Sólin Sólin Rís 03:49 • sest 23:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 22:41 • Sest 03:14 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:38 • Síðdegis: 18:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:46 • Síðdegis: 24:13 í Reykjavík

Hvað var Pelópsskagastríðið?

Skúli Sæland

Pelópsskagastríðið var háð á fimmtu öld fyrir Krist, nánar tiltekið árin 431-404. Það var háð á milli aþenska stórveldisins, sem stjórnaði borgríkjum við gríska Eyjahafið í nafni Sjóborgarveldisins, og Pelópsskagasambandsins sem var bandalag sjálfstæðra borgríkja á Pelópsskaganum undir forystu Spörtu. Nærri öll grísku borgríkin drógust inn í stríðið sem talið er vera eitt magnþrungnasta stríð sem hafði verið háð til þessa. Stríðið var skráð af samtímamanninum, hershöfðingjanum og sagnaritaranum Þúkýdídes (um 460-396 f.Kr.) og teljast verk hans ótrúlega góð sagnfræðiheimild um þetta tímabil. Hann skrifaði meðal annars um andrúmsloftið innan borgarmúra Aþenu á meðan skæð farsótt stráfelldi íbúana sem voru innikróaðir vegna umsáturs Spartverja.


Hoplítarnir voru undirstaða herveldis Spörtu og drottnunarstöðu hennar innan Pelópsskagasambandsins.

Herstyrkur hernaðaraðilanna var ólíkur, því Aþena var fyrst og fremst flotaveldi en landherir Pelópsskagabandalagsins höfðu verið ósigrandi um langan tíma. Undirstaða styrks þeirra var hoplítinn sem var þungvopnaður og vel brynvarinn fótgönguliði. Sérhver hoplíti varð að sjá sér fyrir vopnum og verjum sjálfur og því tilheyrðu þeir yfirleitt ríkari þjóðfélagsþegnunum.

Útbúnaður hoplítanna var því mjög misjafn en samanstóð yfirleitt af um 2,7 metra löngu spjóti, stuttu sverði, hringlaga skildi sem var um 1 metri í þvermál, brjóstplötu og stórum bronshjálmi. Margir höfðu líka verjur á leggjum og framhandleggjum. Vegna þyngdar búnaðarins klæddust hoplítarnir ekki verjunum fyrr en ljóst var að bardagi væri að hefjast. Barist var á sléttlendi þar sem herirnir röðuðu mönnum sínum upp í fylkingar, stundum átta raða djúpum. Síðan hlupu herirnir saman í von um að ná að keyra andstæðinginn niður eða ná að umkringja fylkingar hans. Ef ekki tókst að knýja fram úrslit strax þá varð orrustan að nokkurs konar þrýstingskeppni þar sem andstæðar fylkingar reyndu að pressa á hvor aðra um leið og spjótin voru notuð til að stinga andstæðinginn yfir skjöldinn. Þessir bardagar stóðu yfirleitt ekki lengur en klukkutíma og enduðu með því að þeir sigruðu köstuðu vopnum og verjum og flúðu af vettvangi. Lítið var um mannfall, yfirleitt féllu einungis um 5% hermanna, en þeir föllnu voru oftast herforingjarnir sjálfir og áhrifamestu einstaklingar borgríkjanna því þeir fóru ávallt fremstir í flokki. Fallnir voru svo leystir til sinna heimkynna gegn lausnargjaldi.

Þrátt fyrir yfirburði hoplítanna í fylkingarbardögum var þessi hernaðartækni á undanhaldi í Pelópsskagastríðinu. Borgríkin fóru í æ ríkari mæli að treysta á aðrar leiðir til sigurs, svo sem herskip, málaliða, umsátur, borgarmúra, léttvopnað hraðfara herlið og skyndiorrustur. Með þessum aðferðum varð mannfall andstæðingsins í bardaga meira en ella og hægt var að stunda hernað í því augnamiði að lýja her og efnahag andstæðingsins. Léttvopnað lið sem kallaðist peltast varð smám saman fjölmennasti hluti herjanna. Peltastarnir voru fátækari íbúar borgríkjanna eða málaliðar því þeir höfðu ekki efni á að búa sig jafnvel og hoplítarnir. Eina vörn þeirra var skjöldur úr viðartágum, peltast, auk þess sem þeir báru mjög stutt sverð, nokkur kastspjót og jafnvel kastreipi til að magna upp slöngvikraftinn.

Sjóveldi Aþenu byggðist á þríæringum sem voru róðraskip með þremur röðum ára hver yfir annarri á hvorri hlið. Þessi skip voru tæknilegt afrek og sögum af getu þeirra var lengi vel ekki trúað fyrr en byggð var eftirlíking af einu slíku og sýnt fram á hvað hægt var að gera með skipinu. Áhöfnin samanstóð af skipstjóra, 170 ræðurum, 20 sjómönnum og 10 hermönnum. Þau voru plásslítil og völt en gátu náð 21 km hraða og snúið nánast á punktinum á fullri ferð. Takmarkið var að keyra inn í hliðina á skipi andstæðingsins og sökkva því þannig eða ná að renna skipinu meðfram hinu, með inndregnar árar, og brjóta þannig árar óvinarins og lama farkostinn. Einungis 30 sentímetrar voru á milli áranna svo lítið mátti út af bregða til að ræðurunum fipaðist ekki. Áhafnirnar þurftu að vera geysilega vel þjálfaðar og einbeittar til að geta beitt skipunum í orrustu því bardagatæknin gekk út á snögga snúninga, örar hraðabreytingar og að róa hraðar en andstæðingurinn. Vegna þess hve áhöfnin þurfti að vera vel samhæfð voru einungis frjálsir menn notaðir sem ræðarar. Ef borgríkin neyddust til að beita þrælum þá var þeim samstundis gefið frelsi svo að þeir myndu leggja sig alla fram.


Gríðarlega þjálfun þurfti svo að áhöfnin gæti beitt þríæringnum vel í bardaga. Þetta kunnu Aþeningar betur en flestir aðrir.

Þúkýdídes taldi Pelópsskagastríðið hafa hafist af ótta við síaukin völd Aþenu. Það er mjög sennileg skýring en ekki síður sú að ásókn Aþenu í nýlendur Korinþu á Sikiley og stöðug útþensla varð til þess að skarst í odda. Spartverjar gátu ekki horft upp á að Aþeningar færu svona með bandalagsríki sín í Pelópskagasambandinu og því gripu þeir til vopna árið 431 f. Kr.

Aþenuborg var staðsett á Attíkuskaga en undirstaða gríðarlegs auðs hennar lá í skattheimtu á grísku borgríkjunum í Sjóbandalaginu í og við Eyjahafið. Borgin var vel víggirt fyrir árásum hoplíta Spartverja og því dróst stríðið á langinn.

Spartverjar, undir stjórn Arkhidamusar II, settust fyrst um Aþenu. Períkles, strategos (hershöfðingi) Aþeninga, sá að efnahagslegur styrkur og floti þeirra myndi tryggja þeim sigur ef þeir hættu sér ekki í opinn bardaga. Períkles féll hins vegar fyrir farsótt sem geisaði í yfirfullri borg Aþenu, ásamt fjórðungi borgarbúa. Þrátt fyrir þetta gekk Spartverjum illa í hernaðinum því hoplítarnir urðu ávallt að snúa heim til að sinna uppskerunni og vakta þræla sína, helotana, svo þeir gripu ekki til uppreisnar. Af þessum sökum gat umsátrið um Aþenu aldrei varað lengur en nokkra mánuði á ári. Á þeim tíma héldu bændurnir við Aþenu inn fyrir múrana löngu sem Períkles hafði látið reisa frá Aþenu til hafnarborgarinnar Píraeus. Að loknu umsátri héldu bændurnir síðan aftur út á akrana og landflutningar vista gat hafist að nýju til borgarinnar.

Spartverjar náðu einungis borginni Plateu á sitt vald árið 427 f.Kr. en biðu ósigra á sjó. Arftaki Períklesar, demagóginn Kleon, var djarfari og beitti flotanum til að gera strandhögg meðfram ströndum andstæðingsins og byggði upp varðstöðvar um Pelópsskagann. Árið 425 f.Kr. unnu Aþeningar óvæntan stórsigur þegar þeim auðnaðist að fanga 3-400 hoplíta Spörtu á eynni Sphaeteria. Þegar stór hluti spartnesku karlmannanna hafði verið tekinn til fanga leitaði Sparta eftir friði. Friðarumleitunum hennar var hins vegar hafnað. Brasídas, herforingja Spartverja, tókst þó að mynda her sem samanstóð að miklu leyti af bandalagsþjóðum Spörtu og helotum og unnu þeir mikilvæga sigra við Kalkídis árið 424 f.Kr. sem leiddi til þess að fjöldi borgríkja reis upp gegn oki Aþeninga. Með töku borgarinnar Amphipolis árið 422 f.Kr. tókst Spartverjum að meina Aþenubúum aðgang að auðugum silfurnámum borgarinnar. Bæði Brasídas og Kleon féllu við Amphipolis og þá gekk arftaki Kleons, Níkías, að friðartillögum Spörtu árið 421 f.Kr. sem fólu í sér skipti á spartversku föngunum í staðinn fyrir hernumdar borgir.

Friður Níkíasar varði í sex ár. Stöðug tortryggni milli samningsaðila kom þó í veg fyrir að þeir stæðu að fullu við samninginn og segja má að Pelópsskagastríðið hafi geisað enn því nú sóttust stóru borgríkin tvö eftir stuðningi þeirra smærri. Argos var öflugt borgríki á Pelópsskaga sem hafði til þessa staðið utan við átökin en sóttist nú eftir forystusæti innan Pelópsskagasambandsins með stuðningi Aþenu. Í bardaganum við Mantineu, stærstu landorrustu Pelópsskagastríðsins, tókst Spartverjum hins vegar að sigra og tryggja yfirráð sín á Pelópsskaganum.

Friður Níkíasar brast alveg árið 415 f.Kr. þegar Aþena ákvað að liðsinna bandalagsríki sínu á Sikiley. Svo virðist sem Aþeningar hafi haft á prjónunum áætlanir um að leggja Sikiley undir sig og nýta sér síðan auðlegð eyjarinnar til að sigra Spörtu. Þeim barst hins vegar njósn af fyrirætlunum Aþeninga með hershöfðingjanum Alkibíadesi sem hafði flúið Aþenu vegna ásakana um guðlast, auk þess sem Sýrakúsa sendi hjálparbeiðni. Þrátt fyrir stöðuga liðsstyrki Aþeninga guldu þeir afhroð árið 413 f.Kr. Þúkýdídes telur að Aþeningar hafi misst nærri 40.000 hermenn í herförinni til Sikileyjar.

Eftir hrakfarirnar á Sikiley er í raun furðulegt að Aþena hafi getað risið aftur upp sem öflugt herveldi því nær allur flotinn var sokkinn auk þess sem stærstur hluti hersins var glataður. Að auki víggirti Sparta borgina Dekeleu við Aþenu að ráði Alkibíadesar. Þannig gátu þeir meinað Aþeningum að yrkja jarðir í nágrenni borgarinnar árið um kring. Þetta varð ein meginorsök ósigurs Aþenu. Fjöldi borgríkja reis nú upp í uppreisn gegn oki hennar og til að bæta gráu ofan á svart tóku sig nú upp flokkadrættir og átök innan borgarmúranna. Árið 411 f.Kr. var lýðræðinu velt úr sessi af fámennisstjórn sem var þó fljótlega steypt af stóli. Flotinn hafði ekki sætt sig við stjórnarskiptin og kaus Alkibíades sem leiðtoga sinn sem kom aftur á lýðræði. Á meðan á þessu stóð gætti ósamkomulags og skipulagsleysis á meðal Spörtu og samherja hennar.

Pelópskagasambandið var seint til að aðstoða uppreisnarríkin og því koðnaði uppreisn margra þeirra fljótlega niður. Floti Aþenu, undir stjórn Alkibíadesar, vann mikla sigra á flota Spartverja og árin 410-406 f.Kr. náðu Aþeningar að vinna aftur ríki sitt að miklu leyti fyrir tilstilli hans. Leiðtogar lýðræðisins höfnuðu enn á ný friðartilboðum Spartverja og flotar beggja áttust áfram við og skiptust á skin og skúrir. Uppbygging Spörtu sem flotaveldis varð hins vegar ekki stöðvuð því hún naut nú dyggs fjárhagsstuðnings Persa sem sömdu við Spartverja um að aþensku borgirnar í Litlu-Asíu féllu undir veldi Persa. Ósigrar aþenska flotans í tveimur orrustum auk flokkadrátta varð til þess að Alkibíades var bolað úr starfi og nýr strategos valinn. Í ofanálag voru helstu leiðtogar flotans teknir af lífi fyrir litlar sakir. Eftir að hafa misst sína færustu herforingja var flotinn ekki í stakk búinn til að takast á við öflugan flota Spartverja sem nú var kunnáttusamlega stjórnað af Lýsander. Árið 405 f.Kr. voru Aþeningar gersigraðir við Aegospotami þar sem þeir misstu 168 af 180 skipum sínum. Aþena gafst skilyrðislaust upp ári síðar því engin leið var fyrir hana að brjóta á bak aftur hafnarbann Spörtu.

Eftir Pelópsskagastríðið voru grísku borgríkin þrotin að afli. Þau náðu aldrei aftur fyrri styrk þó að Aþena næði að blanda sér aftur í stjórnmál Grikklands. Sparta naut velgengni um hríð en Persar ógnuðu nú sjálfstæði grísku borgríkjanna auk þess sem Sparta var fljótlega gersigruð af Þebu í bardaganum við Leuctra árið 371 f.Kr. Þess var ekki langt að bíða að Filippus II konungur Makedóníu innlimaði grísku borgríkin.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Montgomery, Hugo: Medelhavsvärldens historia till omkring 400 e.Kr., Esselte Studium, (Berlings, Arlöv, Svíþjóð 1985).
  • Vefsetrið Encyclopædia Britannica: Hoplite.
  • Vefsetrið Wikipedia: Hoplite, Peltast, Peloponnesian War og Triereme.

Myndir:

Höfundur

Skúli Sæland

sagnfræðingur

Útgáfudagur

27.10.2004

Spyrjandi

Arna Björk Halldórsdóttir, f. 1985

Tilvísun

Skúli Sæland. „Hvað var Pelópsskagastríðið?“ Vísindavefurinn, 27. október 2004. Sótt 22. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=4579.

Skúli Sæland. (2004, 27. október). Hvað var Pelópsskagastríðið? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4579

Skúli Sæland. „Hvað var Pelópsskagastríðið?“ Vísindavefurinn. 27. okt. 2004. Vefsíða. 22. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4579>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað var Pelópsskagastríðið?
Pelópsskagastríðið var háð á fimmtu öld fyrir Krist, nánar tiltekið árin 431-404. Það var háð á milli aþenska stórveldisins, sem stjórnaði borgríkjum við gríska Eyjahafið í nafni Sjóborgarveldisins, og Pelópsskagasambandsins sem var bandalag sjálfstæðra borgríkja á Pelópsskaganum undir forystu Spörtu. Nærri öll grísku borgríkin drógust inn í stríðið sem talið er vera eitt magnþrungnasta stríð sem hafði verið háð til þessa. Stríðið var skráð af samtímamanninum, hershöfðingjanum og sagnaritaranum Þúkýdídes (um 460-396 f.Kr.) og teljast verk hans ótrúlega góð sagnfræðiheimild um þetta tímabil. Hann skrifaði meðal annars um andrúmsloftið innan borgarmúra Aþenu á meðan skæð farsótt stráfelldi íbúana sem voru innikróaðir vegna umsáturs Spartverja.


Hoplítarnir voru undirstaða herveldis Spörtu og drottnunarstöðu hennar innan Pelópsskagasambandsins.

Herstyrkur hernaðaraðilanna var ólíkur, því Aþena var fyrst og fremst flotaveldi en landherir Pelópsskagabandalagsins höfðu verið ósigrandi um langan tíma. Undirstaða styrks þeirra var hoplítinn sem var þungvopnaður og vel brynvarinn fótgönguliði. Sérhver hoplíti varð að sjá sér fyrir vopnum og verjum sjálfur og því tilheyrðu þeir yfirleitt ríkari þjóðfélagsþegnunum.

Útbúnaður hoplítanna var því mjög misjafn en samanstóð yfirleitt af um 2,7 metra löngu spjóti, stuttu sverði, hringlaga skildi sem var um 1 metri í þvermál, brjóstplötu og stórum bronshjálmi. Margir höfðu líka verjur á leggjum og framhandleggjum. Vegna þyngdar búnaðarins klæddust hoplítarnir ekki verjunum fyrr en ljóst var að bardagi væri að hefjast. Barist var á sléttlendi þar sem herirnir röðuðu mönnum sínum upp í fylkingar, stundum átta raða djúpum. Síðan hlupu herirnir saman í von um að ná að keyra andstæðinginn niður eða ná að umkringja fylkingar hans. Ef ekki tókst að knýja fram úrslit strax þá varð orrustan að nokkurs konar þrýstingskeppni þar sem andstæðar fylkingar reyndu að pressa á hvor aðra um leið og spjótin voru notuð til að stinga andstæðinginn yfir skjöldinn. Þessir bardagar stóðu yfirleitt ekki lengur en klukkutíma og enduðu með því að þeir sigruðu köstuðu vopnum og verjum og flúðu af vettvangi. Lítið var um mannfall, yfirleitt féllu einungis um 5% hermanna, en þeir föllnu voru oftast herforingjarnir sjálfir og áhrifamestu einstaklingar borgríkjanna því þeir fóru ávallt fremstir í flokki. Fallnir voru svo leystir til sinna heimkynna gegn lausnargjaldi.

Þrátt fyrir yfirburði hoplítanna í fylkingarbardögum var þessi hernaðartækni á undanhaldi í Pelópsskagastríðinu. Borgríkin fóru í æ ríkari mæli að treysta á aðrar leiðir til sigurs, svo sem herskip, málaliða, umsátur, borgarmúra, léttvopnað hraðfara herlið og skyndiorrustur. Með þessum aðferðum varð mannfall andstæðingsins í bardaga meira en ella og hægt var að stunda hernað í því augnamiði að lýja her og efnahag andstæðingsins. Léttvopnað lið sem kallaðist peltast varð smám saman fjölmennasti hluti herjanna. Peltastarnir voru fátækari íbúar borgríkjanna eða málaliðar því þeir höfðu ekki efni á að búa sig jafnvel og hoplítarnir. Eina vörn þeirra var skjöldur úr viðartágum, peltast, auk þess sem þeir báru mjög stutt sverð, nokkur kastspjót og jafnvel kastreipi til að magna upp slöngvikraftinn.

Sjóveldi Aþenu byggðist á þríæringum sem voru róðraskip með þremur röðum ára hver yfir annarri á hvorri hlið. Þessi skip voru tæknilegt afrek og sögum af getu þeirra var lengi vel ekki trúað fyrr en byggð var eftirlíking af einu slíku og sýnt fram á hvað hægt var að gera með skipinu. Áhöfnin samanstóð af skipstjóra, 170 ræðurum, 20 sjómönnum og 10 hermönnum. Þau voru plásslítil og völt en gátu náð 21 km hraða og snúið nánast á punktinum á fullri ferð. Takmarkið var að keyra inn í hliðina á skipi andstæðingsins og sökkva því þannig eða ná að renna skipinu meðfram hinu, með inndregnar árar, og brjóta þannig árar óvinarins og lama farkostinn. Einungis 30 sentímetrar voru á milli áranna svo lítið mátti út af bregða til að ræðurunum fipaðist ekki. Áhafnirnar þurftu að vera geysilega vel þjálfaðar og einbeittar til að geta beitt skipunum í orrustu því bardagatæknin gekk út á snögga snúninga, örar hraðabreytingar og að róa hraðar en andstæðingurinn. Vegna þess hve áhöfnin þurfti að vera vel samhæfð voru einungis frjálsir menn notaðir sem ræðarar. Ef borgríkin neyddust til að beita þrælum þá var þeim samstundis gefið frelsi svo að þeir myndu leggja sig alla fram.


Gríðarlega þjálfun þurfti svo að áhöfnin gæti beitt þríæringnum vel í bardaga. Þetta kunnu Aþeningar betur en flestir aðrir.

Þúkýdídes taldi Pelópsskagastríðið hafa hafist af ótta við síaukin völd Aþenu. Það er mjög sennileg skýring en ekki síður sú að ásókn Aþenu í nýlendur Korinþu á Sikiley og stöðug útþensla varð til þess að skarst í odda. Spartverjar gátu ekki horft upp á að Aþeningar færu svona með bandalagsríki sín í Pelópskagasambandinu og því gripu þeir til vopna árið 431 f. Kr.

Aþenuborg var staðsett á Attíkuskaga en undirstaða gríðarlegs auðs hennar lá í skattheimtu á grísku borgríkjunum í Sjóbandalaginu í og við Eyjahafið. Borgin var vel víggirt fyrir árásum hoplíta Spartverja og því dróst stríðið á langinn.

Spartverjar, undir stjórn Arkhidamusar II, settust fyrst um Aþenu. Períkles, strategos (hershöfðingi) Aþeninga, sá að efnahagslegur styrkur og floti þeirra myndi tryggja þeim sigur ef þeir hættu sér ekki í opinn bardaga. Períkles féll hins vegar fyrir farsótt sem geisaði í yfirfullri borg Aþenu, ásamt fjórðungi borgarbúa. Þrátt fyrir þetta gekk Spartverjum illa í hernaðinum því hoplítarnir urðu ávallt að snúa heim til að sinna uppskerunni og vakta þræla sína, helotana, svo þeir gripu ekki til uppreisnar. Af þessum sökum gat umsátrið um Aþenu aldrei varað lengur en nokkra mánuði á ári. Á þeim tíma héldu bændurnir við Aþenu inn fyrir múrana löngu sem Períkles hafði látið reisa frá Aþenu til hafnarborgarinnar Píraeus. Að loknu umsátri héldu bændurnir síðan aftur út á akrana og landflutningar vista gat hafist að nýju til borgarinnar.

Spartverjar náðu einungis borginni Plateu á sitt vald árið 427 f.Kr. en biðu ósigra á sjó. Arftaki Períklesar, demagóginn Kleon, var djarfari og beitti flotanum til að gera strandhögg meðfram ströndum andstæðingsins og byggði upp varðstöðvar um Pelópsskagann. Árið 425 f.Kr. unnu Aþeningar óvæntan stórsigur þegar þeim auðnaðist að fanga 3-400 hoplíta Spörtu á eynni Sphaeteria. Þegar stór hluti spartnesku karlmannanna hafði verið tekinn til fanga leitaði Sparta eftir friði. Friðarumleitunum hennar var hins vegar hafnað. Brasídas, herforingja Spartverja, tókst þó að mynda her sem samanstóð að miklu leyti af bandalagsþjóðum Spörtu og helotum og unnu þeir mikilvæga sigra við Kalkídis árið 424 f.Kr. sem leiddi til þess að fjöldi borgríkja reis upp gegn oki Aþeninga. Með töku borgarinnar Amphipolis árið 422 f.Kr. tókst Spartverjum að meina Aþenubúum aðgang að auðugum silfurnámum borgarinnar. Bæði Brasídas og Kleon féllu við Amphipolis og þá gekk arftaki Kleons, Níkías, að friðartillögum Spörtu árið 421 f.Kr. sem fólu í sér skipti á spartversku föngunum í staðinn fyrir hernumdar borgir.

Friður Níkíasar varði í sex ár. Stöðug tortryggni milli samningsaðila kom þó í veg fyrir að þeir stæðu að fullu við samninginn og segja má að Pelópsskagastríðið hafi geisað enn því nú sóttust stóru borgríkin tvö eftir stuðningi þeirra smærri. Argos var öflugt borgríki á Pelópsskaga sem hafði til þessa staðið utan við átökin en sóttist nú eftir forystusæti innan Pelópsskagasambandsins með stuðningi Aþenu. Í bardaganum við Mantineu, stærstu landorrustu Pelópsskagastríðsins, tókst Spartverjum hins vegar að sigra og tryggja yfirráð sín á Pelópsskaganum.

Friður Níkíasar brast alveg árið 415 f.Kr. þegar Aþena ákvað að liðsinna bandalagsríki sínu á Sikiley. Svo virðist sem Aþeningar hafi haft á prjónunum áætlanir um að leggja Sikiley undir sig og nýta sér síðan auðlegð eyjarinnar til að sigra Spörtu. Þeim barst hins vegar njósn af fyrirætlunum Aþeninga með hershöfðingjanum Alkibíadesi sem hafði flúið Aþenu vegna ásakana um guðlast, auk þess sem Sýrakúsa sendi hjálparbeiðni. Þrátt fyrir stöðuga liðsstyrki Aþeninga guldu þeir afhroð árið 413 f.Kr. Þúkýdídes telur að Aþeningar hafi misst nærri 40.000 hermenn í herförinni til Sikileyjar.

Eftir hrakfarirnar á Sikiley er í raun furðulegt að Aþena hafi getað risið aftur upp sem öflugt herveldi því nær allur flotinn var sokkinn auk þess sem stærstur hluti hersins var glataður. Að auki víggirti Sparta borgina Dekeleu við Aþenu að ráði Alkibíadesar. Þannig gátu þeir meinað Aþeningum að yrkja jarðir í nágrenni borgarinnar árið um kring. Þetta varð ein meginorsök ósigurs Aþenu. Fjöldi borgríkja reis nú upp í uppreisn gegn oki hennar og til að bæta gráu ofan á svart tóku sig nú upp flokkadrættir og átök innan borgarmúranna. Árið 411 f.Kr. var lýðræðinu velt úr sessi af fámennisstjórn sem var þó fljótlega steypt af stóli. Flotinn hafði ekki sætt sig við stjórnarskiptin og kaus Alkibíades sem leiðtoga sinn sem kom aftur á lýðræði. Á meðan á þessu stóð gætti ósamkomulags og skipulagsleysis á meðal Spörtu og samherja hennar.

Pelópskagasambandið var seint til að aðstoða uppreisnarríkin og því koðnaði uppreisn margra þeirra fljótlega niður. Floti Aþenu, undir stjórn Alkibíadesar, vann mikla sigra á flota Spartverja og árin 410-406 f.Kr. náðu Aþeningar að vinna aftur ríki sitt að miklu leyti fyrir tilstilli hans. Leiðtogar lýðræðisins höfnuðu enn á ný friðartilboðum Spartverja og flotar beggja áttust áfram við og skiptust á skin og skúrir. Uppbygging Spörtu sem flotaveldis varð hins vegar ekki stöðvuð því hún naut nú dyggs fjárhagsstuðnings Persa sem sömdu við Spartverja um að aþensku borgirnar í Litlu-Asíu féllu undir veldi Persa. Ósigrar aþenska flotans í tveimur orrustum auk flokkadrátta varð til þess að Alkibíades var bolað úr starfi og nýr strategos valinn. Í ofanálag voru helstu leiðtogar flotans teknir af lífi fyrir litlar sakir. Eftir að hafa misst sína færustu herforingja var flotinn ekki í stakk búinn til að takast á við öflugan flota Spartverja sem nú var kunnáttusamlega stjórnað af Lýsander. Árið 405 f.Kr. voru Aþeningar gersigraðir við Aegospotami þar sem þeir misstu 168 af 180 skipum sínum. Aþena gafst skilyrðislaust upp ári síðar því engin leið var fyrir hana að brjóta á bak aftur hafnarbann Spörtu.

Eftir Pelópsskagastríðið voru grísku borgríkin þrotin að afli. Þau náðu aldrei aftur fyrri styrk þó að Aþena næði að blanda sér aftur í stjórnmál Grikklands. Sparta naut velgengni um hríð en Persar ógnuðu nú sjálfstæði grísku borgríkjanna auk þess sem Sparta var fljótlega gersigruð af Þebu í bardaganum við Leuctra árið 371 f.Kr. Þess var ekki langt að bíða að Filippus II konungur Makedóníu innlimaði grísku borgríkin.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Montgomery, Hugo: Medelhavsvärldens historia till omkring 400 e.Kr., Esselte Studium, (Berlings, Arlöv, Svíþjóð 1985).
  • Vefsetrið Encyclopædia Britannica: Hoplite.
  • Vefsetrið Wikipedia: Hoplite, Peltast, Peloponnesian War og Triereme.

Myndir:...