
Það er mikil áreynsla að hlaupa maraþon.
Sú aukning sem verður á blóðþrýstingi við áreynslu er allt frá því að vera óveruleg yfir í allverulegar breytingar, allt eftir gerð og ákefð áreynslunnar. Í léttri þolþjálfun verða ekki miklar breytingar á blóðþrýstingi, en við styrktarþjálfun eins og til dæmis kraftlyftingar getur blóðþrýstingur margfaldast í stuttan tíma. Blóðþrýstingur líkamans er einkum háður blóðflæði frá hjarta og samdráttarástandi æða. Ef æðarnar eru samandregnar veita þær blóðflæðinu mikið viðnám og þrýstingur innan þeirra hækkar. Við áreynslu slaknar hins vegar á æðum sem liggja til beinagrindarvöðva og því minnkar þetta viðnám og blóðflæði til vöðvanna eykst. Við hámarksáreynslu hækkar því meðalblóðþrýstingur ekki nema um 10-20%. Nánar má lesa um blóðþrýsting í svari Magnúsar Jóhannssonar við spurningunni: Hver er eðlilegur blóðþrýstingur?
Margvíslegar aðrar breytingar verða á líkamsstarfseminni bæði við áreynslu og í kjölfar hennar. Til dæmis gætir áhrifa hjá flestum ef ekki öllum hormónum líkamans og einnig hjá starfsemi í heilanum sem til dæmis varðar nám og minni. Líkamleg áreynsla hefur einnig áhrif á starfsemi ónæmiskerfisins og á líkamsvefi svo sem bein og brjósk. Áreynsla hefur því áhrif á nánast alla hluta líkamans. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvers vegna er núna verið að mæla með ísbaði eftir mikla áreynslu hjá íþróttamönnum? Hverju skilar það? eftir Þórarinn Sveinsson
- Hvers vegna stífna vöðvar upp við áreynslu og hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir það? eftir Þórarinn Sveinsson
- Hver er orkubrennsla í mismunandi áreynslu, eins og sundi, skokki, göngu, golfi og körfubolta? eftir Ingibjörgu Gunnarsdóttur
- Er mikil mjólkursýrumyndun slæm fyrir vöðva í uppbyggingu? eftir Þórarinn Sveinsson
- Brennir maður meiri orku með því að skokka 1 km eða að ganga 1 km, við sömu aðstæður? eftir Ingibjörgu Gunnarsdóttur
- Hvernig er hringrás blóðsins? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur