarans var yfirþyrmandi, ekki síst ef slæmur stjórnandi komst til valda eins og Domitianus eða Tiberius.

Heimildir og ítarefni:
  • Ash, Rhiannon. Tacitus (London: Bristol Classical Press, 2006).
  • Conte, Gian Biagio. Latin Literature: A History. Joseph B. Solodow (þýð.), Don Fowler og Glenn W. Most (endursk.) (Baltimore: The Johns Hopkins University Press, 1994).
  • Cornelius Tacitus. Agricola. Jónas Knútsson (þýð.) (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1998).
  • Cornelius Tacitus. Germanía. Páll Sveinsson (þýð.) (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2001).
  • Dudley, Donald R. The World of Tacitus (London: Secker & Warburg, 1968).
  • Krebs, Cristopher B. A Most Dangerous Book: Tacitus’ Germania from the Roman Empire to the Third Reich (New York: W.W. Norton & Company, 2011).
  • Martin, Ronald. Tacitus, 2. útg. (London: Bristol Classical Press, 1994).
  • Syme, Ronald. Tacitus (Oxford: Clarendon Press, 1958).

Mynd:...