Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hver var Alexander mikli og fyrir hvað er hann þekktur?

Geir Þ. Þórarinsson

Alexandros III af Makedóníu, betur þekktur sem Alexander mikli, var sonur Filipposar II, konungs í Makedóníu. Hann er af mörgum talinn einn snjallasti herforingi allra tíma og er þekktur fyrir að hafa lagt undir sig eitt mesta stórveldi fornaldar.

Alexander fæddist 20. júlí árið 356 f.Kr. Sem unglingur nam hann hjá heimspekingnum Aristótelesi. Alexander tók við ríki föður síns eftir að hann var myrtur árið 336 f.Kr. Hann hélt áfram stefnu föður síns, sem hafði haft uppi áform um að ráðast inn í Litlu-Asíu og Persíu. Alexander hafði tekið þátt í orrustunni við Kæróneiu ásamt föður sínum 2. ágúst árið 338 f.Kr. en þar tryggði Filippos sér yfirráð yfir grísku borgríkjunum með sigri á sameinuðum herjum Aþenu og Þebu. En eftir morðið á Filipposi risu Aþena og Þeba upp gegn Makedóníu að nýju. Alexander þurfti því fyrst að friða grísku borgríkin. Hann jafnaði Þebu við jörðu svo að hún yrði öðrum borgríkjum víti til varnaðar en að svo búnu hélt hann með her sinn til Litlu-Asíu.


Forn mósaíkmynd sem sýnir Alexander mikla berjast við ljón.

Fyrsta orrusta Alexanders var við Granikos í Litlu-Asíu í maí árið 334 f.Kr. en þar sigraði hann töluvert fámennari her Persa. Alexander hélt suður meðfram ströndinni og náði á sitt vald borgunum Sardis, Efesos og Míletos. Eftir umsátur um borgina Halikarnassos hafði Alexander tekist að „frelsa“ grísku borgríkin í Litlu Asíu sem verið höfðu undir stjórn Persa. Alexander vann aftur mikinn sigur við Issos í nóvember árið 333 f.Kr. gegn mun fjölmennara liði Dareiosar III Persakonungs. Ósigurinn var Persum mikið reiðarslag. Alexander hélt næst suður og náði á sitt vald Fönikíu, Palestínu og Egyptalandi. Fræg voru umsátrin um borgirnar Týros og Gaza. Í Egyptalandi var honum tekið fagnandi og hann hylltur sem sonur Seifs. Hann stofnaði borgina Alexandríu sem varð síðar höfuðborg landsins og eitt mesta menntasetur fornaldar.

Eftir vetursetu í Egyptalandi hélt Alexander til Mesópótamíu þar sem hann vann afgerandi sigur á Persum í orrustunni við Gaugamela 1. október árið 331 f.Kr. Dareios varð að flýja en Alexander hélt til Babýlon. Í orrustunni við Persaskörð í janúar árið 330 f.Kr. sigraði her Alexanders síðustu leifar persneska hersins. Nú var leiðin greið að höfuðborginni Persepolis. Um sumarið var Dareios myrtur og Alexander lýsti því yfir að stríðinu gegn Persum væri lokið.

Árið 327 f.Kr. réðst Alexander inn í Norður-Indland og ári síðar komst hann austur fyrir Indusfljót. Her Alexanders náði allt austur að Gangesfljóti en neitaði þá að fara lengra. Förinni var þá haldið aftur í vesturátt. Þann 10. júní árið 323 f.Kr. lést Alexander skyndilega í blóma lífsins. Ekki er vitað um dánarorsök hans en ágiskanir hafa verið um að hann hafi fengið hitastótt eða að honum hafi ef til vill verið byrlað eitur. Um það má lesa nánar í svari Almars Steins Atlasonar og Heiðu Maríu Sigurðardóttur við spurningunni Hvernig dó Alexander mikli? Hann var lagður til grafar í borginni Alexandríu í Egyptalandi en þá borg hafði hann sjálfur stofnað átta árum áður.


Hluti af mósaíkmynd frá 1 öld f.Kr. Á myndinni sést Alexander á hesti sínum í bardaganum við Issos.

Þegar Alexander lést var veldi hans gríðarstórt en það stóð ekki lengi. Um árið 270 f.Kr., eftir áratuga löng átök eftirmanna Alexanders, hafði veldi hans liðast í sundur. Veldi Antigoníta var á Grikklandi og Makedóníu en því stýrðu afkomendur Antigonosar I, herforingja Alexanders, sem nefndur var hinn eineygði. Veldi Selevkíta var í Mesópótamíu og Persíu; það teygði sig austur að Indus-dalnum og náði yfir hluta Litlu-Asíu og Palestínu er það var stærst. Því stýrðu afkomendur Selevkosar I, herforingja Alexanders. Og veldi Ptolemaja var á Egyptalandi en því stýrðu afkomendur Ptolemajosar I sem einnig hafði verið herforingi Alexanders. Skipting þessi varði í um eina öld en árið 168 f.Kr. lögðu Rómverjar veldi Antigoníta undir sig en Selevkítaveldið féll fyrst í hendur Pörþum og að lokum að hluta í hendur Rómverjum. Veldi Ptolemaja hélt velli í Egyptalandi þar til Octavíanus lagði það undir sig í kjölfar sigurs síns á Marcusi Antoniusi og Kleópötru.

Með útþenslu konungdæmis Alexanders breiddist grísk menning út víða um Asíu, langt út fyrir Litlu-Asíu og alla leið austur til Indlands, og um Norður-Afríku út frá Egyptalandi. Jafnframt kynntust Grikkir menningu þeirra þjóða sem Alexander hafði lagt undir sig. Gríska varð alþjóðlegt samskiptamál og hélt þeirri stöðu öldum saman. En það var ekki aðeins grísk tunga sem breiddist út heldur einnig grísk stjórnspeki, grísk menning, bókmenntir og listir, heimspeki og vísindi og iðullega blandaðist gríska menningin þeirri menningu sem fyrir var. Þannig hafði Alexander ómæld áhrif á sögu og menningu fjölmargra þjóða.

Fleiri svör um Alexander á Vísindavefnum:

Ábendingar um frekara lesefni:
  • Bosworth, A.B., Conquest and Empire: The Reign of Alexander the Great (Cambridge: Cambridge University Press, 1993).
  • Cartledge, Paul, Alexander the Great (New York: Overlook Press, 2004).
  • Fildes, Alan og Fletcher, Joann, Alexander the Great: Son of the Gods (New York: Oxford University Press, 2004).
  • Fox, Robin Lane, Alexander the Great (New York: Penguin, 2004).
  • Walbank, F.W., The Hellenistic World (Cambridge, MA.: Harvard University Press, 1981).
  • Worthington, Ian (ritstj.), Alexander the Great: A Reader (New York: Routledge, 2003).

Myndir:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

8.11.2007

Spyrjandi

Anna Hafþórsdóttir, f. 1988

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var Alexander mikli og fyrir hvað er hann þekktur?“ Vísindavefurinn, 8. nóvember 2007. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6892.

Geir Þ. Þórarinsson. (2007, 8. nóvember). Hver var Alexander mikli og fyrir hvað er hann þekktur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6892

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var Alexander mikli og fyrir hvað er hann þekktur?“ Vísindavefurinn. 8. nóv. 2007. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6892>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Alexander mikli og fyrir hvað er hann þekktur?
Alexandros III af Makedóníu, betur þekktur sem Alexander mikli, var sonur Filipposar II, konungs í Makedóníu. Hann er af mörgum talinn einn snjallasti herforingi allra tíma og er þekktur fyrir að hafa lagt undir sig eitt mesta stórveldi fornaldar.

Alexander fæddist 20. júlí árið 356 f.Kr. Sem unglingur nam hann hjá heimspekingnum Aristótelesi. Alexander tók við ríki föður síns eftir að hann var myrtur árið 336 f.Kr. Hann hélt áfram stefnu föður síns, sem hafði haft uppi áform um að ráðast inn í Litlu-Asíu og Persíu. Alexander hafði tekið þátt í orrustunni við Kæróneiu ásamt föður sínum 2. ágúst árið 338 f.Kr. en þar tryggði Filippos sér yfirráð yfir grísku borgríkjunum með sigri á sameinuðum herjum Aþenu og Þebu. En eftir morðið á Filipposi risu Aþena og Þeba upp gegn Makedóníu að nýju. Alexander þurfti því fyrst að friða grísku borgríkin. Hann jafnaði Þebu við jörðu svo að hún yrði öðrum borgríkjum víti til varnaðar en að svo búnu hélt hann með her sinn til Litlu-Asíu.


Forn mósaíkmynd sem sýnir Alexander mikla berjast við ljón.

Fyrsta orrusta Alexanders var við Granikos í Litlu-Asíu í maí árið 334 f.Kr. en þar sigraði hann töluvert fámennari her Persa. Alexander hélt suður meðfram ströndinni og náði á sitt vald borgunum Sardis, Efesos og Míletos. Eftir umsátur um borgina Halikarnassos hafði Alexander tekist að „frelsa“ grísku borgríkin í Litlu Asíu sem verið höfðu undir stjórn Persa. Alexander vann aftur mikinn sigur við Issos í nóvember árið 333 f.Kr. gegn mun fjölmennara liði Dareiosar III Persakonungs. Ósigurinn var Persum mikið reiðarslag. Alexander hélt næst suður og náði á sitt vald Fönikíu, Palestínu og Egyptalandi. Fræg voru umsátrin um borgirnar Týros og Gaza. Í Egyptalandi var honum tekið fagnandi og hann hylltur sem sonur Seifs. Hann stofnaði borgina Alexandríu sem varð síðar höfuðborg landsins og eitt mesta menntasetur fornaldar.

Eftir vetursetu í Egyptalandi hélt Alexander til Mesópótamíu þar sem hann vann afgerandi sigur á Persum í orrustunni við Gaugamela 1. október árið 331 f.Kr. Dareios varð að flýja en Alexander hélt til Babýlon. Í orrustunni við Persaskörð í janúar árið 330 f.Kr. sigraði her Alexanders síðustu leifar persneska hersins. Nú var leiðin greið að höfuðborginni Persepolis. Um sumarið var Dareios myrtur og Alexander lýsti því yfir að stríðinu gegn Persum væri lokið.

Árið 327 f.Kr. réðst Alexander inn í Norður-Indland og ári síðar komst hann austur fyrir Indusfljót. Her Alexanders náði allt austur að Gangesfljóti en neitaði þá að fara lengra. Förinni var þá haldið aftur í vesturátt. Þann 10. júní árið 323 f.Kr. lést Alexander skyndilega í blóma lífsins. Ekki er vitað um dánarorsök hans en ágiskanir hafa verið um að hann hafi fengið hitastótt eða að honum hafi ef til vill verið byrlað eitur. Um það má lesa nánar í svari Almars Steins Atlasonar og Heiðu Maríu Sigurðardóttur við spurningunni Hvernig dó Alexander mikli? Hann var lagður til grafar í borginni Alexandríu í Egyptalandi en þá borg hafði hann sjálfur stofnað átta árum áður.


Hluti af mósaíkmynd frá 1 öld f.Kr. Á myndinni sést Alexander á hesti sínum í bardaganum við Issos.

Þegar Alexander lést var veldi hans gríðarstórt en það stóð ekki lengi. Um árið 270 f.Kr., eftir áratuga löng átök eftirmanna Alexanders, hafði veldi hans liðast í sundur. Veldi Antigoníta var á Grikklandi og Makedóníu en því stýrðu afkomendur Antigonosar I, herforingja Alexanders, sem nefndur var hinn eineygði. Veldi Selevkíta var í Mesópótamíu og Persíu; það teygði sig austur að Indus-dalnum og náði yfir hluta Litlu-Asíu og Palestínu er það var stærst. Því stýrðu afkomendur Selevkosar I, herforingja Alexanders. Og veldi Ptolemaja var á Egyptalandi en því stýrðu afkomendur Ptolemajosar I sem einnig hafði verið herforingi Alexanders. Skipting þessi varði í um eina öld en árið 168 f.Kr. lögðu Rómverjar veldi Antigoníta undir sig en Selevkítaveldið féll fyrst í hendur Pörþum og að lokum að hluta í hendur Rómverjum. Veldi Ptolemaja hélt velli í Egyptalandi þar til Octavíanus lagði það undir sig í kjölfar sigurs síns á Marcusi Antoniusi og Kleópötru.

Með útþenslu konungdæmis Alexanders breiddist grísk menning út víða um Asíu, langt út fyrir Litlu-Asíu og alla leið austur til Indlands, og um Norður-Afríku út frá Egyptalandi. Jafnframt kynntust Grikkir menningu þeirra þjóða sem Alexander hafði lagt undir sig. Gríska varð alþjóðlegt samskiptamál og hélt þeirri stöðu öldum saman. En það var ekki aðeins grísk tunga sem breiddist út heldur einnig grísk stjórnspeki, grísk menning, bókmenntir og listir, heimspeki og vísindi og iðullega blandaðist gríska menningin þeirri menningu sem fyrir var. Þannig hafði Alexander ómæld áhrif á sögu og menningu fjölmargra þjóða.

Fleiri svör um Alexander á Vísindavefnum:

Ábendingar um frekara lesefni:
  • Bosworth, A.B., Conquest and Empire: The Reign of Alexander the Great (Cambridge: Cambridge University Press, 1993).
  • Cartledge, Paul, Alexander the Great (New York: Overlook Press, 2004).
  • Fildes, Alan og Fletcher, Joann, Alexander the Great: Son of the Gods (New York: Oxford University Press, 2004).
  • Fox, Robin Lane, Alexander the Great (New York: Penguin, 2004).
  • Walbank, F.W., The Hellenistic World (Cambridge, MA.: Harvard University Press, 1981).
  • Worthington, Ian (ritstj.), Alexander the Great: A Reader (New York: Routledge, 2003).

Myndir: