Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í spurningunni felst að konur hafi ekki verið viðurkenndar sem heimspekingar en það er álitamál. Konur voru til að mynda meðal nemenda Platons í Akademíunni (sjá Hver var Platon? eftir Geir Þ. Þórarinsson). Sumar konur voru viðurkenndar sem heimspekingar á sínum tíma, en hurfu síðar úr sögunni. Þetta hefur stundum verið kennt við vandann um ósýnileika kvenna í heimspekisögunni. Á undanförnum áratug eða rúmlega það hefur á hinn bóginn verið mikil gróska í feminískum rannsóknum á sögu heimspekinnar. Ljóst er að þær rannsóknir hafa þegar leitt til endurmats á stöðu kvenna í sögu heimspekinnar og munu væntanlega gera það enn frekar á komandi árum.
Heimildir eru um konur sem heimspekinga allt frá því í fornöld. Pýþagóras mun fyrstur hafa notað orðið „philosophia“ yfir það sem við köllum nú heimspeki (sjá Fann Pýþagóras upp Pýþagórasarregluna eða er hún bara kennd við hann? eftir Þorstein Vilhjálmsson). Fyrsta kvenheimspekinginn verður því væntanlega að telja Þeanó frá Krótónu (á 5. öld f.Kr), sem gekk til liðs við Pýþagóras og lærisveina hans. Hvorki heimildum né fræðimönnum ber þó saman um Þeanó og samband hennar við Pýþagóras, né heldur um rit sem henni hafa verið eignuð eða sem eignuð eru öðrum konum úr hópi pýþagóringa.
Almennt eru heimildir um konur sem heimspekinga í fornöld af skornum skammti og vandasamt að túlka þær. Sagnaritarinn Díogenes Laertíos nefnir konu í flokki Hundingja í sögu sinni af ævi og kenningum merkra heimspekinga. Þekktustu kvenheimspekingar fornaldar munu þó vera Díótíma frá Mantíneiu, sem kemur við sögu í Samdrykkjunni eftir Platon og Hypatía frá Alexandríu (370–415) sem var stærðfræðingur og heimspekingur. Æstur múgur réði Hypatíu af dögum sökum þess að hún var heiðin eins og margir forngrískir heimspekingar. Díótíma frá Mantíneiu er eini kvenheimspekingurinn frá fornöld sem telja má að sé viðurkenndur sem hluti af vestrænni heimspekihefð.
Af konum sem koma við sögu heimspekinnar á miðöldum má sérstaklega nefna Heloísu (1101–1162) og Christine de Pizan (1365–1430). Helosía ritaði um ásetningssiðfræði (sjá Hvað er siðferði? Og hvað er siðfræði? eftir Geir Þ. Þórarinsson) í bréfum til eiginmanns síns, Abélards (1079–1142). Christine de Pizan skrifaði meðal annars Bókina um borg kvenna (Livre de la cité des dames). Þar birtist skynsemin henni í líki hefðarkonu og ræðir við hana um eðli og stöðu kvenna.
Enn fremur sömdu margar konur ritgerðir eða kvæði um ýmis andleg efni sem stundum eru flokkuð með heimspeki og stundum lærdómi, guðfræði, íhugunarritum eða bókmenntum. Þetta er dæmi um hinn svokallaða afmörkunarvanda sem felst í spurningunni um hvar draga eigi mörkin milli heimspeki og annarra greina.
Af konum sem telja má til endurreisnartímans má nefna Marie de Gournay (1566–1645) sem var kjördóttir Michels de Montaignes (1533–1592) og gaf út síðustu útgáfuna af Essais eftir hann. Hún skrifaði sjálf ritgerðir, meðal annars um jafnrétti kynjanna árið 1622 (Égalité des hommes et des femmes). Enn fremur létu bæði ítalskar og spænskar menntakonur til sín taka á þessum tíma.
Af heimspekingum á nýjöld má nefna Elísabeth prinsessu frá Bæheimi (1618–1680) og Anna Maria van Schurman (1607-1678). Þær störfuðu í Hollandi og höfðu báðar kynni af heimspekingnum og stærðfræðingnum Descartes (1596–1650, sjá Hver var René Descartes og fyrir hvað er hann þekktur? eftir Elmar Geir Unnsteinsson). Bréf Elísabeth til Descartes hafa varðveist og gagnrýnir hún þar meðal annars hina frægu tvíhyggju hans (sjá Hvað er einhyggja og tvíhyggja? eftir Atla Harðarson).
Á þessum tíma var komin fram ákveðin hugmynd um hina lærðu konu, femina docta, og hvað hún tók sér fyrir hendur. Margar slíkar konur fengust við þýðingar eða stóðu í bréfaskriftum eða öðrum samböndum við heimspekinga og fleiri fræðimenn síns tíma. Oftast var um að ræða aðalskonur eða dætur lærdómsmanna, og má nefna sem dæmi Émilie du Châtelet (1706–1749) markgreifynju og sambýliskonu Voltaire (1694–1778) um tíma. Hún skrifaði margt og þýddi einnig Stærðfræðilögmál Newtons (1643–1727) yfir á frönsku (sjá Hver eru lögmál Newtons? eftir Þorstein Vilhjálmsson).
Á 18. öld var algengt að franskar hefðarkonur stæðu fyrir svonefndum „salons littéraires“, eða bókmenntastofum. Þá höfðu þær opið hús á tilteknum degi vikunnar þar sem menntafólk kom saman og ræddi hugðarefni sín. Sagt var að „salon“ Anne Thérèse de Lambert (1647–1733) væri fordyr frönsku akademíunnar.
Á undanförnum árum hefur einna mest verið skrifað um konur í sögu enskrar eða breskrar heimspeki og eru þær heimildir líklega aðgengilegastar íslenskum lesendum. Margaret Cavendish (1623–1673), hertogaynja af Newcastle, skrifaði um náttúruspeki og hélt fram efnishyggju. Anne Conway (1631–1679) vísigreifynja, hélt fram lífhyggju. Damaris Cudworth, Lady Masham (1659–1708), var dóttir platonistans Ralphs Cudworths (1617–1688). Hún skrifaðist meðal annars á við fjölfræðinginn Gottfried Leibniz (1646–1716) og var góð vinkona heimspekingsins Johns Lockes (1632-1704). Mary Astell (1666–1731) varði tvíhyggju í anda Descartes sem hún taldi að væri grundvallarforsenda fyrir jafnrétti kynjanna. Hún gagnrýndi jafnframt stöðu kvenna í menntamálum og hjónabandi. Catharine Trotter Cockburn (1679–1749) varði kenningar Lockes og var auk þess leikritaskáld. Þekktust enskra kvenspekinga er svo líklega Mary Wollstonecraft (1759–1797), einkum fyrir bókina A Vindication of the Rights of Woman (1792) sem er frægt kvenfrelsisrit.
Eins og sjá má af þessari upptalningu var fjöldi kvenna virkur við ástundun heimspeki og fræða frá 16. öld og fram til 18. aldar. Á 19. öld virðast kvenheimspekingar aftur á móti hverfa meira eða minna af spjöldum sögunnar. Þetta nefnist vandinn um kanon heimspekinnar og tilraunir til endurskoðunar á honum. Hvaða heimspekinga er almennt viðtekið að lesa í heimspekideildum í háskólum? Standa verk kvenna höllum fæti þegar kemur að leslistum námskeiða í heimspeki?
Þótt konur virðist að mestu hverfa úr heimspekisögunni á 19. öld er Harriet Taylor Mill (1807–1858), eiginkona enska heimspekingsins Johns Stuarts Mills (1806-1873), ein þeirra 19. aldar kvenna sem oft eru nefndar. Fleiri kvenkyns heimspekingar litu dagsins ljós þegar nær dró nútímanum. Meðal þekktustu bresku heimspekinganna á 20. öld má nefna siðfræðingana Elisabeth Anscombe (1919–2001) og Philippa Foot (1920), og heimspekinginn og rithöfundinn Iris Murdoch (1919–1999); í Þýskalandi og síðar Bandaríkjunum skrifaði Hannah Arendt (1906–1975) meðal annars um alræðishyggju og frjálslynda stjórnspeki og í Frakklandi var Simone de Beauvoir (1908–1986) einn helsti fulltrúi tilvistarstefnu (sjá Hvað er tilvistarstefna? eftir Val Brynjar Antonsson) og feminískrar heimspeki.
Feminísk heimspeki varð áberandi á síðari hluta 20. aldar, en á sér þó mun eldri rætur. Allt frá því að Christine de Pizan ritaði bókina um borg kvenna á 15. öld, en einkum þó á 16., 17. og 18. öld, var mikið ritað um svonefnda „kvennadeilu“ (fr. la querelle des femmes) sem ýmsir heimspekingar, bæði konur og karlar, tóku þátt í. Sú deila snerist einkum um eðli kvenna, stöðu þeirra og tækifæri til menntunar.
Baráttan fyrir pólitísku frelsi og jöfnum kosningarétti birtist meðal annars í ritum Mary Wollstonecraft og hafði áhrif á kvenréttindabaráttu frjálslyndra heimspekinga á 19. öld og fram á 20. öld. Simone de Beauvoir og bók hennar, Hitt kynið (Le deuxième sexe, bókstaflega: Annað kynið), eru oft talin marka upphaf þeirrar bylgju feminískrar heimspeki sem kemur skýrast fram eftir 1960 og er einkum undir áhrifum frá marxisma og sálgreiningu.
Hin svonefnda „þriðja bylgja“ einkennist af áherslu á jafnrétti á forsendum mismunar. Til hennar má telja afar fjölbreytilegar stefnur, svo sem róttækan feminisma, ecofeminisma og fjölmenningarlegan feminisma. Sem dæmi um feminíska heimspekinga má nefna Carol Gilligan (1936), Sandra Harding (1935), Susan Moller Okin (1946–2004), Judith Butler (1956); Luce Irigaray (1930), Hélène Cixous (1937), Julia Kristeva (1941) og Michèle le Doeuff (1948).
Af núlifandi fulltrúum rökgreiningarheimspeki (sjá Hvers vegna er rökfræðin svona flókin og hver er tilgangurinn með henni? eftir Ólaf Pál Jónsson) mætti nefna Martha Nussbaum (1947), prófessor í Chicago, Christine Korsgaard (1952), prófessor í Harvard og Onora O‘Neill (1941), fyrrum rektor Newnham-skóla í Cambridge og núverandi forseti bresku akademíunnar. Þær hafa allar skrifað um siðfræði en sú áhersla virðist einkenna marga kvenkyns enskumælandi heimspekinga.
Á Íslandi er getið um Ingunni nokkra sem lærði í Hólaskóla á miðöldum. Einnig hafa verið færð rök fyrir því að nokkrar íslenskar konur megi telja til lærðra kvenna á síðari öldum. Af heimspekingum má sérstaklega nefna Björgu C. Þorláksson (1874-1934). Hún hlaut á sínum tíma styrk úr heimspekisjóði Hannesar Árnasonar, flutti fyrirlestra og ritaði greinar um heimspeki og varði doktorsritgerð við Parísarháskóla 1926. Ævisaga hennar og verk hafa verið gefin út og er hún fyrsta íslenska konan sem telja má viðurkenndan heimspeking. Sigríður Þorgeirsdóttir varð svo árið 1997 fyrst kvenna háskólakennari í heimspeki við Háskóla Íslands.
Þess má geta að Þóra Björg Sigurðardóttir, meistaranemi í heimspeki við heimspekiskor Háskóla Íslands, vinnur nú að rannsókn á stöðu kvenna í heimspeki 17. aldar.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Gunnar Harðarson. „Hver var fyrsta konan sem var viðurkenndur heimspekingur? Hverjar eru þær helstu?“ Vísindavefurinn, 19. mars 2007, sótt 10. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6542.
Gunnar Harðarson. (2007, 19. mars). Hver var fyrsta konan sem var viðurkenndur heimspekingur? Hverjar eru þær helstu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6542
Gunnar Harðarson. „Hver var fyrsta konan sem var viðurkenndur heimspekingur? Hverjar eru þær helstu?“ Vísindavefurinn. 19. mar. 2007. Vefsíða. 10. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6542>.