Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Aðrir spyrjendur eru: Guðmundur Leifur, f. 1995, Baldvin Ómarsson, f. 1987, Hilmar Á. Björnsson, Solveig Gunnarsdóttir, f. 1988 og Robert Chylinski, f. 1987.
Þegar spurt er hvers vegna Trójustríðið var háð koma ólíkar skýringar til greina. Annars vegar er hægt að rekja ástæður stríðsins í bókmenntum. Hins vegar má spyrja hvort Trójustríðið hafi átt sér stað í alvörunni og ef svo, hverjar hafi þá verið raunverulegar orsakir þess.
Var Trója til og var Trójustríðið raunverulega háð?
Trójustríðið var vel þekkt meðal Grikkja til forna og fóru margar sögur af því. Akkear (Grikkir) áttu að hafa setið um borgina í tíu ár og að lokum lagt hana í rúst. Kviður Hómers, Ilíonskviða og Ódysseifskviða, fjalla meðal annars um Trójustríðið. Í Ilíonskviðu er sagt frá atburðum tíunda og síðasta árs umsátursins um borgina, og í Ódysseifskviðu, sem fjallar um heimför hins ráðsnjalla Ódysseifs að stríðinu loknu, er sagt frá mörgu sem gerðist eftir að Ilíonskviðu lýkur, svo sem frá Trójuhestinum fræga.
Hómerskviður eru elstu bókmenntir Grikkja, ritaðar um og eftir miðja 8. öld f. Kr. eða rúmlega fjórum öldum eftir að stríðið átti að hafa verið háð. Eratosþenes frá Kýrenu (um 285-194 f. Kr.) reiknaði út að það hafi átt sér stað 1184 f. Kr. Líklega hefur þó löng hefð legið að baki kvæðunum og efni þeirra að einhverju leyti varðveist í munnmælum frá einni kynslóð til annarrar.
Lengi var talið að sagan um Trójustríðið væri einungis skáldskapur. Enginn vissi hvar Tróju var að finna eða hvort hún hafði raunverulega verið til. Árið 1820 gat Skotinn Charles Maclaren sér þess til að Trója hafi verið í NV-hluta Litlu-Asíu (nú í Tyrklandi) um 6,5 km frá Eyjahafi og öllu styttra frá Hellusundi. Á árunum 1870-1890 gróf Þjóðverjinn Heinrich Schliemann upp borgarstæði Tróju þar sem Maclaren hafði giskað á að það væri. Þar höfðu raunar staðið níu borgir á tímabilinu frá 3000 f. Kr. til 1200 e. Kr.
Trója VI.
Fræðimenn telja að borgarstæði VI eða VII, sem venjulega er skipt í VIIa og VIIb, (talið að neðan) kunni að hafa verið Trójuborg sú sem getið er í kviðum Hómers. Trója VI ber merki um mun glæsilegri byggingar en áður höfðu verið á þessu svæði og hún virðist hafa farist í eldi og jafnvel í ófriði (eða jarðskjálfta) um 1270 f. Kr. Trója VIIa fórst í ófriði um 1190 f. Kr. og Trója VIIb fórst um 1050 f. Kr. en hún kemur síst til greina af þessum þremur. Grikkir hefðu mögulega getað setið um Tróju VI, VIIa eða VIIb en þó eru engar sannanir fyrir því að Grikkir hafi setið um borgina og háð stríð við Tróverja.
Hvers vegna var Trójustríðið háð?
Í kviðum Hómers og öðrum bókmenntum eru orsakir stríðsins sagðar vera að París Trójuprins, yngsti sonur Príamosar konungs og Hekúbu drottningar, hafi rænt Helenu fögru, drottningu í Spörtu, og numið hana á brott með sér til Tróju. Guðirnir áttu sinn þátt í þessu.
Þegar Peleifur og Þetis, foreldrar Akkillesar, giftu sig var guðunum boðið til veislu. Eris, gyðja ósættis og deilna, henti fram gullnu epli og sagði að það skyldi vera verðlaun handa fegurstu gyðjunni af þeim þremur Heru, Afródítu og Aþenu. Enginn treysti sér til að dæma. Ákvað þá Seifur að Hermes skyldi fara með gyðjurnar til Parísar og hann skyldi dæma. Allar buðu þær honum gull og græna skóga ef hann dæmdi þeim sigur. Hera bauðst til að gera hann að konungi yfir Asíu (nú Tyrklandi) og Aþena bauð honum visku og sigur í bardögum en Afródíta lofaði honum ást Helenu fögru og París dæmdi henni sigur.
París dæmir fegurð gyðjanna. Myndin er eftir Rubens (um 1636).
Helena var á þessum tíma gift Menelási konungi í Spörtu. Áður en hún var gefin honum hafði Tyndareifur faðir hennar farið að ráðum Ódysseifs og fengið alla biðla hennar til að sverja þess eið að sætta sig við ákvörðun Helenu og jafnframt að koma manni hennar til hjálpar ef þess skyldi þurfa. Menelás var líka bróðir Agamemnons, konungs í Mýkenu, en hann var æðstur konunganna í Grikklandi. Því átti Menelás ekki í erfiðleikum með að safna herliði gegn Tróju er París hélt til borgarinnar með Helenu.
Ef gengið er út frá því að Trójustríðið hafi raunverulega átt sér stað vaknar aftur spurningin um orsakir stríðsins. Enda þótt sumir sagnfræðingar telji að Grikkir hafi setið um Tróju er því almennt hafnað að orsök stríðsins geti hafa verið brottnám Helenu fögru. Menn hafa til dæmis getið sér þess til að raunverulegar ástæður stríðsins hafi verið efnahagslegar. Trója stóð á mikilvægum stað við Hellusund og því hafa Tróverjar ráðið yfir siglingum um Marmarahaf og inn á Svartahaf. Hafi Tróverjar lagt skatta og tolla á þær vörur sem fluttar voru um sundið má hugsa sér að Grikkir hafi séð ástæðu til að fara í stríð. Það skal þó tekið fram að þetta eru einungis getgátur.
Hvernig var Trójustríðið háð?
Trójustríðið átti sér stað seint á bronsöld en kvæðin eru samin snemma á járnöld. Vopnin eru þó oftast sögð vera úr eir en hafa verður varann á, því að í Hómerskviðum draga ýmsar lýsingar dám af samtíma skáldsins fremur en tíma Trójustríðsins.
Hermenn gengu til bardaga í brynhosum, sem voru legghlífar úr málmi, og báru hjálm á höfði og brjóstplötu. Þeir báru stóran þungan skjöld og sverð auk lagspjóts eða tveggja styttri kastspjóta.
Her með Akkiles í broddi fylkingar. Myndin er úr kvikmyndinni Troy sem framleidd er af Warner Bros.
Tæplega helmingur Ilíonskviðu er helgaður bardagalýsingum. Ýmist gengu menn til bardaga eða ferðuðust á kerrum sem dregnir voru af hestum en börðust þó sjaldnast á þeim. Í orrustu lýstur ýmist herjunum saman eða einhver hetjan stígur fram og skorar á annan úr liði andstæðinganna í einvígi. Frægasta einvígið er án nokkurs vafa einvígi Akkillesar og Hektors. Jón Gunnar Þorsteinsson fjallar meðal annars um bardagann í svari sínu, Hver var Akkiles?
Trója var rammlega víggirt og sagt var að sjálfur Póseidon hafi byggt borgarmúrana. Á borgarmúrunum hafa væntanlega staðið bogmenn enda hafa fundist örvaoddar í rústum borgarinnar. Bardagarnir fóru hins vegar fram utan múranna.
Í Ódysseifskviðu og víðar er sagt frá hvernig Grikkjum tókst að komast inn fyrir borgarmúrana. Hinum ráðkæna Ódysseifi datt það snjallræði í hug að smíða stóran tréhest og skilja hann eftir sem gjöf handa Tróverjum. Inni í hestinum leyndust Grikkir sem áttu að opna borgarhliðið innan frá og hleypa inn herliði Grikkja, sem hafði yfirgefið herbúðir sínar faldist á öðrum stað. Áform Grikkjanna tókust og Trója féll eftir áratugs langt umsátur.
Í bókmenntunum taka guðirnir þátt í stríðinu, Hera og Aþena fyrir hönd Grikkja en Apollon og Afródíta fyrir hönd Tróju. Seifur, sem æðstur er guðanna, er hlutlaus en veit þó að Trója mun falla.
Frekara lesefni á Vísindavefnum
Um Tróju má einnig lesa í svari Jóhanns Bjarka Arnarssonar Hall við spurningunni Hvað var Trója?
Geir Þ. Þórarinsson. „Hvernig og hvers vegna var Trójustríðið háð?“ Vísindavefurinn, 12. október 2005, sótt 7. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5323.
Geir Þ. Þórarinsson. (2005, 12. október). Hvernig og hvers vegna var Trójustríðið háð? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5323
Geir Þ. Þórarinsson. „Hvernig og hvers vegna var Trójustríðið háð?“ Vísindavefurinn. 12. okt. 2005. Vefsíða. 7. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5323>.