Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hver var Þúkýdídes og hvert var framlag hans til sagnfræðinnar?

Geir Þ. Þórarinsson

Þúkýdídes var aþenskur herforingi og sagnfræðingur sem var uppi á 5. öld f.Kr. Hann skrifaði um Pelópsskagastríðið í átta bókum og þykir merkasti sagnfræðingur Grikkja til forna ef ekki merkasti sagnfræðingur fornaldar.

Fremur lítið er vitað um ævi Þúkýdídesar annað en það sem hann segir sjálfur. Þúkýdídes var frá Halimús, sem í þá daga var úthverfi Aþenu. Hann fæddist einhvern tímann á árunum 460 til 455 f.Kr eða skömmu eftir að Períkles komst til valda og Kímon var sendur í útlegð en hvort tveggja gerðist árið 461 f.Kr. Faðir hans hét Oloros og var ættaður frá Þrakíu en Þúkýdídes virðist einnig hafa verið skyldur Kímoni, stjórnmálamanni og herforingja sem meðal annars sigraði persneska flotann í orrustunni við Evrýmedon um árið 466 f.Kr. Kímon var sonur herforingjans Míltíadesar, sem öðrum fremur átti heiðurinn af því að hafa sigrað Persa í orrustunni við Maraþon, og Hegesipýlu konu hans en hún var dóttir Olorosar konungs í Þrakíu. Þúkýdídes var auðugur maður og átti landareignir og námuréttindi í Þrakíu.

Þegar Pelópsskagastríðið braust út árið 431 f.Kr. var Þúkýdídes ungur maður en fullorðinn. Á öðru, þriðja og fjórða ári stríðsins geisaði bráðsmitandi og skæð farsótt í Aþenu, sem lagði af velli mikinn hluta borgarbúa. Giskað hefur verið á að það hafi verið flekkusótt eða bólusótt. Þúkýdídes lýsir þessari sótt í annarri bók og segist sjálfur hafa sýkst en náð bata. Hann tók síðar beinan þátt í stríðinu því árið 424 f.Kr. var honum falið að verja aþensku nýlenduborgina Amfípólis í Þrakíu gegn spartverska herforingjanum Brasídasi en þaðan fengu Aþeningar timbur auk þess sem borgin var á hernaðarlega mikilvægum stað. Þessum atburðum lýsir Þúkýdídes í fjórðu bók verks síns. En Amfípólis féll og Þúkýdídes var í kjölfarið gerður útlægur úr Aþenu. Þar með lauk skammri þátttöku hans í stríðinu. Hann nýtti á hinn bóginn tímann sem hann hafði í útlegðinni til þess að skrifa sögu stríðsins sem hann hafði byrjað á strax í upphafi þess og ferðaðist líklega þó nokkuð. Þúkýdídes sneri ekki aftur til Aþenu fyrr en að stríðinu loknu, eftir tveggja áratuga útlegð, og lést nokkrum árum síðar en ekki er vitað nákvæmlega hvenær. Honum entist ekki ævin til að ljúka ritun sögu sinnar því áttunda bók er ókláruð og lýkur henni í miðri frásögn af atburðum ársins 411 f.Kr.

Teikning eftir listamanninn E. Cousinéry frá árinu 1831 sem sýnir rústir Amfípólis.

Sagnfræði var ung grein þegar Þúkýdídes skrifaði sögu Pelópsskagastríðsins. Eini forveri hans var Heródótos frá Halikarnassos, sem gjarnan er nefndur faðir sagnfræðinnar. Aðrir höfundar, sem oftast nefndust logopoioi, höfðu áður safnað saman ýmsum fróðleik í ritum sínum og jafnvel rakið sögu einstakra borga og fjallað um skyld efni. En gerður er greinarmunur á þeim annars vegar og hins vegar eiginlegum sagnfræðingum, sem unnu úr efni sínu með öðrum hætti. Þeir síðarnefndu söfnuðu ekki einungis saman fróðleik úr ýmsum áttum heldur reyndu þeir að greina einhverja heildstæða atburðarás og orsakir hennar. Ef Heródótos er faðir sagnfræðinnar, þá mætti ef til vill segja að Þúkýdídes hafi verið móðir hennar. Hann mótaði sagnfræðina sem bókmenntagrein og afmarkaði viðfangsefni hennar á þann hátt sem enn er gjarnan álitið viðeigandi fyrir sagnfræðina: hann þrengdi viðfangsefnið þannig að hún varð meira eða minna að stjórnmála- og styrjaldarsögu.

Þótt sagnfræðin hafi vitaskuld ekki einungis látið sig varða stjórnmál og stríð allar götur síðan hefur greinin æ borið þess merki að Þúkýdídes hafi þrengt viðfangsefni hennar. Ólíkt Heródótosi eyðir Þúkýdídes engu púðri í að fjalla um staðhætti eða trú, siði og venjur ólíkra þjóða eða borgríkja. Hann er ekki í senn landfræðingur, mannfræðingur og þjóðfræðingur. Þúkýdídes gagnrýndi forvera sína fyrir að skrifa afþreyingarefni fremur en að leita sannleikans. Yfirlýst markmið Heródótosar var að reisa minnisvarða um afrek manna svo þau yrðu ekki óvegsömuð (gr. aklea) en það er ekki ósvipað epískum kveðskap því að Hómer söng einnig um fræg afrek manna (gr. klea andron). Á hinn bóginn taldi Þúkýdídes líkt og Pólýbíos síðar meir að sagnfræðingurinn ætti öðru fremur að leitast við að greina satt og rétt frá því sem gerðist: hjá Þúkýdídesi varð því sannleikurinn markmið sagnfræðinnar í strangari skilningi en hjá Heródótosi. Ólíkt Heródótosi hélt Þúkýdídes sig nær alfarið við að skrifa um sína eigin samtíð og fjallar ekki nema að sáralitlu leyti um annað en það sem hann gat sannreynt með einhverjum hætti. En það getur reynst erfitt að komast að sannleikanum jafnvel þótt viðfangsefnið sé ekki hulið forneskju, ef það felst í flókinni atburðarás eins og til dæmis áratuga löngu stríði milli margra borgríkja, sem hvert hefur sína hagsmuni og stefnumál.

Þúkýdídes reyndi að greina raunverulegar orsakir Pelópsskagastríðsins og gerði skýran greinarmun á undirliggjandi orsökum annars vegar og tildrögum þess að átök brutust út hins vegar. Hann vísar aldrei til yfirnáttúru af neinu tagi en telur hins vegar að orsakir stríðsins hafi legið í eðli heimsvaldsstefnunnar sem rekin var í Aþenu og afleiðingum hennar. Hann telur að ólíkir hagsmunir Aþenu og Spörtu auk yfirgangs, hroka og valdagræðgi Aþeninga í kjölfar Persastríðanna hafi gert stríðið óumflýjanlegt. Aþena var orðin gríðarlega valdamikil um miðja 5. öld f.Kr. en valdið elur á hroka. Spartverjar voru svo aftur uggandi vegna útþenslustefnu Aþenuborgar. Hreyfiafl sögunnar er því að mati Þúkýdídesar afar mannlegt en þó ekki vilji og gjörðir einstaklinga, heldur hagsmunir borgríkjanna og almenn hegðunarmynstur og þar sem þau eru ekki líkleg til að breytast taldi Þúkýdídes að síðari tíma menn gætu lært af sögu sinni ef honum tækist að skrifa hana rétt.

Þúkýdídes hefur raunar hlotið gagnrýni fyrir að vanmeta áhrif einstaklinga á gang sögunnar en það er þveröfugt við suma seinni tíma sagnfræðinga sem töldu að merkir einstaklingar væru öðru fremur hreyfiafl sögunnar og vanmátu í staðinn aðra þætti. Þúkýdídes hefur enn fremur verið gagnrýndur fyrir að taka ekki nægilega með í reikninginn efnahagslega þætti og fyrir hlutdrægni en svo virðist sem honum hafi líkað Períkles en haft óbeit á Kleoni og er umfjöllun því marki brennd. Þó fellir hann afar sjaldan gildisdóma svo lesandinn taki eftir.

Þúkýdídes skilgreindi því ekki einungis markmið og viðfangsefni sagnfræðinnar upp á nýtt, heldur gaf hann einnig tóninn um vinnubrögðin með rækilegri greiningu sinni og nákvæmni. En enginn af þeim sem fetuðu í fótspor Þúkýdídesar var jafnoki hans þótt Pólýbíos hafi ef til vill komist nærri því og saga hans er því á vissan hátt einstæð.

Heimildir og ítarefni:
  • Guðmundur J. Guðmundsson. „Grísk sagnaritun frá Hekatajosi til Pólýbíosar“ hjá Sigurði A. Magnússyni, Kristjáni Árnasyni, Þorsteini Þorsteinssyni og Guðmundi J. Guðmundssyni (ritstj.). Grikkland ár og síð (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1991): 255-65.
  • Hornblower, Simon. Thucydides, 3. útg. (London: Duckworth, 2000).
  • Kagan, Donald. Thucydides: The Reinvention of History (New York: Viking, 2009).
  • Zagorin, Perez. Thucydides: An Introduction for the Common Reader (Princeton: Princeton University Press, 2005).

Myndir:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

9.3.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var Þúkýdídes og hvert var framlag hans til sagnfræðinnar?“ Vísindavefurinn, 9. mars 2011. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=58563.

Geir Þ. Þórarinsson. (2011, 9. mars). Hver var Þúkýdídes og hvert var framlag hans til sagnfræðinnar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=58563

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var Þúkýdídes og hvert var framlag hans til sagnfræðinnar?“ Vísindavefurinn. 9. mar. 2011. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=58563>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Þúkýdídes og hvert var framlag hans til sagnfræðinnar?
Þúkýdídes var aþenskur herforingi og sagnfræðingur sem var uppi á 5. öld f.Kr. Hann skrifaði um Pelópsskagastríðið í átta bókum og þykir merkasti sagnfræðingur Grikkja til forna ef ekki merkasti sagnfræðingur fornaldar.

Fremur lítið er vitað um ævi Þúkýdídesar annað en það sem hann segir sjálfur. Þúkýdídes var frá Halimús, sem í þá daga var úthverfi Aþenu. Hann fæddist einhvern tímann á árunum 460 til 455 f.Kr eða skömmu eftir að Períkles komst til valda og Kímon var sendur í útlegð en hvort tveggja gerðist árið 461 f.Kr. Faðir hans hét Oloros og var ættaður frá Þrakíu en Þúkýdídes virðist einnig hafa verið skyldur Kímoni, stjórnmálamanni og herforingja sem meðal annars sigraði persneska flotann í orrustunni við Evrýmedon um árið 466 f.Kr. Kímon var sonur herforingjans Míltíadesar, sem öðrum fremur átti heiðurinn af því að hafa sigrað Persa í orrustunni við Maraþon, og Hegesipýlu konu hans en hún var dóttir Olorosar konungs í Þrakíu. Þúkýdídes var auðugur maður og átti landareignir og námuréttindi í Þrakíu.

Þegar Pelópsskagastríðið braust út árið 431 f.Kr. var Þúkýdídes ungur maður en fullorðinn. Á öðru, þriðja og fjórða ári stríðsins geisaði bráðsmitandi og skæð farsótt í Aþenu, sem lagði af velli mikinn hluta borgarbúa. Giskað hefur verið á að það hafi verið flekkusótt eða bólusótt. Þúkýdídes lýsir þessari sótt í annarri bók og segist sjálfur hafa sýkst en náð bata. Hann tók síðar beinan þátt í stríðinu því árið 424 f.Kr. var honum falið að verja aþensku nýlenduborgina Amfípólis í Þrakíu gegn spartverska herforingjanum Brasídasi en þaðan fengu Aþeningar timbur auk þess sem borgin var á hernaðarlega mikilvægum stað. Þessum atburðum lýsir Þúkýdídes í fjórðu bók verks síns. En Amfípólis féll og Þúkýdídes var í kjölfarið gerður útlægur úr Aþenu. Þar með lauk skammri þátttöku hans í stríðinu. Hann nýtti á hinn bóginn tímann sem hann hafði í útlegðinni til þess að skrifa sögu stríðsins sem hann hafði byrjað á strax í upphafi þess og ferðaðist líklega þó nokkuð. Þúkýdídes sneri ekki aftur til Aþenu fyrr en að stríðinu loknu, eftir tveggja áratuga útlegð, og lést nokkrum árum síðar en ekki er vitað nákvæmlega hvenær. Honum entist ekki ævin til að ljúka ritun sögu sinnar því áttunda bók er ókláruð og lýkur henni í miðri frásögn af atburðum ársins 411 f.Kr.

Teikning eftir listamanninn E. Cousinéry frá árinu 1831 sem sýnir rústir Amfípólis.

Sagnfræði var ung grein þegar Þúkýdídes skrifaði sögu Pelópsskagastríðsins. Eini forveri hans var Heródótos frá Halikarnassos, sem gjarnan er nefndur faðir sagnfræðinnar. Aðrir höfundar, sem oftast nefndust logopoioi, höfðu áður safnað saman ýmsum fróðleik í ritum sínum og jafnvel rakið sögu einstakra borga og fjallað um skyld efni. En gerður er greinarmunur á þeim annars vegar og hins vegar eiginlegum sagnfræðingum, sem unnu úr efni sínu með öðrum hætti. Þeir síðarnefndu söfnuðu ekki einungis saman fróðleik úr ýmsum áttum heldur reyndu þeir að greina einhverja heildstæða atburðarás og orsakir hennar. Ef Heródótos er faðir sagnfræðinnar, þá mætti ef til vill segja að Þúkýdídes hafi verið móðir hennar. Hann mótaði sagnfræðina sem bókmenntagrein og afmarkaði viðfangsefni hennar á þann hátt sem enn er gjarnan álitið viðeigandi fyrir sagnfræðina: hann þrengdi viðfangsefnið þannig að hún varð meira eða minna að stjórnmála- og styrjaldarsögu.

Þótt sagnfræðin hafi vitaskuld ekki einungis látið sig varða stjórnmál og stríð allar götur síðan hefur greinin æ borið þess merki að Þúkýdídes hafi þrengt viðfangsefni hennar. Ólíkt Heródótosi eyðir Þúkýdídes engu púðri í að fjalla um staðhætti eða trú, siði og venjur ólíkra þjóða eða borgríkja. Hann er ekki í senn landfræðingur, mannfræðingur og þjóðfræðingur. Þúkýdídes gagnrýndi forvera sína fyrir að skrifa afþreyingarefni fremur en að leita sannleikans. Yfirlýst markmið Heródótosar var að reisa minnisvarða um afrek manna svo þau yrðu ekki óvegsömuð (gr. aklea) en það er ekki ósvipað epískum kveðskap því að Hómer söng einnig um fræg afrek manna (gr. klea andron). Á hinn bóginn taldi Þúkýdídes líkt og Pólýbíos síðar meir að sagnfræðingurinn ætti öðru fremur að leitast við að greina satt og rétt frá því sem gerðist: hjá Þúkýdídesi varð því sannleikurinn markmið sagnfræðinnar í strangari skilningi en hjá Heródótosi. Ólíkt Heródótosi hélt Þúkýdídes sig nær alfarið við að skrifa um sína eigin samtíð og fjallar ekki nema að sáralitlu leyti um annað en það sem hann gat sannreynt með einhverjum hætti. En það getur reynst erfitt að komast að sannleikanum jafnvel þótt viðfangsefnið sé ekki hulið forneskju, ef það felst í flókinni atburðarás eins og til dæmis áratuga löngu stríði milli margra borgríkja, sem hvert hefur sína hagsmuni og stefnumál.

Þúkýdídes reyndi að greina raunverulegar orsakir Pelópsskagastríðsins og gerði skýran greinarmun á undirliggjandi orsökum annars vegar og tildrögum þess að átök brutust út hins vegar. Hann vísar aldrei til yfirnáttúru af neinu tagi en telur hins vegar að orsakir stríðsins hafi legið í eðli heimsvaldsstefnunnar sem rekin var í Aþenu og afleiðingum hennar. Hann telur að ólíkir hagsmunir Aþenu og Spörtu auk yfirgangs, hroka og valdagræðgi Aþeninga í kjölfar Persastríðanna hafi gert stríðið óumflýjanlegt. Aþena var orðin gríðarlega valdamikil um miðja 5. öld f.Kr. en valdið elur á hroka. Spartverjar voru svo aftur uggandi vegna útþenslustefnu Aþenuborgar. Hreyfiafl sögunnar er því að mati Þúkýdídesar afar mannlegt en þó ekki vilji og gjörðir einstaklinga, heldur hagsmunir borgríkjanna og almenn hegðunarmynstur og þar sem þau eru ekki líkleg til að breytast taldi Þúkýdídes að síðari tíma menn gætu lært af sögu sinni ef honum tækist að skrifa hana rétt.

Þúkýdídes hefur raunar hlotið gagnrýni fyrir að vanmeta áhrif einstaklinga á gang sögunnar en það er þveröfugt við suma seinni tíma sagnfræðinga sem töldu að merkir einstaklingar væru öðru fremur hreyfiafl sögunnar og vanmátu í staðinn aðra þætti. Þúkýdídes hefur enn fremur verið gagnrýndur fyrir að taka ekki nægilega með í reikninginn efnahagslega þætti og fyrir hlutdrægni en svo virðist sem honum hafi líkað Períkles en haft óbeit á Kleoni og er umfjöllun því marki brennd. Þó fellir hann afar sjaldan gildisdóma svo lesandinn taki eftir.

Þúkýdídes skilgreindi því ekki einungis markmið og viðfangsefni sagnfræðinnar upp á nýtt, heldur gaf hann einnig tóninn um vinnubrögðin með rækilegri greiningu sinni og nákvæmni. En enginn af þeim sem fetuðu í fótspor Þúkýdídesar var jafnoki hans þótt Pólýbíos hafi ef til vill komist nærri því og saga hans er því á vissan hátt einstæð.

Heimildir og ítarefni:
  • Guðmundur J. Guðmundsson. „Grísk sagnaritun frá Hekatajosi til Pólýbíosar“ hjá Sigurði A. Magnússyni, Kristjáni Árnasyni, Þorsteini Þorsteinssyni og Guðmundi J. Guðmundssyni (ritstj.). Grikkland ár og síð (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1991): 255-65.
  • Hornblower, Simon. Thucydides, 3. útg. (London: Duckworth, 2000).
  • Kagan, Donald. Thucydides: The Reinvention of History (New York: Viking, 2009).
  • Zagorin, Perez. Thucydides: An Introduction for the Common Reader (Princeton: Princeton University Press, 2005).

Myndir:...