Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:12 • Sest 01:42 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:44 • Síðdegis: 15:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:04 • Síðdegis: 21:42 í Reykjavík

Hversu langt var fyrsta maraþonhlaupið og hversu öruggar heimildir eru um að það hafi raunverulega verið hlaupið á meðal Forngrikkja?

Geir Þ. Þórarinsson

Fleiri en ein saga er til um Maraþonhlaupið og segir frá einni þeirra í riti gríska sagnaritarans Heródótosar sem fjallar um sögu Persastríðanna. Á 6. öld f.Kr. féll Lýdía, ríki Krösosar konungs, í Litlu-Asíu, þar sem í dag er Tyrkland. Persar tóku yfir veldi Krösosar og komust þá í snertingu við grísku borgríkin við strönd Litlu-Asíu og reyndu að leggja þau undir sig. Grísku borgirnar með Míletos í broddi fylkingar gerðu uppreisn árið 499 f.Kr. Fimm árum síðar hafði Persakonungi tekist að bæla þær niður. Nokkrar grískar borgir á meginlandi Grikklands höfðu stutt byltinguna, þar á meðal Aþena. Dareios Persakonungur hugði nú á hefndir. Hann gerði innrás í Grikkland árið 490 f.Kr. og tók land á Attíkuskaganum um 42 km norðaustan Aþenu við völl sem nefndist Maraþon.

Heródótos segir frá hlaupara að nafni Filippídes (í sumum handritum nefndur Feidippídes) en hann hljóp um 240 km langa leið frá Aþenu til Spörtu að biðja um hjálp. (Heródótos VI.105-6). Hann náði til Spörtu degi eftir að hann lagði af stað en Spartverjar vildu ekki halda strax af stað til Maraþon, því að þá var trúarhátíð hjá þeim, Karneiahátíðin, sem þeir vildu ekki slíta snemma. Þegar þeir náðu loksins til Maraþon hafði Aþeningum tekist að sigra ofurefli Persanna – fornar heimildir herma að í liði Persanna hafi verið 200 þúsund manns eða meira en fornfræðingar nútímans draga þá tölu í efa.Heródótos segir hins vegar ekki þá sögu sem hefur orðið öllu frægari, að hlaupari hafi verið sendur 42 km leið frá Maraþon til Aþenu að orrustunni lokinni til að tilkynna sigurinn. Gríski sagnaritarinn Plútarkos segir þá sögu hins vegar og nefnir hlauparann Þersippos eða Evkles. (Plútarkos, De gloria Athenensium 3). Hann nefnir heimild sína fyrir nafninu Þersippos en heimildin var Herakleides frá Pontos sem var fræðimaður að störfum í Akademíu Platons á 4. öld f.Kr.; en Plútarkos segir að flestir sagnaritarar, sem hann nafngreinir ekki, nefni hlauparann Evkles. Sagan segir að Þersippos (eða Evkles) þessi hafi hlaupið um 42 km langa leið frá Maraþon til Aþenu í fullum herklæðum til að tilkynna sigurinn. Þegar hann náði til Aþenu á hann að hafa sagt „Við höfum sigrað!“ og dottið svo niður dauður.

Hversu áreiðanlegar eru þessar heimildir? Heródótos er meginheimild okkar fyrir atburðum Persastríðanna. Hann er stundum talinn ýkja mjög en á einum stað í riti sínu (Heródótos VII.152) segir hann að honum beri að greina frá því sem sagt var, þótt hann verði ekki að trúa því öllu sjálfur. Heródótos fæddist um það leyti sem orrustan við Maraþon átti sér stað. Hann ritaði verk sitt um fjórum til fimm áratugum eftir að atburðirnir gerðust. Skáldið Símonídes hafði einnig ritað um sögu Persastríðanna í bundnu máli og má vera að Heródótos hafi stundum stuðst við kvæði hans. En um kvæði Símonídesar getum við lítið vitað því það er ekki varðveitt. Eftir Símonídes eigum við einungis misheilleg brot og stutt kvæði. Meðal annars tvær línur um Spartverjana sem féllu við Laugaskörð.

Vegfari, ber frá oss boð og borglýðnum seg það í Spörtu,
fallnir að hvílum vér hér, hlýðnir við ættjarðarlög.
(Þýðingin er eftir Steingrím Thorsteinsson en hefur yfirleitt verið ranglega eignuð Ásgeiri Hjartarsyni.)

Plútarkos er mun yngri höfundur en Heródótos, uppi um 46-120 e.Kr. Hann var því að störfum rúmlega 500 árum eftir orrustuna við Maraþon. Hins vegar hafði hann aðgang að eldri heimildum, sem við þekkjum ekki af því að þær hafa ekki varðveist. Við vitum ekki hverjir þessir „flestir“ eru sem hann segir að hafi talið Maraþonhlauparann sem tilkynnti sigurinn hafa heitið Evkles og því er ómögulegt að leggja mat á áreiðanleika þeirra. Herakleides frá Pontos var hins vegar uppi um 390-310 f.Kr., mun nær atburðunum sem um ræðir. En um sagnaritun hans vitum afar lítið og ekkert um hverjar hans heimildir voru.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Kort: Greece location map á Wikipedia. Texti settur inn af ritstjórn Vísindavefsins. Sótt 1.12.2010.


Við þökkum Jóni Erni Bjarnasyni fyrir að benda okkur á að þýðingin á ljóðlínum Símonídesar er í raun eftir Steingrím Thorsteinsson. Hún kemur fyrir í þýðingu Steingríms á kvæðinu „Der Spaziergang“ eftir Friedrich von Schiller, en þar vitnar Schiller í kvæði Símonídesar.

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

2.12.2010

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hversu langt var fyrsta maraþonhlaupið og hversu öruggar heimildir eru um að það hafi raunverulega verið hlaupið á meðal Forngrikkja?“ Vísindavefurinn, 2. desember 2010. Sótt 17. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=57327.

Geir Þ. Þórarinsson. (2010, 2. desember). Hversu langt var fyrsta maraþonhlaupið og hversu öruggar heimildir eru um að það hafi raunverulega verið hlaupið á meðal Forngrikkja? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=57327

Geir Þ. Þórarinsson. „Hversu langt var fyrsta maraþonhlaupið og hversu öruggar heimildir eru um að það hafi raunverulega verið hlaupið á meðal Forngrikkja?“ Vísindavefurinn. 2. des. 2010. Vefsíða. 17. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=57327>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hversu langt var fyrsta maraþonhlaupið og hversu öruggar heimildir eru um að það hafi raunverulega verið hlaupið á meðal Forngrikkja?
Fleiri en ein saga er til um Maraþonhlaupið og segir frá einni þeirra í riti gríska sagnaritarans Heródótosar sem fjallar um sögu Persastríðanna. Á 6. öld f.Kr. féll Lýdía, ríki Krösosar konungs, í Litlu-Asíu, þar sem í dag er Tyrkland. Persar tóku yfir veldi Krösosar og komust þá í snertingu við grísku borgríkin við strönd Litlu-Asíu og reyndu að leggja þau undir sig. Grísku borgirnar með Míletos í broddi fylkingar gerðu uppreisn árið 499 f.Kr. Fimm árum síðar hafði Persakonungi tekist að bæla þær niður. Nokkrar grískar borgir á meginlandi Grikklands höfðu stutt byltinguna, þar á meðal Aþena. Dareios Persakonungur hugði nú á hefndir. Hann gerði innrás í Grikkland árið 490 f.Kr. og tók land á Attíkuskaganum um 42 km norðaustan Aþenu við völl sem nefndist Maraþon.

Heródótos segir frá hlaupara að nafni Filippídes (í sumum handritum nefndur Feidippídes) en hann hljóp um 240 km langa leið frá Aþenu til Spörtu að biðja um hjálp. (Heródótos VI.105-6). Hann náði til Spörtu degi eftir að hann lagði af stað en Spartverjar vildu ekki halda strax af stað til Maraþon, því að þá var trúarhátíð hjá þeim, Karneiahátíðin, sem þeir vildu ekki slíta snemma. Þegar þeir náðu loksins til Maraþon hafði Aþeningum tekist að sigra ofurefli Persanna – fornar heimildir herma að í liði Persanna hafi verið 200 þúsund manns eða meira en fornfræðingar nútímans draga þá tölu í efa.Heródótos segir hins vegar ekki þá sögu sem hefur orðið öllu frægari, að hlaupari hafi verið sendur 42 km leið frá Maraþon til Aþenu að orrustunni lokinni til að tilkynna sigurinn. Gríski sagnaritarinn Plútarkos segir þá sögu hins vegar og nefnir hlauparann Þersippos eða Evkles. (Plútarkos, De gloria Athenensium 3). Hann nefnir heimild sína fyrir nafninu Þersippos en heimildin var Herakleides frá Pontos sem var fræðimaður að störfum í Akademíu Platons á 4. öld f.Kr.; en Plútarkos segir að flestir sagnaritarar, sem hann nafngreinir ekki, nefni hlauparann Evkles. Sagan segir að Þersippos (eða Evkles) þessi hafi hlaupið um 42 km langa leið frá Maraþon til Aþenu í fullum herklæðum til að tilkynna sigurinn. Þegar hann náði til Aþenu á hann að hafa sagt „Við höfum sigrað!“ og dottið svo niður dauður.

Hversu áreiðanlegar eru þessar heimildir? Heródótos er meginheimild okkar fyrir atburðum Persastríðanna. Hann er stundum talinn ýkja mjög en á einum stað í riti sínu (Heródótos VII.152) segir hann að honum beri að greina frá því sem sagt var, þótt hann verði ekki að trúa því öllu sjálfur. Heródótos fæddist um það leyti sem orrustan við Maraþon átti sér stað. Hann ritaði verk sitt um fjórum til fimm áratugum eftir að atburðirnir gerðust. Skáldið Símonídes hafði einnig ritað um sögu Persastríðanna í bundnu máli og má vera að Heródótos hafi stundum stuðst við kvæði hans. En um kvæði Símonídesar getum við lítið vitað því það er ekki varðveitt. Eftir Símonídes eigum við einungis misheilleg brot og stutt kvæði. Meðal annars tvær línur um Spartverjana sem féllu við Laugaskörð.

Vegfari, ber frá oss boð og borglýðnum seg það í Spörtu,
fallnir að hvílum vér hér, hlýðnir við ættjarðarlög.
(Þýðingin er eftir Steingrím Thorsteinsson en hefur yfirleitt verið ranglega eignuð Ásgeiri Hjartarsyni.)

Plútarkos er mun yngri höfundur en Heródótos, uppi um 46-120 e.Kr. Hann var því að störfum rúmlega 500 árum eftir orrustuna við Maraþon. Hins vegar hafði hann aðgang að eldri heimildum, sem við þekkjum ekki af því að þær hafa ekki varðveist. Við vitum ekki hverjir þessir „flestir“ eru sem hann segir að hafi talið Maraþonhlauparann sem tilkynnti sigurinn hafa heitið Evkles og því er ómögulegt að leggja mat á áreiðanleika þeirra. Herakleides frá Pontos var hins vegar uppi um 390-310 f.Kr., mun nær atburðunum sem um ræðir. En um sagnaritun hans vitum afar lítið og ekkert um hverjar hans heimildir voru.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Kort: Greece location map á Wikipedia. Texti settur inn af ritstjórn Vísindavefsins. Sótt 1.12.2010.


Við þökkum Jóni Erni Bjarnasyni fyrir að benda okkur á að þýðingin á ljóðlínum Símonídesar er í raun eftir Steingrím Thorsteinsson. Hún kemur fyrir í þýðingu Steingríms á kvæðinu „Der Spaziergang“ eftir Friedrich von Schiller, en þar vitnar Schiller í kvæði Símonídesar.

...