Á Íslandi er heimspeki til dæmis sú hugvísindagrein sem hefur lægst hlutfall kvenna. Samkvæmt doktorsritgerðaskrá Landsbókasafns hafa 5 íslenskar konur lokið doktorsprófi í heimspeki á móti 29 körlum, sem þýðir að tæp 15% íslenskra heimspekidoktora eru konur. Árin 2001-2010 luku 2 íslenskar konur og 8 íslenskir karlar doktorsprófi í heimspeki (hlutfall kvenna 20%). Við námsbraut í heimspeki við Háskóla Íslands gegna 8 manns föstum stöðum sem kennarar og þar af er ein kona. Þótt þessar tölur séu vissulega allt of lágar til að hægt sé að nýta þær sem gildar tölfræðilegar upplýsingar virðist óhætt að fullyrða að fjölgun kvenna í heimspeki á Íslandi sé ekki áberandi hröð.
Til samanburðar getum við litið til fleiri landa eða enskumælandi landa og Norðurlandanna, þar sem undirrituð þekkir helst til. Hlutfall kvenna í fullu starfi við breskar heimspekideildir er 18%, umtalsvert lægra en 32% við sagnfræðideildir og 39% við sálfræðideildir. Ástandið í Bandaríkjunum virðist svipað með 22% hlutfall kvenna við þær átta heimspekideildir sem töldust bestar samkvæmt hinu áhrifamikla „Philosophical Gourmet Report“ sem haldið er úti af heimspeki- og lagaprófessornum Brian Leiter. Hlutfall kvenna meðal þeirra sem luku doktorsprófi í heimspeki í Bandaríkjunum árið 2009 var 29,6%. Aðeins þrjár greinar, eðlisfræði, tölvunarfræði og verkfræði, höfðu lægra hlutfall kvenna meðal þeirra sem luku prófi.1 Þess má einnig geta að við ástralskar heimspekideildir er hlutfall kvenna í föstu starfi 23% og að í Noregi er hlutfall kvenna meðal styrkþega í doktorsnámi í heimspeki 26%.2
Svo við víkjum aftur að spurningunni þá er sem sagt hægt að svara henni þannig að karlar hljóti að standa konum framar í heimspeki ef litið er svo á að karlar skipi eitt lið og konur annað og að um sé að ræða einhvers konar keppni í fjölda. Sé miðað við þá sem lokið hafa doktorsprófi eru íslenskir karlar þá 5,8 sinnum betri í heimspeki en íslenskar konur. En væri þetta besta mæliaðferðin? Það mætti líka mæla árangur með öðrum aðferðum. Við gætum gert úttekt á verkum karlkyns heimspekinga annars vegar og kvenkyns heimspekinga hins vegar og borið saman. Ef heimspekingar af öðru kyninu reyndust að meðaltali afkastameiri en hinir eða reyndust framleiða heimspekiverk af meiri gæðum gætum við sagt að það kyn stæði hinu framar í heimspeki. Ég veit ekki til þess að slík úttekt hafi verið gerð, né hvort hún væri yfirleitt gerleg, hvað þá gagnleg.
Það liggur sem sagt fyrir að mun fleiri karlar en konur hafa heimspeki að atvinnu. Af þeim sökum blasir við að mun fleiri karlar en konur standa framarlega í iðkun heimspeki, í þeim skilningi að þeir séu þekktir fyrir heimspekiverk sín og að framlag þeirra til heimspekinnar þykir merkilegt. Karlar eru þá konum fremri í heimspeki í sama skilningi og Norðmenn eru Dönum fremri í skíðaiðkun en þetta þarf ekki að þýða að karlkyns heimspekingar vinni störf sín betur en kvenkyns heimspekingar og getur verið villandi að segja að þetta þýði fyrirvaralaust að karlar séu konum fremri í heimspeki. Þetta segir okkur til dæmis ekkert um hæfileika karla og kvenna til að stunda heimspeki, rétt eins og tölur yfir skíðaiðkun Norðmanna og Dana segja okkur ekkert um hæfileika þeirra til þess að ná árangri í skíðaíþróttinni. Enn minna segir þetta okkur um karla og konur almennt eða þann meginþorra mannkyns sem ekki hefur atvinnu af því að stunda heimspeki.


- Hver var fyrsta konan sem var viðurkenndur heimspekingur? Hverjar eru þær helstu? eftir Gunnar Harðarson
- Hvernig er best að „læra“ eða stunda heimspeki með það að sjónarmiði að ná framúrskarandi árangri? eftir Ólaf Pál Jónsson
- Hvernig skilgreinir maður heimspeki? Hvað er heimspeki? eftir Hauk Má Helgason
- Gengur heimspeki út á það eitt að flækja hlutina svo mikið fyrir manni að maður kaffærist í eigin svörum? eftir Hrannar Baldursson
- Myndu vísindin staðna ef háskólanemar þyrftu ekki að læra um 2400 ára gamla heimspekinga? eftir Eirík Smára Sigurðarson
- Hvað gerir spurningu heimspekilega? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Við hvað geta heimspekingar unnið annað en heimspekikennslu? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur
- Hvað er vísindaheimspeki? eftir Hugin Frey Þorsteinsson
- Wikipedia.com - thought. Sótt 5.5.2011.
- Wikipedia.com - skiing. Sótt 5.5.2011.
- www.csus.edu - Eli's Philosophy. Sótt 5.5.2011.
1 Sjá: http://crookedtimber.org/2011/02/04/gender-divides-in-philosophy-and-other-disciplines/
2 Sjá: http://www.salongen.no/-/bulletin/show/610928_hvor-er-kvinnene-i-norsk-filosofi?ref=mst
3 Sjá: http://www.apaonline.org/publications/newsletters/v08n2_Feminism_index.aspx og http://www.apaonline.org/publications/newsletters/v09n1_Feminism_index.aspx
4 Lewis, Brooke, „Where are all the women?“, The Philosophers‘ Magazine, 47. Birt á vefsíðu ritsins 2. september 2009.
5 Penaluna, Regan, „Wanted: Female Philosophers, in the Classroom and in the Canon”, The Chronicle of Higher Education, 11. október 2009.
6 Líflegustu umræðurnar voru í mörgum færslum um efnið og athugasemdum við þær á Feminist Philosophers og Leiter Reports. Jafnframt er rétt að benda á pistil á The Edge of the American West og gott yfirlit um efnið má finna á Thoughts, Arguments, and Rants.
7 „Improving the Participation of Women in the Philosophy Profession“, Australasian Association of Philosophy, 2008.