Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Er einhver möguleiki á að olía finnist innan efnahagslögsögu Íslands?

Sigurður Steinþórsson

Sagt er að snemma á öldinni hafi breskur jarðfræðingur, sem var að störfum í Austurlöndum nær, lýst því yfir að þar væri engin olía og að „hann skyldi sjálfur drekka hvern þann olíudropa sem þar kæmi úr jörðu." Yfirlýsing hins ógetspaka jarðfræðings var vafalaust í samræmi við þáverandi þekkingu manna, og út frá núverandi þekkingu eru harla litlar líkur til þess að olía finnist innan efnahagslögsögu Íslands.

Jarðfræðilega er Ísland og landgrunnið nær eingöngu úr storkubergi, einkum blágrýti, sem ýmist hefur myndast í eldgosum ofansjávar eða á grunnsævi, eða sem innskot á mismunandi dýpi í jarðlagastaflanum. Olía er hins vegar til orðin úr leifum sjávardýra og plantna, einkum svifs, sem safnast hefur fyrir í leirkenndu djúpsjávarseti þar sem sjór er súrefnissnauður. Slíkar aðstæður eru mjög fjarri því sem gerist í Norður-Atlantshafi, hvað þá á Íslandssvæðinu.

Eini hluti efnahagslögsögu Íslands, sem gæti samkvæmt þessu hugsanlega borið olíu, er Jan Mayen-hryggurinn sem liggur suður frá eynni Jan Mayen og hverfur inn undir íslenska landgrunnið norðaustan við landið. Þessi neðansjávarhryggur er talinn vera „flís" úr landgrunni Grænlands sem „varð eftir" þegar rekhryggurinn norðan við Ísland fluttist fyrir um 40 milljón árum til vesturs frá Ægishrygg til Kolbeinseyjarhryggs.

Norður-Atlantshaf byrjaði að opnast fyrir um 60 milljón árum um Ægishrygg sem nú er í því miðju. Skandinavía og Grænland fóru þá að gliðna hvort frá öðru. Meginlandið sem rifnaði var frá sílúrtímabilinu, um 400 milljón ára, þannig að þar er engin olía. Áður en meginlandið rifnaði sundur hafði gliðnun átt sér stað frá síðari hluta krítartímabilsins, fyrir um það bil 80 milljón árum. Við gliðnunina varð landsig og sjór streymdi inn í hina aflöngu sigdæld; þar myndaðist mikið set, loftslag var hlýtt og „lífmassi" mikill í sjónum. Frá þeim tíma er sennilega Norðursjávarolían og sú olía sem menn vonast til að finna á landgrunni Austur-Grænlands og Noregs — og á Jan Mayen-hrygg.

Tuttugu milljón árum eftir að Norður-Atlantshaf opnaðist um Ægishrygg myndaðist nýr rekhryggur, Kolbeinseyjarhryggur, vestan við hinn fyrri undir grænlenska landgrunninu, þannig að hluti þess klofnaði frá og lenti austan við Kolbeinseyjarhrygg. Þetta er Jan Mayen-hryggurinn. Hugsanlegt er semsagt að framhald Jan Mayen-hryggs liggi inn undir íslenska landgrunnið, og jafnvel inn undir Ísland norðaustanvert, og að þar gæti olía leynst. Þetta er þó fremur ólíklegt, því að mörg atriði í aðstæðum þurfa að fara saman til að olía myndist, safnist saman og geymist í jarðlögum.

Höfundur

Sigurður Steinþórsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

10.8.2000

Spyrjandi

N.N.

Efnisorð

Tilvísun

Sigurður Steinþórsson. „Er einhver möguleiki á að olía finnist innan efnahagslögsögu Íslands?“ Vísindavefurinn, 10. ágúst 2000. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=763.

Sigurður Steinþórsson. (2000, 10. ágúst). Er einhver möguleiki á að olía finnist innan efnahagslögsögu Íslands? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=763

Sigurður Steinþórsson. „Er einhver möguleiki á að olía finnist innan efnahagslögsögu Íslands?“ Vísindavefurinn. 10. ágú. 2000. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=763>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er einhver möguleiki á að olía finnist innan efnahagslögsögu Íslands?
Sagt er að snemma á öldinni hafi breskur jarðfræðingur, sem var að störfum í Austurlöndum nær, lýst því yfir að þar væri engin olía og að „hann skyldi sjálfur drekka hvern þann olíudropa sem þar kæmi úr jörðu." Yfirlýsing hins ógetspaka jarðfræðings var vafalaust í samræmi við þáverandi þekkingu manna, og út frá núverandi þekkingu eru harla litlar líkur til þess að olía finnist innan efnahagslögsögu Íslands.

Jarðfræðilega er Ísland og landgrunnið nær eingöngu úr storkubergi, einkum blágrýti, sem ýmist hefur myndast í eldgosum ofansjávar eða á grunnsævi, eða sem innskot á mismunandi dýpi í jarðlagastaflanum. Olía er hins vegar til orðin úr leifum sjávardýra og plantna, einkum svifs, sem safnast hefur fyrir í leirkenndu djúpsjávarseti þar sem sjór er súrefnissnauður. Slíkar aðstæður eru mjög fjarri því sem gerist í Norður-Atlantshafi, hvað þá á Íslandssvæðinu.

Eini hluti efnahagslögsögu Íslands, sem gæti samkvæmt þessu hugsanlega borið olíu, er Jan Mayen-hryggurinn sem liggur suður frá eynni Jan Mayen og hverfur inn undir íslenska landgrunnið norðaustan við landið. Þessi neðansjávarhryggur er talinn vera „flís" úr landgrunni Grænlands sem „varð eftir" þegar rekhryggurinn norðan við Ísland fluttist fyrir um 40 milljón árum til vesturs frá Ægishrygg til Kolbeinseyjarhryggs.

Norður-Atlantshaf byrjaði að opnast fyrir um 60 milljón árum um Ægishrygg sem nú er í því miðju. Skandinavía og Grænland fóru þá að gliðna hvort frá öðru. Meginlandið sem rifnaði var frá sílúrtímabilinu, um 400 milljón ára, þannig að þar er engin olía. Áður en meginlandið rifnaði sundur hafði gliðnun átt sér stað frá síðari hluta krítartímabilsins, fyrir um það bil 80 milljón árum. Við gliðnunina varð landsig og sjór streymdi inn í hina aflöngu sigdæld; þar myndaðist mikið set, loftslag var hlýtt og „lífmassi" mikill í sjónum. Frá þeim tíma er sennilega Norðursjávarolían og sú olía sem menn vonast til að finna á landgrunni Austur-Grænlands og Noregs — og á Jan Mayen-hrygg.

Tuttugu milljón árum eftir að Norður-Atlantshaf opnaðist um Ægishrygg myndaðist nýr rekhryggur, Kolbeinseyjarhryggur, vestan við hinn fyrri undir grænlenska landgrunninu, þannig að hluti þess klofnaði frá og lenti austan við Kolbeinseyjarhrygg. Þetta er Jan Mayen-hryggurinn. Hugsanlegt er semsagt að framhald Jan Mayen-hryggs liggi inn undir íslenska landgrunnið, og jafnvel inn undir Ísland norðaustanvert, og að þar gæti olía leynst. Þetta er þó fremur ólíklegt, því að mörg atriði í aðstæðum þurfa að fara saman til að olía myndist, safnist saman og geymist í jarðlögum....