Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ég legg fram tvær lögmætar skilgreiningar á heimspeki. Fyrri skilgreiningin er þessi: Heimspeki er sú iðja að glíma af heiðarleik og hugrekki við spurningar sem varða tilvist mannsins, bæði hvað er og hvað ber (verufræði og siðfræði) og spurningar sem spretta af þessum og virðist við rannsókn nauðsynlegt að svara fyrst: Hvernig má vita nokkurn hlut? Er til einhver skylda? Eða jafnvel: Ættum við að spyrja okkur þessara spurninga?
---
Seinni skilgreiningin felur í sér sögulega skírskotun og hefur hlotið ámæli vegna þess. Hún hljómar svo:
Heimspeki er iðja sem menn hafa stundað, að því er vestræn menningarsaga hermir, í 2500 ár, með 1000 ára hléi yfir hörðustu miðaldir. Þessi iðja varð til í Grikklandi hinu forna. Fyrsti heimspekingurinn er talinn Þales frá Míletos sem vann sér tvennt til frægðar: Hann datt ofan í brunn því hann var svo utan við sig. Þá hló vinnukona að honum og sagði: „Þið heimspekingar ættuð heldur að horfa fram fyrir fæturna á ykkur en góna upp í stjörnurnar!“ Þales er þá sagður hafa mælt þessi orð: „Allt er vatn.“
Nú hefði þessi setning Þalesar og tilheyrandi sagan af því er hann datt í brunn sjálfsagt hvorug lifað lengur en Þales sjálfur ef samtímamaður hans, Anaxímandros, hefði ekki tekið upp á því að svara honum. Þeir bjuggu báðir í Míletos, grískri stórborg sem er nú rústir einar við vesturströnd Tyrklands. Anaxímandros sagði: „Allt er ómælið.“
Þá hefur tvennt gerst merkilegt sem tilheyrir heimspekinni alla tíð síðan. Samræða hefur hafist um eðli heimsins, þar sem fram vindur hefð með því að einn maður andmælir öðrum og færir fyrir nýju máli sínu einhver rök. Og samræðan fer fram með sértækum (abstrakt) hugtökum en ekki í heimi myndlíkinga eða persónugervinga líkt og samræður höfðu gert innan trúarbragða, þar sem skapgerðir, náttúruöfl og frumspekilegar vangaveltur klæðast allar í búning mannlíkra guða eða annarra vætta. Anaxímandros hafði smíðað sértækt hugtak: Ómæli.
Eftir að nokkur hópur heimspekinga gengur um Grikkland og veltir fyrir sér eðli veraldarinnar sem þeir lifa í kemur árið 470 fram heimspekingur í Aþenu sem heitir Sókrates. Sókrates veltir ekki aðeins fyrir sér veröldinni sem menn mæta á hverjum degi, heldur mönnunum sjálfum og samfélagi þeirra. Þar með verða til nokkrar undirgreinar heimspekinnar: Siðfræði, þekkingarfræði, fagurfræði. Hann spyr: "Hvað get ég vitað?" "Hvað er það að vita?" "Hvað er fegurðin?" "Hvað er ást?" en þessi spurning var honum mikilvægust: "Hvernig á ég að lifa?"
Allar götur síðan hefur heimspekin verið þetta: Glíma mannanna við áleitnar spurningar um hvað er og hvað ber sem fer fram með sértækum hugtökum (til dæmis rök, skylda, réttindi, eðli, form) í ræðu og riti og vindur fram með því að einn hrindir máli annars eða eykur við það.
Tvennt hefur gerst marktækt varðandi viðfangsefni heimspekinnar síðan Sókrates gekk: Raunvísindi hafa á seinni hluta nýaldar verið skilgreind sem aðskilin frá heimspeki. Allt sem lýtur að rannsókn, flokkun og skilningi á gangi mála í heiminum telst vísindi. Samfara dugmiklum raunvísindunum í upphafi nýaldar er hin breytingin á viðfangsefni heimspekinnar, að ekki er aðeins leitað svara við þeim áleitnu spurningum sem fyrr voru nefndar, heldur lögð áhersla á forsendur spurninga og svars: „Hvernig getur verið til nokkur skylda?“, „Hvernig getum við vitað nokkuð?“ Hér nefnum við til sögunnar Frakkann René Descartes, Bretann David Hume og Þjóðverjann Immanúel Kant.
Þetta eru spurningar sem vakna í sömu glímu og Grikkirnir áttu í. Á 20. öld hefur heimspekin mikið fengist við sjálfa sig og heimspekingar velta því fyrir sér hvort nokkur svör séu til við spurningum heimspekinnar. Einhverjir hafa haldið því fram að nokkrar upphaflegar spurningar heimspekinnar séu bull, spurning á við "Hvert er eðli heimsins?" sem Þales og Anaxímandros vildu svara, hafi enga merkingu (og séu gagnslausar – Richard Rorty). Aðrir gerast ljóðrænir í átökum sínum við spurningarnar og beita á ný myndlíkingum og persónugervingum til að koma máli sínu til skila (t.d. Nietzsche á 19. öld og Foucault á 20. öld). En hvorki þeir sem vilja leggja heimspekina eða hluta hennar niður né hinir sem vilja skapa henni nýtt tungumál komast hjá því að teljast hluti af heimspekihefðinni. Þeir stunda heimspeki því spurningar þeirra og niðurstöður vakna þegar þeir standa andspænis heiminum í minnst 2500 ára gamalli glímunni sem Þales hóf með því að segja allan heiminn vera vatn.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Haukur Már Helgason. „Hvernig skilgreinir maður heimspeki? Hvað er heimspeki?“ Vísindavefurinn, 10. október 2000, sótt 2. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=984.
Haukur Már Helgason. (2000, 10. október). Hvernig skilgreinir maður heimspeki? Hvað er heimspeki? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=984
Haukur Már Helgason. „Hvernig skilgreinir maður heimspeki? Hvað er heimspeki?“ Vísindavefurinn. 10. okt. 2000. Vefsíða. 2. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=984>.