
Þreyta kemur fram sem minni geta til að framkalla kraft, með öðrum orðum máttleysi. Jafnframt þessu verður oftast aukin vökvasöfnun í viðkomandi vöðva vegna aukningar á niðurbrots- og úrgangsefnum, en slíkt er eðlilegt. Margir upplifa þetta síðan sem “stífni” eða “stirðleika”. Í kjölfar áreynslu getur fólk líka fengið mjög vægar harðsperrur og upplifað það sem stífni, en oftast kallast það stirðleiki og hverfur á 1-2 dögum. Fjallað er um harðsperrur í svari sama höfundar við spurningunni Hvað eru harðsperrur? Hvað veldur þeim og hvernig má draga úr þeim? Stífni getur líka stafað af aukinni taugavirkni til vöðvans sem kallast vöðvaspenna eða samdráttarástand (e. muscle tone eða muscular tone, stundum nefnt vöðvatónus á íslensku). Hann veldur því að sumar vöðvafrumur eru alltaf í vægum samdrætti. Þessi taugavirkni getur stafað af einhverju ójafnvægi í taugakerfinu eða mikilli næmni skynnema í vöðvunum sjálfum og jafnvel annars staðar. Þessi tegund af stífni kemur til dæmis fyrir í síbeygjukrampa (spasticity; hjá spastískum einstaklingum) og fleiri sjúkdómum en er hins vegar oftast ekkert tengd áreynslu og á þá ekki beint við hér. Áreynsla getur þó ýmist aukið eða dregið úr slíkri stífni. Þessi tegund af stífni er reyndar talsvert hliðstæð eða skyld sinadrætti eða krampa. Þó það geti eitthvað verið mismunandi eftir gerð stífninnar þá ætti rétt skipulögð þjálfun, holl og góð næring og síðast en ekki síst næg vatnsdrykkja að duga til að koma í veg fyrir stífni á meðan á áreynslu stendur og á eftir. Rétt skipulögð þjálfun felur meðal annars í sér rólegan stíganda í þjálfuninni og vöðvateygjur. Ef þetta dugar ekki og þörf er á frekari ráðleggingum er ástæða til að leita til fagaðila, læknis eða sjúkraþjálfara. Mynd: Wikipedia.org