Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:16 • Sest 01:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:14 • Síðdegis: 12:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:10 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:16 • Sest 01:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:14 • Síðdegis: 12:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:10 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Þales frá Míletos?

Geir Þ. Þórarinsson

Þales frá Míletos var grískur heimspekingur, fæddur um 625 f.Kr. Aristóteles taldi hann hafa verið fyrsta heimspekinginn. Þales var einnig einn af vitringunum sjö, sem Grikkir eignuðu margvíslega speki. Honum var til dæmis eignað spakmælið „Þekktu sjálfan þig!“ sem var ritað á hof véfréttarinnar í Delfí. Þó var líklega oftast um vel kunna alþýðuspeki að ræða og óvíst eða jafnvel ósennilegt að hún hafi verið réttilega eignuð spekingunum.

Þales á að hafa haldið því fram að það væri enginn munur á lífi og dauða og þegar hann var spurður „Hvers vegna deyrðu þá ekki?“ svaraði hann „Af því að það er enginn munur.“ Og honum eru eignuð fleiri hnyttin tilsvör, til dæmis var hann spurður hvor væri eldri, dagur eða nótt, og sagði þá að nóttin væri einum degi eldri. Ýmsar aðrar sögur voru sagðar af Þalesi en margar ósennilegar, í raun er lítið vitað um ævi hans og engin rit eru varðveitt eftir hann og engin bein tilvitnun í hans eigin orð.

Díogenes Laertíos ritaði ævisögu Þalesar í ævisagnasafni heimspekinganna. Þales var sonur Examýasar og Kleobúlínu en Díogenes segir að heimildir sínar greini á um hvort þau voru af fönikískum ættum eða míletískum, það er að segja grískum. Samkvæmt sumum heimildum kvæntist hann og eignaðist soninn Kýbeþos en samkvæmt öðrum heimildum kvæntist hann aldrei og eignaðist enginn börn en fóstraði systurson sinn. Hann á að hafa verið spurður hvers vegna hann eignaðist engin börn og svaraði þá að það væri af því að honum þætti svo vænt um börn. Ein sagan segir að móðir hans hafi þrýst á hann að kvænast en Þales hafi svarað að það væri of snemmt. Seinna þrýsti móðir hans á hann aftur en þá sagði hann að það væri um seinan.

Þales á að hafa tekið þátt í stjórnmálum áður en hann sneri sér að náttúruspeki og þótti ráðhollur og klókur. Ein sagan segir að Þales hafi eitt sinn viljað sýna Míletingum hversu auðvelt það væri að auðgast. Hann spáði fyrir um gott árferði og keypti upp alla ólífupressur í grenndinni. Svo leigði hann þær út á háu verði og varð þannig ríkur maður. Hann var sagður hafa fyrstur lagt stund á stjörnufræði og Díogenes segir að honum hafi verið eignuð nokkur rit um þau fræði en ósennilegt er að hann hafi samið þau. Hann var sagður hafa spáð fyrir um sólmyrkva sem varð árið 585 f.Kr., sama dag og orrusta átti sér stað milli Persa og Lýdíumanna en Þales mun þó einungis hafa spáð fyrir um árið en ekki daginn.

Frægasta sagan um Þales er vafalaust sú að hann hafi verið svo upptekinn við að horfa til himins að hann hafi ekki gáð að því hvar hann steig og hafi dottið ofan í brunn og uppskorið háðung frá nærstaddri vinnustúlku frá Þrakíu. Þales lagði einnig stund á stærðfræði. Hann á að hafa lært flatarmálsfræði af Egyptum, uppgötvað stærðfræðireglu – að horn sem er innritað í hálfhring er rétt horn – og slátrað af því tilefni uxa.

Ein saga af Þalesi segir frá því að hann hafi viljað sýna Míletingum hversu auðvelt það væri að auðgast. Hann spáði fyrir um gott árferði, keypti svo upp allar ólíufupressur í grenndinni og leigði svo út gegn háu gjaldi. Hér má sjá ólífumyllu og -pressu.

Þales er samt án nokkurs vafa þekktastur fyrir að vera fyrsti heimspekingurinn. Skáldið Koírílos sagði hann fyrstan hafa haldið fram ódauðleika sálarinnar en eins og með allt annað er það vafasamt. Hann á að hafa haldið því fram að segulsteinn hefði sál af því að hann hreyfir járnið og allt væri fullt af guðum. Aristóteles giskar á að Þales hafi haldið að segulsteinn hefði sál af því að sál væri hreyfiafl og hann giskar á að með guðum hafi Þales átt við að sál gegnsýrði allt í heiminum. Ef til vill er þetta það sem Þales átt við með að það væri ekki munur á lífi og dauða, lifandi verum og dauðum hlutum, því sál (gr. psykhe) var í hugum Grikkja fyrst og fremst einhvers konar lífsafl; hún var það sem yfirgaf líkamann við andlát og það sem að manni látnum dvaldi í undirheimum hjá Hadesi en henni var ekki á þessum tíma eignað það sem í dag kallast sálarlíf: hugsun, geðshræringar og svo framvegis. Ef Þales taldi að allt hefði sál, þá má vera að hugmyndin hafi tengst vatnskenningu hans á einhvern hátt, enda vatn nauðsynlegt öllu sem hefur sál (það er öllu sem lifir).

Aristóteles taldi að elstu forverar sínir hafi einkum velt fyrir sér margbreytileika heimsins og spurt sig úr hverju allt væri og hvað yrði um það þegar það hætti að vera til. Hann taldi að í þessum vangaveltum sínum hefðu þeir uppgötvað eina af fjórum tegundum orsaka, nefnilega efnisorsök. Aristóteles segir að Þales hafi haldið því fram að vatn væri uppspretta alls og túlkar þá kenningu þannig að vatn hafi verið undirliggjandi efnisorsök allra hluta. Vatn getur einnig tekið á sig fast form og orðið að ís eða gufað upp og orðið að lofti. Það er ósennilegt að Þales hafi ekki áttað sig á þessum staðreyndum og vel má vera að vegna einhverra pælinga af þessu tagi hafi hvarflað að honum að vatn gæti verið það sem allt annað er á endanum úr en heimildir eigna honum samt sem áður ekki þessa pælingu. Aristóteles giskar á ástæðuna og segir að hún kunni að hafa verið sú að vatn sé nauðsynleg næring öllu lífi. Vera má að tengsl séu milli þessarar vatnskenningar og þeirra hugmynda sem eignaðar eru Þalesi um að segulsteinn hafi sál og allt sé fullt af guðum. Hvernig svo sem því er farið naut vatnskenningin um frumnáttúruna engra vinsælda.

Anaximandros frá Míletos, sem var sagður hafa verið nemandi Þalesar, virðist hafa andmælt Þalesi og haldið því fram að vatn gæti ekki útskýrt margbreytileika heimsins. Til dæmis gæti slík frumnáttúra ekki útskýrt tilurð einhvers með algerlega andstæða eiginleika, eins og elds. Í staðinn lagði Anaximandros til hið dularfulla ómæli (gr. to apeiron) sem uppsprettu allra hluta. En af því að Þales setti fram kenningu, sem byggði á einhvers konar rökum en hafði ófullnægjandi skýringargildi og var af þeim sökum andmælt, virðist kenninginn hafa verið upphafið að vestrænni heimspekihefð. Þessi rökræðuhefð á sér órofa sögu til okkar dags.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og ítarefni:
  • Aristóteles, Frumspekin I. Svavar Hrafn Svavarsson (þýð.). (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1999).
  • Barnes, Jonathan. The Presocratic Philosophers, endursk. útg. (London: Routledge, 1982).
  • Curd, Patricia Kenig og Eyjólfur Kjalar Emilsson, „Frumherjar grískrar heimspeki“ hjá Sigurði A. Magnússyni, Kristjáni Árnasyni, Þorsteini Þorsteinssyni og Guðmundi J. Guðmundssyni (ritstj.). Grikkland ár og síð (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1991): 49-80.
  • Guthrie, W.K.C. A History of Greek Philosophy I: The earlier Presocratics and the Pythagoreans (Cambridge: Cambridge University Press, 1962).
  • Kirk, G.S., J.E. Raven og M. Schofield. The Presocratic Philosophers, 2. útg. (Cambridge: Cambridge University Press, 1983).
  • McKirahan, Richard D. Philosophy Before Socrates (Indianapolis: Hackett, 1994).

Mynd:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

3.3.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var Þales frá Míletos?“ Vísindavefurinn, 3. mars 2011, sótt 9. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=58561.

Geir Þ. Þórarinsson. (2011, 3. mars). Hver var Þales frá Míletos? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58561

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var Þales frá Míletos?“ Vísindavefurinn. 3. mar. 2011. Vefsíða. 9. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=58561>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Þales frá Míletos?
Þales frá Míletos var grískur heimspekingur, fæddur um 625 f.Kr. Aristóteles taldi hann hafa verið fyrsta heimspekinginn. Þales var einnig einn af vitringunum sjö, sem Grikkir eignuðu margvíslega speki. Honum var til dæmis eignað spakmælið „Þekktu sjálfan þig!“ sem var ritað á hof véfréttarinnar í Delfí. Þó var líklega oftast um vel kunna alþýðuspeki að ræða og óvíst eða jafnvel ósennilegt að hún hafi verið réttilega eignuð spekingunum.

Þales á að hafa haldið því fram að það væri enginn munur á lífi og dauða og þegar hann var spurður „Hvers vegna deyrðu þá ekki?“ svaraði hann „Af því að það er enginn munur.“ Og honum eru eignuð fleiri hnyttin tilsvör, til dæmis var hann spurður hvor væri eldri, dagur eða nótt, og sagði þá að nóttin væri einum degi eldri. Ýmsar aðrar sögur voru sagðar af Þalesi en margar ósennilegar, í raun er lítið vitað um ævi hans og engin rit eru varðveitt eftir hann og engin bein tilvitnun í hans eigin orð.

Díogenes Laertíos ritaði ævisögu Þalesar í ævisagnasafni heimspekinganna. Þales var sonur Examýasar og Kleobúlínu en Díogenes segir að heimildir sínar greini á um hvort þau voru af fönikískum ættum eða míletískum, það er að segja grískum. Samkvæmt sumum heimildum kvæntist hann og eignaðist soninn Kýbeþos en samkvæmt öðrum heimildum kvæntist hann aldrei og eignaðist enginn börn en fóstraði systurson sinn. Hann á að hafa verið spurður hvers vegna hann eignaðist engin börn og svaraði þá að það væri af því að honum þætti svo vænt um börn. Ein sagan segir að móðir hans hafi þrýst á hann að kvænast en Þales hafi svarað að það væri of snemmt. Seinna þrýsti móðir hans á hann aftur en þá sagði hann að það væri um seinan.

Þales á að hafa tekið þátt í stjórnmálum áður en hann sneri sér að náttúruspeki og þótti ráðhollur og klókur. Ein sagan segir að Þales hafi eitt sinn viljað sýna Míletingum hversu auðvelt það væri að auðgast. Hann spáði fyrir um gott árferði og keypti upp alla ólífupressur í grenndinni. Svo leigði hann þær út á háu verði og varð þannig ríkur maður. Hann var sagður hafa fyrstur lagt stund á stjörnufræði og Díogenes segir að honum hafi verið eignuð nokkur rit um þau fræði en ósennilegt er að hann hafi samið þau. Hann var sagður hafa spáð fyrir um sólmyrkva sem varð árið 585 f.Kr., sama dag og orrusta átti sér stað milli Persa og Lýdíumanna en Þales mun þó einungis hafa spáð fyrir um árið en ekki daginn.

Frægasta sagan um Þales er vafalaust sú að hann hafi verið svo upptekinn við að horfa til himins að hann hafi ekki gáð að því hvar hann steig og hafi dottið ofan í brunn og uppskorið háðung frá nærstaddri vinnustúlku frá Þrakíu. Þales lagði einnig stund á stærðfræði. Hann á að hafa lært flatarmálsfræði af Egyptum, uppgötvað stærðfræðireglu – að horn sem er innritað í hálfhring er rétt horn – og slátrað af því tilefni uxa.

Ein saga af Þalesi segir frá því að hann hafi viljað sýna Míletingum hversu auðvelt það væri að auðgast. Hann spáði fyrir um gott árferði, keypti svo upp allar ólíufupressur í grenndinni og leigði svo út gegn háu gjaldi. Hér má sjá ólífumyllu og -pressu.

Þales er samt án nokkurs vafa þekktastur fyrir að vera fyrsti heimspekingurinn. Skáldið Koírílos sagði hann fyrstan hafa haldið fram ódauðleika sálarinnar en eins og með allt annað er það vafasamt. Hann á að hafa haldið því fram að segulsteinn hefði sál af því að hann hreyfir járnið og allt væri fullt af guðum. Aristóteles giskar á að Þales hafi haldið að segulsteinn hefði sál af því að sál væri hreyfiafl og hann giskar á að með guðum hafi Þales átt við að sál gegnsýrði allt í heiminum. Ef til vill er þetta það sem Þales átt við með að það væri ekki munur á lífi og dauða, lifandi verum og dauðum hlutum, því sál (gr. psykhe) var í hugum Grikkja fyrst og fremst einhvers konar lífsafl; hún var það sem yfirgaf líkamann við andlát og það sem að manni látnum dvaldi í undirheimum hjá Hadesi en henni var ekki á þessum tíma eignað það sem í dag kallast sálarlíf: hugsun, geðshræringar og svo framvegis. Ef Þales taldi að allt hefði sál, þá má vera að hugmyndin hafi tengst vatnskenningu hans á einhvern hátt, enda vatn nauðsynlegt öllu sem hefur sál (það er öllu sem lifir).

Aristóteles taldi að elstu forverar sínir hafi einkum velt fyrir sér margbreytileika heimsins og spurt sig úr hverju allt væri og hvað yrði um það þegar það hætti að vera til. Hann taldi að í þessum vangaveltum sínum hefðu þeir uppgötvað eina af fjórum tegundum orsaka, nefnilega efnisorsök. Aristóteles segir að Þales hafi haldið því fram að vatn væri uppspretta alls og túlkar þá kenningu þannig að vatn hafi verið undirliggjandi efnisorsök allra hluta. Vatn getur einnig tekið á sig fast form og orðið að ís eða gufað upp og orðið að lofti. Það er ósennilegt að Þales hafi ekki áttað sig á þessum staðreyndum og vel má vera að vegna einhverra pælinga af þessu tagi hafi hvarflað að honum að vatn gæti verið það sem allt annað er á endanum úr en heimildir eigna honum samt sem áður ekki þessa pælingu. Aristóteles giskar á ástæðuna og segir að hún kunni að hafa verið sú að vatn sé nauðsynleg næring öllu lífi. Vera má að tengsl séu milli þessarar vatnskenningar og þeirra hugmynda sem eignaðar eru Þalesi um að segulsteinn hafi sál og allt sé fullt af guðum. Hvernig svo sem því er farið naut vatnskenningin um frumnáttúruna engra vinsælda.

Anaximandros frá Míletos, sem var sagður hafa verið nemandi Þalesar, virðist hafa andmælt Þalesi og haldið því fram að vatn gæti ekki útskýrt margbreytileika heimsins. Til dæmis gæti slík frumnáttúra ekki útskýrt tilurð einhvers með algerlega andstæða eiginleika, eins og elds. Í staðinn lagði Anaximandros til hið dularfulla ómæli (gr. to apeiron) sem uppsprettu allra hluta. En af því að Þales setti fram kenningu, sem byggði á einhvers konar rökum en hafði ófullnægjandi skýringargildi og var af þeim sökum andmælt, virðist kenninginn hafa verið upphafið að vestrænni heimspekihefð. Þessi rökræðuhefð á sér órofa sögu til okkar dags.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og ítarefni:
  • Aristóteles, Frumspekin I. Svavar Hrafn Svavarsson (þýð.). (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1999).
  • Barnes, Jonathan. The Presocratic Philosophers, endursk. útg. (London: Routledge, 1982).
  • Curd, Patricia Kenig og Eyjólfur Kjalar Emilsson, „Frumherjar grískrar heimspeki“ hjá Sigurði A. Magnússyni, Kristjáni Árnasyni, Þorsteini Þorsteinssyni og Guðmundi J. Guðmundssyni (ritstj.). Grikkland ár og síð (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1991): 49-80.
  • Guthrie, W.K.C. A History of Greek Philosophy I: The earlier Presocratics and the Pythagoreans (Cambridge: Cambridge University Press, 1962).
  • Kirk, G.S., J.E. Raven og M. Schofield. The Presocratic Philosophers, 2. útg. (Cambridge: Cambridge University Press, 1983).
  • McKirahan, Richard D. Philosophy Before Socrates (Indianapolis: Hackett, 1994).

Mynd:...