
Smellið til að skoða stærri útgáfu.
Rómverjar háðu þrjú stríð – púnversku stríðin – við Karþagómenn, sem Rómverjar nefndu Púnverja. Fyrsta púnverska stríðið var háð á árunum 264-241 f.Kr. Þá náðu Rómverjar yfirráðum yfir Sikiley og náðu einnig ítökum á Spáni. Þar með höfðu þeir náð völdum utan Ítalíu í fyrsta skipti. Seinna náðu þeir einnig eyjunum Sardiníu og Korsíku á sitt vald. Öðru púnverska stríðinu 218-202 f.Kr. lauk einnig með sigri Rómverja og gerði þá að valdamestu þjóðinni við vestanvert Miðjarðarhafið. Karþagó gat ekki lengur veitt Rómaveldi samkeppni um völd og yfirráð og í þriðja púnverska stríðinu 149-146 f.Kr. lögðu Rómverjar Karþagó í rúst. Smám saman treystu og juku Rómverjar völd sín við Miðjarðarhafið. Á árunum 58 – 52 f. Kr. lagði Júlíus Caesar Gallíu, þar sem nú er Frakkland, undir Rómaveldi. Um miðja 1. öld f.Kr. geisuðu borgarastríð í Róm. Þegar varanlegur friður komst loks á var Octavíanus, sem síðar hlaut virðingarheitið Ágústus, við völd. Á valdatíma hans breyttist Rómaveldi úr lýðveldi í keisaraveldi, enda þótt formlega væri lýðveldið aldrei lagt niður. Venjan er að miða upphaf keisaratímans við árið 27 f.Kr. Rómaveldi var æ síðan keisaraveldi. Það var stærst á valdatíma Trajanusar á árunum 98-117 e.Kr. Undir lok 2. aldar hófst langt hnignunarskeið Rómaveldis. Ósjaldan var barist um völdin en margir valdamanna voru vanhæfir. Árið 293 var ríkinu skipt í austur- og vesturhluta en árið 395 varð skiptingin varanleg og til urðu Vestrómverska ríkið og Austrómverska ríkið. Konstantínópel, sem í dag heitir Istanbúl, varð höfuðborg Austrómverska ríkisins. Borgin, sem Konstantín mikli stofnaði árið 330, hafði áður heitið Býzantíon og þaðan er komið nafnið Býsansríkið, sem er annað heiti á Austrómverska ríkinu. Í Vestrómverska ríkinu hélt hnignunin áfram. Innrásir úr norðri voru tíðar, hagstjórn var slæm og farsóttir geisuðu. Germanskir þjóðflokkar náðu að endingu völdum í borginni og hröktu Rómúlus Ágústus, síðasta keisara Vestrómverska ríkisins, í útlegð árið árið 476. Oftast er fall Vestrómverska ríkisins miðað við þetta ártal. Úr leifum Vestrómverska ríkisins urðu síðar til ný ríki, meðal annars Frankaríkið og síðar Heilaga rómverska keisaradæmið. Býsansríkið hélt hins vegar velli og féll ekki fyrr en árið 1453. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað getiði sagt mér um fall Rómaveldis? eftir Stefán Gunnar Sveinsson
- Hvers vegna klofnaði Rómverska keisaradæmið í austur- og vesturhluta? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Útrýmdu Rómverjar einhverjum dýrategundum í Evrópu vegna eftirspurnar frá hringleikahúsunum? eftir Jón Má Halldórsson
- Úr hverju voru vatnslagnir Rómverja til forna og af hverju dró það menn til dauða? eftir Sverri Jakobsson
- Íslenska alfræðiorðabókin, Örn og Örlygur, Reykjavík 1990.