Sólin Sólin Rís 06:49 • sest 19:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:38 • Sest 24:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:22 • Síðdegis: 22:14 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:49 • sest 19:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:38 • Sest 24:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:22 • Síðdegis: 22:14 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er lengsti tími sem stríð hefur tekið?

Skúli Sæland

Áður en hægt er að ákvarða hvert sé lengsta stríð sem háð hefur verið verðum við að skilgreina hvað átt er við með hugtakinu stríð. Það má skilgreina stríð sem átök tveggja eða fleiri hópa um skemmri eða lengri tíma. Bein hernaðarleg átök geta hins vegar legið niðri um skamman tíma þótt stríðsaðilarnir hafi ekki getað leyst úr ágreiningsmálum sínum sem upphaflega komu stríðinu af stað. Ástæðurnar geta verið margvíslegar. Stundum neyðist annar eða báðir aðilarnir til þess að semja frið vegna ófara á vígvellinum eða vegna þess að aðrir aðkallandi atburðir krefjast athygli hernaðaraðila. Þegar um hægist eða annar aðilinn telur sig nú eiga færi á að ná árangri með hernaðarlegum aðgerðum er ófriðnum fram haldið þaðan sem frá var horfið.

Mikilvægt er að átta sig á því að með iðnvæðingunni varð þjóðarleiðtogum fyrst gert kleift að beita öllum efnahag og allri framleiðslugetu þjóðar sinnar til hernaðar. Slíkur hernaður krefst skjóts sigurs því annars verða afleiðingarnar á allt þjóðfélagið of alvarlegar. Ætli maður að leita að lengsta stríði mannkynssögunnar verðum við því að leita aftur um margar aldir.

Niðurstaðan er því sú að lengsta stríð mannkynssögunnar hafi verið krossfaratímabilið.

Kristnir Evrópubúar fylktu sér undir stjórn nokkurra herforingja eftir ákall páfa árið 1095. Árið 1097 réðust þeir svo inn í lönd Múhameðstrúarmanna fyrir botni Miðjarðarhafs til að frelsa hina helgu borg Jerúsalem úr höndum þeirra. Eftir þetta var svo til stöðugur straumur krossfara til Landsins helga frá 1097 allt til 1291 er þeir hröktust svo endanlega þaðan. Þó má greina sjö meginherferðir sem höfðu áhrif á stríðið gegn múslimum og verður meginatriðunum gerð skil hér á eftir.


Urban II páfi hvetur til krossferða.

Aðdragandi fyrstu krossferðarinnar var sá að Alexius Comnenus keisari Aust-rómverska veldisins leitaði til Evrópu eftir aðstoð eftir mikla ósigra fyrir Seljuq Tyrkjum (Seldsjúkum). Bón Alexiusar kom á hentugum tíma því um þetta leyti höfðu samskipti páfadóms og Aust-rómversku kirkjunnar batnað mikið auk þess sem það gætti offjölgunar, efnahagsþenslu og útþrár í Evrópu. Leiðtogar Evrópu höfðu þó meiri áhuga á að ná hinni helgu borg Jerúsalem úr höndum múslima. Í kjölfar kirkjuþingsins í Clermont árið 1095 hvatti Urban II páfi til krossferðar sem konungar, lénsherrar af ýmsum stigum og ekki síst alþýðan, menn, konur og jafnvel börn brugðust skjótt við. Flestir fóru til að heimsækja hina helgu staði og að því búnu héldu þeir heim á leið. Trúin virðist hafa verið aðaldrifkraftur fyrstu krossferðanna en vafalaust hefur þó ævintýrahyggja og von um skjótfenginn gróða haft töluvert að segja.

Fyrstu krossferðirnar voru því tilraun til að ná Landinu helga úr höndum heiðingjanna, en eftir fjórðu krossferðina má segja að trúin hafi ekki lengur verið aðaldrifkrafturinn. Krossferðirnar sem haldnar voru til fyrirheitna landsins eftir þetta voru öllu frekar liður í deilum páfa við veraldlega leiðtoga Evrópu. Páfarnir reyndu að beina hernaðarmætti og kröftum krossfaranna til landanna fyrir botni Miðjarðarhafs samtímis því sem páfastóll tókst á við hið veraldlega vald um áhrif innan Evrópu.

Fyrsta krossferð Evrópumanna hófst á hentugum tíma. Við lok 12. aldar einkenndist veldi Seldsjúka af deilum og sundrungu. Abbasid kalífinn al-Mustazhir Billah réð í nafninu til en hans æðsti stjórnandi, súltaninn Barkiyaruq, var sá sem öllu réði í raun. Hann átti hins vegar í megnustu vandræðum með að ná helstu borgum ríkisins undir sína stjórn frá sjálfstæðum prinsum og embættismönnum. Kristnir „ræningjar” við útjaðar ríkisins kröfðust því ekki athygli súltansins.

Annað sem olli jafnvel enn frekari sundrungu á meðal múslima voru deilurnar á milli sjíta og súnníta. Þessar deilur áttu rætur sínar að rekja aftur til áttundu aldar og stöfuðu af deilum um hverjir væru réttkjörnir leiðtogar Múhameðstrúarmanna. Abbasidar voru súnnítar en sjítar töldu Fatimída, sem höfðu komið á kalífdæmi í Kaíró í Egyptalandi, vera réttmæta leiðtoga sína. Síðari hluta 12. aldar áttu Fatimídar í stríði við Seldsjúka og bandamenn þeirra um yfirráð yfir Palestínu og Sýrlandi og fögnuðu því herferð krossfaranna í fyrstu. Þeir áttuðu sig of seint á því að Jerúsalem var aðaltakmark krossfaranna. Borg sem var innan þeirra yfirráðasvæðis.

Fyrsta krossferðin stóð yfir árin 1097-99. Hún samanstóð af fjórum herjum krossfara undir stjórn Hugh af Vermandois, bróður Filippusar I Frakklandskonungs, Bohemund Normanni frá Taranto í suður Ítalíu, Raymonds greifa frá Toulouse og Róberts af Flanders. Þar sem yfirgnæfandi hluti þessara fyrstu krossfara voru frönskumælandi fengu krossfararnir viðurnefnið Frankar.

Krossförunum varð vel ágengt og sigruðu helstu borgirnar meðfram ströndinni á leið sinni suður frá Aust-rómverska ríkinu. Hin helga borg Jerúsalem vannst svo 15. júlí árið 1099. Eftir þetta deildu Evrópubúarnir upp hernumdum svæðum fyrir botni Miðjarðarhafs og stofnuðu nokkur krossfararíki. Deilur og sundrung milli leiðtoga krossfaranna voru þó áberandi alla tíð. Herstyrkur þeirra minnkaði sömuleiðis því margir krossfaranna héldu heim á leið eftir að hafa vitjað hinna helgu staða. Annað sem háði þessum smáríkjum var að þau náðu einungis yfir mjóa landræmu meðfram ströndinni en múslimar réðu yfir innlandinu. Þetta gerði varnir ríkjanna erfiðari en ella. Frankar reyndu þá að byggja röð virkja til að verjast ásókn þeirra síðar meir.


Saladin (1137/38-1193) tókst að sameina sundruð smáríki múslima og vinna aftur Jerúsalem úr höndum krossfaranna.

Önnur krossferðin kom til vegna falls greifadæmisins Edessa og borgarinnar sem það dró nafn sitt af, en fall Edessa markaði endalok útþenslu smáríkja krossfaranna. Krossfararnir gátu að vísu herjað áfram á veikburða ríki Fatimída í Egyptalandi og náð virkinu Askalon árið 1153 en eftir þetta áttu þeir stöðugt í vök að verjast.

Konungarnir Konráð III í Þýskalandi og Loðvík VII í Frakklandi leiddu þessa næstu krossferð og settust um borgina Damaskus, en varð lítið ágengt. Árás þeirra á borgina, sem hingað til hafði verið sjálfstæð, varð til þess að leiðtogar hennar leituðu eftir stuðningi Zangis, hershöfðingja Seldsjúka. Þetta veikti stöðu Damaskus og féll borgin árið 1154 fyrir Nur ad-Din, syni og arftaka Zangis.

Veik staða Fatimída varð til þess að Nur ad-Din sendi lið til Egyptalands undir stjórn Kúrdans Shirkuh. Hann náði völdum þar og gerðist vesír árið 1169. Valdatími hans var þó skammvinnur því hann dó eftir nokkra mánuði og tók þá Salah Ad-din Yusuf Ibn Ayyub (1137/38-1193), ungur frændi hans, við af honum. Á meðal Evrópumanna varð hann þó þekktur sem Saladin. Hann var sigursæll leiðtogi og naut virðingar á meðal krossfaranna fyrir þá riddaramennsku sem hann sýndi sigruðum andstæðingum sínum. Hann er frægastur fyrir að hafa komið Ajjubíd ættarveldinu á fót og fyrir mikla sigra á krossförunum. Hann gersigraði meðal annars krossfarana við Hattin árið 1187 og hertók síðan Jerúsalem í kjölfarið. Tveimur árum síðar voru nánast allar borgirnar komnar aftur undir yfirráð múslima. Krossfararnir höfðu þá hrakist til borgarinnar Týros og vörðust þar.

Ein af ástæðunum fyrir velgengi Saladins var hve fylginn hann var sér. Hann þröngvaði múslimskum smáríkjum, sem höfðu verið nánast sjálfstæð fram að því, undir yfirráð sín og tókst þannig að sameina nær alla Múhameðstrúarmenn í nágrenni krossfararíkjanna gegn þeim. Þannig náði hann að efla herstyrk múslima til jafns á við Frankana. Herstjórn Franka var á sama tíma afleit og er það meginskýringin á ósigri þeirra við Hattin. Eftir það áttu þeir í raun ekki viðreisnarvon.


Ríkharður ljónshjarta (1157-1199) er af mörgum talinn færasti herstjórnandi krossfaranna.

Þriðja krossferðin kom til vegna hertöku Jerúsalem. Þrír valdamestu leiðtogar Evrópu, Friðrik barbarossa Þýskalandskeisari, Ríkharður ljónshjarta Englandskonungur og Filippus Ágúst Frakklandskonungur, fóru nú sameiginlega í krossferð á hendur Saladin. Hörð átök urðu um borgina Akra og tókst krossförunum um síðir að ná henni á sitt vald árið 1191. Þeir náðu síðan samkomulagi við Saladin um að krossfararnir mættu ráða strandlengjunni en kristnir pílagrímar fengju aðgang að borginni helgu.

Skömmu síðar lést Saladin og skiptist ríki hans þá upp á milli afkomenda hans. Þá tóku sig upp gamalkunnar væringar á milli múslima og gátu krossfararnir því aðeins rétt úr kútnum. Þeir reyndust hins vegar álíka sundraðir og múslimarnir auk þess sem lítil hjálp barst frá Evrópu um þessar mundir. Þeir megnuðu því ekki að nýta sér deilur múslima sér til framdráttar.

Fjórða krossferðin var tilkomin meðal annars vegna þrýstings frá Ítölum sem vildu fá aðgang að hinni arðbæru siglingaleið um Rauðahaf til Indlands. Her krossfara hélt til borgarinnar Damietta í Egyptalandi árið 1218 og náði henni ári síðar. Kamil, sonur og arftaki Adils, yngri bróðurs Saladíns, hrakti krossfarana þó burt árið 1221.

Fimmta krossferðin fór undir forystu Friðriks II Þýskalandskeisara árið 1227. Páfi hafði bannfært hann en þrátt fyrir það náði hann meiri árangri en nokkur hafði þorað að vona. Með samningum við Kamil tókst honum árið 1229 að tryggja yfirráð Franka yfir Jerúsalem og veg á milli borgarinnar helgu og Akra. Nú varð Jerúsalem undir kristinni stjórn allt til ársins 1244, en það ár hertók tyrkneskur her borgina, með samþykki soldánsins í Karíó.


Loðvík IX hernam Damietta í Egyptalandi.

Sjötta krossferðin endaði í Egyptalandi undir stjórn Loðvíks IX Frakklandskonungs og hernam Damietta aftur árið 1249. Herinn lenti hins vegar í vegvillum í Nílarósum og var gersigraður. Á sama tíma breyttust aðstæðurnar í Egyptalandi. Ajjubídar höfðu til langs tíma reitt sig á þræla, Mamelukka, til hernaðar. Smám saman höfðu Mamelukkarnir fengið æ meiri völd og nú gripu þeir tækifærið, myrtu soldáninn og tóku völdin. Veldi þeirra varð langlíft og harðdrægt krossfararíkjunum sem eftir tórðu og í raun má segja að um þetta leyti hafi her Mamelukkanna verið einn sá öflugasti í heimi.

Sjöunda krossferðin varð mjög skammvinn. Hún endaði í Túnis árið 1270 en herinn leystist upp við sóttarandlát Loðvíks IX foringja síns.

Frankar reyndu að tryggja sér bandamenn gegn Mamelukkum og tóku því upp vinsamleg samskipti við mongólska ilkhaninn Hülegü í Írak sem gat orðið þeim öflugur andstæðingur. Bajbars, fjórði soldán Mamelukka, einsetti sér því að eyða yfirráðasvæðum Franka og lýsti yfir heilögu stríði á hendur krossförunum. Hvert vígi þeirra féll af öðru árin 1263 til 1291 eða þar til borgin Akra, síðasta vígi þeirra, féll. Krossfararnir réðu enn um stund yfir eyjunni Kýpur en segja má að við fall Akra hafi krossfaratímabilinu endalega lokið.

Krossfararnir fóru oft út af sporinu og gerðu margt miður fallegt. Stórir herir þurftu birgðir fyrir hermenn, fylgdarlið og fararskjóta og þeirra var iðulega aflað með ránum og gripdeildum, jafnvel þó að herinn væri á ferð um vinveitt ríki. Frásagnir eru líka til um að íbúum heilla borga, sem voru múslimar eða gyðingar að uppruna, hafi verið miskunnarlaust slátrað eftir að borgirnar höfðu verið unnar. Má hér nefna hertöku Jerúsalem árið 1099 í fyrstu krossferðinni. Þó sýndu Mamelukkar jafnmikið vægðarleysi undir stjórn Bajbars því þá var kristnum íbúum borganna slátrað. Þá má nefna krossferðina sem Innocensíus III páfi hratt af stað árið 1202 sem mjög svívirðilega. Hún náði aldrei til Landsins helga eins og henni var ætlað en fyrir tilstilli Feneyinga enduðu krossfararnir hins vegar á því að leggja undir sig Miklagarð, höfuðborg Aust-rómverska ríkisins, árið 1204. Hlutum sem var rænt þar má enn þann dag í dag finna í söfnum í Evrópu, til dæmis í Vatíkaninu.

Fljótlega eftir fyrstu krossferðina stofnuðu krossfararnir tvær riddarareglur. Þær kenndu sig við annars vegar við heilagan John og hins vegar við musteri Salómons. Riddararnir lutu bæði trúarlegum sem og hernaðarlegum aga. Þeir voru hermenn og stofnuðu kastala, varðlið og spítala í Palestínu og síðar meir urðu þessar reglur mjög auðugar og voldugar í Evrópu.

Krossfararnir í fyrstu krossferðinni fóru á milli borga rænandi og ruplandi á leið sinni til Jerúsalem. Það tók því Múhameðstrúarmenn smá tíma að átta sig á því að krossfararnir voru hvorki málaliðar býsanskra keisara Aust-rómverska ríkisins né ræningjaflokkar sem yfirgáfu borgirnar eftir að hafa rænt þær. Krossfararnir höfðu trúarlegt markmið sem var andstætt múslimum. Þeir ætluðu sér að hernema landsvæði og stærstu borgirnar meðfram ströndinni að ógleymdri Jerúsalem sem einnig var helg borg í augum múslima. Því var blásið til heilags stríðs gegn krossferðum Evrópubúa.

Nafnið heilagt stríð nýtur um þessar mundir mjög neikvæðrar umræðu í vestrænum samfélögum. Merking þess er þó raunar einungis sú sama í augum múslima og nafnið krossferð hefur fyrir Evrópubúa. Andkristinna áherslna sem varð vart á meðal múslima eftir að krossferðirnar hófust bitnuðu óneitanlega harkalega á ýmsum kristnum trúarhópum eins og til dæmis Maronítum sem höfðu lifað í sátt og samlyndi við múslima á yfirráðasvæðum þeirra. Þeir höfðu jafnvel notið töluverðrar virðingar innan embættiskerfisins vegna menntunar sinnar.

Því miður sýndu fræðimenn kristinna og múslima lítinn áhuga á bókmenntum, vísindum og menningu hvors annars. Samskipti og viðskipti jukust þó töluvert á milli múslima og Evrópubúa í kjölfar krossfaranna, sérstaklega á glervörum og málmsmíð múslimskra handverksmanna. Siglingar efldust líka gríðarlega við Miðjarðarhaf og samskipti, helst á sviði myndlistar og húsagerðar. Arabar kynntust kunnáttu Evrópubúa í múrverki á meðan Evrópubúarnir lærðu að meta munaðarvarning Austurlanda, vefnað, krydd og þess háttar. Mikil samskipti voru svo eðlilega í hertækni. Múslimar kynntust annars vegar brynvörðum riddurum og hestum Evrópubúa ásamt lásbogunum, en Evrópumenn urðu hins vegar fyrir barðinu á léttvopnuðu riddaraliði andstæðinganna sem gátu látið örvadrífu rigna yfir óvininn um leið og hann reið hjá. Mikið reyndi á birgðaöflun á yfirreið stórra herja yfir gróðursnauð landsvæðin og baráttan fólst því aðallega í umsátri um borgir og víggirta kastala. Á þessum tíma þróuðu hernaðaraðilar því með sér mjög öfluga umsáturstækni.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

Myndir:

Höfundur

Skúli Sæland

sagnfræðingur

Útgáfudagur

19.8.2004

Spyrjandi

Steingrímur Jón Guðjónsson

Tilvísun

Skúli Sæland. „Hver er lengsti tími sem stríð hefur tekið?“ Vísindavefurinn, 19. ágúst 2004, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4467.

Skúli Sæland. (2004, 19. ágúst). Hver er lengsti tími sem stríð hefur tekið? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4467

Skúli Sæland. „Hver er lengsti tími sem stríð hefur tekið?“ Vísindavefurinn. 19. ágú. 2004. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4467>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver er lengsti tími sem stríð hefur tekið?
Áður en hægt er að ákvarða hvert sé lengsta stríð sem háð hefur verið verðum við að skilgreina hvað átt er við með hugtakinu stríð. Það má skilgreina stríð sem átök tveggja eða fleiri hópa um skemmri eða lengri tíma. Bein hernaðarleg átök geta hins vegar legið niðri um skamman tíma þótt stríðsaðilarnir hafi ekki getað leyst úr ágreiningsmálum sínum sem upphaflega komu stríðinu af stað. Ástæðurnar geta verið margvíslegar. Stundum neyðist annar eða báðir aðilarnir til þess að semja frið vegna ófara á vígvellinum eða vegna þess að aðrir aðkallandi atburðir krefjast athygli hernaðaraðila. Þegar um hægist eða annar aðilinn telur sig nú eiga færi á að ná árangri með hernaðarlegum aðgerðum er ófriðnum fram haldið þaðan sem frá var horfið.

Mikilvægt er að átta sig á því að með iðnvæðingunni varð þjóðarleiðtogum fyrst gert kleift að beita öllum efnahag og allri framleiðslugetu þjóðar sinnar til hernaðar. Slíkur hernaður krefst skjóts sigurs því annars verða afleiðingarnar á allt þjóðfélagið of alvarlegar. Ætli maður að leita að lengsta stríði mannkynssögunnar verðum við því að leita aftur um margar aldir.

Niðurstaðan er því sú að lengsta stríð mannkynssögunnar hafi verið krossfaratímabilið.

Kristnir Evrópubúar fylktu sér undir stjórn nokkurra herforingja eftir ákall páfa árið 1095. Árið 1097 réðust þeir svo inn í lönd Múhameðstrúarmanna fyrir botni Miðjarðarhafs til að frelsa hina helgu borg Jerúsalem úr höndum þeirra. Eftir þetta var svo til stöðugur straumur krossfara til Landsins helga frá 1097 allt til 1291 er þeir hröktust svo endanlega þaðan. Þó má greina sjö meginherferðir sem höfðu áhrif á stríðið gegn múslimum og verður meginatriðunum gerð skil hér á eftir.


Urban II páfi hvetur til krossferða.

Aðdragandi fyrstu krossferðarinnar var sá að Alexius Comnenus keisari Aust-rómverska veldisins leitaði til Evrópu eftir aðstoð eftir mikla ósigra fyrir Seljuq Tyrkjum (Seldsjúkum). Bón Alexiusar kom á hentugum tíma því um þetta leyti höfðu samskipti páfadóms og Aust-rómversku kirkjunnar batnað mikið auk þess sem það gætti offjölgunar, efnahagsþenslu og útþrár í Evrópu. Leiðtogar Evrópu höfðu þó meiri áhuga á að ná hinni helgu borg Jerúsalem úr höndum múslima. Í kjölfar kirkjuþingsins í Clermont árið 1095 hvatti Urban II páfi til krossferðar sem konungar, lénsherrar af ýmsum stigum og ekki síst alþýðan, menn, konur og jafnvel börn brugðust skjótt við. Flestir fóru til að heimsækja hina helgu staði og að því búnu héldu þeir heim á leið. Trúin virðist hafa verið aðaldrifkraftur fyrstu krossferðanna en vafalaust hefur þó ævintýrahyggja og von um skjótfenginn gróða haft töluvert að segja.

Fyrstu krossferðirnar voru því tilraun til að ná Landinu helga úr höndum heiðingjanna, en eftir fjórðu krossferðina má segja að trúin hafi ekki lengur verið aðaldrifkrafturinn. Krossferðirnar sem haldnar voru til fyrirheitna landsins eftir þetta voru öllu frekar liður í deilum páfa við veraldlega leiðtoga Evrópu. Páfarnir reyndu að beina hernaðarmætti og kröftum krossfaranna til landanna fyrir botni Miðjarðarhafs samtímis því sem páfastóll tókst á við hið veraldlega vald um áhrif innan Evrópu.

Fyrsta krossferð Evrópumanna hófst á hentugum tíma. Við lok 12. aldar einkenndist veldi Seldsjúka af deilum og sundrungu. Abbasid kalífinn al-Mustazhir Billah réð í nafninu til en hans æðsti stjórnandi, súltaninn Barkiyaruq, var sá sem öllu réði í raun. Hann átti hins vegar í megnustu vandræðum með að ná helstu borgum ríkisins undir sína stjórn frá sjálfstæðum prinsum og embættismönnum. Kristnir „ræningjar” við útjaðar ríkisins kröfðust því ekki athygli súltansins.

Annað sem olli jafnvel enn frekari sundrungu á meðal múslima voru deilurnar á milli sjíta og súnníta. Þessar deilur áttu rætur sínar að rekja aftur til áttundu aldar og stöfuðu af deilum um hverjir væru réttkjörnir leiðtogar Múhameðstrúarmanna. Abbasidar voru súnnítar en sjítar töldu Fatimída, sem höfðu komið á kalífdæmi í Kaíró í Egyptalandi, vera réttmæta leiðtoga sína. Síðari hluta 12. aldar áttu Fatimídar í stríði við Seldsjúka og bandamenn þeirra um yfirráð yfir Palestínu og Sýrlandi og fögnuðu því herferð krossfaranna í fyrstu. Þeir áttuðu sig of seint á því að Jerúsalem var aðaltakmark krossfaranna. Borg sem var innan þeirra yfirráðasvæðis.

Fyrsta krossferðin stóð yfir árin 1097-99. Hún samanstóð af fjórum herjum krossfara undir stjórn Hugh af Vermandois, bróður Filippusar I Frakklandskonungs, Bohemund Normanni frá Taranto í suður Ítalíu, Raymonds greifa frá Toulouse og Róberts af Flanders. Þar sem yfirgnæfandi hluti þessara fyrstu krossfara voru frönskumælandi fengu krossfararnir viðurnefnið Frankar.

Krossförunum varð vel ágengt og sigruðu helstu borgirnar meðfram ströndinni á leið sinni suður frá Aust-rómverska ríkinu. Hin helga borg Jerúsalem vannst svo 15. júlí árið 1099. Eftir þetta deildu Evrópubúarnir upp hernumdum svæðum fyrir botni Miðjarðarhafs og stofnuðu nokkur krossfararíki. Deilur og sundrung milli leiðtoga krossfaranna voru þó áberandi alla tíð. Herstyrkur þeirra minnkaði sömuleiðis því margir krossfaranna héldu heim á leið eftir að hafa vitjað hinna helgu staða. Annað sem háði þessum smáríkjum var að þau náðu einungis yfir mjóa landræmu meðfram ströndinni en múslimar réðu yfir innlandinu. Þetta gerði varnir ríkjanna erfiðari en ella. Frankar reyndu þá að byggja röð virkja til að verjast ásókn þeirra síðar meir.


Saladin (1137/38-1193) tókst að sameina sundruð smáríki múslima og vinna aftur Jerúsalem úr höndum krossfaranna.

Önnur krossferðin kom til vegna falls greifadæmisins Edessa og borgarinnar sem það dró nafn sitt af, en fall Edessa markaði endalok útþenslu smáríkja krossfaranna. Krossfararnir gátu að vísu herjað áfram á veikburða ríki Fatimída í Egyptalandi og náð virkinu Askalon árið 1153 en eftir þetta áttu þeir stöðugt í vök að verjast.

Konungarnir Konráð III í Þýskalandi og Loðvík VII í Frakklandi leiddu þessa næstu krossferð og settust um borgina Damaskus, en varð lítið ágengt. Árás þeirra á borgina, sem hingað til hafði verið sjálfstæð, varð til þess að leiðtogar hennar leituðu eftir stuðningi Zangis, hershöfðingja Seldsjúka. Þetta veikti stöðu Damaskus og féll borgin árið 1154 fyrir Nur ad-Din, syni og arftaka Zangis.

Veik staða Fatimída varð til þess að Nur ad-Din sendi lið til Egyptalands undir stjórn Kúrdans Shirkuh. Hann náði völdum þar og gerðist vesír árið 1169. Valdatími hans var þó skammvinnur því hann dó eftir nokkra mánuði og tók þá Salah Ad-din Yusuf Ibn Ayyub (1137/38-1193), ungur frændi hans, við af honum. Á meðal Evrópumanna varð hann þó þekktur sem Saladin. Hann var sigursæll leiðtogi og naut virðingar á meðal krossfaranna fyrir þá riddaramennsku sem hann sýndi sigruðum andstæðingum sínum. Hann er frægastur fyrir að hafa komið Ajjubíd ættarveldinu á fót og fyrir mikla sigra á krossförunum. Hann gersigraði meðal annars krossfarana við Hattin árið 1187 og hertók síðan Jerúsalem í kjölfarið. Tveimur árum síðar voru nánast allar borgirnar komnar aftur undir yfirráð múslima. Krossfararnir höfðu þá hrakist til borgarinnar Týros og vörðust þar.

Ein af ástæðunum fyrir velgengi Saladins var hve fylginn hann var sér. Hann þröngvaði múslimskum smáríkjum, sem höfðu verið nánast sjálfstæð fram að því, undir yfirráð sín og tókst þannig að sameina nær alla Múhameðstrúarmenn í nágrenni krossfararíkjanna gegn þeim. Þannig náði hann að efla herstyrk múslima til jafns á við Frankana. Herstjórn Franka var á sama tíma afleit og er það meginskýringin á ósigri þeirra við Hattin. Eftir það áttu þeir í raun ekki viðreisnarvon.


Ríkharður ljónshjarta (1157-1199) er af mörgum talinn færasti herstjórnandi krossfaranna.

Þriðja krossferðin kom til vegna hertöku Jerúsalem. Þrír valdamestu leiðtogar Evrópu, Friðrik barbarossa Þýskalandskeisari, Ríkharður ljónshjarta Englandskonungur og Filippus Ágúst Frakklandskonungur, fóru nú sameiginlega í krossferð á hendur Saladin. Hörð átök urðu um borgina Akra og tókst krossförunum um síðir að ná henni á sitt vald árið 1191. Þeir náðu síðan samkomulagi við Saladin um að krossfararnir mættu ráða strandlengjunni en kristnir pílagrímar fengju aðgang að borginni helgu.

Skömmu síðar lést Saladin og skiptist ríki hans þá upp á milli afkomenda hans. Þá tóku sig upp gamalkunnar væringar á milli múslima og gátu krossfararnir því aðeins rétt úr kútnum. Þeir reyndust hins vegar álíka sundraðir og múslimarnir auk þess sem lítil hjálp barst frá Evrópu um þessar mundir. Þeir megnuðu því ekki að nýta sér deilur múslima sér til framdráttar.

Fjórða krossferðin var tilkomin meðal annars vegna þrýstings frá Ítölum sem vildu fá aðgang að hinni arðbæru siglingaleið um Rauðahaf til Indlands. Her krossfara hélt til borgarinnar Damietta í Egyptalandi árið 1218 og náði henni ári síðar. Kamil, sonur og arftaki Adils, yngri bróðurs Saladíns, hrakti krossfarana þó burt árið 1221.

Fimmta krossferðin fór undir forystu Friðriks II Þýskalandskeisara árið 1227. Páfi hafði bannfært hann en þrátt fyrir það náði hann meiri árangri en nokkur hafði þorað að vona. Með samningum við Kamil tókst honum árið 1229 að tryggja yfirráð Franka yfir Jerúsalem og veg á milli borgarinnar helgu og Akra. Nú varð Jerúsalem undir kristinni stjórn allt til ársins 1244, en það ár hertók tyrkneskur her borgina, með samþykki soldánsins í Karíó.


Loðvík IX hernam Damietta í Egyptalandi.

Sjötta krossferðin endaði í Egyptalandi undir stjórn Loðvíks IX Frakklandskonungs og hernam Damietta aftur árið 1249. Herinn lenti hins vegar í vegvillum í Nílarósum og var gersigraður. Á sama tíma breyttust aðstæðurnar í Egyptalandi. Ajjubídar höfðu til langs tíma reitt sig á þræla, Mamelukka, til hernaðar. Smám saman höfðu Mamelukkarnir fengið æ meiri völd og nú gripu þeir tækifærið, myrtu soldáninn og tóku völdin. Veldi þeirra varð langlíft og harðdrægt krossfararíkjunum sem eftir tórðu og í raun má segja að um þetta leyti hafi her Mamelukkanna verið einn sá öflugasti í heimi.

Sjöunda krossferðin varð mjög skammvinn. Hún endaði í Túnis árið 1270 en herinn leystist upp við sóttarandlát Loðvíks IX foringja síns.

Frankar reyndu að tryggja sér bandamenn gegn Mamelukkum og tóku því upp vinsamleg samskipti við mongólska ilkhaninn Hülegü í Írak sem gat orðið þeim öflugur andstæðingur. Bajbars, fjórði soldán Mamelukka, einsetti sér því að eyða yfirráðasvæðum Franka og lýsti yfir heilögu stríði á hendur krossförunum. Hvert vígi þeirra féll af öðru árin 1263 til 1291 eða þar til borgin Akra, síðasta vígi þeirra, féll. Krossfararnir réðu enn um stund yfir eyjunni Kýpur en segja má að við fall Akra hafi krossfaratímabilinu endalega lokið.

Krossfararnir fóru oft út af sporinu og gerðu margt miður fallegt. Stórir herir þurftu birgðir fyrir hermenn, fylgdarlið og fararskjóta og þeirra var iðulega aflað með ránum og gripdeildum, jafnvel þó að herinn væri á ferð um vinveitt ríki. Frásagnir eru líka til um að íbúum heilla borga, sem voru múslimar eða gyðingar að uppruna, hafi verið miskunnarlaust slátrað eftir að borgirnar höfðu verið unnar. Má hér nefna hertöku Jerúsalem árið 1099 í fyrstu krossferðinni. Þó sýndu Mamelukkar jafnmikið vægðarleysi undir stjórn Bajbars því þá var kristnum íbúum borganna slátrað. Þá má nefna krossferðina sem Innocensíus III páfi hratt af stað árið 1202 sem mjög svívirðilega. Hún náði aldrei til Landsins helga eins og henni var ætlað en fyrir tilstilli Feneyinga enduðu krossfararnir hins vegar á því að leggja undir sig Miklagarð, höfuðborg Aust-rómverska ríkisins, árið 1204. Hlutum sem var rænt þar má enn þann dag í dag finna í söfnum í Evrópu, til dæmis í Vatíkaninu.

Fljótlega eftir fyrstu krossferðina stofnuðu krossfararnir tvær riddarareglur. Þær kenndu sig við annars vegar við heilagan John og hins vegar við musteri Salómons. Riddararnir lutu bæði trúarlegum sem og hernaðarlegum aga. Þeir voru hermenn og stofnuðu kastala, varðlið og spítala í Palestínu og síðar meir urðu þessar reglur mjög auðugar og voldugar í Evrópu.

Krossfararnir í fyrstu krossferðinni fóru á milli borga rænandi og ruplandi á leið sinni til Jerúsalem. Það tók því Múhameðstrúarmenn smá tíma að átta sig á því að krossfararnir voru hvorki málaliðar býsanskra keisara Aust-rómverska ríkisins né ræningjaflokkar sem yfirgáfu borgirnar eftir að hafa rænt þær. Krossfararnir höfðu trúarlegt markmið sem var andstætt múslimum. Þeir ætluðu sér að hernema landsvæði og stærstu borgirnar meðfram ströndinni að ógleymdri Jerúsalem sem einnig var helg borg í augum múslima. Því var blásið til heilags stríðs gegn krossferðum Evrópubúa.

Nafnið heilagt stríð nýtur um þessar mundir mjög neikvæðrar umræðu í vestrænum samfélögum. Merking þess er þó raunar einungis sú sama í augum múslima og nafnið krossferð hefur fyrir Evrópubúa. Andkristinna áherslna sem varð vart á meðal múslima eftir að krossferðirnar hófust bitnuðu óneitanlega harkalega á ýmsum kristnum trúarhópum eins og til dæmis Maronítum sem höfðu lifað í sátt og samlyndi við múslima á yfirráðasvæðum þeirra. Þeir höfðu jafnvel notið töluverðrar virðingar innan embættiskerfisins vegna menntunar sinnar.

Því miður sýndu fræðimenn kristinna og múslima lítinn áhuga á bókmenntum, vísindum og menningu hvors annars. Samskipti og viðskipti jukust þó töluvert á milli múslima og Evrópubúa í kjölfar krossfaranna, sérstaklega á glervörum og málmsmíð múslimskra handverksmanna. Siglingar efldust líka gríðarlega við Miðjarðarhaf og samskipti, helst á sviði myndlistar og húsagerðar. Arabar kynntust kunnáttu Evrópubúa í múrverki á meðan Evrópubúarnir lærðu að meta munaðarvarning Austurlanda, vefnað, krydd og þess háttar. Mikil samskipti voru svo eðlilega í hertækni. Múslimar kynntust annars vegar brynvörðum riddurum og hestum Evrópubúa ásamt lásbogunum, en Evrópumenn urðu hins vegar fyrir barðinu á léttvopnuðu riddaraliði andstæðinganna sem gátu látið örvadrífu rigna yfir óvininn um leið og hann reið hjá. Mikið reyndi á birgðaöflun á yfirreið stórra herja yfir gróðursnauð landsvæðin og baráttan fólst því aðallega í umsátri um borgir og víggirta kastala. Á þessum tíma þróuðu hernaðaraðilar því með sér mjög öfluga umsáturstækni.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

Myndir:...