Sólin Sólin Rís 10:59 • sest 15:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:50 • Sest 21:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:33 • Síðdegis: 22:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:10 • Síðdegis: 16:02 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:59 • sest 15:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:50 • Sest 21:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:33 • Síðdegis: 22:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:10 • Síðdegis: 16:02 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Plútarkos og hver eru hans helstu rit?

Geir Þ. Þórarinsson

Plútarkos sonur Átóbúlosar frá Kæróneiu í Böótíu var grískur heimspekingur og ævisagnaritari, sem var uppi á fyrstu og annarri öld okkar tímatals. Hann fæddist um árið 46 og lést eftir árið 120. Plútarkos var föðurbróðir Sextosar, sem var einn af kennurum Markúsar Árelíusar, keisara Rómaveldis. Hann nam heimspeki í Aþenu hjá heimspekingnum Ammoniosi en lagði einnig stund á mælskulist og stærðfræði. Plútarkos ferðaðist víða, meðal annars til Egyptalands og Rómar en hann varð reyndar rómverskur borgari. Hann virðist hafa haft áhuga á trúarlegum hliðum platonskrar heimspeki og á síðari hluta ævinnar var hann einnig prestur í Delfí og átti þátt í að endurreisa véfréttina þar.

Áætlað er að um þriðjungur ritverka Plútarkosar sé varðveittur en ritum hans er venjulega skipt í tvo hópa, annars vegar ritgerðir eða samræður um ýmis efni og hins vegar ævisögurnar.

Alls eru 78 ritgerðir eða samræður varðveittar en ritgerðasafnið í heild sinni er venjulega nefnt upp á latínu Moralia af því að flestar heimspekilegu ritgerðanna fjalla um siðfræðileg efni í víðum skilningi. Þar á meðal eru ritgerðir eins og Um dygðir og lesti, Um öfund og hatur, Um hugarró, Heilræði um hjónabönd og Um hugrekki kvenna. Á hinn bóginn fer minna fyrir frumspeki og þekkingarfræði, þótt Plútarkos fjalli aðeins um platonska sálarfræði. Ein ritgerð fjallar reyndar um hin ýmsu náttúrufyrirbæri og önnur um tunglið og enn önnur um greind dýra. Plútarkos aðhylltist platonisma og í nokkrum ritgerðum hans leggur hann til atlögu gegn öðrum heimspekiskólum, einkum stóuspeki og epikúringum.

En ritgerðirnar fjalla reyndar alls ekki allar um heimspeki heldur eru sumar þeirra um mælskufræði og bókmenntir og nokkrar um trúarleg efni. Í einni ritgerð ber Plútarkos til að mynda saman skopleikjaskáldin Aristófanes og Menandros og í annarri ræðst hann harkalega á sagnaritarann Heródótos. Nokkrar ritgerðir fjalla um véfréttir, ein fjallar um egypska goðafræði og er mikilvæg heimild um viðfangsefnið. Ritgerðin Um hjátrú ber saman kreddufestu annars vegar og guðleysi hins vegar en niðurstaðan er sú að þótt hvort tveggja sé slæmt sé kreddufestan verri.

Fimmtíu ævisögur eru varðveittar og nefnast venjulega upp á latínu Vitae parallelae. Af þeim er 46 raðað saman í pör þar sem önnur ævisagan fjallar um merkan mann úr sögu Grikklands og hin um merkan mann í sögu Rómaveldis. Til dæmis eru Þeseifur og Rómúlus, Aristídes og Cato gamli, Lýsandros og Súlla, Demosþenes og Cicero ævisagnapör. Plútarkos valdi saman ævisögur manna sem hann taldi að ættu eitthvað sameiginlegt. Demosþenes og Cicero voru til að mynda báðir frægir mælskumenn, Períkles og Fabius Maximus háðu báðir varnarstríð. Ævisögunum fylgdi síðan stuttur samanburður á mönnunum tveimur og nítján þessara greinargerða eru varðveittar með ævisagnapörunum tuttugu og þremur. Fjórar ævisögur eru að auki varðveittar, sem eru ekki hluti af slíkum samanburði.

Rústir Apollonshofsins í Delfí. Plútarkos var prestur þar síðari hluta ævinnar og átti þátt í að endurreisa véfréttina í Delfí.

Í ævisögunum er lögð meiri áhersla á að draga fram helstu hliðar á skapgerð mannsins heldur en að segja frá öllu sem hann gerði eða henti hann en það er breytilegt frá einni ævisögu til annarrar hversu miklu púðri er varið í að lýsa sögusviðinu eða mikilvægum atburðum í stjórnmálum. Til dæmis virðist Plútarkos hafa meiri áhuga á stjórnmálum í ævisögu Júlíusar Caesars en í ævisögu Marcusar Antoniusar. Og í ævisögu Lýkúrgosar segir hann frá ýmsum þáttum í siðum Spartverja og samfélagsgerð þeirra, enda tengist hún Lýkúrgosi, sem var talinn höfundur hennar. En Plútarkos tekur skýrt fram í upphafinu á ævisögu Alexanders mikla að hann hafi ætlað sér að rita ævisögur en ekki sagnfræði og enn fremur að orrustur og örlagaríkir atburðir varpi ekki endilega betur ljósi á skapgerð mannsins, mannkosti hans og lesti, heldur en minna þekktar sögur af hegðun hans, samskiptum hans við annað fólk og tilsvörum.

Þegar rit Plútarkosar voru þýdd á þjóðtungurnar á 16. öld og snemma á þeirri 17. höfðu þau töluverð áhrif á bæði heimspeki og bókmenntir. Ævisögur Plútarkosar munu til að mynda hafa verið helsta heimild Williams Shakespeare í leikverkum sínum um fornmenn, þar á meðal Júlíus Caesar og Antonius og Kleópatra. Ritgerðirnar höfðu á hinn bóginn talsverð áhrif á franska heimspekinginn Michel de Montaigne jafnt sem þýska skáldið Goethe.

Heimildir og ítarefni:
  • Barrow, R.H. Plutarch and His Times (Bloomington: Indiana University Press, 1969).
  • Lamberton, Robert. Plutarch (New Haven: Yale University Press, 2001).
  • Lesky, Albin. A History of Greek Literature. Cornelis de Heer og James Willis (þýð.) (Indianapolis: Hackett, 1996).

Myndir:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

1.4.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var Plútarkos og hver eru hans helstu rit?“ Vísindavefurinn, 1. apríl 2011, sótt 6. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=59155.

Geir Þ. Þórarinsson. (2011, 1. apríl). Hver var Plútarkos og hver eru hans helstu rit? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=59155

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var Plútarkos og hver eru hans helstu rit?“ Vísindavefurinn. 1. apr. 2011. Vefsíða. 6. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=59155>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Plútarkos og hver eru hans helstu rit?
Plútarkos sonur Átóbúlosar frá Kæróneiu í Böótíu var grískur heimspekingur og ævisagnaritari, sem var uppi á fyrstu og annarri öld okkar tímatals. Hann fæddist um árið 46 og lést eftir árið 120. Plútarkos var föðurbróðir Sextosar, sem var einn af kennurum Markúsar Árelíusar, keisara Rómaveldis. Hann nam heimspeki í Aþenu hjá heimspekingnum Ammoniosi en lagði einnig stund á mælskulist og stærðfræði. Plútarkos ferðaðist víða, meðal annars til Egyptalands og Rómar en hann varð reyndar rómverskur borgari. Hann virðist hafa haft áhuga á trúarlegum hliðum platonskrar heimspeki og á síðari hluta ævinnar var hann einnig prestur í Delfí og átti þátt í að endurreisa véfréttina þar.

Áætlað er að um þriðjungur ritverka Plútarkosar sé varðveittur en ritum hans er venjulega skipt í tvo hópa, annars vegar ritgerðir eða samræður um ýmis efni og hins vegar ævisögurnar.

Alls eru 78 ritgerðir eða samræður varðveittar en ritgerðasafnið í heild sinni er venjulega nefnt upp á latínu Moralia af því að flestar heimspekilegu ritgerðanna fjalla um siðfræðileg efni í víðum skilningi. Þar á meðal eru ritgerðir eins og Um dygðir og lesti, Um öfund og hatur, Um hugarró, Heilræði um hjónabönd og Um hugrekki kvenna. Á hinn bóginn fer minna fyrir frumspeki og þekkingarfræði, þótt Plútarkos fjalli aðeins um platonska sálarfræði. Ein ritgerð fjallar reyndar um hin ýmsu náttúrufyrirbæri og önnur um tunglið og enn önnur um greind dýra. Plútarkos aðhylltist platonisma og í nokkrum ritgerðum hans leggur hann til atlögu gegn öðrum heimspekiskólum, einkum stóuspeki og epikúringum.

En ritgerðirnar fjalla reyndar alls ekki allar um heimspeki heldur eru sumar þeirra um mælskufræði og bókmenntir og nokkrar um trúarleg efni. Í einni ritgerð ber Plútarkos til að mynda saman skopleikjaskáldin Aristófanes og Menandros og í annarri ræðst hann harkalega á sagnaritarann Heródótos. Nokkrar ritgerðir fjalla um véfréttir, ein fjallar um egypska goðafræði og er mikilvæg heimild um viðfangsefnið. Ritgerðin Um hjátrú ber saman kreddufestu annars vegar og guðleysi hins vegar en niðurstaðan er sú að þótt hvort tveggja sé slæmt sé kreddufestan verri.

Fimmtíu ævisögur eru varðveittar og nefnast venjulega upp á latínu Vitae parallelae. Af þeim er 46 raðað saman í pör þar sem önnur ævisagan fjallar um merkan mann úr sögu Grikklands og hin um merkan mann í sögu Rómaveldis. Til dæmis eru Þeseifur og Rómúlus, Aristídes og Cato gamli, Lýsandros og Súlla, Demosþenes og Cicero ævisagnapör. Plútarkos valdi saman ævisögur manna sem hann taldi að ættu eitthvað sameiginlegt. Demosþenes og Cicero voru til að mynda báðir frægir mælskumenn, Períkles og Fabius Maximus háðu báðir varnarstríð. Ævisögunum fylgdi síðan stuttur samanburður á mönnunum tveimur og nítján þessara greinargerða eru varðveittar með ævisagnapörunum tuttugu og þremur. Fjórar ævisögur eru að auki varðveittar, sem eru ekki hluti af slíkum samanburði.

Rústir Apollonshofsins í Delfí. Plútarkos var prestur þar síðari hluta ævinnar og átti þátt í að endurreisa véfréttina í Delfí.

Í ævisögunum er lögð meiri áhersla á að draga fram helstu hliðar á skapgerð mannsins heldur en að segja frá öllu sem hann gerði eða henti hann en það er breytilegt frá einni ævisögu til annarrar hversu miklu púðri er varið í að lýsa sögusviðinu eða mikilvægum atburðum í stjórnmálum. Til dæmis virðist Plútarkos hafa meiri áhuga á stjórnmálum í ævisögu Júlíusar Caesars en í ævisögu Marcusar Antoniusar. Og í ævisögu Lýkúrgosar segir hann frá ýmsum þáttum í siðum Spartverja og samfélagsgerð þeirra, enda tengist hún Lýkúrgosi, sem var talinn höfundur hennar. En Plútarkos tekur skýrt fram í upphafinu á ævisögu Alexanders mikla að hann hafi ætlað sér að rita ævisögur en ekki sagnfræði og enn fremur að orrustur og örlagaríkir atburðir varpi ekki endilega betur ljósi á skapgerð mannsins, mannkosti hans og lesti, heldur en minna þekktar sögur af hegðun hans, samskiptum hans við annað fólk og tilsvörum.

Þegar rit Plútarkosar voru þýdd á þjóðtungurnar á 16. öld og snemma á þeirri 17. höfðu þau töluverð áhrif á bæði heimspeki og bókmenntir. Ævisögur Plútarkosar munu til að mynda hafa verið helsta heimild Williams Shakespeare í leikverkum sínum um fornmenn, þar á meðal Júlíus Caesar og Antonius og Kleópatra. Ritgerðirnar höfðu á hinn bóginn talsverð áhrif á franska heimspekinginn Michel de Montaigne jafnt sem þýska skáldið Goethe.

Heimildir og ítarefni:
  • Barrow, R.H. Plutarch and His Times (Bloomington: Indiana University Press, 1969).
  • Lamberton, Robert. Plutarch (New Haven: Yale University Press, 2001).
  • Lesky, Albin. A History of Greek Literature. Cornelis de Heer og James Willis (þýð.) (Indianapolis: Hackett, 1996).

Myndir:...