
Við upphaf þeirrar aldar gætir óróa hjá hinum eiginlegu Persum í Persíu, einkanlega hjá Sasanídum, ætt sem kennd er við Sasan. Hann var afi Ardasjírs I sem lagði síðasta konung Parþa að velli árið 227. Þannig taka Sasanídar við veldi Arsakída og stofna Persaveldi hið nýja, því að þeir reyndu markvisst að endurvekja liðna tíð, meðal annars forn-persneskar Zaraþústrukenningar, og bola burt parþverskum og grísk-rómverskum áhrifum. Þetta veldi varð um tíma jafnvel víðlendara en Parþaveldi, gríðarlega öflugt og löngum helsta ógn Rómaveldis í Asíu, einkum á valdatíma Sjapúrs II á 4. öld. Lengstum voru vesturmörk veldisins við Tígrisfljót og austurmörkin við svæðið sem nú er Afganistan, stundum víðfeðmara. Það leið ekki undir lok fyrr en með innrás Araba 633 og sigri árið 641. Þegar Sasanídaveldið féll hafði það átt í stríðum við Miklagarð (Rómaveldi í austri) sem höfðu í raun lamað veldið. Þá hóf Íslam innreið sína og arabískir kalífar, en menning Sasanída réð sem fyrr miklu. Eftir daga Alexanders lýtur kjarni Persaveldis því þrenns konar stjórnendum í fornöld, Selevkídum, Arsakídum og Sasanídum. Veldi Selevkída er arfur Alexanders, þar sem grísk menning ræður ríkjum. Arsakídar taka við þeirri menningu, en yfirráðin byggjast á hernaðarmætti; hin gríska yfirstétt og menning hennar hverfur ekki á svipstundu. Þó hverfur smám saman hið gríska yfirbragð og við lok 2. aldar fyrir Krist virðast Arsakídar líta á sig sem arftaka hinna fornu Persakónga; Míþradates II kallar sig konung konunganna að hætti hinna fornu Persakónga. Þegar hér er komið sögu má segja að hið forna Persaveldi hafi unnið sig upp, en þó með þeim fyrirvara að Persar fóru ekki með völdin. Sjálfir taka þeir við á 3. öld eftir Krist. Ef ég vissi ekki að þjóðernishyggja ætti upphaf sitt á 19. öld myndi ég nefna hana til sögunnar sem mikilvægasta þáttinn í uppgangi Sasanída. Þeir vísuðu markvisst til sögu og menningar Persíu og þeirra trúarbragða sem átti að sameina veldið. Á íslensku hefur birst greinargerð um sögu þessara velda eftir finnska fornfræðinginn Patrick Bruun í 3. bindi Mannkynssögu AB, bls. 86-119 (Reykjavík, 1989). Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvar var Persía og af hverju er hún ekki lengur til? eftir Magnús Magnússon
- Wikipedia.com. Sótt 21.6.2010.