Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þetta er ágætis spurning enda er brottnám Helenu hinnar fögru kveikjan að elstu og þekktustu bókmenntum Grikkja, Ilíons- og Ódysseifskviðu. Þegar Helena er numin á brott af París, syni Príamusar Trójukonungs, frá eiginmanni sínum Menelási í Spörtu, halda Grikkir til Tróju í því skyni að endurheimta hana.
Við tekur tíu ára umsátur Grikkja um borgina og fjallar Ilíonskviða aðeins um skamman hluta þess, aðdraganda lokaskeiðs umsátursins. Ódysseifsviða er síðan frásögn af tíu ára heimferð kappans Ódysseifs að stríði loknu.
Í heild má því segja að kviðurnar tvær spanni 20 ára sögu sem á sér rætur í afdrifaríku brottnámi Helenu. Þrátt fyrir það kemur hún harla lítið við sögu í kviðunum. Í stuttu máli má taka það litla sem kemur fram hana í kviðum Hómers á þennan hátt:
Í Ilíonskviðu lýsir Helena helstu köppum Grikkja fyrir Príamusi af borgarmúrum Tróju og nýtur síðan ásta með Parísi. Í Ódysseifskviðu eru Helena og eiginmaður hennar Menelás einfaldlega komin aftur til Spörtu.[1]
Veggmálverk frá Pompeii af Helenu hinni fögru (lengst til vinstri) og París.
Aðrar heimildir hafa hins vegar ólíka sögu að segja. Þar ber helst að nefna rit forngríska sagnaritarans Heródótosar frá Halíkarnassos (um 484 - um 420 f.Kr.) sem oft er nefndur faðir sagnfræðinnar. Í annari bók ritsins Rannsóknir (Historiai) er kafli sem ber yfirskriftina „Sannleikurinn um Helenu“. Þar segir Heródótos að París og Helena hafi aldrei komist til Tróju, því skip Parísar hafi hrakist af leið inn á Egyptahaf og lent á stað sem heitir Kanópsós Nílar og Saltvík, nálægt hinni fornu borg Memfis. Þar var við völd Próteifur sem lét taka París höndum, enda hafi hann gert Menelási mikinn óleik með því að nema konu hans á brott. París er síðan rekinn á brott en Helena hin fagra verður eftir í Memfis og fer aldrei til Tróju.
Þá vaknar vitanlega spurningin af hverju Grikkir hafi setið um Tróju í tíu ár ef Helena hin fagra var þar ekki. Heródótos segir ástæðu þess vera að Grikkir hafi einfaldlega ekki lagt trúnað á orð Trójumanna þess efnis að Helena væri í Egyptalandi. Upprunalegur heimildarmaður þessarar sagnar á að vera Menelás sjálfur. Grikkir sátu því um borgina þangað til hún var unnin en þar sem Helena fannst hvergi að því loknu, hélt Menelás loks til Egyptalands og endurheimti þar konu sína.
Í leikritinu Helena eftir gríska harmleikjaskáldið Evripídes, sem samið var um 30 árum eftir að Heródótos tók saman sitt rit, er unnið með líkt minni. Í leikritinu kemur fram að guðinn Hermes hafi flutt Helenu til Egyptalands og aðeins tálsýn hennar hafi verið í Tróju. Í Egyptalandi er hún í fyrstu undir verndarvæng Próteifs konungs en þegar hann fellur frá vill sonur hans ólmur kvænast Helenu. Hún er treg til og til allrar hamingju strandar skip Meneláss nærri, en hann er þá á heimleið eftir umsátrið um Tróju. Með brögðum endurheimtir hann konu sína og í leikslok sigla þau saman til Spörtu.[2]
Þessar tvær ólíku frásagnir eru það helsta sem fornar heimildir hafa að segja um afdrif Helenu hinnar fögru. Rétt er að hafa í huga að nú á dögum er litið svo á að fornar sagnir um Helenu hina fögru séu skáldskapur.
Tilvísanir:
^ Í bókum 3, 6 og 24 af Ilíonskviðu er sagt lítillega frá veru Helenu í Tróju. Mest kemur fram í 3. bók, þar sem hún lýsir helstu köppum Grikkja fyrir Príamusi af borgarmúrum Tróju. Eftir að París lýtur í lægra haldi fyrir Menelási, eiginmanni Helenu hinnar fögru, er honum bjargað af Afródítu og nýtur í kjölfarið ásta með Helenu.
^ Evripídes þekkti þó einnig hina hefðbundnu sögu af Helenu sem Hómverskviður lýsa. Hann nýtti sér hana í leikritinu Trójudætur, þar er Trója fallin og konur borgarinnar bíða örlaga sinna. Þeira á meðal er Helena og Hekúba, fyrrum drottning í Trjóju.
Heimildir:
Helgi Hálfdanarson (þýð.), Grískir harmleikir, Mál og menning, Reykjavík 1990.
Hómer, Ilíonskviða (þýð. Sveinbjörn Egilsson), Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík 1973.
Hómer, Ódysseifskviða (þýð. Sveinbjörn Egilsson), Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík 1973.
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvar var Helena hin fagra í Trójustríðinu og hvað varð um hana eftir stríðið?“ Vísindavefurinn, 28. ágúst 2025, sótt 28. ágúst 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=69594.
Jón Gunnar Þorsteinsson. (2025, 28. ágúst). Hvar var Helena hin fagra í Trójustríðinu og hvað varð um hana eftir stríðið? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=69594
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvar var Helena hin fagra í Trójustríðinu og hvað varð um hana eftir stríðið?“ Vísindavefurinn. 28. ágú. 2025. Vefsíða. 28. ágú. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=69594>.